Gáfaðar kindur og tíu ára strákur

Fór í göngutúr í þokunni niður að sjó.  Ótrúlega alltaf sefandi að ganga með fram ám og lækjum og heyra í þeim niðinn.  Mætti engum nema kind sem horfði á mig eins og Íslenskar kindur einar gera: á svo heimskulegan og opinneygðan svip, að ekki er hægt annað en að hlæja.  Samt held ég að íslenska kindin sé frekar klár.  Klárari en hún lítur út fyrir að vera.  Rökin fyrir því eru þau að hún hefur ekki dáið út á þessu skeri á þessum 1150 árum sem byggð hefur þrifist hér.  Svo eru þær ótrúlega fótvissar og hægt að rekast á þær í meira en þúsund metra hæð yfir sjávarmáli á svo litlum klettasyllum að ekki einu sinni reyndustu ofurhugar mundu hætta sér út á þær.  Og hvað þá að þær láti morðóða skotmenn kála sér.  Rollur eru engir ísbirnir. 

Niður við sjó: dauður mávur fullur af ormum, Egils pilsner í flæðamálinu og hálf dós af kotasælu marandi í kafi.  Einhver hefur ekkert til sparað við matargerðina í kvöld.  Ég varð aftur tíu ára og fann mér prik og potaði í opið og maðkafyllt sárið á mávinum.  Svo settist ég á stein, fleytti kerlingar og velti því fyrir mér hvað ég mundi gera ef ég væri tíu ára og staddur hérna?  Mér datt ekkert í hug.  Ég er kominn svo langt frá tíu ára stráknum sem ég eitt sinn var.  Ég get munað atriði frá lífshlaupi hans en ekki tengt mig við hugsunargang hans og uppátækjasemi.  Það hvarflaði helst að mér að ég tíu ára mundi fara undir sæng með koníaksdreitil og lesa bók. 

Á leiðinni til baka fannst mér ég vera eins og síðasta mannveran á lífi í þessum heimi enda ekkert sem ég sá á leið minni sem gaf tilefni til þess að búast við mannabyggð eða einhverju gerðu af mannahöndum fyrr en ég kom upp á veg og sjá sjoppuna og hótelið.  Þetta er land jökla, sanda og einstaka heimspekilegra kinda.

Marglitir regnstakkarnir í móttökunni og bjagaða enskan sem þeir tjáðu sig á, gerðu mig dapran.

Héðan í frá einbeiti ég mér bara að þessu eina fjalli sem ég á eftir að klífa; helvítis Hvannadalshnúk.


mbl.is Tákngervingur frelsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Það kannski hjálpar þér með hnjúkinn háa að fletta upp í blogginu mínu á síðu nr. 3. Þar sérðu Öræfajökulinn eins og hann var þegar hann kom til Reykjavíkur í den og kallaður hundaþúfa, meter fyrir meter.

Bergur Thorberg, 7.7.2008 kl. 23:04

2 Smámynd: Kreppumaður

Núna er þessi hundaþúfa hulin skýjum og þoku og ekki svo ógnvænleg en þegar ég var á Kristínartindum (heita það í alvörunni, ekki mín endurskírn) virkaði hann helvíti óárennilegur.

Kreppumaður, 7.7.2008 kl. 23:10

3 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Íslenskar kindur eru víst heimskar. Ekki þurftir þú að reyna að reka þær inn í fjárhús í 20 stiga frosti í marga klukkutíma vegna þess að þær dröttuðust ekki inn í kofann - sem var eingöngu gert þeim fyrir bestu - svo þær myndu ekki FRJÓSA Í HEL!:p s.s. heimsk dýr Vonandi kemstu upp á fjallskrattann!

Gunnhildur Ólafsdóttir, 7.7.2008 kl. 23:36

4 Smámynd: Kreppumaður

Lýsir gáfnafari þeirra að vilja ekki fara inn og hafa þig úti í 20 stiga frosti að reka á eftir þeim á meðan þær voru vel varðar fyrir kuldanum í sinni frábæru ull.  Annars finnst mér þær alltaf svo furðulegar á svipinn - hann minnir mig á svipinn á fastagestunum á Ölstofunni - þeim sem eru þar alltaf að stara á stelpurnar!

Kreppumaður, 7.7.2008 kl. 23:45

5 identicon

Heimsk dýr...... nei alls ekki.... bara vel gefnar ljóskur, sem þykjast vera algjörar ljóskur!!!!  Fyrir utan það.... þær eru þær lang "snoppufríðastar" í allri Evrópu og þó víða væri leitað!!

Auður (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 00:12

6 Smámynd: Bergur Thorberg

Will you be so kind..........

Bergur Thorberg, 8.7.2008 kl. 00:18

7 Smámynd: Gunnhildur Ólafsdóttir

Haha já þær eru reyndar nett fyndnar á svipinn og alls ekki ólíkar þeim!

Gunnhildur Ólafsdóttir, 8.7.2008 kl. 00:20

8 Smámynd: Kreppumaður

Auður:  Þær minni mig líka á íslenskt kvenfólk.  Bara ekki með jafn greiðann aðgang að snyrtistofum og hárgreiðslustofum.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 00:40

9 Smámynd: Kreppumaður

Bergur: ég er orðinn að sauð.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 00:40

10 Smámynd: Kreppumaður

Gunnhildur:  þeir eru líka leiddir til slátrunar (sumir) á haustin.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 00:41

11 identicon

Íslenska sauðkindin er snillingur!

Ragga (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 10:22

12 Smámynd: Kreppumaður

Tek undir það Ragga, sérstaklega sú sem lagði til ull í svörtu lopapeysuna mína.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 20:46

13 Smámynd: Bergur Thorberg

Passaðu þig á sauðaþjófunum. Þeir ku leynast á fjöllum.

Bergur Thorberg, 8.7.2008 kl. 20:53

14 Smámynd: Kreppumaður

Varla fara þau Eyvindur og Halla að ræna mig peysunni góðu? Sem er farin að láta á sjá eftir byltuna sem ég fékk um daginn. Hún slasaðist meira en ég.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 21:04

15 Smámynd: Bergur Thorberg

Allt er hey í harðindum.

Bergur Thorberg, 8.7.2008 kl. 21:21

16 Smámynd: Kreppumaður

Ég mundi fyrr láta lífið en gefa frá mér þessa slitnu peysu.  Hún verður af komandi kynslóðum varðveitt sem helgigripur eða hent inn í kompu.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 21:26

17 identicon

Eina flotta lopapeysan sem ég hef séð var svört en í stað týpíska munstursins var batmanmerkið á bringunni, töff. Mig langaði næstum því að ganga í lopapeysu þegar að ég sá þessa.

Ragga (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 22:28

18 Smámynd: Kreppumaður

Ég gekk oft í þessari svörtu sem ég á síðasta sumar og vetur.  Fannst það hallærislega töff.  En einu sinni átti ég lopapeysu sem var bara svört.  Ekkert munstur.  Hún var geðveik.  Gott ef ég unni henni ekki svo mikið að ég svaf í henni líka?

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 22:35

19 identicon

Reyndar held ég að ég hafi séð mynd af þér í þessari sem þú talar um, ekki munsturlausu, heldur hinni.

Ég á ekki lopapeysu og ég efast um að ég muni nokkurn tíma ganga í svoleiðis flík, gerði það þegar að ég var fimmtán svo komst ég yfir það. 

Ragga (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 23:40

20 Smámynd: Kreppumaður

Það er ekki ólíklegt að ég hafi verið myndaður einhvern tíman á djamminu eða út í sveit, klæddur eins og búkarl.  En ég verð að viðurkenna að lopapeysur eru kannski ekki það mest fasjónabúl í heimi. 

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 23:54

21 Smámynd: Kreppumaður

Kannski ég ætti að fara að birta myndir hérna?  Þótt að þær yrðu eflaust bara af jöklum, söndum og mér, svartklæddum.

Kreppumaður, 8.7.2008 kl. 23:56

22 identicon

Sú mynd sem ég sá var tekin á Sirkús.

Eins mikið og ég er fyrir myndabloggin (augljóslega) þá get ég ekki annað en fagnað fleirum, hafðu bara með inni í dæminu myndir af svörtum sauðum, ekki þér heldur sauðkindinni!

Ragga (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 00:47

23 Smámynd: Kreppumaður

Rámar í þá mynd; sjaldgæft að það náist af mér myndir með gleraugu nema svona skyggð.

Held samt að myndir af skýjum, jöklum og einhverjum pollum séu ekki það sem heillar.  En kannski finn ég mér líka skemmtilegri mótív.   

Kreppumaður, 9.7.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband