Ég hlera daglega

Ég stunda daglega símhleranir, reyndar gegn vilja mínum og bara þegar sú Senegalna situr úti á svölum og öskrar í símtólið sitt.  Ég skil reyndar ekki neitt hvað hún segir og má sennilega prísa mig sælan að viðkvæm eyru mín skaðist bara af ópunum en ekki af því sem sagt er því að eins og kom fram í þessari athugasemd, þá grunar bæði mig og Berg að það sem kerlingin lætur út úr sér kosti 3.99 dollara á mínútuna og sé ekki ætlað börnum undir 18 ára aldri.  Annars er þetta kona af stærri sortinni í allar áttir, það breið að ekki er hægt að mæta henni hérna í stiganum á leiðinni upp nema að þurfa að víkja út í þar til gerð útskot eins og bíldrusla að aka upp fjallaveg á Vestfjörðum...
 
Þannig að ég vorkenni þeim sem hafa af því atvinnu að hlusta á aðra blaðra í símann.  Djöfull vorkenni ég þeim sem mundi hlera mig og þurfa að hlusta á mig og mömmu blaðra í símann?  Samtölin eru yfirleitt svona:
 
Mamma:  Ertu að vinna?
Ég:  Jammz
Mamma:  Ertu timbraður?
Ég:  Af hverju heldurðu það?
Mamma:  ( Með biturleika í röddinni) ég þekki mitt heimafólk!  (Stutt þögn)  Það eru komnir hérna reikningar til þín?  Skuldarðu skattinum?  Borgarðu ekki meðlagið?  Ertu að skrifa á þig í Ríkinu?  Hversvegna er sýslumaður að senda þér bréf...?
Ég:  Það kemur þér ekki neitt við... !
Mamma:  Borðarðu hádegismat, fórstu í bað, hreinsarðu á þér eyrun, hvenær fékkstu þér grænmeti síðast...
Ég:  (Gríp fram í fyrir mömmu) ég er fullorðinn maður, ég er þrjátíuogsex ára, þér kemur þetta ekkert við!
Mamma:  Má ég tala við verðandi frú Kreppu...  Ég dauðvorkenni stúlkugreyinu að þurfa að annast þig, húná svo mikið betra skilið...
Ég:  (Mjög pirraður)  Hún er ekki að annast mig...!!!  Ég er ekki sjúklingur!!! 
 
Já, ekki mundi ég vilja hlusta á þetta nöldur eða annað.  En ég er eflaust svo hundómerkilegur að enginn mun nokkur sinni nenna að leggja eyrað við það sem ég segi.  Því að hvorki kemur út úr mínum munni klám né samsæri gegn stjórnvöldum.  Það eina sem ég hef skoðun á er fótbolti. 
 

mbl.is Átti að hlera Jón Baldvin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Þú mátt nú prísa þig sælan. Þú ert bara galinn. Ekki Senegalinn. Ekki ennþá. Nema að þú fallir fyrir Senubreiðum mjöðmunum, en ég hef nú ekki trú á því.

Bergur Thorberg, 30.9.2008 kl. 16:09

2 Smámynd: Kreppumaður

Og ekki fell ég fyrir matargerð hennar.  Stigagangurinn angar eins og af útmignum hákarli eða vel kæstri skötu þegar hún eldar.  Allt er þetta gert til þess að angra mig.

Kreppumaður, 30.9.2008 kl. 16:14

3 identicon

Hleragangurinn er alls staðar. bara einmitt í dag sat ég á kaffiteríunni á Amtinu með stöddígrúppinu og það var kátt á hjalla - eftir ca. hálftíma kom til okkar maður og sagði að það væri svo gaman að hlusta á okkur að við ættum að stofna útvarpsþátt!

Við vorum ekki einu sinni að tala mjög hátt ???

en stóri bróðir er víst þarna úti svo maður ætti að passa sig á því að segja eitthvað krassandi eða þegja ella.....

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 17:24

4 Smámynd: Kreppumaður

Hér get ég reyndar blaðrað að vild og engin skilur mig og ég skil ekki neinn.  Bölva öllum og kalla homma og fábjána, brosandi út af eyrum.  Ég er með svo barnalegan húmor!

Kreppumaður, 30.9.2008 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband