Færsluflokkur: Bloggar

Að sofa í tólf ár

Hvað getur maður sagt eftir dag í vinnunni þegar maður hefur ekkert afrekað og eiginlega haft það á tilfinningunni að maður sé frekar fyrir fólki en til nokkurs gagns?  Mér dettur helst í hug orðið útbrunninn!  En ég ætla að skella skuldinni á gauf fram eftir nóttu yfir bók.  Ég er orðinn óttalegur nátthrafn núna í seinni tíð, sef aldrei meira en fimm tíma á virkum dögum.  Samt er ég ekki að gera neitt merkilegt, bara að gaufast yfir sjálfum mér.  Nema auðvitað þegar ég er plataður (gott orð yfir það að vera ístöðulaus) á barinn.  Kannski er þetta ótti vegna þess að þegar maður er sextugur hefur maður eytt tuttugu árum í rúminu?  Mér finnst það alltof mikill tími í svefn.  Einn þriðji af ævinni.  Þá hef ég sofið í tólf ár miðað við daginn í dag.  Það er rosalega mikið af súrealískum draumum sem meika ekki sens og eru hæpin afþreying.  Ég vildi að maður kæmist upp með það að sofa bara í svona 4-5 tíma á sólahring en samt halda sér frekar skýrum.  En því miður, þessi líkami er vél sem þarf að huga að, svo að hún verði ekki eins og bíldrusla sem búið er að aka 50.þús kílómetra án smurningar og annars viðhalds.  Þykkur reykur og brunalykt.  Kannski reyni ég að sofna á kristilegum tíma í kvöld?


Heimurinn verður leiðinlegri og leiðinlegri

Þar sem ég er með heppnari mönnum, þá einhverja hluta vegna, næ ég nokkrum sjónvarpsrásum frítt.  Ég skil ekkert í því og ekki borga ég fyrir þær og á hverju kvöldi þegar ég kveiki á imbakassanum verð ég jafn hissa, þær eru þarna ennþá.  Ég get reyndar ekki sagt að þetta séu merkilegar stöðvar.  National Geographic og Discovery virðast bara senda út þætti um það hvernig á að lifa af flugslys og gera upp gamla bíla.  Og um Reality Tv treysti ég mér ekki að fjalla, ógrátandi.  Samt sem áður kveiki ég oft á þessum stöðvum, ef svo ólíklega vildi til að þær mundu sýna eitthvað sem mundi fræða mig eða í það minnsta skemmta.  Það næsta sem hefur komist því var röð þátt (ég sá tvo) sem fjölluðu um það að afsanna eina og aðra þjóðtrú.  Einn þáttur fór í það að merkir sérfræðingar héldu lærðar ræður um það að Loch Ness skrímslið væri ekki til, hefði aldrei verið til og það væri heimska að halda að risaeðla gæti lifað og hvað þá falist í köldu fjallavatni.  Auðvitað vita allir sem eru með sæmilega meðalgreind að skrímsli eru ekki til.  Nema bara mennsk!  Og að það er ekki nóg æti í fjallavatni fyrir dínósár.  En hvað með hina sem hafa gaman af því að trúa því að heimurinn sé furðulegri og dularfyllri en hann er?  Af hverju var verið að ræna frá þeim ánægjunni?  Þórbergur hefði brostið í grát hefði einhver sannað það fyrir honum með vísindalegum hætti að engir nykrar séu eða hafi verið til! 

Í öðrum þætti var svo ráðist gegn draugum.  Nokkrir frægir (erlendir) miðlar afhjúpaðir sem loddarar og sýnt hvernig hægt er að magna upp draugagang í gömlum húsum með einföldum sálfræði brellum.  Mér leiddist þessi þáttur.  Hann minnti mig á þættina sem voru á Stöð2 um manninn sem ferðaðist um Ameríku og rak út drauga sem höfðu hreiðrað um sig á hótelum.  Allt voðalega heimskulegt.  Og auðvitað eru draugar ekki til.  Þeir eru bara paranoja og massahyrstería sem greip fólk fyrr á öldum þegar hús voru illa upplýst og brakaði í hverjum vegg og hverri hjör.  En fullt af fólki trúir á drauga og setur þá í samband við framhaldslíf.  Verður ánægt ef hauslaus móri verður á vegi þeirra, því að hann er sönnun fyrir hinu eilífa.  Ég trúði staðfast á drauga þegar ég var strákur.  Og mundi gjarna vilja trúa á þá í dag.  Þá mundi vindurinn í þakskegginu og marrið í stofuglugganum hárin til þess að rísa á bakinu á mér af hræðslu.  En núna hafa vísindin afsannað tilvist alls í eitt skipti fyrir öll!  Ekkert er til sem ekki sést eða hægt er að snerta á.

Ég ætla ekki að horfa á þáttinn þegar þeir afsanna tilvist geimvera.  Ég verð að fá að trúa á eitthvað skrítið, halda í einhverja sérviskulega von um það að heimurinn sé ekki eins einfaldur og leiðinlegur og hann er!


Brátt verður júróvisíón alla daga

Gekk um í miðbænum áður en ég fór og keypti kjúkling í metnaðarlausa eldamennsku.  Ótrúlega milt og fallegt veður enda talsvert af fólki í bænum.  Gekk kringum tjörnina og lét mig hlakka til þess þegar það kemur vor.  Þessi vetur er búinn að vera langur og dimmur og hreint út sagt tilbreytingarlaus og leiðinlegur.  Held að ég sé reyndar með smá snert af skammdegisóþoli sem liti skoðanir mínar á veðurfari og færð.  Og dimmu.  En hver er það ekki á þessum útnára næst Norðurpólnum?  Held að það séu fáir sem finnst janúar vera skemmtilegur mánuður og hlakka til komu hans allt árið?  Kannski einhverjir sem eru á uppáskrifðum gleðipillum og brosa hringinn, líka í jarðskjálftum, snjóflóðum og öðrum hamförum sem dynja á viðkomandi.  Kannski það ætti bara að skilda alla Íslendinga til þess að taka svona pillur?  Held ekki, við yrðum þá öll eins.  Hoppandi kát, syngjandi gleðisöngva.  Þá væru alla daga júróvisión!  


Fjölskylda mín þolir mig ekki

Og meðan ég var að berjast við þann leiða sem tilheyrir því að þurfa að koma mér að hitta foreldra mína (ekki misskilja mig, þau eru skemmtileg og allt það) með aðstoð strætisvagns en þá bíla þoli ég ekki, hringdi mamma og sagðist ekki nenna að fá mig í mat!  Nú, hvað gerði ég núna?  Spurði ég.  Ekkert, ég er bara þreytt og svo er pabbi þinn að fara út í nótt!  Mér létti og við ákváðum að borða frekar saman í vikunni.  En ég gleymdi að spyrja hvert karlinn hefði verið að fara?  Ekki að horfa á fótbolta á mánudegi, hlýtur að vera ráðstefna?  Annars kemur það mér ekkert við hvaða flandur er á fjölskyldumeðlimum.  Ég vissi til dæmis ekki af því að mágkona mín hefði verið í Tókýó fyrr en bróðir minn hringdi einn og einmana eitt laugardagskvöldið og vildi fá mig í heimsókn.  Ótrúlegt hvað samskiptin í þessari litlu fjölskyldu eru stopul, alla veganna í minn garð.  Ég hef það stundum á tilfinningunni að þeir sem standa mér næst vilji helst gleyma mér?  Kannski er þetta vegna þess að ég hef ekkert að segja?  Ég get nefnilega verið alveg ótrúlega leiðinlegur innan um fólk!  Kannski ég fari að taka mig á og verði með tíð og tíma hæfur til þess að eiga samskipti við mína nánustu?  En það bíður betri tíma, núna er það spurning um hvað ég ætla að borða í kvöld?  Ég er meira að segja í stuði til þess að elda, aldrei þessu vant!  Best að ég fari og kaupi kjúkling! 


Karlar í pottum

Fór í sund og hlustaði á gamla karla í heitapottinum fussast yfir söngvakeppninni í gær.  Þeim fannst ekkert gott, og allt sem í boði var vond landkynning.  Eftir örfá ár verð ég einn af þeim.  Gamall og bitur og finnst allt fúlt, lélegt og ljótt.  Og byrja allar setningar á:  ég man í gamladaga...

Keypti mér svo bakarísmat og bók.  Ég veit ekki hvort ég nenni að dröslast í kvöldmat hjá foreldrum mínum í kvöld?  Hef ekki borðað með þeim í margar vikur svo að ef ég afgreiði kvöldmat í kvöld, þá er ég laus allra mála fram í miðjan mars.  Best að ég fari og sýni þeim að ég er ennþá með alla útlimi og nokkuð heill.


Ég væri höfðinu styttri

Mér finnst þetta gott hjá trúarbragðalögreglunni að handtaka menn fyrir að breaka eða eitthvað álík á opinberum stöðum.  Ef þessi lög væru við líði á Íslandi mundi það koma í veg fyrir að menn eins og ég gengu lausir.  Menn sem hafa svo lítið fyrir stafni að þeir líta á það sem dægrastyttingu að fleka konur.  Ímyndum okkur að ég væri hýddur eða hengdur í hvert sinn sem ég tældi varnarlausa stúlkukind?  Það liggur í augum uppi að ég mundi ekki gera mikið af því aftur?  Nema að ég gengi aftur?  Sem er líklegt, það er allt fullt af hauslausum afturgöngum í mínum ættum.  Og þeim fer víst fjölgandi.  Ég vona bara að einhver alþingismaðurinn verði svo framsýnn að leggja fram frumvarp sem bannar mönnum að daðra við konur á almannafæri að viðlögðum þungum refsingum.  Þess í stað tökum við bara upp þann sið sem ennþá ríkir hjá liðinu með handklæðin á hausnum, að kaupa okkur konur.  Og undirrita samning um það að sé þeim skilað, fái maður helminginn af kaupverðinu til baka.   Annars yrði ég fljótt gjaldþrota.  Og hauslaus.  Óskemmtileg tilhugsun. 


mbl.is Handteknir fyrir að daðra við stúlkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verða fluttir fordómar!

Og við sendum verðuga fulltrúa út til þess að tapa fyrir Slövum í Serbavisíon.  Strípupar dauðans!  Þau eiga eftir að dansa sig út úr þessari keppni á nótæm.  Skil ekki hvers vegna við erum að taka þátt í þessari keppni?  Lögin sem send eru inn í forkeppnina eru annað hvort grín frá gömlum rokkhundum eða þá svo mikil froða að það lekur gröftur úr eyrunum á mér bara við það eitt að ímynda mér hvernig þau hljóma!  (Ójá, ég fylgist ekki með svona forkeppnum.)  Enda hefur mér ekki verið boðið í júróvisíon partý síðan 1999 þegar ég bölvaði svo mikið að hommarnir sem héldu partýið roðnuðu (en bölvuðu sjálfir yfirleitt eins og sjómenn) og báðu mig um að fara áður en þeir óhörðnuðu sem voru í samkvæminu mundu hringja í foreldra sína til þess að láta ná í sig!  Og fyrst við erum að fara að tapa í balkanvisíon hvers vegna töpum við þá ekki með stæl?  Býð mig fram til að syngja (laglaus og falskur) Stál og hnífur eða bara hvað sem er, það yrði þó alla veganna súrelískt fyndið.  Er farinn að drekkja sorgum mínum yfir því að hundrað þúsund mannsgreiddu atkvæði í þessari keppni. 


mbl.is Eurobandið fer til Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10:15 saturday night

Neitað að fara og stimpla mig in á barinn í kvöld, jafnvel þótt að ég væri búinn að drekka smá rauðvín, ég sagðist ekki vera til í að hitta fólk.  Félagi minn sagði ókey, hringi eftir viku eða eitthvað og lagði á.  Vinkona mín spurði nokkrum sinnum:  hvers vegna viltu ekki hitta fólk?  Ég svaraði alltaf: ég hef ekki grun, ég er bara ófélagslyndur í kvöld!  Hún varð fúl og lagði samt að lokum á.  Við það varð ég eitthvað svo kátur!  Ég var heima á laugardagskvöldi og mig langaði ekki út.  Það hefur varla gerst síðan fyrir mörgum mörgum mánuðum.  Og ég nenni ekki að muna hversvegna?  En ég er líka með nokkrar ólesnar bækur og myndina There will be blood, sem ég ætla að horfa á í nótt.  Svona þegar ég er búinn að lesa/tölvast/klára rauðvínið og fá mér kannski einn bjór líka?  Djöfull hlýtur lifrin í mér að vera stór?  OG ég hlít að vera fullur fyrst ég stel yfirskriftinni á þessari færslu frá the cure?  


Fyrir sjöhundruð árum

Fyrir sjöhundruð árum eða haustið 1990 álpaðist ég á tónleika í Tunglinu sáluga (en þaðan á ég margar fagrar minningar) með enskri hljómsveit sem aldrei náði neinni frægð og hét Band of holy joy.  Flestum sem ég þekki og ég hef leyft að heyra í þessari sveit (átti tvær plötur á vínyl, mjög rispaðar í dag) verða hissa og hlaupa svo inn á klósett til þess að æla.  Engum þykir þessi sveit skemmtileg nema mér.  Mér finnst hún æði.  Sérstaklega af því að hún varð aldrei fræg og er löngu hætt.  Svo er útlit sveitarmeðlima ekki að gera neitt sérstaklega mikið fyrir þá.  En í mínum huga eru þeir og verða alltaf einir af þeim stóru!  Kannski af því að þetta voru fyrstu tónleikar sem ég fór á og gat drukkið mig út af kortinu á?  Og ég man að ég fór í sleik við rauðhærða stelpu með mikið sítt hár.  Síðar áttu leiðir okkar eftir að liggja saman í framhaldsskóla og við verða ágætir vinir.  Henni þótti ég alltaf hálfgerður hálfviti.  Ég hitti hana fyrir nokkrum vikum á Ölstofunni.  H'un sagði að ég liti ennþá út fyrir að vera átján, ég sagði að hún liti út fyrir að vera fimmtug.  Henni þótti vænt um það að ég væri ennþá ósvífinn.  Hún bað mig um símanúmerið hjá mér, vildi hitta mig til að tala um gamla og löngu liðna tíma.  Ég sagðist vera búinn að gleyma öllu, það væri ekki til neins að ræða við mig um það sem væri liðið.  Fólk kæmi og færi og það væri ástæða fyrir því að leiðir fólks skildu.  Henni fannst ég sama fíflið og fyrir átján árum.  Ég var nokkuð sammála því.  Eftir þessu myndbandi að dæma er nokkurn veginn eins komið fyrir þessari ágætu hljómsveit (myndband frá sorglegu kommbakki 2003) og mér.  Allur þokki horfinn og bara flatur bjór í krús og dægrastyttingin er sú að rífa kjaft við landeyður á barnum. 


Sjáið hommann!

Þegar ég gekk framhjá Hótel Borg áðan tók ég eftir því að hópur miðaldra karlmanna (þeir voru sennilega á mínum aldri en feitir, ljótir með hverfandi hár) stóð þar fyrir utan og reyktu.  Um leið og ég gekk hjá gólaði einn þeirra og benti á mig:  sjáið hommann, mar!  Passið ykkur að snúa ekki að honum rassinum!  Mér varð svo brugðið að ég stoppaði og leit á manninn og spurði hvort hann ætti við mig?  Þú veist það best sjálfur sagði hann og hló og hópurinn með honum.  Digurbarkalegum þöngulhausa hlátri.  Mér fannst mjög skrítið að þeir álitu mig homma?  Ég sé ekkert í fari mínu sem bendir til þess að þar fari maður hýr og kátur.  Og ekki var ég hommalega klæddur, í svörtum gallabuxum, samlitum jakka og skyrtu og í kúrekastígvélum.  Mjög karlmannlegt, eiginlega leiðinlega eintóna og glyslaust.  Ég hef aldrei til dæmis þekkt homma sem hefur gengið svartklæddur.  Hommarnir sem ég þekki velja liti og glamúr.  Og varla er hárið á mér svona hommalegt?  Ljósbrúnn lubbi ofan í svört og þykk gleraugu?  Ætli ég dilli rassinum þegar ég geng? 

Leiðinlegast við þessar aðdróttanir fannst mér samt fordómarnir í þessum körlum.  Menn á miðjum fertugsaldrinum sem ennþá halda að hommar stökkvi á alla rassa og setji í þá?  Og að samkynhneigðir séu eitthvað hættulegir?  Helvítis fordómar hjá virðulegum körlum í jakkafötum.  Mönnum sem hafa eflaust völd og áhrif?  Þótt að gáfnafar þeirra benti ekki beint til þess við fyrstu viðkynningu.  Ég sé eftir því að hafa ekki sagst vera hýr og kátur og spyrja hvort að þeir vildu ekki bara bjóða mér með sér í mat? Undir borðum gæti ég svo frætt þá um allan minn öfugugga hátt! 

Ég ætla að líta á það sem hrós að ég hafi verið kallaður hommi.  Þá er eitthvað við mig sem vekur eftirtekt kynbræðra minna.  Og einhver þeirra er örugglega leyni hommi eða bisexjúal og hugsar um mig á meðan hann fær það inni á klósetti meðan eiginkonan hans eldar.  Ef hann bara vissi hvað ég er skelfilega venjulegur.  Honum mundi sennilega ekki standa til stráka aftur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband