Færsluflokkur: Bloggar
29.2.2008 | 18:06
Ég er norn!
Fyrir meira en áratug vann ég á ónefndum fjölmiðli og tók þá viðtal við konu, örlítið eldri en ég var þá, sem hafði fyrirsögnina: ég er norn! Í viðtalinu (sem var sem betur fer stutt) sagði hún frá því þegar hún var í nornaskóla í Englandi og lærði að galdra. Taldi hún sig búa yfir krafti til að brugga seiði sem gætu gert karlmenn vitlausa í hana. Viðurkenndi hún að hafa lífsviðurværi sitt á því að galdra til sín menn sem veittu vel. Ég trúði varla orði af því sem hún sagði en hlustaði en glósaði allt samviskusamlega niður (hafði heyrt að bestu blaðamenn í heimi notuðu ekki diktafón, kannski þess vegna var ég ekki langlífur í starfi? Allt skolaðist til í minninu.) Síðar rakst ég oft á þessa konu á börum þar sem hún bar í mislangdrukkna ógæfumenn bjór. Sem er sennilega sá eilífi nornaseiður sem konur voru brenndar á báli fyrir að byrla mönnum fyrr á öldum. Eftir óminni og fýlu eiginkvenna urðu þessir höfðingjar að útskýra bólfarir sínar með annarri konu á einhvern dramatískari hátt en það að stundar firring og almenn gredda í kjölfar ofurölvunar hafi ráðir framhjáhaldinu.
Síðast þegar ég sá þessa ,,norn" hafði útlitið fölnað og eflaust var drykkurinn sem hún bar í menn orðinn minna göróttur, því að hún bað mig um að splæsa á sig einum vodka í vatn og minnti mig á þetta viðtal sem ég tók og var fyrir löngu búinn að gleyma.
![]() |
Síðustu nornirnar náðaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 17:54
Kæra e!
Í desember bauðst mér það starf sem ég gegni í dag og vegna velvilja fyrrum yfirmanns fékk ég að stökkva á það tafalaust. Bæði voru launin nærri því tvöföld miðað við það sem ég hafði, auk þess sem ég var búinn að gera allt á þeirri stofnun sem ég gat gert. Ekkert eftir nema að endurtaka sig. En þar sem brotthvarf mitt bar við með mjög skjótum hætti náði ég ekki að kveðja alla eins og ég vildi. Lofaði ég meðal annars konu einni, sanntrúuðum kaþólikka 20 árum eldri en ég, að senda henni mail til þess að skemmta henni með því bulli sem hún var vön að hryti af mínum vörum í okkar sameiginlega hádegismat.
Ég byrjaði á þessum maili í lok desember. Og hann hófst á orðunum: kæra e! Eins og ég væri að fara að skrifa því ágæta eiturlyfi bréf og þakka fyrir okkar kynni. Og þeim nóttum sem ég hef setið úti í horni og strokið sjálfum mér eða séð skæra liti eða dansað eins og tíu baksviðsöngvarar í júróvisíon! Og bréfið hófst. Og lengdist. Og varð að einhverri þráhyggju. Á hverjum degi skrifaði ég svona 2-5 blaðsíður og áður en ég vissi var ég farinn að rekja, þó ekki beint, heldur hlaupið til og frá í tíma, harmsögu ævi minnar. Öll mín vonbrigði, axarsköft og almenn afglöp. Og allt fært í stílinn til þess að hrella þessa sanntrúuðu og góðhjörtu konu. Og ég var farinn að fá það á samviskuna að vera að stela Bréfi til Láru, án þess að hafa í mínu bréfi pólitík eða árásir á kirkjuna. Ég vildi forðast það þar sem þessi kona þiggur sakramentið reglulega frá Séra Jurgen. Auk þess læddi ég í þetta bréf frásögnum sem aldrei hafa gerst nema í huga mínum, nokkrum hvítum lygum og sögum af því sem ég get ímyndað mér að fólk sem ég þekki gæti hafa tekið upp á. Þá var ég óspar á lýrískar og myndrænar kynlífslýsingar. Því að það ber huga mínum og geðheilsu fagurt vitni að sitja heima, drekkandi rauðvín og skrifa konu á sextugs aldri lýsingar á því þegar ég missti sveindóminn, þegar ég fór heim með ónefndri myndlistarkonu (sem við bæði þekkjum), þegar ég var fórnarlamb lasta annarra þekktrar konu. Þá laug ég upp á mig hörmulegri barnæsku og þrælkunarvinnu í sveit. Ég held að ég hafi sofið til tíu á morgnanna þessi sumur sem ég var skikkaður til þess að vera úti á landi, innann um landadrekkandi búkarla (sem fylltu mig reglulega og höfðu gaman af) og sískítandi fjórfætlinga.
Núna er þetta bréf næstum hundrað blaðsíður og ennþá ósent. Og ég á bara eftir að ljúga upp á mig nokkrum sögum í viðbót áður en ég slæ botn í það. Og sendi konu greyinu til hrellingar. Kannski þá get ég snúið mér að næsta verkefni sem býður mín í skriftum? Þráhyggjan verður þá liðin hjá. Þessi þráhyggja að ljúga að miðaldra konum og gera mig hlægilegan í augum umheimsins. Af hverju gat ég ekki bara fæðst með fetish fyrir kvenmannsklæðum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 17:26
Eftir erfiðan dag er...
Eftir að hafa eytt deginum í það að vera lifandi boxpúði fyrir frústerað lið er gott að koma heim. Búinn að setja í vél, kaupa í matinn og opna bjór. Ætla að fara í bað og hlusta á John McCormack (1884-1945) syngja með sinni rispuðu vínylrödd á meðan ég læt þreytuna líða úr mér. Og planið fyrir kvöldið? Ekki neitt nema góð tónlist, matur, drykkur og rólegheit. Get valið um það að lesa, hengslast um á víðáttum netsins eða horfa á kvikmyndir. Ég hef fráboðið mér það að fara út. En ég veit samt að eftir gott og notalegt bað gæti það breyst. En er samt meira í stuði fyrir það að blogga manískt eða gera eitthvað sem krefst þess ekki að ég segi eitt aukatekið orð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2008 | 21:36
Dularfull gjöf
Þegar ég kom heim upp úr átta í kvöld sá ég að í póstkassanum mínum var brúnt umslag sem aðeins nafnið mitt hafði verið skrifað á. Ekkert heimilisfang, ekkert frímerki. Innihélt þessi pakki litla mynd, svona átta sinnum átta sentímetra, málaða með olíu á tré. Myndefnið: Nakin kona á svörtum grunni hendurnar útfrá líkamanum, lappirnar í sundur. Svo hún myndar næstum x.. Tvær stjörnur fyrir aftan hana. Og enginn orðsending, engin áletrun. Það eina sem ég veit er að myndin er ekki eftir neinn þann listamann sem ég þekki. Samt er hún ekki amatörslega gerði. Og mér sýnist á áferðinni að yfir hana hafi verið lakkað.
Myndefnið truflar mig. Af hverju er einhver að senda mér nakta konu og stjörnur? Er þetta grín? Viðvörun? Boðsmiði? Þessi mynd á eftir að halda vöku fyrir mér í nótt nema að gefandinn komi fljótlega í ljós?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2008 | 00:01
Ógæfu söngkona
Claudine Longet er söngkona sem flestir (sem eru komnir til vits og ára eða hvað svo sem maður segir?) muna kannski eftir sem eiginkonu Andy Williams. Sem slík kom hún iðulega fram í vinsælum sjónvarpsþætti sem bóndinn stýrði. Og í kjölfarið gaf hún út nokkrar ,easy listening, plötur. Stundum söng bóndinn dúett með henni. Ég hafði á einhverju tímabili í lífi mínu gaman af henni. Fannst hún kannski ekki besta tónlistarkona í heimi en rödd hennar og angurvær flutningur átti stundum vel við kertaljós, rauðvín og snjókorn á þakglugga. Seint á sjöunda áratugnum skildu þau Andy og hún tók saman við eitthvað skíðahönk og flutti inn til hans með börnin sín þrjú. Hönkið sem hét því ágæta nafni Spider Sabich var eiginlega ekki (frekar en margir karlmenn sem ég þekki) búinn að hugsa út í hvað það þýddi að fá frauku með þrjú börn inn á piparsveinaheimilið sitt þar sem hann var vanur að fleka táningsstúlkur. Urðu því árekstrar tíðir. Og fóru leikar svo að Claudine skaut karlinn af stuttu færi. Verjendur björguðu henni frá löngu fangelsi. Hún býr í París í dag. Og ég ætla að hlusta á hana fyrir svefninn og sjá hvort að liðin tíð vitji mín í draumi?
Hér er hún með Andy karlinum meðan allt var ljúft og gott og skaðlegar skammbyssur víðsfjarri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2008 | 22:24
Magnaður skáldskapur
Horfði á dásemdina Cat on hot tin roof með Paul Newman og Elizabeth Taylor í fyrsta sinn í kvöld. Hafði séð úr henni og leikrit Tennessee Williams kann ég næstum orðrétt utan að. Myndin var snilld enda handrit og leikur til mikillar fyrirmyndar. Ég tók aldrei eftir því að hún væri hálfra aldar gömul, enda sogast maður inn í verkið frá fyrstu mínútu. Og nær ekki að líta sig frá því fyrr en löngu eftir að það er búið. Eitt af þessum verkum/myndum sem maður er lengi að hugsa um á eftir. Og mikið var Elizabeth falleg fyrir fimmtíu árum. Og kjóllinn sem hún er í í myndinni minnti mig á fyrrverandi konuna mína. Og viskídrykkja Paul Newmans (sleitulaus) á það að ég fór alltof seint að sofa í nótt. Og merkileg þessi drykkja í verkum bandarískra leikskálda frá þessum tíma? Nokkur verka O´Neills og Albee´s frá svipuðum tíma eru svo gegnumsósa af viskí að maður fær timburmenn bara við það eitt að strjúka kilina á verkum þeirra í bókaskápnum. En er það ekki bara magnaður skáldskapur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 15:07
Að flýja stúlkudrengi
Þessi frétt um furðulegustu bókatitlana vekur nú upp hjá mér mikla forvitni. Ég meina, hver vill ekki lesa um þann sem var pyntaður af ástardrottningu dvergana? Ég hreinlega verð að eignast þá bók. Sem minnir mig af sögu sem ég heyrði frá Sjónvarpseyjum (T.V. island) sem liggja úti fyrir strönd Papúa Nýju Gíneu ef ég man rétt, en þar fæðast svo fáar stúlkur að allt að helmingur drengja eru aldir upp sem konur. Og lifa sem slíkar, giftast og halda heimili en eignast ekki börn. Ef ég heimsæki einhvern tíman þá eyju, mun ég skrifa bókina: Ég var hundeltur af ungum drengjum sem vildu kynlíf en slapp á lekum kanó. Held að sú bók gæti komið sem greina, ekki bara sem versti bókatitillinn, heldur líka jafnvel versta bók allra tíma. Í það mundi ég leggja metnað minn.
![]() |
Leitað að furðulegasta bókatitlinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 13:00
Enn ein Ódysseifsförin
Ég var varla búinn að skrifa setninguna: ég slekk á símanum en þessi friðþjófur hringdi. Vinkona mín vildi fá mig út í drykk. Og ég, ístöðuleysið uppmálað, sló til. Sátum með félaga okkar til klukkan að verða tvö og blöðruðum. Enduðum svo tvö heima hjá henni að drekka vín og hlusta á tónlist. Ég var ekki kominn heim fyrr en þrjú í nótt. En sem betur fer lág ekkert sérstakt fyrir í dag hjá mér, þannig að ég get notið þess að vera þreyttur, andlaus og baugóttur. En ég verð að fara að taka mig á. Það þarf ekki neitt til þess að ég sé rokinn af stað í einhverjar Ódsseifsferðir á knæpur eða kvenmannsíbúðir. Ég er að verða orðinn alltof gamall fyrir svona líferni. Jafnvel þótt að félagi minn hafi sagt við mig í gær að ég væri barn að aldri. (Miðað við hann 44 ára). Verst er að ég get ekki farið að taka mig á fyrr en eftir helgi. Tónleikar á morgunn þar sem einhver nákominn mér leiðir nýja hljómsveit með söng og gítarslætti, matur á föstudag og út á borða á laugardag. Á sunnudaginn er ég að hugsa um að haga mér eins og munkur. Hvar fær maður góða hnútasvipu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2008 | 22:41
Of mikið drama
Dagurinn í dag er búinn að vera fullur af drama. Eins og ofhlaðinn kvikmynd. Og ég er búinn að komast að því að ógæfa annarra er yfirleitt mér að kenna, beint eða óbeint. Mér finnst eins og helmingurinn af orku minni hafi verið undin úr líkama mínum. Fingurnir sem renna yfir lyklaborðið, gera það hægt og silalega og eru þungir. Skyndilega er ég lotinn í herðum. Og eflaust hefur hrukkum fjölgað og þær dýpkað. Á svona stundu á maður að skríða beint upp í rúm og draga sængina yfir höfuð. Eða fá sér fjórfaldan dræ gin. Ég veit ekki hvort ég ætla að velja?
Á morgunn mun svo dramað halda áfram. Eftir vinnu mun ég fara og kveðja tvær konur. Önnur er að deyja...
Mig dreymir um að komast frá Reykjavík. Tel dagana þangað til ég fæ frí og get látið það rætast. Margir staðir koma upp í hugann sem fylgsni. Eina sem þeir þurfa að uppfylla er að þar sé enginn sem þekkir mig. Þótt að það skipti ekki máli. Því að þegar ég mun láta að því að flýja, þá er ég ekki að flýja annað fólk, heldur að reyna að flýja sjálfan mig. Vitandi það að það er vonlaust verk. Núna slekk ég á símanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 22:27
Það sem maður skemmtir sér yfir
Vann það afrek að taka bækurnar af náttborðinu sem ég var búinn að lesa eða hafið gefist upp á og raða þeim í hillur. Ég er ótrúlegur með það að vera að lesa svona þrjár til tíu bækur í einu. Og er svo gáttaður á því að ljúka ekki við bók fyrr en eftir fleiri vikur? Og fyrst ég var byrjaður á því að taka bækur og raða þeim í hillur þá eyddi ég dágóðum tíma í að endurraða í hillur. Ótrúlegt yfir hverju maður getur skemmt sér? Ef það er ekki að þrífa eldavélina, þá er það að endurskipuleggja hilluplássið. Ég held að ég ætti að fara að kaupa mér tölvuleiki til þess að láta tímann líða? Eða klára eitthvað af þessum bókum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)