8.10.2008 | 19:10
Bókaþjóð aftur
Það er gott að vita samt af því að mitt í allri kreppu og svartnætti breytist sumt ekkert. Kvöldin hér eru alltaf eins. Verðandi frú Kreppa með óperu í botni að teikna, ég að bora í nefið og horfa á tunglið í gegnum gluggann. Ef ég væri ekki svona saddur af kjöti mundi ég standa á fætur og teygja mig í bók. Ekki eitthvað eymdarvæl eins og Sult eftir Hamsun, þó mig gruni að sú skræða verði brátt skyldulesning á Íslandi, heldur eitthvað léttmeti sem gæti fengið mig til þess að brosa. Ég reyndar man ekki eftir því að eiga þannig bók? Þó það gæti samt sem best verið? Sennilega hefði verið betra fyrir Íslensku þjóðina að halda sig við það að vera bókaþjóð en ekki bankaþjóð. Þá hefðu allir setið heima yfir einhverri uppbyggilegri skræðu í stað þess að sitja yfir tölvum að ráða í sveiflur á hlutabréfamörkuðum reiðubúnir til þess að kaupa allt sem til sölu var. Það er líka mikið skemmtilegra að tilheyra bókaþjóð, eins og ég reyndi eitt sinn sjálfur í leigubíl í Prag þegar bílstjórinn missti sig af hrifningu yfir Laxness, en að vera núna einn af þessum skríl sem setti heiminn næstum á hausinn. Það er enginn neitt sérlega ánægður með það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.