Skipt um ríkisborgararétt

Ég ætla að segja mig úr Íslenska ríkinu og sækja um sem ríkisborgari í Andabæ.  Þar er efnahagsástandið tryggt.  Enda treystir eini milljarðamæringurinn ekki bönkunum fyrir sínu fé.  Nei, hann geymir það í risavöxnum sparibauk og baðar sig upp úr því daginn út og inn.  Ef allir hefðu farið að hans fordæmi og bara grafið silfur sitt í jörðu að fornum sið eða geymt undir rúmdýnum, hefðu bankarnir ekki getað þanið sig það mikið að þeir sprungu eins og blaðra.  Svo nú þarf ég bara að finna hvar Andabær er staðsettur.  En ég hef vísbendingu.  Hann er fjögurþúsundkílómetra frá Fjarskanistan.  

mbl.is Miklir erfiðleikar blasa við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan lumbrar á Bubba!

Nú getur lögreglan séð sér leik á borði og hefnt hvernig farið var með þá í laginu ,,lög og regla" og mætt á svæðið með skildi og kylfur og gasað, járnað og barið Bubba og sýnt honum í eittskipti fyrir öll hvað gerist fyrir þá sem voga sér að setja sig upp á móti stjórnvöldum.  Gott ef þeir hafa ekki þá afsökun þegar þeir henda honum svo út úr grjótinu (þegar þeir muna eftir því að láta hann lausan) bláum og bólgnum að ,,skýrslur segi: hann var alltaf að detta..."   Vitiborið fólk ætti að halda sig fjarri Austurvellinum á miðvikudaginn en kveikja frekar á sjónvarpinu, þessu verður eflaust lýst beint!

mbl.is Bubbi boðar til mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaffikreppa

Þegar ég var yngri þambaði ég kaffi eins persóna í íslenskum sveitarómans.  Ég var svo stífur í drykkjunni að ég varð að vera svartklæddur alla daga til þess að fela kaffiblettina á mér.  Svo þegar ég varð 29 ára gafst maginn upp á þessari misþyrmingu í formi ofsoðin vatns með dufti út í.  En þar sem mikil og skelfileg fráhvörf fylgdu því að reyna að hætta að drekka kaffi, gafst ég upp á því og breytti bara neyslumynstrinu.  Svo að í dag drekk ég öllu jafna ekki meira en tvo bolla af kaffi og aldrei það kaffi sem hægt er að fá á stofnunum eða í bönkum (verði þeir aflögufærir um að gefa kaffi héðan í frá).  Mikilvægasti bollinn er sá fyrsti á daginn sem ég brugga úr nýmöluðum baunum og sýð svo á hellu á eldavélinni í þar til gerðri stálkönnu.  Þó að það kaffi sé talsvert mikið sterkara en sullið sem ég get keypt á kaffihúsum, veldur það mér aldrei svo mikið sem vindgangi.  Hvað þá ólæknandi magabólgum eins og hrjáðu mig á loka metrum þrítugsaldursins.  Reyndar hafi þessi breytta neysla mín á kaffi þau hliðar áhrif að ég jók drykkju mína á öðrum drykkjum sem ég get ekki hitað á eldhúshelli og mundi heldur ekki nenna að brugga í skáp undir súð en það er allt önnur saga...  En hversvegna þessi færsla um það hvort ég drekki kaffi eða ekki eða prumpi ef ég drekk mikið af því?  Jú, ég var að sjá það (þegar ég ætlaði að hella upp á eftir matinn) að það eru bara tvær baunir eftir.  Og allt útlit fyrir að hér sé skollinn á kaffikreppa.  Nema að ég hætti mér út í myrkrið að reyna að finna stað sem selur kaffibaunir?  Ég held að ég sé of mikil gunga til þess?  Ætla að hella rauðvíni í kaffifant og ímynda mér að það sé kaffi.  Nýmalað og rjúkandi.

Viðjar vanans

Verðandi frú Kreppa lofaði mér því að hún mundi taka sér frí um helgina og gera eitthvað skemmtilegt með mér.  Eitthvað skemmtilegt, spurði ég, hvað gæti það verið?  Henni datt strax í hug að við gætum farið á söfn eða kíkt í búðir.  Ég sagði að hugmyndir mínar um skemmtun væri ekki að horfa á hana máta milljón skópör.  Ef hún vildi skemmta mér gæti hún komið með mér að horfa á Fiorentina spila við Chievo á sunnudaginn, því að mér þætti fátt skemmtilegra en að hoppa sveittur innann um drukkna  og bölvandi karlmenn að öskra sig hása.  Henni þótt það ekki góð hugmynd til þess að verja sunnudeginum.  Eiginlega verri en sú að fara til kirkju.  Svo við sættumst á það að fara kannski út í göngutúr og á veitingastað en láta helgina annars bara líða við okkar sýsl, hún að teikna og ég að blogga.  Ég elska það að vera fastur í viðjum vanans.  

Massacretube.com

Þar kom það, stóra tækifærið mitt til þess að auðgast og koma með aukið fjármagn inn í kreppulúið Ísland.  Ég stofna einfaldlega vefinn massacretube.com en þangað geta allir geðveikir aular sent inn myndbönd með sér að skjóta úr skammbyssum, hylla Hitler, hrækja á myndir af Bush, og æla út úr sér allskonar vafasömum pólitískum og jafnvel kynferðislegum áróðri.  Þetta verður kjörlendi perverta og undirmálsmanna til þess að miðla og skiptast á skoðunum.  Og lögreglan þarf ekki að leita langt yfir skammt, bara að hafa einn mann á vakt, liggjandi yfir vefnum til að spotta mestu rugludallanna svo hægt sé að gera þá óskaðlega áður en þeir fara að brýna axir eða hlaða pístólur.  Allir græða en þó ég mest.

mbl.is Ósmekklegur hrekkur á YouTube
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný heimstyrjöld í uppsiglingu?

Á Íslandi hefur einu sinni verið mynduð þjóðstjórn og það var á vormánuðum 1939 vegna yfirvofandi átaka í Evrópu.  Nú vissi ég ekki að yfirvofandi væri enn eitt Evrópustríði, hef þó lesið eitthvað um að Rússar séu að berja á frændum sínum í Kákasusfjöllum en að þjóðir heimsins væru að vígbúast, hefur farið alveg fram hjá mér?  Nema að Davíð viti eitthvað sem ég veit ekki, sem er meira en líklegt?  Það er sennilega út af þessu sem Björn hefur alltaf í gegnum tíðina verið að betla á þingi einhverja pappíra um að mega stofna her.  Sennilega eru Danir að vígbúast og vilja losna undan oki okkar en mér skilst að í Danmörku sé ekki eftir eitt fyrirtæki sem ekki er íslenskt.  Ærin ástæða fyrir þá að láta sverfa til stáls og leggja okkur aftur undir sig.  Mér finnst að við eigum að veifa strax hvítum fána og beygja okkur glaðir undir gamalkunnugt danskt vald.  Ástandið á Íslandi mundi bara batna við það!

mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsið á sléttunni

Nú ætla ég að skammast út í verðandi frú Kreppu sem liggur yfir ebay, kaupandi tuskur og skó en lét framhjá sér fara þessa stóreign sem hefði komið sér vel núna í mesta kreppustorminum.  Það hefði verið hægt að halda þar heimili í anda hússins á sléttunni.  Sest að nýbökuðu brauði og maís og farið með borðbænirnar.  Og grátið.  Verst að við eigum engin börn og sonur minn of mikil gelgja til þess að hjálpa mér að plægja akrana eða vinna í sögunarmyllunni.  Og sennilega hefði hann ekki ekið með okkur hreinn og strokinn, til kirkju á sunnudögum?  En hvað um það, ég hefði verið til í þetta fábrotna og einfalda líf, alla veganna á meðan efnahagsástandið er þannig að peningar verða brátt verðlausir og sá verður talinn ríkur sem á fjóra poka af kartöflum.  Og pund af sméri.

mbl.is Keypti hús á 200 krónur á eBay
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri ógleði

Annað hvort drakk ég skemmt rauðvín í gær, er óléttur eða að þessi bölvuðu ótíðindi frá Íslandi eru farin að hafa líkamleg áhrif á mig?  Þrjúhundruð manns bíða í biðröð eftir bónuspoka með matvöru á síðasta söludegi.  Þurfa að fá beiðni fyrir skólamáltíðum fyrir börnin sín.  Þurfa að vera niðurlægð við það að ganga fyrir Fjölskylduhjálpina og biðja um aðstoð.  Minnir mig á ástandið í denn þegar tötralýður át Skálholtbiskup út á gaddinn í verstu harðræðunum.  Þá vorum við líka undireinræði.  Og þeir sem voru ríkir á Íslandi böðuðu sig upp úr innfluttu rauðvíni og hunangi og klæddust í silki.  Almenningur sauð sér mold til átu.  Mér finnst að Ríkið ætti að nota eitthvað af gróðanum við bankaránið á Glitni til þess að rétta hlut þeirra lægstu. 

mbl.is Yfir 300 fjölskyldur fá vikulega matargjafir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kindness of strangers

Í lífsleiða mínum eftir kvöldmat dundaði ég mér við að búa til skoðanakönnun hérna á bloggið mitt.  Hávísindalega sem ætluð var lesendum til þess að hjálpa mér hvernig ég eigi að verja tíma mínum hér og þreyja kreppusögur sem berast frá Íslandi á tíu mínútna fresti.  Ég hef það á tilfinningunni að fleiri og fleiri munu taka upp eftirnafnið Kreppa en þá með því skilyrði að ég verði óumdeilanlegur ættarhöfðingi.  En skoðanakönnunin vildi ekki festast inn á þetta blogg mitt.  Það var leitt fyrir mig því að ég er orðinn svo mikill vingull að ég get ekki lengur valið á mig föt á morgnanna, það er alfarið komið á ábyrgð verðandi frú Kreppu.  Þess vegna hafði ég ætlað mér að reiða mig eins og Blanche á ,,kindness of strangers..."
 
Hvað á ég að gera af mér?
 
1.  Yfirgefa verðandi frú Kreppu og halda beint á barina í hundraðogeinum - ég hlít að geta gert betur!  (Svo situr hún núna og skoðar myndir af ungabörnum á barnalandi.is - það hræðir!)
 
2.  Hætta að drekka og hætta að blogga og halda kjafti og vera hlýðinn og góður.
 
3.  Byrja að drekka uppúr hádegi og blogga við hverja frétt og helst standa í skítkasti við aðra bloggara? 
 
4.  Fá mér dagvinnu eins og annað fullorðið fólk!
 
Aðrir möguleikar verða líka teknir til athugunnar, í það minnsta settir í nefnd! 

Loksins viðurkenning!

Það virðist ekki vera tilviljun að við séum orðinn verri kostur en Kasakstan til þess að fjárfesta hjá.  Bæði ríkin hafa verið undir stjórn eins manns síðan 1991 en hinn mentaði einvaldur Kasaka er Nazarbaev og mun líklega verða ellidauður í embætti.  Gott að vita það að einhver leppalúðalýðveldi í mið-asíu séu að sigla fram úr okkur sem lönd tækifæranna fyrir fjárfesta.  Þetta minnir mig aðeins á stöðu karlalandsliðsins í knattspyrnu, það hefur verið í frjálsu falli á styrkleikalistanum og þykir yfirleitt vera veikara en lönd þar sem ekki fást takkaskór og eini fótboltinn sem fyrir finnst þar er saumaður saman úr nautshúðum, fylltur með sandi.  Ég er farinn að gera mig bitrann og þunglyndan með þessu þusi mínu um efnahagsástand og kreppu á Íslandi.  Ef ég get ekki farið að blogga um eitthvað jákvætt eða uppbyggilegt, fer ég niður á horn og drekk mig fullann!  Eða sleppi því kannski að lesa íslensku vefmiðlana?

mbl.is Ísland verri kostur en Kasakstan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband