Færsluflokkur: Bloggar
6.3.2008 | 14:42
Að manga til við kerlingar í meðferð
Öll meðferðarheimili á Íslandi hafa þá reglu að ef fólk fer að draga sig saman í meðferð sé því vísað út. Þetta er gert til þess að hormónar trufli ekki meðferðina, auk þess sem fólk sem er farið að hugsa með kynfærunum er víst ekki með huga við meðferðina. En það ganga nú samt alltaf sögur af því að menn skrái sig á Vog til þess eins að komast þar yfir auðveldabráð. Konur sem eru í tilfinningalegu uppnámi, oft niðurbrotnar og veikar fyrir. Mæta þá flagararnir á staðinn og tæla þær til sín. Flytja svo inn til þessara kvenna í litlu blokkaríbúðina þeirra og fara að tala um, eins og segir í kvæðinu, um að það sé óþarfi að eiga, miklu betra að leigja bara minna. Og drykkja hefst. Þannig að meðferðarstaðir eru víst ekki verstu pleisin til þess að manga til við kerlingar. Og miðað við það hvernig ég haga mér þá eru eflaust ekki mörg ár í það að ég fái að kynnast því hversu auðveldar þessar fraukur eru til fylgilags við menn eins og mig! Svona ef ég hefði áhuga á þeim.
![]() |
Ást á meðferðarheimili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 13:28
Að halda áfram að stjórna
Móðir mín hringdi í mig. Bara til þess að skipa mér fyrir og tékka á því hvort ég ætti hrein jakkaföt, hreinar skyrtur, væri nokkuð angandi af stöðnu víni og sígarettureyk, væri í ástandi til þess að koma mér á milli húsa? Sagðist síðan senda mágkonu mína til þess að sækja mig. Merkilegt hvað mamma heldur alltaf að ég sé bara átján ára? Eða átta? Og gjörsamlega ófær um það að standa á eigin löppum. Ég hef það á tilfinningunni að hún muni ekki hætta þessari afskiptasemi á meðan við bæði lifum. Reyndar gleymdi hún að spyrja hvort ég hefði borðað kvöldmat í gær og hádegismat í dag. Ég ætla að stinga upp á því við hana að hún búi til gátlista sem hún noti þegar hún hringir í mig. Fari yfir helstu atriði og krossi við. Henni mundi þá líða betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 12:40
Á dauða mínum átti ég von
Ef ég væri einhver annar en ég þá færi ég ekki jafn mikið í taugarnar á fólki. Ég hef það ekki á tilfinningunni, ég veit það að ég get farið undir skinnið (eins og enskir segja svo frábærlega) á fólki sem þekkir mig ekki vel. Ein kona sem vann einu sinni með mér fyrir mörgum árum vill til dæmis meina það að ég sé húmorslausasti og leiðinlegasti maður sem hún hefur kynnst. Hún var svona kona sem hló öllum stundum. Að engu. En aldrei af mér. Eftir nokkrar vikur í samstarfi var það farið að fara í taugarnar á mér. Ég var kannski í hlutverki fíflsins á kaffistofunni og skemmti fólki með heimskulegum sögum af því sem ég gerði (það var fyrir daga bloggsins og ég talaði meira en þá en í dag) og hún kom inn, leit á mig og strunsaði út. Þessi óvild hennar jókst svo með tímanum. Og fór alltaf meira og meira í taugarnar á mér. Það var alveg sama hvað ég gerði eða sagði, ef hún sá mig opna munninn, setti hún upp vanþóknunar svip og strunsaði í burtu. Tuldraði jafnvel eitthvað um það að það væri ábyrgðarleysi að hafa svona kjána í vinnu. Mér leið svo sem ekkert illa yfir þessu en var samt smá hissa því að ég hafði mér vitanlega ekki gert þessari konu neitt. Bara gasprað einhverja vitleysu eins og gengur og gerist. En sennilega var hún of alvarleg til þess að kunna að meta það. Svo hætti ég. Og hugsaði ekki meira um þessa konu þangað til ég rakst einu sinni á hana á Laugarveginum. Ég ætlaði bara að ganga framhjá án þess að heilsa, vildi nú ekki ónáða þessa frú meira en gengur og gerist en viti menn. Hún ekki bara stoppaði mig úti á götu, heldur greyp í handlegginn á mér og allar flóðgáttir opnuðust. Og ég lenti á kjaftatörn við hana þar sem hún hló og talaði út í eitt, svo tárin streymdu niður kinnarnar á henni, af tómri kátínu. Ég held að hún hafi sagt mér tveggja ára skammt af slúðri frá þessum vinnustað. Og kvaddi mig með því að kyssa mig á báðar kinnar. ég stóð eftir jafn hissa og ef ég hefði séð fljúgandi disk og grænar geimverur fyrir utan heima hjá mér. Fólk getur komið manni endalaust á óvart.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 12:25
Hvað?
Hvað gerir maður þegar kistulagning er búinn? Dokar við með þeim sem eru viðstaddir? FEr með þeim og fær sér kaffi eða er fólk bara laust allra mála og frjálst að fara heim? Æji, ég er í skapi til þess að gera ekki neitt í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 01:03
Augu hennar glóðu
Og ég man að fyrir svo löngu síðan þegar ég strauk niður kinn hennar þá var eins og fingur mínir skildu eftir sig far eins og eftir stjörnuljós sem er sveiflað, í rökkrinu. Og augu hennar glóðu. Og það snjóaði úti og heimurinn var hvítur. Og hreinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 00:37
Smá minning um son minn
Fyrir næstum tveimur árum bauð sonur minn mér á Belle and Sebastian á Nasa. Fóstri hans átti boðsmiða sem hann vildi endilega gefa okkur. Hann þoldi ekki sveitina eftir að hafa túrað með henni nokkrum árum áður. Við feðgar fórum og skemmtum okkur mjög vel. Og ég komst að því að sonur minn, þá næstum 12 ára, var meira kvennagull en úldni karl faðir hans. Stúlkur kepptust um að klípa hann í kinnarnar og rugla á honum hárinu. Og gefa mér símanúmerin sín. Alla vegana tvær. Ég var reyndar ekki móttækilegur fyrir því, ég hafði hitt dís minna drauma sem ég kvæntist skömmu síðar. Og er líða tók á kvöldið og hljómsveitin komst í meiri ham og við feðgar vorum búnir að drekka dálítið af bjór og gosi, þá fórum við og dönsuðum. Og við þetta lag sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur þá. Og það er ein besta stund lífs míns. Að standa á miðju gólfi á Nasa í þvögu sveitta karla og kerlinga og dansa við son minn, sem var næstum orðinn unglingur og sveiflaði lubbanum eins og þungarokkari í takt við tónlistina sem var honum svo kær. Og eftir tónleikana gengum við heim í mildri sumarnóttinni og skipulögðum ferð á Morrissey sem þá var á leiðinni. Og núna þegar ég á það yfir höfði mér að fá þennan dreng sem sambýlismann, þá hlakkar mig svo til. Til allra þeirra stunda þar sem við getum deilt sameiginlegum áhuga okkar á tónlist. Og öllu öðru. Og ég veit að ég verð aldrei hamingjusamari en daginn sem við berum dótið hans upp á þessa þriðjuhæð og opnum rauðvín og gos og setjumst niður til þess að draga djúpt anda og skála fyrir því að vera saman, alla daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2008 | 23:47
Ég hverf oft en finnst alltaf aftur
Mikið þakka ég fyrir það að í hvert sinn sem ég hef horfið, vegna þess að ég hef orðið ástfanginn eða bara horfið á vit eigin sérvisku, hefur fjölskylda mín aldrei haft fyrir því að auglýsa eftir mér! Þótt að ég svari ekki í símann í nokkra daga og sé jafnvel staddur í útlöndum án þess að hafa látið vita að til stóð að hverfa yfir úfið Atlantshafið, þá hefur aldrei neinn haft áhyggjur. Enda væri þá stöðugt verið að auglýsa eftir mér. Ég hverf eitthvert nokkrum sinnum á ári. Oftast samt á vit bóka og þess sem ég kýs að kalla einangrun til þess að forðast slítandi samskipti við fólk. Ég held að allir sem hafa á því tök, hafi gott af því að hverfa? Hætta að blogga, hætta að svara í síma, hætta að standa við barinn á einhverjum ölstofum. Og sitja bara í þægilegu rökkri með bók eða einhverja manneskju sem fær hjartað til þess að slá örar í fanginu. Eða bara fallegan kött. Og gleyma því að fyrir utan gluggann er heimur fullur af skít og vonsku og biturleika og stundum fátt fallegt við hann nema tilfallandi bros í strætisvagni, varfærnisleg snerting ókunnrar manneskju, stjarna sem hrapar, tré sem sveigist í vindi...
Því að jafnvel þótt að maður kjósi að hverfa stund og stund, dag og dag, þá hættir heimurinn aldrei að vera grimmur og harður. Hættir aldrei að vera fullur af fegurð og von. Því að í hvert sinn sem ég hverf. Hvort sem það er á vit einveru, drykkju á börum, fallegra stúlkna, mjúkra katta, þá hættir lífið, heimurinn, aldrei að koma mér á óvart. Og hann býður mín alltaf fullur af öllu því sem hann hefur upp á að bjóða, þegar ég kýs að finnast. Hverfa aftur til raunveruleikans.
![]() |
Sigurbjörn kominn fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.3.2008 | 23:15
Ljós sem kvikna og slokkna
Eftir kvöldmat fór í í langan göngutúr. Í gegnum miðbæinn, fram hjá upplýstum börum, og alla leið upp í öskjuhlíð. Ranglaði þar um malarstíga. Sá ljóslausa bíla upplýsta af sígarettuglóð. Einmana pervertar eða unglingar að reykja hass. Minntist ferða inn á milli trjáa fyrir svo margt löngu. Minntist þess þegar ég leiddi stúlku inn í rjóður til þess að leggjast á jakkann minn og horfa á ský taka á sig kynjamyndir. Gekk í hægðum mínum alla leiðina út áð Kópavogi. Sem var stilltur og fjólublár og í fjarska skreið skemmtibátur hægt í átt til hafs. Horfði á hús hinum megin við fjörðinn sem var eitt sinn heimili mitt. Og annað sem var lengi vinnustaður minn. Vettvangur erfiðustu ára í lífi mínu og ég hafði svarið að gegna aldrei slíku starfi aftur þangað til í stundarbrjálaði eða heimsku ég var sjanghæjaður í það sem ég gegni núna. Snéri við og gróf hendurnar í frakkavasanum. Mér var orðinn kalt þótt að veðrið væri sem best væri á kosið miða við marsbyrjun. Og ég hugsaði um alla þá marsmánuði sem ég hef lifað og reyndi að rifja upp hvað ég hafði verið að gera sama dag í fyrra, árið þar á undan, árið þar á undan, árið þar...
Keypti mér hamborgara á BSÍ. Hann var vondur en saddi mig og þegar ég kom út gat ég séð stjörnurnar eins og glerbrot á gólfi áður en ljósin eru kveikt. Og mundi brotna glugga í haust og sundurskornar lappir þegar ég gekk inn á svefnherbergisgólfið. Það kvöld var líka stjörnubjart. Reyndar kaldara og ég man að um nóttina hljóp ég öll þessi ósköp. Frá einum stað til annars. Blóðrissa og aumur.
En eftir svona hlaup, þegar maður móður og sveittur staldrar við, sér maður allt miklu skýrara. Svona eins og þegar maður stendur við lygnan fjörð og lítur eftir gárunum frá einmana bát sem stefnir út á opið haf. Þegar maður sér að það loga ljós í húsinu sem maður eitt sinn bjó í og maður veit að einhver ókunnugur hefur tendrað þau. Því að alltaf þegar ljós slokknar á einum stað, kviknar annað á einhverjum öðrum. Eða: Þegar ljós slokknar í einu húsi, þá mun einhver annar koma til þess að bera eld að kveiknum að nýjan leik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.3.2008 | 22:43
Ör og jarðafarir
Á morgunn fer ég í kistulagningu. Svo er jarðaförin eftir helgi. Mjög sennilega verð ég líkmaður. Ég hef verið það tvisvar áður. Borið tvo vini mína til grafar. Það eru meira en tíu ár síðan síðast. Í fyrstaskiptið var ég bara tvítugur og kvöldið áður en jarðaförin var fórum við vinir hins látna út að spila fótbolta. Við hefðum betur sleppt því. Í skallaeinvígi skall ég og annar strákur saman með þeim afleiðingum að ég fékk risa glóðarauga og hægri augnabrún fór í sundur. Í jarðaförinni var ég því með dökk sólgleraugu til að hylja bólguna. Hlýtur að virka mjög tilgerðarlegt fyrir þá sem sáu. Og augnabrúnin fór í sundur og í mörg ár var örið þess valdandi að ég var á svipinn eins og ég væri alltaf hissa - á öðru auga. En örið gréri eins og öll önnur ör gróa. Bæði þessi á sálinni og þessi á líkamanum. Núna er ég bara með eitt ör. Langt og bólgið bakvið hægra eyrað eftir að hafa verið sleginn með bjórglasi í höfuðið í haust. OG ég strýk stundum þessu öri þegar ég hugsa um ákveðna hluti í lífi mínu. Sit þá og rifja upp og strýk þessu öri. Það veitir mér fróun. Ég held nefnilega að það sé nauðsynlegt fyrir alla að bera einhver ör. Á líkama og sál. Það sýnir að við höfum lifað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 14:19
Hún hvetur mig til dáða
Það er alltaf svo gaman þegar frægt fólk sendir frá sér yfirlýsingar sem fá óbrotinn almúgamann eins og mig til þess að hugsa um það að breyta um lífstíl og hætta að djamma. Já, nú er ég hættur. Alla veganna eina helgi. Nenni ekki að fara á troðfulla skemmtistaði þar sem fólk öskrar á mig á kókaíni. Nenni ekki þessum innihaldslausu samræðum við fólk sem skiptir mig ekki máli. Nei, nú verður það bara ég og sjónvarpið um helgar. Engin samskipti lengur við fólk sem vill strjúka á mér andlitið því að það er troðfullt af e-i. En mér skilst að systir mín sé að koma til landsins á morgunn til þess að vera við jarðarför á þriðjudaginn. Það breytir öllum mínum plönum. Hún vill örugglega fara með mér út til þess, eins og hún orðar það svo oft, vera skáldlega drukkinn og bitur með mér. Svo ég fresta bindindinu um eina helgi eða ár!
![]() |
Hætt að djamma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)