12.7.2008 | 22:40
Hvannadalshnjúkur
Það var ljúf sumarnótt þegar ég lagði af stað. Eins ljúf og mild og grá og þær geta einungis orðið hérna á Íslandi. Einsstaka fugl að væla annars algjör þögn. Og ég var með nesti og í láns gönguskóm því að ég vissi að conversskór eru ekki gerðir fyrir meira hæð en þúsundmetra og alls ekki snjó. Og ég var með hvíta trefilinn minn um hálsinn og mér fannst ég vera eins og horaðri útgáfa af Edmund Hillary, nema að ég ætlaði ekki að láta neinn Tenzing drösla mér síðustu metrana á toppinn. Og í bakpokanum mínum var allt sem ég þarfnaðist.
Gekk fram hjá fosssprænu sem var í þokuhjúpi og fyrir ofan hann teygði fyrsta fjallið sig upp svo dásamlega votgrænt og mér fannst eitthvað svo skrítið að vera allt í einu lagður af stað í þessa ferð, einn og án þess að nokkur yrði þess var. Enginn mannfjöldi sem fylgdi mér úr hlaði með lúðrahljómi eða árnaðaróskum. Bara ég sem laumaðist af stað eins og ótýndur þjófur sem hraðar sér á brot með ránsfenginn inn í húmið. Og svo þessi foss.
Skrítið að vera á ferðinni fyrir klukkan sex aðfaranótt laugardags, undir venjulegum kringumstæðum væri ég að skakklappast heim en ekki á fjall. Skrítið að heyra ekki í sírenum lögreglubíla, í brotnandi flöskum, fólki að öskra, dúndrandi tónlist. Bara langdregið jarm í þokunni. En ég var ekki í hundraðogeinum, ég var að fara að ganga á fjall. Og þetta fjall var ekki bara eitthvað fjall. Þetta er hæsta fjall landsins og tákn um það allt sem ég ætlaði að leggja að baki. Mitt gamla bitra líf og allar minningarnar sem tengdust því hvernig ég hafði lifað. Og ég ætlaði að ganga á þetta fjall til þess að grafa þar niður fornan sársauka.
Það var þoka yfir öllu og þegar ég kom upp á Svínafellið var ég hættur að sjá hvorki til hægri né vinstri, áfram eða afturábak og auðvitað var ég ekki með áttavita, þótt að ég eigi að heita læs á þannig grip, en ég bjóst við að meðfædd heppni mín mundi koma mér á endanum á áfangastað og svo aftur heim.
Og í svarthamragili átti ég von á því í mistrinu að að mér mundu sækja draugar. En það gerðist ekki. Það eina sem bar þar við var að hrafnar flugu á undan mér eins og ég væri eineygður förumaður á leiðinni að boða mönnum stríð og válynd tíðindi og ipodinn minn varð næstum batteríslaus svo ég slökkti á honum. Ég bölvaði því þar sem ég hafði ætlað að spila eitthvað af mínum dapurlegu uppáhaldslögum á þaki landsins.
Svarthamrar eru fallegir í drunga sínum í mildu júlíregni og þokuslæðing. Og Jökulinn fyrir neðan sem ég hef svo oft staðið á, eins og gráleitur og súr rjómi sem bráðnar á fati eftir einhverja veislu... En ég staðnæmdist ekki þar. Ég staðnæmdist ekki neitt nema til þess að pissa og kveikja mér við og við í nýrri sígarettu. Ég gekk þetta eins (og þeir þekkja sem hafa gengið með mér á fjöll) og ég væri hundeltur af einhverjum eða í kapphlaupi við að komast á leiðarenda. Amundsen að keppa við Scott. Ég er sennilega ekki með norsk gen fyrir ekki neitt?
Ég var orðinn mjög blautur í fæturna og eiginlega í gegnum gallann þegar ég kom að Hvannadalskamb. Þá sá ég fyrst til sólar. hún skein á mig ofar skýjum og fyrir neðan mig var allt þetta hvíta. Þar borðaði ég maukaða brauðsneyð með skinku og smurosti sem ég get ekki sagt að hafa verið mikill veislumatur og æsti eiginlega bara upp í mér sultinn og fékk mig til þess að hugsa um túnfisksteik og kjúkling og gott rauðvín og hvað í helvítinu ég væri að flækjast á fjöll?
Og Hryggurinn á milli jöklanna: Bíðandi eftir mér eins og ævaforn sofandi ófreskja, tilbúin til þess að rumska um leið og ég stigi á hana og hrissta mig til með allt sitt hvassa grjót og með allar sínar skriður og ísklumpa sem mundu hrufla mig og skera. Hryggur í sorta sem virkaði á mig eins og endalaus og óklífandi torfæra þótt að ég vissi að hann sé ekki nema svona tveggjakílómetra langur og handann við hann bara Dyrhamar. Svo mjúkur snjór á leiðinni upp.
Undir dyrhamri varð mér hugsa til sonar míns og hvað hann héldi um pabba sinn sem ævinlega var alltaf nálægur en hafði núna um meira en mánaðar skeið verið á einhverju hæðaflakki til þess eins að ,,finna" sig þótt að við eflaust báðir vissum að það væri ógerningur. Þessi pabbi væri öllum að eilífu týndur. Og ég lofaði sjálfum mér að ef ég kæmist aftur heill niður, þá mundi ég hætta allri vitleysu. Hætta að vera fífl og bjáni og baka fólkinu í kringum mig vandræði og fara að lifa rólegu og tíðindalitlu lífi, helst bara innann um bækur.
Það var á þessa leið sem ég hugsaði, pirraður, svangur, þreyttur og blautur, hrasandi í hverju spori í snjónum á leiðinni upp á helvítis toppinn sem í einhverju ölæði hafði virst svo auðveldlega kleyfur en var núna klifinn af mér blóðrissa og grenjandi af þrjósku. Og það rigndi eins og höfundur Biblíunnar hefði ákveðið að reyna að skola mér niður af þessu fjalli í nýju syndaflóði.
En svo. Sólarglæta og síðasta hindrunin í seilingarfjarlægð. Bara eins og ein sandbreiða af hvítri og sprunguskorinni auðn og svo þessi bunga, svona 30-40 metra þar fyrir ofan. Og ég vissi að frá henni lægi þverhnípi niður og útsýni væri yfir allan hinn fagra og nýja heim, skrýddan snjó. En er ég lagði af stað gat ég ekki betur séð en að það væri hópur af fólki upp á Hvannadalshnjúki eins og þetta væri einhver hversdagslegur áningarstaður, einhverskonar Hlemmtorg þarna á fjallinu?
Og ég settist niður í snjóinn, blautur og kaldur. Og horfði á þennan loka áfanga farar minnar: sundurskorinn slétta og svo einn stubbur, þessi Hvannadalshnúkur sem ég hafði komið til þess að klífa. Og þar var fólk. Eflaust í geimbúningum með ísaxir og reipi um sig miðja. Og ég tók ákvörðun. Stóð á fætur og gekk yfir þessar leiðinda sprungur og opnaði um leið aðra litlu freyðivíns flöskuna mína og saup af henni. Og skálaði fyrir því að haf náð þessu, stæði næstum í 2119 metra hæð. En um leið og ég var að rölta í áttina að fólkinu, í áttina að loka takmarkinu vissi ég að ég mundi aldrei ná á tindinn. Ég væri ekki ennþá tilbúinn til þess að skilja við mitt fyrra líf. Hvorki minningar né þann gamla mig sem ég hafði viljað gleyma. Ég hafði fundið það þegar ég opnaði flöskuna áður en ég náði tindinum. Þannig er ég. Ég gefst alltaf upp áður en síðasta áfanganum er náð. Þess vegna lét ég mér nægja að stoppa í kallfæri við hópinn (sem voru leiðsögumenn frá þjóðgarðinum, hef hitt suma þeirra á barnum áður) og einhverjir útlendingar og veifa til þeirra flöskunni. Þeir veifuðu á móti.
Þá kallaði ég til þeirra hvort einhver hefði eld? Tveir þeirra hlógu. Ég hélt áfram að brosa og veifa og endurtók bón mína um eld. ,,Þú verður að koma upp", kallaði einhver til mín! Ég sagðist þá vera með eld og kveikti mér í sígarettu. Svo snéri ég mér við og tók að ganga til baka, klístraður af regni og snjó. Þessi tindur verður þarna áfram ef ég nenni á hann síðar.
Á Hvannadalskambi settist ég niður og kláraði hina litlu freyðivínsflöskuna. Skrifaði skilaboð í hana og setti á milli tveggja steina. Ég veit að þau munu finnst síðar og þarna á kambinum komst ipodinn minn aftur í gagnið og ég klöngraðist til byggða í þoku og sudda með Tindersticks í eyrunum. Ofboðslega ánægður með það að vera þessi eilífðar lúser. Ofboðslegar ánægður með það að ég get næstum allt sem ég ætla mér.
Athugasemdir
Svona komdu með það. Var einhver leindagaur eða gauja á tindinum sem þú hafðir móðgað á barnum Fyrr í vikunni?
Bergur Thorberg, 12.7.2008 kl. 23:30
Nei nei, ekki móðgað. Ég móðga aldrei neinn. Það er bara svo gott að eiga þessa síðustu tuttugu metra eftir, síðar.
Kreppumaður, 12.7.2008 kl. 23:34
Undir Dyrhamri varð mér ljóst að þú ætlaðir aldrei á tindinn og það gekk eftir. Ef þú segist hafa ætlað, þekki ég þig betur en þú sjálfur.
En þetta var bara áfangi hvort eð er. Til hamingju með hann. Svo verðurðu náttúrulega að hringja í strákinn þinn strax.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.7.2008 kl. 23:48
Af hverju heldurðu að ég hafi ekki ætlað mér á tindinn? Að drullast alla leið hingað í óbyggðir til þess að snúa á brott, gjörsigraður?
Allt þetta streð og klungur síðustu 4 vikna til einskins?
Þú ætlar kannski að halda því fram að ég sé ekki til? Eða sitji á mínum rassi í Reykjavík? Maður hefur heyrt annað eins.
Kreppumaður, 13.7.2008 kl. 00:15
Nei, auðvitað ertu til. En þú ert sannur í lýsingunni og hún ber vitni um efann sem greinilega var og er að naga þig.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.7.2008 kl. 00:48
Ég held að það sé gott að efast um sig og tilvist sína, annars er hætt við að maður vakni upp og bölvi sér fyrir það að hafa aldrei reynt eitthvað nýtt!
Annars varð mér hugsað til bókarinnar: sagan af herra Sommer eftir Patrick Suskind. Sú persóna minnti mig eitthvað á mig sjálfan í dag.
Kreppumaður, 13.7.2008 kl. 00:58
Enda sagan fyrir okkur börnin sem erum á öllum aldri. Ég held að það sé betra að spyrja oftar þá efast maður sjaldnar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.7.2008 kl. 01:21
Eða hlaupa bara í kringum vatn?
Enda verða barnaævintýri mér hugleiknari með árunum. Því að í þeim býr oft þessi einfaldi sannleikur sem við leitum.
Eins og sá að ganga á hólm við sjálfan sig, vitandi að maður getur ekki sigrað.
Kreppumaður, 13.7.2008 kl. 01:26
Lífið er ein hólmganga út í gegn. Þessar snörpu atlögur efans eru hluti af bardaganum. Ég veit eitt, langar annað og öfugt.....
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.7.2008 kl. 01:34
Enda því lengra sem maður heldur, því nær er allt.
Kreppumaður, 13.7.2008 kl. 01:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.