Þar kom að því...

Gekk á fjall í dag og fylltist engum sérstökum fögnuði yfir því að sigra það.  Þetta var bara enn einn mosa og grasivaxinn bingurinn sem endar í grjótnibbu.  Ég settist á hana og reykti og horfði á Hvannadalshnjúk.  Fimm dagar í þá ferð, einn í hvíld og svo er ég farinn héðan.

Á leiðinni niður fann ég ekki fyrir söknuði til Reykjavíkur en samt yfir einhverjum leiða yfir því að vera hérna.  Kannski smá pirring yfir því að þurfa alltaf að tala við fólk sem svarar bara á bjagaðri ensku  Hringdi í bróðir minn um leið og ég sá að ég var kominn með signal.  Sagði honum að mér leiddist, mér gengi ekkert með það sem ég væri að gera og tilvistarkreppan magnaðist bara með hverri grjóthrúgunni sem ég þyrfti að pissa á.  Hann sagði mér að ég yrði jafn leiður á Reykjavík.  Ég sagði honum að ég hefði hringt til þess að heyra einhvern segja mér það.  Hann lofaði að senda mér diska og bækur áður en ég yfirgæfi hótelið.

Þegar ég kom á hótelið bað ég Mark um að hjálpa mér að fjarlægja saumana úr mér.  Ég gat tekið sjálfur alla þá sem voru ekki í höfðinu á mér og á meðan við vorum að þessum hjúkrunarstörfum okkar minntist ég þess þegar ég síðast dró úr mér saum.  Og ég velti því fyrir mér hvort að að því kæmi einhverntíman að ég mundi þurfa að sauma mig saman sjálfur.  Ég rétt vona ekki.

Nú er ég svo eirðarlaus að ég þoli varla við.  Er leiður á allt og öllum og hef ekki hugmynd hvað ég á til bragðs að taka?  Ég held að það hafi kannski verið óráð (eins og svo mörg af mínum óráðum) að leggja upp í þessa ferð?  Eða kannski er þetta þröskuldurinn sem ég þarf að yfirstíga?  Þessi leiði sem sest að mér núna?  Ég veit ekki neitt.  En ég ætla mér að vera hið minnsta fram að verslunarmanna helgi í þessu ferðalagi mínu.  Helst lengur, án þess að fara til útlanda.  Ég held að ég þurfi bara að fara að gera meira af því að ganga upp að næsta búkarli og taka hann tali?  En ég er því miður ekki þessa hressa og opna týpa.  Ég segi yfirleitt ekki margt við ókunnuga.

Allt er grátt úti.  Kannski ég fari hringinn á puttanum og sjái hvað komi út úr því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband