1.7.2008 | 22:15
Ferjumaðurinn gamli
Þegar ég staulaðist til þess að fá mér eitthvað að borða í hádeginu, gekk ég næstum á gamlan sæhák eða þannig kom karluglan mér fyrir sjónir: stór og þrekinn, þótt að hann væri tekinn að bogna með sítt hvítt skegg og kastskeyti yfir rytjulegum leyfum af hári. Ég brosti og baðst afsökunar á því að rekast utan í hann. Hann hreytti í mig ónotum og það eina sem ég skildi var: Du... opprörene... mankjönn... ihjelslagen... og það hvarflaði að mér að þessi geðvonda kempa kynni að vera fjarskyldur ættingi eða jafnvel sá gamli ferjumaður sem mér hefði verið ætlað að mæta, þegar ég hrapaði í fjallinu, til þess að sigla með síðasta spölinn. Og þegar ég var sestur niður og beið minnar daglegu bleikju, gat ég séð fyrir mér hvernig sú sigling hefði orðið: Gamall árabátur sem hann rær og ég sit í skuti og hann siglir bátnum hægt í gegnum loftið og klettarnir sem ég hrapaði í minnka og við hverfum inn í ský og ekkert heyrist nema niður í ánum á söndunum og karlinn tuldrandi: overstroken i liste, overstroken i liste, overstroken i liste...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.