5.10.2008 | 19:05
Kreppuerfingi og þjóðaríþróttin
Núna er ég einn í kotinu. Verðandi frú Kreppa fór eitthvað út að borða með einhverri kerlingarherfu og skildi mig einan eftir, rauðvínslausan með fátt til þess að borða nema brauð, pestó og skinku þar sem ég nenni ekki að elda fyrir mig einann. Ég á reyndar slatta af Morenabjór svo að ég þarf ekki að horfast allsgáður í augu við veruleikann. Held að ég hefði ekki gott af því. Þá gæti mér farið að leiðast. Ég er líka að hugsa um að senda syni mínum bréf. Við eigum í mjög svo áhugaverðum bréfasamskiptum þessa dagana enda pilturinn að ganga í gegnum einkennilega krísu. Hann getur ekki gert það upp við sig hvort að hann ætli að verða rithöfundur eða myndlistamaður eins og móðir hans. Ég reyndar vill að hann verði bankamaður og leggi sig svo fram við það, þegar við verðum komin úr þessum öldudal sem nú ríkir, að kafsigla þjóðarskútunni á ný. Þá yrði ég stoltur. En mér miðar lítið í þá átt. Drengnum finnst ennþá ekkert heillandi við það að aka um á átta miljónkróna Benz og gambla með sparifé almennings í kauphöllum heimsins. Ég held að ég þurfi að fara að kenna honum póker og koma inn hjá honum smávegis spilafíkn þannig að hann gleymi öllum óarðbærilegum listamannsdraumum og snúi sér alfarið að því að reyna að tapa sem mestu á sem stystum tíma. Hinni nýju þjóðaríþrótt okkar Íslendinga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.