16.7.2008 | 22:40
Vinur ársins
Mikið er gaman að vera aftur kominn af stað þótt að landslagið hérna sé ósköp tilbreytingarlaust: fjöll og firðir. Og auðvitað þessir jöklar. En eirðarleysið sem búið er að hrjá mig er loksins að renna af mér. Kannski líka vegna þess að ég sá til sólar í fyrsta sinn í 14 daga í gær og í dag.
Vinur minn hringdi í mig fyrr í kvöld og sagði mér farir sínar ekki sléttar. Hann er víst búinn að vera í sambandi við stúlku í nokkrar vikur og þau ástfangin af hvort öðru en einn galli hún á eiginmann og hann vill hana aftur og að hún hætti að sofa hjá og elska þennan vin minn sem telur stúlkuna vera á báðum áttum þótt að hún hallist að því að hún ætti að fara og reyna að bjarga hjónabandinu en vildi þó samt halda áfram að hitta hann...
Ó hversu fokkuð er ástin!
Ég sagði honum að í fyrstalagi væri ég ekki rétti maðurinn til þess að leita til með svona ráð. Ég væri vonlaus í því að ráðleggja fólki og svo vissi ég að enginn tæki hvort eð er mark á mér. Hann spurði hvað hann ætti að gera? Leyfa henni að fara til mannsins síns og gleyma henni eða berjast og sannfæra hana um að skilja og vera með sér? Ég sagðist halda að í svona stöðu mundi aldrei neinn vinna og þetta mundi enda eins og harmleikur eftir rússneskt leikskáld, einhver mundi fremja sjálfsmorð og eftirlifendur deyja þessum hæga dauða sem lífið er.
Hann þakkaði mér fyrir að vera svona skilningsríkur og bað fjöllin að geyma mig. Ég sagði að hann ætti að reyna að gleyma þessari konu. Það væri til nóg af þeim. Hann hló og sagði að það væri dásamlegt að heyra mig segja það. Ég sagðist koma og drekka með honum í ágúst. Þá mundum við gleyma öllu sem lífið hefði skellt yfir okkur á liðnum árum.
Ég verð brátt tilnefndur til verðlaunanna: ,,vinur ársins 2008!
Athugasemdir
ég mun samt veita þér harða samkeppni!
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 23:16
Gott. Vil ekki fá þessi verðlaun óverðskuldað og án þess að þurfa að sitja í salnum stressaður og sveittur, bíðandi eftir að dómnefndin lesi upp nafn mitt -eða þitt!
Kreppumaður, 16.7.2008 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.