1.10.2008 | 12:47
Er Alþingi á Íslandi ennþá?
Eitthvað er fjarlægðin frá Íslandi að trufla mig núna því að á fréttum síðustu daga var ég orðinn þess fullviss um að ég væri ríkisborgari í einræðisríki? En ef ég man mína sagnfræði rétt þá héldu þeir félagar Hitler og Mússólíni, báðir út einhverskonar þingi, þótt að aðeins einn flokkur ætti þar inn gengt. Þannig að hugsanlega er þessi þingsetning bara blekking til þess að láta okkur halda að við búum við lýðræði og til þess að forsetinn hafi ástæðu til þess að fara á fætur í dag? Kannski er þetta einhverskonar atvinnubótavinna fyrir þurfaling og hreppsómaga? Þeir fá fín föt, vasapening, snittur og rauðvín gegn því að hylla forsetann og hanga í lekri kirkju.
Ég get ekki sagt að ég hafi haft nokkurn áhuga á stjórnmálum, dægurmálum eða Íslensku þjóðfélagi yfir höfuð (fyrir utan þá sem stunda barina í hundraðogeinum) en kannski fjarlægðin frá landinu hafi þessi áhrif á mig? Ég hangi hérna yfir tölvunni sítuðandi og fussandi yfir samsæriskenningum, valdníðslu stjórnvalda, eignaupptöku sem mun senda þá Baugsfeðga sem niðursetninga út á land, og allskonar öðrum skandölum sem virðast dynja á þjóðinni eins og haustregn. Verðandi frú Kreppu til ama því að ég ekki bara trufla hennar iðju, heldur er ég búinn að koma því inn í hausinn á henni með þessu nöldri mínu, að við komum ekki í jólafrí til Íslands. Hún getur ekki hugsað sér (eftir lýsingum mínum að dæma) að ganga um götur Reykjavíkur þar sem almúginn stendur í biðröð eftir súpu hjá mæðrastyrksnefnd en flokksgæðingar og einstaka auðmenn aka nánast yfir lýðinn á svörtum hummerum.
Það kæmi mér ekki á óvart að næsta frétt frá Íslandi væri sú að einhver hefði lýst yfir einræði eða að landi hefði verið selt hæstbjóðandi. Hugsanlega með Thor einhverstaðar í nafninu? Sá gæti svo lagt það undir í fjárhættuspili við rússneskan olíubófa. Mig minnir að einhver Dana kóngur hafi reynt að selja Ísland kollega sínum í Englandi, til þess að grynnka á spilaskuldum? Sagan hefur tilhneigingu til þess að endurtaka sig...
![]() |
Alþingi sett í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.