Færsluflokkur: Bloggar

Timburmenn eða samviskubit

Annars er ég frekar timbraður núna og líður eins og persónu í rússneskri skáldsögu, allt eitthvað svo flókið, fólk deyr, fólk hatar og síminn minn er fullur af skrítnum smsum.  Og það eina sem vantar er sleði dreginn af hesti og úlfahópur í furuskógi, nótt og tungl sem speglast í snjónum.  Og loðhúfa og svipa og skotfæralaus byssa.  Ég held að ég eigi það skilið núna að úlfar nagi mig.  Það væri skárra en þessi samviska sem er að narta í mig.  Eða er það kannski bara timburmennirnir? 


Lagið sem hún söng

Eftir að hafa snætt fullkomna máltíð og drukkið úr næstum þremur flöskum af víni, stóð hún á fætur og söng með sinni fallegu og blíðu rödd.  Stóð í rökkrinu í stofunni og lifði sig inn í sönginn.  Og ég sat í sófanum og horfði á hana í þessum stutta, þrönga, gula kjól.  Dáðist að því hvernig líkaminn sveigðist með tónlistinni.  Og eitt andartak hvarflaði það að mér að standa á fætur og ganga til hennar.  Taka utan um andlit hennar, losa hnútinn í dökku hárinu þannig að það félli niður á bak hennar og kyssa hana.  Faðma svo að mér og hvísla að núna yrði allt gott!  En ég gerði það ekki.  Það hefði ekki verið nokkur innistæða fyrir orðum mínum.  Ég mun aldrei geta staði undir þeim væntingum sem hún gerir.  Þess í stað kveikti ég mér í sígarettu, tók sopa af víni og hlustaði á rödd hennar.  Svo kom hún og settist hjá mér, strauk niður andlit mitt og kyssti mig blíðlega á munninn.  Ég stóð á fætur, opnaði þakgluggann og leit út í nóttina.  ,,Ég get ekki séð tunglið héðan"  sagði ég.  ,,Þú og þín tungl" svaraði hún.  Og ég vissi að hún var fúl.  Við þögðum.  ,, Á ég að opna meira vín"?  Spurði ég loks.  ,,Endilega"  Svaraði hún.  Og ég vissi það þá að einhvern daginn mun hún gera einhvern mann mjög hamingjusaman og þá verður vinátta okkar á enda og ég bara dökkur skuggi á vegg.  Og ekkert sem mun minna á mig nema miðinn sem ég hengdi á ísskápinn hennar, undir stórum segli og mun ekki finnast strax.  Og nóttin leið og undir morgun slagaði ég heim í leit að stjörnum eða tungli og með samviskubit yfir því sem ég skrifaði.


Hverngi ég verð vinsælasti bloggari á Íslandi!

Það var mér enginn leikur að verða vinsælasti og virtasti bloggari á Íslandi með öllum þeim skyldum og kvöðum sem því fylgir, eins og að vera vikulegur álitsgjafi í Silfri Egils og framan á Séð og Heyrt.  En fyrsta reglan í bókinni segir:  bloggaðu um allar fréttir og hafðu skoðanir á þeim.  Og því bloggaði ég fyrstu um fréttina ,,Urðu fyrir margskonar ofbeldi".  Og sagði þar:  sorglegt mál. Auk þess legg ég til að Ólafur F. fari á Klepp og Vilhjálmur á Vog!  Því að ég var líka búinn að lesa í bókinni ,,Bloggað til frama", að það væri líklegt til vinsælda að níðast á þeim sem allir níðast á.  Næst tók ég fyrir fréttina ,,Loðnuveiðum hætt".  Þar sagði ég:  Vont mál, hefði aldrei gerst ef Dagur B. væri ennþá borgarstjóri, þá mundi fullt af loðnu finnast!  Auk þess legg ég til að Ólafur F fari á Klepp og Vilhjálmur á Vog! 

Eftir þessar tvær fréttir jukust vinsældir mínar örlítið en ekki nóg til þess að fara inn á topp 50 á mbl.is.  Þannig að ég fór að úttala mig um fréttir af týndum unglingum.  Engir unglingar mundu týnast eða strjúka af heiman ef Dagur væri ennþá borgarstjóri og Ólafur á Kleppi, Vilhjálmur á Vogi.  Þá væru allir unglingar rólegir heima að bródera eða borða popp, horfandi á Nágranna.  Við þennan Salómonsdóm minn fór fólk að virða skoðanir mínar og kommenta sem aldrei fyrr.  Ég var kominn í hóp gáfumanna á þessum miðli.  Og til þess að sýna það að ég væri líka manneskja en ekki bara skarpur strákur með skoðanir á pólitík og fréttum, bloggaði ég um það að amma mín lægi fyrir dauðanum.  Fjörgömul og södd lífdaga.  Við það bættist grátkór kvenna sem líka áttu deyjandi ömmur í kommentakerfið mitt og feldi þar tár og enduðu allar færslur á því að senda knús á mig! 

Samt var ég enn ekki kominn inn á topp tíu á vinsældarlistanum en þangað stefndi hugur minn.  Mig dreymdi í svefni og vöku að ég yrði einn af þeim tíu stóru.  Mér fannst það eins og vera meðlimur í G7 eða hvað sem þessar valdaþjóðir kalla sig?  Vera innvígður frímúrari, mafíósi sem fær að hita doninn.  Og til þess að komast þangað fann ég mér undirmálsmann til þess að ráðast á!  Nú, auðvitað karlinn sem heldur Supermann kvöldin víðfrægu og ráðist er á reglulega á barnalandi og á bloggsíðum um gjörvalt alnetið.  Ég birti færslu þar sem ég talaði um það hvað hárgreiðslan á honum væri ljót, hvað hann væri dópistalegur á svipinn og stelpurnar sem hann pósaði með, mellulegar.  Og til þess að þessi bloggfærsla færi nú ekki framhjá neinum bjó ég mér til nikk á barnalandi.is og skrifaði þar sem hneyksluð kona að aldrei fengi nú þessi eðaldrengur frið og linkaði á bloggið mitt.  Um kvöldið var ég í fyrstasæti á Moggablogginu!  Ókrýndur konungur hins ritaða orðs!  Nóbelsverðlaunahafi í dagbókarskrifum.  Og ég feldi tár og ég gladdist og steig stríðdans og sá fyrir mér að einn góðan veðurdag fengi ég að leysa Ellý af hólmi með baksíðudálkinn í 24 stundum.  Sigur minn var mikill...

Ég æli!  Frekar vil ég vera í kjallaranum í friði með minn bömmer og mitt væl um það hvað ég sé misheppnaður og seinheppinn og latur að elda og gefinn fyrir vín og drama en að komast á metlestrar lista fyrir það eitt að koma með tveggja línu athugasemdir við fréttir.  Og ráðast á þá sem allir hafa fyrir löngu migið yfir.  Mér finnst að bloggarar eigi að hafa persónulega rödd og vera hafnir yfir það að keppast um vinsældir og lestur.  Mér er sama þótt að fáir lesa mig, því að ég veit að þeir sem það gera, þeim er stundum skemmt.  Þannig er einhverjum tilgangi náð.  Ef það er þá einhver tilgangur með því að blogga?  Nema tilgangurinn sé sá að vera vinsæll og virtur og koma með fimmaurabrandara þegar það birtist frétt um það að fórnalömbunum frá Breiðuvík verði hugsanlega greiddar skaðabætur?


mbl.is Urðu fyrir margskonar ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögð drög að ferðasögu

Kominn í frí fram á mánudag og ekkert sem liggur fyrir nema að hafa ofan af fyrir sjálfum mér.  Er reyndar örlítið framlágri en vanalega eftir að hafa vakað til þrjú í nótt yfir ferðasögu Willem de Rubruquis.  Þar er alveg óvenju erfitt að slíta sig frá þessum miðaldarlýsingum á Asíu.  Og auðvitað er bókin full af furðum og misskilningi.  Meðal annars sá Rubruguis lifandi einhyrning og risa.  Sá hefur verið öruggur með það að enginn mundi feta í fótspor hans og afsanna þennan smá misskilning í dýra og mannfræði sem hann laumaði í skrudduna sína.  Ég fylltist svo mikilli hrifningu í nótt af lýsingum þessa fróma munks að ég velti því fyrir mér hvort að ég ætti ekki sjálfur að skrifa ferðasögu?  Ég gæti til dæmis sagt frá því þegar ég gekk frá Hlemmi og niður á Lækjatorg með viðkomu á hverjum einasta bar sem var á leið minni.  Þetta yrði dramatísk frásögn.  Ferðafélagi minn dó á miðri leið.  Ég kynntist kýklópum, einfættum mönnum með rautt skegg og staf, sá lögfræðing spýja, hitti ljóshærða stúlku sem falaðist eftir líkama mínum.  Og svo auðvitað er sagan frá síðustu öld sem hjúpar hana dulúð og óraunveruleikablæ.  Ég yrði sennilega, að verkinu útgefnu, talinn til mestu og þrautseigustu landkönnuða á Laugarveginum. 


Áminning um örlög

Vinkona mín hringdi rétt áðan til þess að minna mig á að ég væri boðinn í mat til hennar á morgunn.  Ég sagðist ekki vera búinn að gleyma því.  Búinn að kaupa í þrígang rauðvín og hvítvín og drekka það jafnóðum.  Hvernig gleymir maður svona timburmönnum?  Hún spurði mig hvað ég væri að gera og hvert ég vildi koma á bar.  Ég sagðist vera að vinna sem var lygi, ég vara bara að góna á reality tv eða einhvern álíka viðbjóð þar sem læknar í raunveruleikasjónvarpi taka glerbrot úr enni á fólki.  Og sauma það svo saman.  Það þarf einhver að sauma mig saman núna, ég er svo tættur að ég meika ekki fólk sem þykir vænt um mig, fólk sem vill vera mér gott.  Ég er alltaf að leita að dimmri holu til þess að fela mig í eftir vinnu.  Og drekka þetta vonda vín sem ég ætlaði vinkonu minni.


Ég ræðst gegn blóðsugum

Ég er að lesa um blóðsugur.  Ég átti einu sinni nokkrar fræðibækur um þetta fyrirbæri og uppruna þeirra en þessar bækur eru löngu týndar eða komnar í eilífðralán.  Ég trúi samt ekki á tilvist blóðsugna.  Eða að fólk geti orðið ódauðlegt á því að drekka blóð úr hálsi annarra.  En ég veit samt að blóðsugur eru til.  Svona blóðsugur sem sjúga úr manni allan mátt með því að vera til.  Ég þekki þannig stúlku, hún vinnur hjá mér.  Og alltaf þegar hún þarf að tala við mig einslega, en það þarf hún oft, verður eins og allur vindur úr mér.  Ég sýg saman og fölna, verð andlaus og heimskur og samþykki allt sem hún biður mig um.  Og það eina sem hún biður mig alltaf um eru frí.  Fá frí hérna og þarna.  Fara til tannlæknis, í klippingu, í mæðraskoðun og hún er ekki einu sinni ólétt.  Bara návist hennar ein og sér fær mig til þess að verða eins og loftlaus blaðra.  Ég gefst alltaf upp á suðinu í henni og samþykki allt.  Ég mundi skilja það ef hún væri svona gothgella með aflitað hár, í svörtu átfitti með hringa og gadda út úr öllu andlitinu, en þetta er ósköp hversdagsleg kona, ég tæki ekki eftir henni á götu, mundi ekki tala við hana á bar.  Á síðustu stofnun sem ég stýrði var svipað vandamál, þar voru þær tvær sem dvöldu á tannlæknastofum, sjúkrahúsum eða erlendis öllum stundum.  Og ég lét þær valta yfir mig í marga mánuði þangað til ég skammaði aðra og sagði hinni upp.  En þá var skaðinn skeður.  Þess vegna les ég núna um vampírur.  Ég þarf að vita hvað hvítlauksát gerir til að vernda mig.  Hvar ég fæ tréstikur til  að negla í gegnum hjartað á þeim.  Hvort að ég verið að vera í svörtum jakkafötum og með herðaslá þegar ég framkvæmi upprætinguna?  Hvort ég þurfi að nota ættarnafn (gæti tekið upp móður minnar), þarf ég aðstoðarmann?  Verður að vera myrkur og regn?  Eða á ég kannski að reyna að finna glósurnar mínar úr stjórnunaráföngunum sem ég tók og gá hvort að þar séu ráð gegn börnum næturinnar?  En eitt er víst, eftir helgi mun ég ráðast gegn þessum forynjum og hafa sigur.  Það er þeirra blóð eða mitt.  Og mitt er alltof dýrmætt þessa stundina til þess að spilla því. 


Ráðskona

Mér fannst einhver vera að sturta niður á klósettinu þegar ég kom inn.  Svo var ekki.  Hér er enginn.  Ekki einu sinni silfurskottur.  Og ég er kominn heim og búinn að setja svartan þvott í vél.  Duglegur er ég.  Veit ekki hvort ég nenni að elda í kvöld?  Veit ekki hvort ég nenni út til þess að bera mig eftir mat?  Kannski prófa ég: borða ekki neitt kúrinn í svona 12 tíma.  Ég vildi að ég hefði efni á ráðskonu, þá væru svona vandamál fyrir bí. 

Það væri eflaust mjög gott að hafa ráðskonu?  Svona miðaldra kerlingu sem mundi líta á mig sem unglingsson og passa upp á það að ég færi út með húfi í snjókomu, trefil, borðaði almennilega, færi snemma að sofa, vaknaði á vinnu, væri ekki of lengi úti á barnum...  En biddu?  Það væri eins og flytja aftur heim til foreldra.  Það mundi gera mig geðveikan og blankan því að svona kvenmenn þurfa laun.  Æji, þá er betra að þurfa stundum að elda ofan í einn? 

Og er ekki partur af því að búa einn að njóta þess að ráða sér sjálfur, þurfa ekki að taka tillit til neins, þurfa ekki að vera ábyrgur gerða sinna nema gagnvart sídofnandi samvisku?

Ég held að ég panti mér austurlenskan mat. 


Sumarið sem ég hætti að þroskast

Kommentið frá Röggu á síðustu færslu fékk mig til þess að muna eftir 15 ára (þá) kúkabrúnum golf sem ég djöflaðist á sumarið 1996.  Ég held að ég hafi verið á áskrift á einu verkstæði.  Útvarpið náði bara gufunni og rás2.  Það voru góðir tímar.  Ég hætti með barnsmóðir minni og fór að leigja með góðum vini mínum og við unnum líka saman.  Við vorum frekar bitrir á virkum dögum en hressir um helgar.  Ólafur Ragnar var kosinn forseti.  Hann er það ennþá.  Allt annað hefur breyst.  Nema kannski ég.  Sumarið ´96 er stundum ráðandi í lífi mínu.  Nema að ég er hressari á virkum dögum en ég var þá.   Þó finnst mér dálítið skelfilegt að geta horft til baka og bent á eitthvað tímabil í lífi mínu og getað andvarpað:  Ahhh, það var þarna sem ég hætti að þroskast! 


Íbúðir og borgir

Það er merkilegt með íbúðir og borgir að þegar maður hefur yfirgefið viðkomandi stað í síðasta sinn, hættir hann að vera til nema sem nafn á korti, númer við götu.   Og verður þess í stað eitthvað í huga manns sem er samblanda af minningum og óskhyggju.  Ég get til dæmis ekki munað fyrir mitt litla líf hvernig íbúðin sem ég bjó í á Þórsgötu ´92-´95 leit út?  En í huga mínum er í henni sófi sem ég eignaðist ekki fyrr en ég var löngu fluttur þaðan!  Það er eins með fólk og borgir, ef maður hittir ekki viðkomandi eða heimsækir lengi, verða breytingarnar stundum þannig að manni bregður í brún.  Stundum eru allir allt í einu orðnir gulari, minni, lotnari.  Aðrir með einkennileg blik í augum.  Svona eins og þegar maður kemur í borg sem manni er kunnug og þar sem átti að vera kyrrlátur listgarður stendur skógur af byggingarkrönum.  Ég er íhaldssamur í eðli mínu og mér er illa viðbreytingar.  Samt held ég að ég gæti ekki þrifist ef líf mitt væri ekki alltaf á sífeldi og stjórnlausri ferð, jökulá að vori...  Ég var að pæla í þessu því að í kvöld heimsótti ég vin sem var grafinn undir barnaþvotti og í gærdag gekk ég fram á konu sem ég þekkti ekki strax en var mér samt kær lengi fyrir nokkrum árum.  Ég þekkti hana ekki strax og þótt að hún bæði ávarpaði mig með nafni og brosti, var ég ekki búinn að átta mig á því hver hún var fyrr en það var of steint að stoppa hana til þess að spjalla.  Það er svo oft sem ég er eins og auli!


Án heila

Ég stóð ekki við það sem ég ætlaði að gera!  Í stað þess að fara beint heim eftir vinnu og koma mér fyrir uppi í rúmi með bókina mína þykkum um munkana sem fóru fyrstir þvert yfir Asíu á fund Mongólakhansins, fór ég og nagaði ólseiga pizzu.  Heimsótti svo vin minn sem stóð á miðju forstofugólfi, með þvott upp að hnjám og grátandi barn á hvorum handlegg.  Ég þáði ekki neitt, settist bara niður og varð fljótt ringlaður yfir látunum og óreiðunni.  Ég vissi ekki að lítil börn gætu tætt og draslað svona mikið út.  Hann vara sífellt að biðja mig um að bíða, hann kæmi rétt strax að tala við mig, hvort ég vildi kaffi?  Kaffið fékk ég klukkutíma seinna og baugóttann félaga beint á móti mér.  Við sátum við eldhúsborð í alltof sterkri birtu sem lýstu upp hverja hrukku og misfellu á andlitum okkar eins og flóðljós íþróttaleikvang.  Ég drakk kaffið og fór.  Kom heim og ákvað að það væri betra að þrífa núna í kvöld en á morgunn eða hinn.  Þreif.  Söng lag.  Og núna ætla ég að svara tveimur mailum sem ég hef ekki getað svarað eða ekki treyst mér til þess að orða rétt undanfarna daga.   Ég er bara svo andlaus að ég held að ég hafi gleymt mikilvægum hluta úr heilanum á mér á sama stað og ég gleymdi regnhlífinni minni um síðustu helgi.  Réttast væri að fara að reyna að nálgast báða þessa gripi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband