Fall II

Í morgunn vaknaði ég við það að sænska þernan spurði mig hvort mig vanhagaði um eitthvað?  Ég svaraði að mig vantaði þjóðverja til að hjálpa mér í sturtu og svo vefja mig aftur og klæða, því ég hafði ekki hugsað mér að liggja lengur í rúminu.  Því sama hvernig ég lá, verkirnir nístu í gegnum merg og bein.  Og ég hallaðist að því að það yrði kvala minna að standa í lappirnar en vera endilangur í bóli.  Sú sænska bauð brosandi fram aðstoð sína við að sturta mig og klæða.  Ég sagðist efast um að það stæði í starfslýsingu hennar að þrífa ferðalanga en ef hún vildi baða eldri herra eins og mig gæti hún auðveldlega fengið vinnu á elliheimili í Reykjavík.  Hún sagði að ég væri að hressast, á því væri enginn vafi, svo tók hún í hönd mína og spurði mig hvort ég væri mikið þjáður um leið og hún lagði hina yfir enni mitt eins og hún væri að athuga hvort ég væri með hita.  Ég bað hana um að finna karlmann til þess að aðstoða mig ef það væri möguleiki.  Hún yfirgaf mig treg að mér sýndist?  Úti var sólskin en á sandinum farið að rigna og mig langaði að komast út til þess að reykja.

Hálftíma seinna kom litháenski kokkurinn og sagði að ég væri kær vinur sinn og hann hefði vafið marga menn í sovéska hernum og mundi redda þessu eins og skot.  Hann lyktaði af áfengi.

Hann vafði af mér eins og varfærinn elskhugi færir feimna stúlku úr nærfötum og þvoði mér í sturtunni svo mjúklega að þegar hann nuddaði sjampóinu í hárið á mér, efaðist ég um að nokkur af þeim stúlkum sem hafa elskað mig, hefðu farið jafn gætnum höndum um líkama minn.  Hann bölvaði reyndar hressilega á móðurmáli sínu þegar hann sá að varla nokkur blettur á skrokknum á mér væri ekki svartur, fjólublár eða hruflaður.  Svo hló hann og sagði að eftir nokkra daga yrði ég eflaust gulur eins og helvítis Japani.  Ég bað hann um að styðja mig í matsalinn því að nú vildi ég verða drukkinn eins og helvítis litháeini.

Hann studdi mig og lofaði mér því alvarlegur á leiðinni í matsalinn að ef ég einhvern tíman stofnaði íslenska mafíu mundi hann drepa fyrir mig andstæðinga mína á afsláttarverði.  Ég sagðist hafa það bakvið eyrað.

Og núna sit ég við gluggann á herberginu mínu, búinn að bryðja forte með koníakinu, svo drukkinn og undir áhrifum lyfja að ég finn varla fyrir líkama mínum og hugsa ekki skýrt og horfi á fjöll og rökkur sem borða regn á morgunn og andvaka fugla og túrista að týnast heim af fjöllum með tebrúsa undir hendinni í marglitum vindgöllum eins og veifur á sölutjöldum á þorpshátíð og ég veit núna, ég veit núna, að dauðinn er allstaðar nálægur og þótt hann hafi ekki hremmt mig í þetta skiptið, þá vinnur hann eflaust næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Veistu ég veit ekki hvort ég á að gráta eða hlæja! En ég verð nú samt að viðurkenna að ég er guðs lifandi fegin að þú lifðir fallið af...

Gunnhildur Ólafsdóttir, 1.7.2008 kl. 00:24

2 Smámynd: Kreppumaður

Ég mundi hlæja því að þetta er eitthvað svo mér líkt og í annað sinn á þessu ári sem ég brýt þessi helvítis rifbein mín (eða eitthvað af þeim) eftir að detta fullur, en fyrr fallið var nú bara niður í þvotthús heima.

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 00:28

3 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Þetta er þó fall sem þú getur verið stoltur af (annað en þvottahúsfallið) - ætli það verði svo ekki bara gerð bíómynd um þetta í framtíðinni?  Og já þetta er sko klárlega þér líkt...

Gunnhildur Ólafsdóttir, 1.7.2008 kl. 00:35

4 identicon

þú ert vangefinn og athyglis heftur , svona steypa er ólæs ruglandi.back to square one.

helgi (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 00:39

5 Smámynd: Bergur Thorberg

Bráðum líturðu út eins og sænski þjóðfáninn, fallega gulur og blár og með japönsku ívafi. Þá er nú gott að eiga litháann að. Og skála svo með ítölsku rauðvíni við Þjóðverjann yfir skákinni.

Bergur Thorberg, 1.7.2008 kl. 00:41

6 Smámynd: Kreppumaður

Gunnhildur:  Efast um að nokkur mundi vilja sjá þá mynd, ekki einu sinni mínir nánustu.

Helgi: Ef ég var ekki vangefinn, þá er ég orðinn það núna og eflaust gott betur en það.  Alltaf gaman af því þegar manni er bent á það augljósa.

Bergur:  Mig minnir að sænski fáninn hafi blakt hérna fyrir utan þegar ég kom - það óheilla tákn.  Bið heldur um þann finska.

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 00:47

7 Smámynd: Kreppumaður

En alla veganna, þið hressið mig við (ásamt öðru) og gerið eymd mína hér undir jökli skemmtilega, núna þegar ég er ófær um að klöngrast á fjöll.

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 00:49

8 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

En er þá einhver tilgangur með að dvelja þarna í óbyggðum lengur - ef að fjallaferðirnar margumrómuðu verða ei fleiri?

Gunnhildur Ólafsdóttir, 1.7.2008 kl. 00:57

9 Smámynd: Kreppumaður

Jújú, ég er búinn að borga fyrir mig hérna þangað til 14. júlí, þanig að ég á eftir að fara á nokkur fjöll og svo held ég áfram austur og þaðan væntanlega til Evrópu (með stuttu stoppi í 101 áður) eða bara að ég sest að hérna?  Það var verið að auglýsa eftir einhverjum eins og mér á Höfn um daginn? 

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 01:02

10 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Þetta hlýtur að hafa verið stórmerkileg auglýsing. Og sjaldgæf? Enda ertu einstak.. Setjast að já...

Gunnhildur Ólafsdóttir, 1.7.2008 kl. 01:52

11 Smámynd: Kreppumaður

Þeir voru nú bara að auglýsa eftir einhverri skrifstofublók með félagsvísindamenntun eða kannski var það í Þórshöfn eða guð má vita hvar?

En af hverju ekki að setjast hérna að?  Þótt að ég mundi helst vilja búa í Bitrufirði, bara vegna nafnsins.

Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband