1.7.2008 | 03:15
Leiðarvísir fyrir þunglynda drykkjumenn
Mér er of illt til þess að sofa og svo klæjar mig í saumana sem eru í hársverðinum. Jökullinn er hulinn þoku svo ekki er hann mikill félagsskapur í nótt. Og fyrir utan tölvuna (800 kall tíminn á netinu!) þá hef ég fátt við að vera nema að lesa og klára flösku af MaCallan viskí sem þjóðverjinn skildi eftir. Og gera heimskuleg plön fyrir áframhaldið á þessari ferð. Ég er að hugsa um að fara á Hala um helgina, ég ætti að vera orðinn vel rólfær þá og heimsækja líka Höfn, öðruvísi en í hálfgerðu móki. Svo þarf ég að gera uppvið mig á næstu tveimur vikum hvert ég held þegar ég hef lokið við að ganga á sem flest fjöllin hér. Ég sé það í hendi mér að ég mun ekki klára alla þá tinda sem ég ætlaði mér svo ég býst við að sleppa þeim sem líta út fyrir að vera ómerkilegust eða minna mig á kirkjur og ganga bara á hina.
Mér datt í hug áðan að taka svo Norrænu yfir til Noregs og fara og líta á þunglyndustu lönd í heimi (samkvæmt minni skilgreiningu) sem væri þá (fyrir utan Ísland) Noregur, Finnland, Litháen, Pólland, Úkraína og Moldavía. svo gæti ég komið heim og skrifað ferðahandbók sem mundi heita: leiðarvísir þunglyndra drykkjumanna um vingjarnleg lönd! Og gefa löndum og stöðum einkunn frá fýlukalli og upp í snöru, eftir því hversu dapurleg stemning væri á viðkomandi stað. Ég mundi alla veganna kaupa mér þannig ferðavísi ef hann fengist.
Eitt er þó víst: ég er ekki að fara að sækja um ábyrgðarstöður í Reykjavík, metnaður minn fyrir borgaralegu lífi og flóknum skyldum er fyrir löngu horfinn. Núna er ég bara ánægður ef ég vakna ennþá dragnandi andann.
Athugasemdir
Hlakka til þegar þegar þú hefur náð þér, ert hættur að drekka svona mikið og ert búinn að skrifa bók sem er hægt a selja. - Hlakka til þegar þú ert búinn að fylla tómið og ert byrjaður að elska aftur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.7.2008 kl. 10:39
Gætir kíkt á múmíndalinn á þessari leið þinni.
Ragga (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 11:27
Heyrðu góði! Viltu gjöra svo vel að passa að slasa þig ekki meira en þetta! Ég nenni ekki að heimsækja farlama drykkjuhrút!
Svo máttu gjarnan kveikja á símanum þínum nógu lengi til að ég geti hringt í þig
Heiða B. Heiðars, 1.7.2008 kl. 11:53
Svanur: Ef ég mundi skrifa bók þá væri ég farinn að nálgast það að verða einhverskonar íslenskur Hemingway og það væri mér ekki holt. Held ég verði áfram enn um sinn eins og ég er! Skál fyrir því.
Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 20:55
Ragga: búin að vera lengi á leiðinni þangað en óttast það að ég muni koma í dalinn eins og Morrinn og allt visna og sölna undan fótum mér...
Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 20:56
Heiða: Síminn brákaðist eins og ég, auk þess sem lítið gagn er í myndavélinni eftir fallið. En komdu bara hvenær sem er, ég get, ef ég get ekki skemmt þér, fundið þér félag við hæfi!
Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 21:10
Nema hvað! Það er einmitt það sem ég býst við ;)
Ragga (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 21:12
Þess vegna ætla ég að sneyða hjá þeirri byggð sem er mér svo kær...
Kreppumaður, 1.7.2008 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.