Hótelbarinn

Rétt fyrir ellefu bankaði Mark (þjóðverjinn) hjá mér og spurði hvort ég vildi ekki koma með honum á hótelbarinn (hann mundi styðja mig ef ég þyrfti), landverðir og leiðsögumenn væri þar nú fjölmennir og á meðal þeirra konur.  Ég átti nú bágt með að trúa því að í hópi þessa fólks leyndust konur, því að ég hef alltaf tengt það orð brotthættum verum sem klæðast í pils eða kjóla og ganga um á háhæluðum skóm og það síðasta sem ég átti von á væri að þannig skepnur væru að flækjast á bar í miðri sandauðninni.  En ég fór þó samt.  Enda félagskapurinn við Mark með þeim betri sem ég hef verið í undanfarin ár.  Það voru svona umþaðbil þrjátíu manns á barnum, í vindjökkum og flíspeysum og við settumst við barinn og fengum okkur bjór og viskí og sökktum okkur niður í að ræða um bók Færeyska rithöfundarins Heðins Brú: feðgar á ferð.  En öfugt við Heinesen þá ræðum við um Brú til þess að henda gaman af honum.  Við erum ekki betur innrættir en svo.

Fjallagarparnir og tröllkonurnar sem voru á barnum, var þetta háværa og ópalskots glaða lið, sem maður getur séð á hvaða bar sem er í Reykjavík.  Óteljandi frasar úr auglýsingum og úr Næturvaktinni yfirgnæfðu næstum Bubba Mortens sem virðist ennþá eiga greiða leið að hjörtum þeirra sem búa fyrir utan hundraðogeinn.  Og í fyrsta sinn síðan ég yfirgaf Reykjavík saknaði ég hundraðogeins, en þá bara þess að heyra góða tónlist og geta, þó ekki væri nema horft, á fallegt kvenfólk.

Reyndar vorum við ekki búnir að hæðast lengi að Heðin Brú þegar tvær stelpur spurðu okkur hvort þær mættu setjast við barinn hliðin á okkur.  Þær voru svo sem laglegar og ef einhver kynvilltur þáttastjórnandi úr raunveruleikaþáttaröð hefði klætt þær og meikað, eflaust fallegar.  Mér leiddist samt félagsskapurinn um leið og ég komst að því að þær höfðu bara áhuga á því að tala um mannfræðinámið sitt.

Rétt fyrir tvö stóðum við félagarnir svo fyrir utan hótelið, Mark að fara (án þess að segja það en mig grunaði það sterklega) að skríða uppí hjá þeirri Ítölsku, ég að rífa í sundur miða með símanúmeri sem annar mannfræðingurinn hafði gefið mér og falast um leið eftir því að við félagarnir mundum gera eitthvað skemmtilegt með þeim vinkonunum.  Ég man að ég kvaddi með því að mér dytti aldrei neitt skemmtilegt í hug.  Jafnvel þótt að ég sé uppi á fjöllum þá mun ég aldrei fara á stefnumót með stelpu sem er í vindjakka og í gönguskóm!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband