Fall I

Maður á ekki að ganga drukkinn á fjöll og ég má víst teljast heppinn að vera á lífi eftir að hafa skrikað fótur aðfaranótt laugardags í hamrabelti og runnið niður skriðu og þurft svo nánast að skríða inn á hótel, fölur og ælandi að mér hefur verið sagt.

Starfsfólkið vildi keyra mig á Höfn til læknis en ég neitaði og fór í rúmið með koníak og verkjalyf.

Eftir laugardeginum man ég lítið en hef frétt að þegar ég kom ekki í hádegismat var farið að svipast um eftir mér og þar sem ekkert gekk að vekja mig, var ég studdur út í bíl og mér ekið á spítala.  Þar heyrði ég frá sloppklæddum unglingi að ég væri með heilahristing, nokkur rifbein brotin, auk beina í vinstrihönd.  Búið að sauma í hendi og höfuð ein 42 spor og þau bein sem væru óbrotin brákuð og fleiri vöðvar rifnir en hann kærði sig um að þylja yfir mér.  Engin mikilvæg líffæri væru sködduð sem væri ótrúlegt eftir svona fall en miðað við höfuðhöggin sem ég hlyti að hafa fengið skildi ég ekki búast við því að ljúka doktorsnámi, ég mætti teljast heppinn að vera enn læs og skrifandi.  Helst vildi hann leggja mig inn í einn eða tvo daga, ég þyrfti að vera undir eftirliti eftir svona byltu.  Ég neitaði því og fór aftur á hótelið, vafinn eins og dauður faraó með alla vasa fulla af parkódín forte.

Þegar þangað kom spurði hótelstýran hvort hún ætti að sjá til þess að ég kæmist aftur til Reykjavíkur?  Ég sagði að koníakglas væri nóg fyrir mig og ef að þýski móttökustjórinn ætti stund aflögu mundi ég þiggja aðstoð hans við að hátta mig, því ég væri ófær um það sökum verkja og vafninga.  Það var auðsótt og þessi nýi félagi minn eyddi svo kvöldinu með mér við koníaksdrykkju og bókmenntaumræður ef það er þá hægt að eiga í samræðum við  heilaskemmda menn eins og mig?

Sunnudeginum varði ég í rúminu.  Það var frekar vont.  Sama hvernig ég reyndi að liggja, alltaf var mér of illt til þess að geta verið kyrr.  Þjóðverjinn kom og reyndi að mata mig á lambafile.  Þegar ég reyndi að tyggja leið mér eins og ég væri á pyndingarbekk hjá einhverjum sem hugsanlega hefði þá frómu nafnbót ,, engill dauðans!"  Ég fékk þess í stað súpu, rauðvín og verkjalyf sem hádegismat.  Svo tefldum við þjóðverjinn skák þangað til hann fór að vinna.

Ítalska þjónustustúlkan færði mér kvöldmat:  súpu, brauðbita og koss á ennið.  Hún ruglaði svo hárinu mínu og sagði eitthvað að skilnaði.  Ég skildi ekki neitt og stóð eiginlega á sama.  Svo hringdi ég í foreldra mína. Pabbi svaraði og ég sagði eitthvað um það að ég hefði dottið örlítið og hruflað mig.  Hann bað mig að fara varlega, hann ætti ekki neitt of mikið af börnum. 

Svo kom löng nótt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Hamraborgin rís há og fögur. Er ekki bara nóg að virða hana fyrr sér í fjarlægð? You've seen it all anyway. Sjálfur er ég löngu hættur fjallgöngum og ég tala nú ekki um að klífa hamrabelti. Læt mér nægja að mála þau meter fyrir meter á verndaðri vinnustofu. En gamli minn, farðu vel með þig og láttu þér batna. Láttu bara þessa ítölsku rugla soldið í kollinum á þér og malaðu Þjóðverjann í skák.

Bergur Thorberg, 30.6.2008 kl. 23:54

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jamm. Nú er hann særður og liggur fyrir og daðrar við þjónustustúlkuna. Flaskan aldrei langt undan rétt eins og myrkrið. Hemmmmmmmmingway all the way :)

Í alvöru, rifbein brotin og saumað í hönd. Shit.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.6.2008 kl. 23:58

3 Smámynd: Kreppumaður

Þið komið mér til þess að hlæja og jamm, lífið hermir oft eftir bókmenntum, enda er allur endalegur sannleikur í hinni einu og sönnu bók.  Sem var ekki eftir Hemingway þótt að hún hafi verið skrifuð í knöppum stíl.  En þar sem Svanur er búinn að minnast á karlinn í einum tveimur kommentum þarf ég nú að fara að endurlesa hann, hef held ég ekki lesið bók eftir hann frá því að ég var tvítugur.

Og Bergur, ég held reyndar að sú Ítalska og sá þýski hafi myndað bandalag sem er aðeins vinsamlegra en landar þeirra, Mússólíni og Hitler gerðu í denn.  Enda voru þeir ekki mikið að ræða saman í rúminu.

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband