30.9.2008 | 12:59
Fatafíkn
Þá sjaldan sem verðandi frú Kreppa lítur upp frá því að teikna kjóla á konur sem eru undir fjörutíu kílóum er það til þess að fara í tölvuna og yfirbjóða kerlingar á ebay. Ég held að hún bjóði í allt sem ekki er naglfast úti í hinum stóra heimi; kjóla, korselett, trefla, sjöl, skó, stígvél, hanska, hárkollur... Enda förum við nánast daglega á pósthúsið og komum klyfjuð heim af pökkum og pokum.
Kerlingarnar á pósthúsinu eru orðnir kunningjar okkar og spyrja forvitnar hvað hafi komið í þetta eða hitt skiptið. Enda eru þær eflaust ánægðar með allan þennan varning sem vefurinn sendir okkur. Við tryggjum þeim atvinnu á meðan.
Íbúðin reyndar er farin að líta út eins og flóamarkaður eða Kolaportið, varla hægt að setjast niður fyrir flíkum og ég er ekki alltaf alveg viss hvað sé hennar hönnun eða hvað hafi komið í gegnum ebay? Enda er mig farið að gruna að verðandi frú Kreppa sé ekki að sanka þessu öllu að sér til þess að vera best klædda konan í þessari borg, heldur að hún þjáist að fatafíkn: Að eiga meira af fötum en grannkonan. Sem er mjög auðvelt því að sú SeneGalna á hæðinni fyrir neðan á bara tvennt; síma sem hún öskrar í og marglita tjald sem hún er vafin inn í daglega!
Athugasemdir
Nú læðist að mér grunur um, hvað atvinnugrein sú Senegalna stundar..... hm.....
Bergur Thorberg, 30.9.2008 kl. 13:15
Held að við hugsum það sama núna enda mest blaðrað í símann eftir að rökkva tekur og ef maður nennir að hlusta á hana þá er svona stígandi í samtalinu; það byrjar rólega eins og forspil að sinfóníu og rís svo hærra og hærra eins og einhver Wagnerkviða og hættir svo skyndilega og kerling leggur á!
Kreppumaður, 30.9.2008 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.