17.7.2008 | 07:47
Morgunverður
Ég hélt að ég væri að ganga inn í annan heim eða kvikmynd þegar ég kom niður í matsalinn á þessu gistiheimili og sá gamlan lotinn karl með svart pottlok aftan á hnakka standa yfir borði með eggjum, grænmeti og brauði og muldra eitthvað fyrir munni sér um leið og hann rétti upp hendurnar til blessunar. Í kringum hann stóð tugur lotinna gamalmenna og ég tók eftir því að karlmennirnir fimm héldu allir utan um eiginkonur sínar á meðan á athöfninni fór fram. Og mér flaug það í hug að þessi hjón sem þarna stóðu og biðu síns fábreyta matar væru ekki bara sameinuð af ást, heldur einhverju meira og dýpra sem ég fengi aldrei skilið. Og að eiginkonur þessara lotnu og slitnu manna væru þeim meira en bara félagar og vinir.
Ég horfði svo á þetta fólk matast í auðmýkt, hvíslandi sín á milli, andlitin rúnum rist og ég velti því fyrir mér hvað þessi hópur fjörgamalla gyðinga væri að vilja hingað? Hvaða tengsl þessi hópur gæti mögulega átt við Ísland? Ég efast um að ég komist nokkur sinni að því. Enda skiptir það ekki máli. Ég fylltist einhverri taumlausri gleði við það eitt að sjá þau matast á sama hátt og þessi forna og tvístraða þjóð hefur matast í fimmþúsundir ára, sama hvar þeir eru staddir. Sama hvað bjátar á.
Ég er farinn út að horfa á skipin leggja úr höfn og halda út á hafið, eirðarlaus eins og ég.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.