Allt eftir bókinni

Samkvæmt þessari könnun er allt eftir bókinni hér.  Ég hangi á vefnum, skrifandi vitleysu og spilandi póker (það eina sem mig vantar er Facebook) til að verða eins og kynbræður mínir á suðurhveli, á meðan verðandi frú Kreppa teiknar og saumar.  Það eina sem vantar er að einhver flytji okkur húslestur að gömlum sið eða kveði fyrir okkur rímur.  En rás1 kemst nálægt því að lýsa upp haustið hérna með upptöku frá Schwetzingen hátíðinni.  Ótrúlega svæfandi fiðlusarg.  En skárra en gjammið sem berst frá sítalandi blökkukerlingunni á hæðinni fyrir neðan.     

mbl.is Karlar kjósa vefinn - konur faðm fjölskyldunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að koma ekkert aftur

Ótíðindin ríða yfir mann eins og brotsjór frá þessu skeri þar sem allt virðist vera að fara til fjandans!  Áfengi og tóbak að hækka og hálf þjóðin á leiðinni á vergang ef marka má fjölmiðla.  Svo fólk getur ekki einu sinni drukkið sig í gegnum kreppuna.  Heldur þarf að þreyja þorrann og góuna edrú og reyklaust og pirrað af fráhvarfseinkennum.  Allt á nauðungaruppboðum og brunaútsölum og ekki aur eftir til þess að sljóvga sig í verstu hremmingunum.  Ég get ekki séð að það sé neinn tilgangur með því að snúa til baka.  Best væri ef sem flestir tækju sig upp og yfirgæfu landið sem er farið að minna á sökkvandi skip, komist þeir í bátana.  Best að fara út og kaupa vín sem er svo ódýrt að það tekur því varla að fleygja í afgreiðslukonuna þessu klinki sem það er verðlagt á.

mbl.is Áfengisgjald hækki um 11,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyndikynni

Af hverju finnst mér eins og þessi maður sem er að laumast út úr ónefndu húsi líti út fyrir að hafa verið á bar, pikkað upp léttlynda stúlku og sé núna að laumast heim, áður en dagar og stúlkan vaknar og vill barneignir og brúðarkjól?  Kannski er það bara ég sem er með svona saurugan hugsunarhátt en ég veit bara að þegar ég hef verið að hraða mér út úr húsum með fráhneppt niður á nafla og jakkann undir arminum, þá hefur það verið af ótta við að standa við það sem ég lofaði undir áhrifum.  Kannski þessi herramaður sé líka skuldbindingarfælinn og ánægður með piparsveina lífstílinn sinn?  Sem ég sakna svo sem ekki mikið sjálfur enda kalt að bíða eftir leigubíl í þunnri skyrtu í haustnóttinni.

(Gott að draugagangurinn í tölvunni minni er afstaðinn) 


Dularfulla færslan um skyndikynni

Hendi inn færslu undir yfirskriftinni skyndikynni áðan þar sem ég linkaði á mynd og það skemmtilega var það að þótt ég setti inn slóð á myndina, var ef smellt var á hana, farið beint inn á stjórnborðið hér í Kreppuheimi!  Ekki Það að þar sé eitthvað skaðlegt eða mikilvægt.  Engar upplýsingar um bankareikninga eða verðbréfaeign þar en mér leið svolítið með það að fólk kæmist inn í stjórnborðið eins og að koma til dyra á nærbuxunum.  Maður gerir það helst ekki ef maður telur sig til siðaðra manna!  Sem ég geri alla veganna öðru hvoru.  Ætla að fara að kaupa mér sígarettur og bjór og gera svo aðra tilraun til að fjalla um skyndikynnin. 

Borgað með bíl

Vinur minn send mér í pósti link á einhverja bílasölusíðu þar sem auglýstur var sportbíll og með honum 350þúsund kall ef einhver áhugasamur væri til í að yfirtaka lánin á bílnum.  En þau höfðu verið 2,1 milljón í vor en voru komin yfir 2,8 milljón þegar druslan var auglýst.  Greiðslubyrgði rúmlega 60þúsund kall á mánuði.  Ég verð að viðurkenna að ég brosti aðeins yfir þessu og vorkenndi ekki neitt eiganda bílsins sem hafði keypt hann í blússandi góðæri og uppsveiflu en svo ekki ráðið við afborganirnar þegar krónan fór að hrapa.  Og greyp nú til þess örþrifaráðs að borga í reiðufé, góð mánaðarlaun til þess að losna úr skuldasúpunni.  Sjálfur hef ég alltaf verið einn af þessum mönnum sem kýs að eiga ekki bíl (fyrir utan þegar ég hef þurft þess einhvers starfs vegna) og fara gangandi allra minna ferða eða í leigubíl en verðandi frú Kreppa er týpa sem vill eiga bíla og helst sem stærsta og dýrasta.  Þess vegna er gott að hún sá ekki þessa auglýsingu því að þá hefði hún eflaust viljað eiga bíl uppi á Íslandi (sem ekki mundi nýtast mikið hér) bara til þess að fá þessa meðgjöf sem hefði eflaust orðið eyrnamerkt kjóla og skókaupum.  Best að eyða svona ruslpósti strax.

Er Alþingi á Íslandi ennþá?

Eitthvað er fjarlægðin frá Íslandi að trufla mig núna því að á fréttum síðustu daga var ég orðinn þess fullviss um að ég væri ríkisborgari í einræðisríki?  En ef ég man mína sagnfræði rétt þá héldu þeir félagar Hitler og Mússólíni, báðir út einhverskonar þingi, þótt að aðeins einn flokkur ætti þar inn gengt.  Þannig að hugsanlega er þessi þingsetning bara blekking til þess að láta okkur halda að við búum við lýðræði og til þess að forsetinn hafi ástæðu til þess að fara á fætur í dag?  Kannski er þetta einhverskonar atvinnubótavinna fyrir þurfaling og hreppsómaga?  Þeir fá fín föt, vasapening, snittur og rauðvín gegn því að hylla forsetann og hanga í lekri kirkju.  
 
Ég get ekki sagt að ég hafi haft nokkurn áhuga á stjórnmálum, dægurmálum eða Íslensku þjóðfélagi yfir höfuð (fyrir utan þá sem stunda barina í hundraðogeinum) en kannski fjarlægðin frá landinu hafi þessi áhrif á mig?  Ég hangi hérna yfir tölvunni sítuðandi og fussandi yfir samsæriskenningum, valdníðslu stjórnvalda, eignaupptöku sem mun senda þá Baugsfeðga sem niðursetninga út á land, og allskonar öðrum skandölum sem virðast dynja á þjóðinni eins og haustregn.  Verðandi frú Kreppu til ama því að ég ekki bara trufla hennar iðju, heldur er ég búinn að koma því inn í hausinn á henni með þessu nöldri mínu, að við komum ekki í jólafrí til Íslands.  Hún getur ekki hugsað sér (eftir lýsingum mínum að dæma) að ganga um götur Reykjavíkur þar sem almúginn stendur í biðröð eftir súpu hjá mæðrastyrksnefnd en flokksgæðingar og einstaka auðmenn aka nánast yfir lýðinn á svörtum hummerum.
 
Það kæmi mér ekki á óvart að næsta frétt frá Íslandi væri sú að einhver hefði lýst yfir einræði eða að landi hefði verið selt hæstbjóðandi.  Hugsanlega með Thor einhverstaðar í nafninu?  Sá gæti svo lagt það undir í fjárhættuspili við rússneskan olíubófa.  Mig minnir að einhver Dana kóngur hafi reynt að selja Ísland kollega sínum í Englandi, til þess að grynnka á spilaskuldum? Sagan  hefur tilhneigingu til þess að endurtaka sig...
 
 
 
 

mbl.is Alþingi sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norskan kóng takk!

Þetta líst mér á!  Frændur mínir í móðurætt koma og bjarga okkur.  Og láta okkur endurundirrita gamla áttmála sem ég held að hafi reyndar aldrei fallið úr gildi og þá fáum við aftur norskan kóng, Ólafur getur farið á eftirlaun eða orðið konunglegur ritari og við böðum okkur á Íslandi upp úr Norskum olíuauð.  Þá get ég líka farið fríkeypis að hitta Kjell gamla frænda í Osló og látið hann (á áttræðis aldri) draga mig á Norska hommastaði og dragsjóv.  Jamm, norski ættleggurinn hneigist til eiginskyns, það er að segja, sá síðasti sem er ennþá á lífi.  Enda hefur það löngum verið orðatiltæki móður minnar þegar við systkinin höfum gert eitthvað verulega slæmt af okkur, að dæsa: helvítis norsku genin...

mbl.is Gæti lent á Norðmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naktir karlmenn

Mér var góðlátlega bent á það að ef mér leiddist gæti ég lesið bók eða farið út að skoða listaverk eða kirkjur.  Það er hálfgerður dumbungur úti og ég varla í stuði til þess að væflast um í veðri sem getur breyst í rigningu til þess eins að horfa á höggmyndir af nöktum körlum.  En þessi borg virðist ekki hafa upp á neitt að bjóða nema stælta og klæðalitla karlmenn á hverju horni.  Eitthvað hafa þeir verið gay í endurreisninni því að ég man ekki eftir að hafa séð svo mikið sem lágmynd af konu brjóstum?  Kannski hefur kynvilla verið inn í listaakademíunni þá eins og svo oft síðar?  Annars er list endurreisnarinnar eitthvað sem ég er ekki neitt sérlega vel heima í.  Hvorki skáldskapur eða myndlist.  Fór inn um eitt eyrað og út um hitt og kannski þess vegna er þessi borg fyrir mér eins og hver önnur Reykjavík, nema bara með hagstæðara verð á mat og víni.

Ég á örvandi

Áður en ég varð 18 ára hafði ég misst bílprófið tvisvar sökum drykkju en aldrei hefur mér dottið í hug að aka undir áhrifum örvandi efna.  Þegar ég hef neytt þannig ólyfja er það að fara í bíltúr ekki það fyrsta sem ég hugsa.  Nei, ég geng um og móðga sjómenn eða segi stúlkum að þær ætli heim með mér.  Hvorugt hefur reynst mér vel.  Hálfur togarafloti Íslendinga hefur barið mig eða reynt það og ótrúlegur fjöldi kvenna hefur hafnað mér.  Það voru þær heppnu.  Sem betur fer er ég alveg hættur að nota svona drasl enda með rándýran smekk á höfgu rauðvíni...

mbl.is Tekin undir áhrifum amfetamíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigert kvöld

Verðandi frú Kreppa veitti mér þann heiður að aðstoða mig við eldamennskuna í kvöld og meira að segja sitja til borðs með mér á meðan við borðuðum.  Í spilaranum var eitthvað óperugaul, kertaljós sem hafa þann eiginleika að gera verðandi frú Kreppu enn fallegri, rauðvín og skinka og pasta, allt mjög Ítalskt eitthvað...
 
Núna er hún enn og aftur farin að sinna sinni iðju með rauðvínsglasið fyrir framan sig og búin að festa hárið í hnút með penna og ég sit hérna og spjalla við unglinginn minn á msn og blogga og hlusta á feita Pavarotti gaula Nesum dorma...  Kannski ég fari og horfi á Guðföðurinn með Ítölskutali eða í klippingu og láti skjóta mig í tætlur meðan ég sit í rakarastólnum?  Eða bjóði mig fram sem páfa en til þess þarf ég að verða kardináli er hægt að kaupa þannig titil einhverstaðar? 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband