12.7.2008 | 00:20
Skáldsagnapersónur
Í gærkvöldi, á milli fjallaferðar í þoku (sem ég er hættur að skrifa um því að þær eru hverri annarri líkari) og óminnis, hins djúpa nætursvefns, rakst ég á Finna á barnum. Sem er ekki í frásögur færandi nema að hann hét því merkilega nafni Juhani Hakala. En bækur Antti Tuuri um Hakalaættina (Dagur í Austurbotni, Til Ameríku, Ný Jerúsalem...) voru mikil skemmtun. Enda greina þær frá þremur kynslóðum drykkfelda ógæfumanna af hinni mjög svo þunglyndu þjóð Finnum. Ég minntist á þetta við Juhani þennan sem var ekki skemmt og sagði að Tuuri hefði óafvitandi komið slæmu nafni á sína dyggðum prýddu ætt. Ég fékk eiginlega samviskubit yfir því að hafa einhverntíman brosað út í annað yfir ættingjum hans sem voru ekki ættingjar hans og reyndi að segja honum það. Honum þótti það svo sem ekki til bóta. Svo spurði hann mig hvað ég væri að gera hérna? Ég sagði honum að ég gengi á fjöll og reyndi að finna mig. ,,Og þið hlæið að Finnum og finnst þeir þunglyndir?" Hváði hann og hló. Ég játti því. Og þú gengur á fjöll af því að þú þjáist af lífsleiða, spurði hann mig, glottandi? Meira að segja finnskum rithöfundum hefur ekki ennþá dottið sú vitleysa í hug, bætti hann við. Við skáluðum og drukkum svo í þögn.
Athugasemdir
Jæja þá er komið aðí. Á göngunni í fyrra málið hefurðu fullt að hugsa um. t.d. hvað þetta mál sé með hárið á bloggvinkonum þínum (Þú veist ef þú berð saman kisabellu,mialiltu,ofurskutlu og rauðku) og svo þetta mikilvæga mál með finnana sem spila Jogga í frístundum.
Skál í klaka á toppnum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 01:06
Ertu farinn að búa til samsæriskenningar þarna í Bath?
Aldrei hafi mér dottið í hug að bera saman þá sem kommenta á mig?
En ég mun reyna að skála á toppnum.
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 01:26
Sko... samsæriskenningar eru mínar ær og rollur eða þannig....I don´t like cows.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 01:30
Góðar samsæriskenningar eru reyndar á við fjögurhundruð fé á fjalli. Það væri kannski vert að gerast samsæriskenningabóndi?
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 01:32
Það er borgað fyrir þær ær enn í sumum kaupfélögum, sérdeilis á Djúpavogi hvert för þinni er heitið ef allt gengur vel. Skora á þig að skipta á einni slíkri og alvöru gönguskóm (ef þeir eru ekki til þá smokkum) þegar þú staldrar þar við á leiðinni.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 01:41
Alvöru gönguskór mundu nú draga allan Þórberg (ganga hans á blankskóm yfir landið) úr þessari ferð. Líka ef ég fengi mér góða húfu. En ég gæti vel hugsað mér að reyna að selja samsæri í Djúpavogi sem hér með er komið inn á leiðarkortið. Annars hefur mig alltaf langað tilþess að sjá Melrakkasléttu, nafnið gefur til kynna að þar hafist við mínir líkir.
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 01:45
Melrakkar eru fínir félagar á sléttu en verða soldið leiðinlegir í brekkum, alltaf þetta bölvaða væl... Gangi þér vel á morgunn gamli ;)
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 02:00
Takk fyrir árnaðaróskir. Er kominn með kvíðahnút, því að ég veit ekki hvað tekur við að þessu fjalli loknu. Greni melrakka, hljómar samt ekki svo illa sem næsti mílusteinn á þessari ferð?
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 02:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.