Færsluflokkur: Bloggar

Heimurinn er miðaldra í dag

Suma daga er heimurinn nýr þegar maður vaknar.  Fullur af furðum og nýjum hlutum til þess að dáðst að og njóta.  Að samaskapi koma stundum dagar þar sem heimurinn er gamall og úldinn, angandi af stöðnu þvagi. Dagurinn í dag er hvorugt.  Bara svona dagur.  Allt miðaldra.  Það fylgir því að fara seint að sofa og vakna snemma.  Í dag mun ég ekki uppgötva neitt nýtt.  Í dag mun ekkert henda mig sem fær hjartað í mér til þess að slá örar.  Í dag mun ekkert koma mér á óvart.  Það verður bara gott að komast heim og láta tímann líða yfir bók.  Þetta er svona dagur þar sem ég hef ekkert að segja.  Alla veganna ennþá. 


Sjónvarpsþáttur og Déjá vu

Á leiðinni niður Laugarveginn í dag í þessu frábæra úrhelli sló því niður í rennblautan heila minn (vatnið síaðist örugglega í gegnum skinn og bein) að líf mitt væri eins og ég væri persóna í útþynntri eftirlíkingu af Sex and the City, bara um karlmenn og fyrir karlmenn.  Og skrifað, leikstýrt og framleitt af finnska sjónvarpinu.  Lítil gæði í myndartöku og ekki mikið verið að splæsa í samtöl í handritinu.  Og vinahópurinn fjórir karlmenn sem geta ekki hætt að djamma.  Og í stað þess að eyða öllum peningum í skó og handsnyrtingu, horfa þeir á fótbolta, spila billiard og drekka.  Bjór og viskí í stað kokteila.  Og tala um bolta og bækur.  Forðast það að tala um tilfinningar og það sem þeir þrá.  Og þegar líður á kvöldið hætta þeir að tala.  Sitja bara og þegja.  Ef einn þessara ólukkulegu karlmanna álpast svo til þess að ná sér í kvenmann þá er það fyrsta sem hann gerir að eyða vinum sínum út úr gemsanum.  Þeir hætta líka að hringja í hann og tala um hann sem ,,heitinn".

Þetta yrði frekar leiðinleg þáttarröð.  Og eflaust tekin á handvél og tökurnar hreyfðar, gráar og stundum ekki í fókus.  Það yrðu heldur engir dramatískir hápunktar.  Enginn mundi ganga í hjónaband, enginn eignast barn, enginn ættleiða, enginn fá stöðuhækkun...  Kannski mundi eitthvað fótboltalið vinna bikar og strákarnir faðmast sveittir og fullir inni á troðfullum bar.  Einn þeirra væri meira að segja í bol merktum liðinu undir jakkanum.  Svo mundu þeir syngja einkennissöng liðsins og sulla yfir sig bjór.  Einhver mundi svo deyja í endann.  Eflaust ég.  Ég er svo óheppinn.

Nú getur einhver stolið þessari hugmynd og gert hann að sinni.  Verði þér að góðu og vertu fljótur áður en Finnarnir hefjast handa við framleiðslu á svona þáttum.  En mér finnst ég samt sem áður oft vera fastur í einhverri endalausri og illa skrifaðir sápuóperu.  Eflaust hef ég sagt það eða skrifað áður?  Ég veit samt ekki hvers vegna ég hef þetta alltaf á tilfinningunni?  Af því að ég er alltaf að lenda í heimskulegum aðstæðum sem mér finnst aldrei koma fyrir neinn annan en mig?  Kannski upplifa fleiri en ég svona bull?  Eða er þetta bara áhrif frá sjónvarpinu?  Fólk horfir svo mikið á það og samsvarar sér persónum í sjónvarpinu?  Ég hef aldrei getað samsvarað mér neinum nema Derrick og Matlock.  Baugarnir og hvað þeir voru skrítnir gamlir menn.  Ég verð þannig.  Nema ég mun ekki leysa sakamál.  En kannski vera sólginn í pylsur?  Eina skiptið sem ég reyndi að líkjast sjónvarpsstjörnu var þegar ég bað stúlkuna sem klippti mig að klippa mig eins og DR. Spock (ekki Óttar P. heldur geimkarlinn) og hún harðneitaði að gera mér þann óleik.  Og klippti mig bara alveg eins og venjulega.  Déjá vu.  Alltaf.   


Ástarsögu guðinn ég

Ég hef nokkrum sinnum heyrt það að ég sé nánast tilfinningalega bæklaður.  Eigi erfitt með að vera í takt við eigin tilfinningar, eigi erfitt með að skynja tilfinningar annarra.  Ég geti ekki upplifað tilfinningar nema í gegnum tónlist, bækur, leikrit, kvikmyndir... 

Ég er því eflaust gott dæmi um mann sem getur ekki látið suma hluti ganga upp í lífinu en gæti hæglega látið þá ganga upp í listum.  Ég hefði því átt að verða rithöfundur og skrifa ástasögur.  Engar spítalasögur í kiljum, heldur þykkar og mergjaðar ástarsögur um dapurleg örlög.  Fýkur yfir hæðir.  Bækur um fólk sem þarf að velja á milli ástarinnar og þess að lifa.  Og fórnar ástinni fyrir langt og innantómt líf.  Og sjálfur mundi ég svo lifa einangruðu lífi.  Huldumaður í íbúð í miðbænum sem aldrei færi út á meðal fólks.  Sæti bara og skrifaði.  Um eitthvað sem væri honum ómögulegt að upplifa sjálfum.

Þetta hefði orðið fínt líf.  En ég kaus að velja það ekki.  Eitthvað sem heitir leti spilar þar stórann part í það val.  Og svo hitt að ég mundi aldrei nenna að skrifa ástarsögur.  Eða nokkrar sögur.  Og eflaust mundi ég ekki nenna að sitja einn heima fyrir framan tölvuna, sverfandi á mér fingurneglurnar að verki loknu, ósnertanlegur eins og guð.  Ástarsögu guð. 

Ég veit ekki hvað ég sé?  Ég veit ekki á hvað leið ég er?  Ég veit það bara eitt að ég valdi rétt  þegar ég ákvað að hætta að gæla við þá hugmynd að skrifa um bændur í snjóstormi að bera út nýfædd börn sín.  Enda hefur það allt verið gert fyrir svo löngu síðan að fólk hefur gleymt öllum þeim bókum.  Því að fólk gleymir líka því sem vel er gert.  Eins og ég gleymi þessari heimatilbúnu tilvistarspeki minni um leið og ég hef skrifað orðin.

Þess vegna er best að vera einfaldur og stjórnast af einföldum hvötum.  Svona eins og kakkalakki.  Ég ætla því að kakkalakkast á eftir með félaga mínum að horfa á Lyon - Man.utd.  Borða pizzu og drekka bjór.  Og prumpa og ropa og reyka mikið og hlæja stórkarlalega en samt innantómt af því sem við segjum og á að vera fyndið en er það varla.  Því að stundum er það örvæntingin yfir því að vera einn sem stjórnar því hverja við hittum, hvað við gerum, hvað við segjum...

Kannski ætti ég bara að vera heima?  Og byrja að skrifa bók.  Um ást...


Einn á gjróthrúgu

Fór út að ganga.  Það var mjög kalt.  Horfði á haf og himin.  Það er eitthvað við það að horfa annað hvort á dökkan sjó eða himininn.  Ég fæ það alltaf á tilfinninguna að annað hvort undir gáruðu yfirborði hafsins eða á milli allra þessara ljósa á himninum, sé einhver sem horfi til baka á mig.  Sjái mig eins og ég er.  Einan og kaldann í grjóthrúgu einhverstaðar á enda veraldar.  Ég efast um að sá sem horfi á mig líki það sem hann sér? 

Kom heim og lagðist upp í rúm með leiðinlega doðrantinn.  Sofnaði ofan í hann og vaknaði ekki fyrr en tvö í nótt við það að vekjaraklukkan á símanum mínum hringdi.  Furðulegur tími til þess að stilla vekjara, tvö eftir miðnætti?  Eitthvað hefur mér gengið til þegar ég gerði það.  Sofnaði strax aftur.  Er alveg óvenju hress í dag.  Nánast manískur af orku.  Ég sveiflast eins og risavaxinn pendúll.  Þetta getur ekki verið holt.  Held að þetta stafi af því að búa á þessari helvítis grjóthrúgu lengst norður í Dumbshafi.  Í þjóðfélagi sem maður finnur alltaf betur og betur fyrir því hvað fólk er eitt og samskiptalaust.  Þótt að við séum í samskiptum við tugi manna á hverjum degi.  Þá erum við að kvöldi dags öll ein.  Og eflaust voðalega lítil í okkur.  Eins og barn undir sæng sem les draugasögu í skininu frá vasaljósi.


Ég ætla að ganga mér til geggjunar

Ég er eitthvað hálf down núna.  Dauðsföll hafa alltaf tilhneigingu til þess að ræna mann smá orku og koma huganum á hreyfingu.  En það eru yfirleitt ekki uppbyggilegar hugsanir.  Svo ég beitti mig hörðu, þessi munkasvipa mín sem er tiltekt og þrif.  Það er ekkert eins róandi í mínum huga og það að strauja eða skúra.  Minnisstæðasti afmælisdagurinn minn var þegar ég var 29 ára og eyddi kvöldinu í það að drekka bjór, strauja gardínur og hlusta á tónlist.  Held að það hafi bara verið skemmtilegasta afmæliskvöld sem ég hef átt.  Og partýið daginn eftir var mjög vel heppnað.  Eða svo til.  Einhverja hluta vegna voru flestir gestirnir mannfræðingar?  Stundum sniðugar þessar tilviljanir sem stjórna lífi okkar.  Og einn vinur minn veiktist af magaverk og var svo illa haldinn að það þurfti að hátta hann upp í rúm.  Ég hafði gleymt tilvist hans og veikindum þegar ég kom heim um nóttina og kveikti ljósin í herberginu.  Þá lá hann í útældu rúmi.  Mér var ekki skemmt.

Það dreifir huganum að blogga.  En ég get ekki samt hugsað mér að sitja við það í allt kvöld.  Ég er að hugsa um að fara í langan göngutúr.  Klæða mig vel og koma ekki heim aftur fyrr en ég er orðinn blár á nefinu og hættur að finna fyrir tám og fingrum.  Reyndar þegar ég fer í langa göngutúra sem ég hef ekki gert mikið af síðustu mánuði sökum slabbs og færðar, fæ ég alltaf bestu hugmyndirnar mínar.  Og þær geggjuðustu.  Sem betur fer þá gleymi ég þeim flestum.  Því að það væri skelfilegt ef ég mundi framkvæma allt sem mér dettur í hug?  Það er til dæmis alveg ótrúlegt hvað jafn lofthræddur maður og ég hef klifrað upp marga brunastiga um nætur.  Og ennþá ekki fallið til jarðar.  Þótt að ég hrasi samt dagsdaglega með jöfnu millibili.  Það hefur eitthvað með lappirnar að gera.  Og heilann. 

Ég ætla að byrja á því að borða.  Svo er ég farinn.  Kem aftur seint í kvöld þegar ég er búinn að ganga mér til geggjunar.  Ég ætla samt ekki að fá útrás fyrir þær hugmyndir hér á blogginu.  Mér hefur nefnilega dottið eitt í hug.  Sem eflaust á eftir að reita einhverja til reiði.  Stundum er ég alveg eins og Láki jarðálfur.     


Andlát

Manneskja nákomin mér lést í morgunn.  Ég er að hugsa um að blogga ekki um það.  Sumu er best að halda bara fyrir sjálfan sig?  Ég held að tilfinningar sem við berum til fólks og eru þess eðlis að dofna ekki eigi maður bara að halda fyrir sjálfan sig?  Annars er dauðinn allt í kringum okkur og frekar hversdagslegt fyrirbæri.  Fólk fæðist, lifir og deyr.  Alveg eins og fólk kemur og fer inn í líf annarra.  Það eina sem maður getur gert er að horfa á ljósin þegar rökkrið fellur yfir og minnast þeirra sem komu og voru og fóru.


Bækur og draumur

É ger að lesa svo leiðinlega og illa skrifaða bók að hún kemur mér í vont skap.  Ég fleygi henni út í horn núna.  Bækur mega vera illa skrifaðar en bæði leiðinlegar og illa skrifaðar?  Það er eins og umræðuvefur á barnalandi.is.  Kaótísk súpa af mörgum ólíkum röddum.

Annars dreymdi mig að ég byggi úti á landi.  Og ætti konu.  Sem var alltaf að draga mig á salshakvöld að dansa eða að fá mig til þess að hjálpa henni með kaffi og kökusölu til styrktar langveikum börnum.  Þessi draumur var svo raunverulegur að þegar ég vaknaði í morgun hélt ég að ég byggi á Patreksfirði og væri giftur.  Ég varð ekki fyrir miklum vonbrigðum þegar hið sanna kom í ljós.


Samviskubit

Annars er ég í fríi í dag.  Langt síðan ég ákvað að taka einn frí dag og slappa af heima.  En núna líður mér eins og ég sé að skrópa.  Finnst ég vera að svíkjast undan og er með samviskubit.  Samt á ég þetta frí skilið.  Ég vann mér inn fyrir þessum degi!  Sama hvað ég segi það oft við sjálfan mig ,það slær ekki á sektarkenndina.  Ég ætti eiginlega bara að koma mér í vinnuna?  Æji, ég ætla að gera eina tilraun í viðbót til þess að leggjast upp í rúm með bók! 


Ógreiddir reikningar og bækur

Helti kaffinu mínu (óviljandi) yfir bunka af ógreiddum reikningum.  Nú er útséð um að þeir verði nokkurn tímann borgaðir.  Og um leið og ég var að vinda dökkan drykkinn í fötu fór ég allt í einu að pæla í því hvað ég hef lesið margar bækur?  Búinn að lesa í 30 ár og þetta svona 5-10 bækur á viku.  Það gerir talsverðan slatta.  Möguleg tala svona til þess að ofmeta ekki titlafjöldann um 15000?  ÞAð er von að maður sé með gleraugu.


Barferð

Ég sem ætlaði að drekka einn á myrkum bar í kvöld en endaði með því að hanga með félaga mínum sem er poppstjarna (ekki það að ég þekki þær ekki margar, var meira að segja giftur einni eða eitthvað) og við lágum fram á barborðið eins og við værum að deyja.   Svartklæddir lubbar á leiðinni til glötunar og töluðum um það hvað það var gaman að vera 25 ára fyrir tíu árum.  Þegar eiturlyf voru næstum ókeypis, þegar stelpur biðu í röðum eftir því að sofa hjá okkur.  Eða þannig.  Kannski voru þetta ekki langar raðir en í minningunni voru þær það.  Og núna eyddum við sunnudagskvöldinu á fámennum bar, drukknir, fráskildir, einmana, leiðir... 

Og rifjuðum upp gamlar minningar og lög sem minntu okkur á glataða tíma sem aldrei koma aftur.  Og við skáluðum fyrir ferjumanninum sem bíður okkar.  Og þeirri ferð sem við munum brátt halda í.  Þessari ferð sem er endirinn á öllu og upphafið á einhverju nýju.  Og okkur fannst við vera gamlir og þreyttir og næstum dauðir og félagi minn sagði á tveggja mínútna fresti:  Þú ert besti vinur minn!  Og ég vissi að hann meinti það ekki.  Og við pöntuðum mikið af viskí og koníaki og bjór og vodka og stóðum loksins fyrir utan barinn og félagi minn (sem hefur mjög góða rödd) söng:  and if you look very hard/behind the lines upon their face you may see where you are heading/ and its such a lonely place...

Og við þögðum.  Og við stóðum fyrir utan barinn og við störðum niður á támjóa skó okkar og þröngu gallabuxurnar og við vissum, án þess að segja það, að við vorum orðnir of gamlir, við vorum orðnir eitthvað meira og eldra en táningarnir sem fyrir 15 árum sátum úti í garði á Þórsgötunni og létu sig dreyma um konur og vín og frægð og frama.  Og við spörkuðum í ósýnilega steina. Og ég sagði:  góða nótt, hringi í þig eftir viku.  Og gekk niður Laugaveginn, því að ég vildi koma mér, ekki af því að ég hafði ekki gaman af félaga mínum.  Heldur vegna þess að konan með hundsaugun sem eltir mig allar helgar var inni á barnum og ég vildi ekki að hún kæmi út og sæi mig svona berskjaldaðann og auðvelda bráð á sunnudegi. Ég er ekki betri en það. 

Þótt að ég ætti auðvitað að þakka fyrir það að stúlka sem er 13 árum yngri en ég og mjög sæt líti mig hýru auga.  En maður er alltaf vanþakklátur.  Það er þess vegna sem maður situr á bar með útbrunnum poppstjörnum og drekkur á sunnudögum og vonar að mánudagurinn renni aldrei upp.  Að heimurinn standi í stað í nokkra tíma og veruleikinn hætti við það að banka á dyrnar.  Að veruleikinn sniðgangi mann einn dag.  Að maður geti gleymt því hver maður er einn dag.  Og hvert maður stefnir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband