Færsluflokkur: Bloggar

Snjóflóðið ég

Eftir ógæfunótt (þar sem ég fékk mannbætandi löðrung) sem varð samt til þess að ákveðin stúlka með hundsaugu mun líkast til hætta að ónáða mig og elta á milli bara og svo viðburðarríkan dag sem færði mig skrefi nær nýrri sambúð (sjá færslu á undan sem heimild) ætla ég að fara og finna mér mannlausan bar og detta í það.  Dagurinn í dag er nefnilega tileinkaður fortíðinni og þeim mistökum sem ég hef gert í gegnum tíðina.  Þessi dagsetning mun um ókomna framtíð minna mig á veikleika mína og galla.  Suma sem ég get bætt, aðra sem mér reynist erfitt að berjast við.  Því að í huga mínum reika um draugar og morðóðir geðsjúklingar með íshokkígrímur fyrir andlitinu og berjast stöðugt um yfirráðin yfir líkama mínum.  Og því sem ég geri.  Og því sem ég hugsa.  Og þegar þeir ná yfirhöndinni, sem gerist stundum, verð ég eins og snjóflóð.  Lítill bolti sem byrjar að rúlla niður brekku og hleður utan á sig þangað til hann ryður einhverri lúðavíkinni með öllum sínum húsum og rúmum og manneskjum og bílum og dúkkuvögnum og diskum með rósóttu minnstri, út á haf.  Og mörgum árum síðar er hægt að aka þar framhjá og sjá sárið sem flóðið risti í hjarta byggðarinnar.  Þess vegna ætla ég núna að fara að drekka.  Og ef einhver talar við mig, þá vona ég að það verði ógæfusamari og kvaldari sál en ég.  Þá býð ég drykk eða tvo.


Nýr sambýlingur

Fólkið var byrjað að borða þegar ég mætti á svæðið.  Mér fannst það fínt, best að setjast bara strax til borðs og skófla í sig matnum, sleppa við þetta leiðinda fyrir mat kjaftæði.  Umræðurnar voru um fyrirhugaða fermingu snillingsins sonar míns.  Ég komast að því að barnsmóðir mín og mamma voru búin að skipuleggja þetta allt saman út í hörgul og ekkert af því sem ég og barnsmóðir mín vorum búin að tala um fyrr í vetur var lengur inn í myndinni.  Mér var svo sem slétt sama, það er ekki ég sem á að fermast og ef drengurinn er ánægður þá er ég það líka.  Í miðju borðhaldi tilkynnti konan sem ól mér son að hún væri að fara erlendis í vinnubúðir listamanna og yrði í burtu í tvær vikur.  Flott svaraði ég en svo hrökk ofan í mig kjötbiti þegar hún bætti við: drengurinn verður hjá þér á meðan!  Allt í lagi með það, við hljótum að komast af saman í tvær vikur, enda barnið með lykla hérna og kemur og fer þegar honum hentar.  Og við vanir sérvisku hvors annars.  Svo bætti hún við að hún og maðurinn hennar væru búin að kaupa stór hús og mundu flytja í Vesturbæinn með haustinu.  Ég óskaði til hamingju.  Það var vandræðaleg þögn í smá tíma og mér fannst eins og allir horfðu á hvern annan og svo loks á mig.  Svo var þögnin rofin:  hann vill þá flytja til þín!  Ég leit á soninn, hann horfði niður á borð, lubbinn huldi andlitið.  Viltu flytja til mín? Já, til að prófa, stamaði drengurinn út úr sér.  Allt í einu hafði ég enga matarlist.  Tilvera mín eins og hún er í dag verður senn á enda.  Ég verð bráðum orðinn einstæður faðir.  Með barn til þess að ala upp.  Með sérvitrann og furðulegan son sem líkist mér meira og meira með hverjum deginum.  Dagar víns og rósa líða nú brátt hjá.  Eitt stutt vor og enn styttra sumar og ég verð fullorðinn með ábyrgð.  Hingað til hefur það reynst mér erfitt en það eru aðrar og langar sögur.  Núna verður þetta öðruvísi, við feðgar saman.  Hvaða skaða get ég gert barninu þegar hann flytur hingað inn? 

Í bílnum á leiðinni heim útfærðum við foreldrar drengsins þessa hugmynd um að hann flytji til mín nánar.  Og því meira sem við ræddum um það, því betri fannst mér hugmyndin verða.  Ég held að það verði fínt að búa með piltinum.  Og fara að lifa eftir einhverri rútínu.  Þvo táningaföt, þröngar gallabuxur og deadboli.  Svo koma löng kvöld sem varið verður í pælingar um bækur og tónlist og kvikmyndir og konur.  Ég mun þurfa að fylgjast með heimanáminu, passa upp á það að hann fari í skylmingar og í söngtíma.  Að hann steli ekki brennivíninu mínu.  Að hann tali ekki við sveitta perverta á msn.  Að hann heimsæki mömmu sína, stjúpa og systkini.  Að hann þvo sér bakvið eyrun.  Noti tannþráð.  Að hann borði einn ávöxt á dag.  Að hann borði grænmeti.  Að hann steli ekki fötum af mér.  Að hann verði ekki alveg eins og ég!

Núna get ég ekki beðið haustsins.  


Fólksfælni

Ohhh...

Ég er að fara í matarboð heim til foreldra minna.  Sem er ekki slæmt nema að það verður fullt af fólki þarna.  Fólki sem ég nenni ekki að hitta.  Ég er alltaf skelfilega fólksfælinn á sunnudögum.  Ætla samt að þrauka þetta kvöld og skella mér svo á barinn á eftir og gleyma (því sem ég veit að er í vændum) tuðinu og spurningunum sem munu rigna yfir mig á eftir.


Vesen

Líður eins og dramatískri táningsstúlku nema að ég er hvorki táningur né stúlka.  gærkvöldið var hörmung, hörmung og allt fór á vesta veg.  Þrætur og deilur og endalaust vesen.  Og að venju tók ég með mér pizzu heim.  Ég verð að hætta því.  Ég verð feitur af öllu þessu brauðáti.


Að fiska í drullugum poll

Hringdi í módelið sem ég hitti í gær.  Hún var hrokafyllri en ég í símanum og ég hafði það á tilfinningunni að hún væri að pósa fyrir framan spegilinn á meðan hún talaði við mig og mundi frekar fara í óþarfa fitusog en á stefnumót með mér. Enda komum við okkur saman um það að ef svo færi að leiðir okkar lægju aftur saman þá mundi ég bara kinka til hennar kurteisilega kolli.  Ekkert meira.  Og núna líður mér ekki bara gömlum og úldnum, heldur líka með þessa nagandi höfnunartilfinningu.  Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hefði mér verið slétt sama.  Þessi stelpa hefði bara verið ein af mörgum sem hefði hafnað mér og ég hefði huggað mig við það að sjórinn væri víðáttumikill og i honum margar fiskitorfur.  En núna, þegar aldurinn færist yfir mig, hægt og hægt, eins og regndropi að leka niður rúðu, þá hefur mér skilist að ég er að fiska í polli sem er ekki bara gruggugur, heldur má ég teljast heppinn ef ég veiði gamalt stígvél eða hjólbarða af sokknum og ryðguðum Opel.  Ég ætla undir sæng að skæla.


Einhver helvítis jólin

Hörmulegustu jól æfi minnar átti ég með stúlku sem ég bjó með og var meira að segja trúlofaður og ætlaði að giftast.  Við höfðum verið saman í tvö ár og eitthvað var farið að halla undir fæti og í desember, rétt fyrir jólin lauk stúlka þessi prófum og við fórum út að borða til þess að fagna þeim áfanga.  Og eins og í eftirfarandi lagi, snérist máltíðin smátt og smátt upp í svívirðingar og þann skemmtilega samkvæmisleik að draga fram gamlar spælingar og misgjörðir og nudda þeim framan í (yfirleit) mig.  Og í stað þess að vera skynsöm og fara heim og jafnvel kyssast, sættast og ríða, ráfuðum við á milli bara, önug og öfugsnúin.  Kvendið sem ég hafði hugsað mér að giftast (en þetta kvöld var ég sko hættur við) taldi að allar þær hörmungar sem yfir hana höfðu dunið á ævinni (meðal annars að missa módelsamning þegar hún var 19 ára vegna ofdrykkju eða eitthvað) væri mér að kenna.  Afglöp sem hún hafði framið, löngu áður en leiðir okkar sköruðust, voru bara vegna þess að lífið var svo grimmt að hafa ætlað henni að giftast mér! Og eftir því sem á nóttina leið komst ég að því að ég hafði lofað henni því að heimurinn væri fagur og næturnar lygnar eins og dimmblátt haf og bara stjörnur og tungl á himni, aldrei nein ógæfur regnský.  Ég mundi ekki neitt eftir neinu og sat og drakk við barinn og hún stóð fyrir aftan mig og krafði mig um skaðabætur fyrir glataðan feril sem módel í New York.  En svo allt í einu, allt í einu, eins og töfradufti frá feitri og haltri álfkonu í ljótum kjól (er að hugsa um Klingenberg) með pensla í hárinu, væri stráð yfir okkur, þagnaði unnustan og kyssti mig og brosti og sagði:  Þú ert ágætur og mér líður vel með þér.  Og við skakklöppuðumst heim og áttum góðar stundir saman í langan tíma...


Þori að veðja

Rakst á vinkonu mína úti í 10-11 áðan.  Hún var vel byrg af áfengi og mat og sagðist vera á leiðinni heim að skrifa.  Yrði að skrifa alla helgina.  Ég vorkenndi henni.  Fannst hún vera þræll auðra blaðsíðna sem kannski yrðu aldrei fylltar út.  Gaf asnalegt loforð um að hringja í hana ef ég færi út í kvöld.  Ég er alltaf a- lofa einhverju sem ég veit að ég stend ekki við.  Bara af því að ég kann ekki að segja nei.  Það næsta sem ég veit er að ég verð kominn í yfirlestur á vondu handriti sem mun aldrei koma út.  Þori að veðja!


Ekki kominn í líkkistu

Auðvitað fór ég á barinn í nótt. Og auðvitað kom stúlkan með hundsaugun og spillti öllu. Og auðvitað borðaði ég pizzu áður en ég fór heim.  En ég fór heim með símanúmer hjá módeli.  Ég veit ekki hversvegna?  Ég mun ekki hringja í hana en ég held að ég hafi fengið númerið hjá henni og flörtað við hana af því að ég gat það?  eitthvað svona:  ég er ennþá á lífi og ekki orðinn líkkistumatur enn!


Þegar sveindómurinn fauk

Ég man það ennþá að árið 1986 spilaði norska hljómsveitin a-ha tvisvar í Laugardalshöll og við vinirnir fórum á báða tónleikana.  Okkur fannst þetta kjörið tækifæri til þess að prófa að drekka í fyrsta sinn vodka og dansa í fjölmenninu og kannski, kannski kynnast stelpum.  Og á fyrri tónleikunum vorum við háttvísir á okkar fyrsta kendirí og drukkum sem nemur þriðjung af pela blandaðan í kók.  Við tókum myndir af hljómsveitinni og gengum um á meðal fimmþúsundanna og sögðum hæ við stelpur.  Undir lok tónleikanna hitti ég stúlku í næsta skóla við okkar.  Henni fannst ég sætur.  ég tróð tungunni upp í hana af offorsi.  Við kvöddumst með gefnu loforði um að hittast aftur næsta kvöld.  Þá drakk ég afganginn af pelanum. Skeytti engu um a-ha og eigraði eins og soltinn úlfur í leit að bráð þangað til ég fann stúlkuna.  Og við deildum leigubíl heim.  Og í mínu einbreiða rúmi gerðum við hluti sem ég kunni ekki að meta fyrr en mörgum árum síðar þegar ég var orðinn fullorðinn.  Og þegar við höfðum lokið okkur af spurði ég hana hvort að hún þyrfti ekki að fara?  Og hún týndi á sig spjarirnar í þögn og ég fylgdi henni til dyra og þar snéri hún sér við og spurði:  Hvert er númerið hérna?  Ég sagði, í dyragættinni á risastóru einbýlishúsi, við erum ekki með síma og lokaði hurðinni.  Og þar með hófst saga mín.  Sem aumingja sem hunsar tilfinningar, sem hunsar allt nema kodda og sænga og þá friðþægingu sem draumar bjóða.  Og það er leiðinleg saga sem verður ekki rakin lengra í kvöld.  Ljúkum þessu á a-ha sem með þessu myndbandi (annars mundi ég ekki birta það) líta út eins og hljómsveit frá Ísafirði sem hefur fengið breikþrú á aldrei fór ég suður og gert myndband á lélega vhs-tökuvél.


Lygar koma mér í koll

Var allt í einu minntur á það að ég hafði lofað vinkonu minni ekki bara að mæta til hennar í kvöldmat, heldur líka að taka hana með mér út í kvöld að drekka og helst dansa!  Auðvitað hafði gullfiskaminnið mitt bugðist mér og þegar hún hringdi var ég í baði að drekka rauðvín og hugsa hlýlega til tölvunar minnar.  Og varð vandræðalegur þegar ég var minntur á það að ég væri orðinn of seinn í mat.  Bölvaði því að þetta væri orðin einhver helvítis hefð að borða saman á föstudögum.  Eitthvað sem ég ætti yfir höfði mér reglulega það sem ég ætti eftir ólifað.  Mér sortnaði fyrir augum.  Og stundi því upp að ég væri eiginlega veikur, eiginlega með flensu og vonaði að ég væri ekki of þvoglumæltur eftir hálfa flösku af rauðvíni.  Hún varð sár þegar ég sagðist ekki koma vegna ótímabærra veikinda sem voru versta lygin sem ég gat fundið upp á því að núna get ég ekki farið út í kvöld ef hún skyldi vera að flækjast um á börunum.  Ég er dæmdur til þess að sitja heima með uppdiktaða flensu og keðjureykja yfir rauðvíni, bókum og neti.  Ég er heimskasti lygari í heimi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband