13.7.2008 | 23:32
Þessi prófíll
Stóð við barinn og var að ná mér í það sem átti að verða síðasta rauðvínsflaskan sem drukkinn yrði hér þegar ég heyrði: þennan prófíl mundi ég þekkja allsstaðar í heiminum! Og svo var nafnið mitt nefnt í fyrsta sinn í nokkrar vikur með hárréttum framburði á þ-i og ð-i! Og fyrir aftan mig stóð gömul skólasystir mín úr framhaldsskóla (við vorum á tímabili mjög náin án þess þó að hafa verið par, þótt að margir hefðu haldið það á þeim tíma), ofboðslega brún og kát.
Hún sagðist hafa séð mér bregða fyrir fyrr um daginn arkandi á hól en trúði því ekki að það væri ég þar sem mín náttúrulegu heimkyni væru ekki í náttúrunni, heldur frekar innann um steinsteypu og gler.
Og þegar við vorum búin að segja svona það helsta sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast (fyrir þremur árum) bað hún mig um að vera svo almennilegur að vera eina nótt hérna lengur svo við gætum haldið upp á endurfundina annað kvöld, þar sem hún þyrfti að fara í koju til þess að vakna fyrir sex á morgunn og draga Breta á fjöll.
Þannig að - ég verð hér fram á þriðjudag. En það er í það fína því að ég mun geta talað á íslensku við þessa fornu vinkonu mína og gleymt mér við að rifja upp galgopaháttinn í okkur þegar við vorum í kringum tvítugt.
Það verður gaman en að mér læðist þó grunur að enn og aftur séu örlögin að meina mér að halda áfram í átt að mínum óljósu takmörkum!
Athugasemdir
Vá, héllt á tímabili að Skessa væri mætt á staðinn til að taka þig í gegn. En svo var það alvöru besti vinur frá því í gamla daga, sem eitthvað á eftir uppgert við þig, eða hvað? Það er greinilega alltaf verið að reyna þig og erfitt að sjá fyrr en löngu seinna hvort þú stendur prófraunirnar eða ekki...
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.7.2008 kl. 23:55
Ekkert óuppgert á milli okkar nema nokkrar flöskur af rauðvíni til þess að tæma. Held nú samt að nú sé ekki verið að reyna mig eitt né neitt. Bara tefja um einn dag sem er svo sem í lagi. Ég kemst á leiðarenda fyrr en síðar.
Kreppumaður, 14.7.2008 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.