Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2008 | 20:16
Dramað úr gömlu tölvunni
Ég var varla skriðinn heim á sunnudagskvöldið en vinkona mín hringdi í mig og vildi fá mig til þess að drekka með sér bjór. Og þar sem ég er rosalega viljalaus og hafði vanrækt hana þá slöttólfaðist ég af stað. Fyrst töluðum við um það sem við höfðum gert um helgina. Ég sagði henni frá næstum öllu sem ég hafði gert (nema að ég hefði hitt konu því að það er svo erfitt að segja frá einhverjum sem maður þekkir ekki nema maður hafi æviágrip til þess að styðjast við. Með notuðum bílum fylgir bók sem dásama kosti hans og kraft. Ekki með notuðum konum) sem var frekar innihaldslaus lýsing á því fólki sem ég hafði hitt, því áfengi sem ég hafði drukkið, þeim stöðum sem ég hafði heimstótt. Hún sagðist hafa reynt að vinna 14 tíma á dag og væri kominn með ritstíflu. Ég sagðist alltaf vera með ritstíflu nema þegar ég blogga um fornar ástir. Hún spurði hvort ég ætti eitthvað sem gæti hjálpað henni. Ég sagðist ekki hafa nein númer hjá díler. Hún sagði að ég væri fífl. Hvort ég ætti eitthvað sem ég hefði skrifað sem gæti hjálpað henni til að ná flugi. Ég geispaði og velti því fyrir mér í andartak hvort að ég ætti að rukka fimmþúsundkall fyrir grammið af útprentuðum orðum? Þannig að hún gæti komist á flug? Sagði svo að hún mætti fá gömlu tölvuna mína ef hún hefði áhuga á því sem þar væri að finna. Þar væri ekkert nema gamla bloggið mitt og ósent ástarbréf og endurminningabrot sem væru öllum leiðinlegur lestur nema kannski einhverjum afkomendum mínum eftir áratugi. Og nokkur hálfkláruð handrit að sérviskulegum skrifum sem aldrei áttu að koma fyrir augun á neinum nema mér. Hún lyftist upp í stólnum og sullaði næstum yfir mig bjór af þakklæti. Ég sagði að hún mætti sækja harðadiskinn en ég yrði þó kannski að ritskoða hann fyrst. Þar væru meira en 800 mailar frá ákveðinni stúlku til mín sem ég vildi ekki að hún læsi og jafnvel eitthvað meira persónulegt. Þannig að ég er að þessu í kvöld. Ritskoða sjálfan mig og færa úr gömlu tölvunni yfir í þá nýju það sem ég vil eiga. Og það sem ég vil muna eins og það var en ekki eins og minnið mun láta mig muna það eftir þrjátíu ár. Og þessi lestur/yfirfærsla/ritskoðun er búin að koma mér í ljómandi skap. Eins og að lesa ævisögu eftir einhvern ævintýramann. Alltaf eitthvað að gerast. Föll, hrasanir og upphafning næstum til sólu. Mikið voru síðustu fimm ár í lífi mínu eitthvað viðburðarík og dramatísk. En ótrúlega skemmtileg og mikil ást og hlýja í þeim. Næst þegar ég verð dapur ætla ég að lesa möppuna: dramað úr gömlu tölvunni. Og komast í gott skap. Vinkona mín má hirða allan hinn hroðann. Efast um að hann hjálpi. En hversu oft hefur það hjálpað manni sem keypt er í illa lýstu horni á skemmtistað og kostar fimmþúsundkall?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 18:09
Jarðaför
Var að stíga út úr sturtu þegar ég heyrði í syni mínum koma inn. Heyrði hann kalla: blessaður gamli! Leit fram og þarna stóð hann í þröngum svörtum jakkafötum (fermingarfötin) bindislaus og nýklipptur en samt með úfin rokkaralubba. Hvernig líst þér á, spurði hann? Föðurhjartað í mér varð örlítið meyrt; þú ert að verða eins og ég. Nei, þá þarf ég að stækka, lengja á mér nefið og lita hárið. Tími því ekki, það er of dýrt. Settu á tónlist meðan ég raka mig, svaraði ég og hvarf aftur inn á bað. Er The Brian jonestown viðeigandi fyrir jarðaför spurði drengurinn? Nei, svaraði ég, þeir eru aldrei viðeigandi nema þú sért reivinggeðveikur eða systir mín. Hann setti þá samt á. Ég rakaði mig. Við tókum leigubíl í kirkjuna.
Athöfnin var ekki eins erfið og kistulagningin, þrátt fyrir Hærra minn guð upp til þín, Ave Maria og annað tilfinningaklám. Það var ekki fyrr en við karlmennirnir stóðum við hlið kistunnar og áttum að lyfta henni upp að ég viknaði örlítið. Að bera einhvern til grafar er það síðasta sem maður gerir af væntumþykju fyrir viðkomandi.
Og þegar við stóðum yfir kistunni var kominn mjög fallegur vordagur. Smá snjór ennþá á jörðu en græn strá að stinga sér upp í gegnum svörðinn. Og sól og blátt á milli skýja. Dagur sem maður getur munað síðar.
Svo erfidrykkja og endalausir kossar og faðmlög. Fólk að snýta sér og strjúka í burtu tár.
Og loks við tveir úti í sólinni að ganga í áttina heim. Hann að fara til sín, ég til mín. Ég minnti hann á áttræðisafmæli sem væri skammt undan. Hann sagðist ætla að muna eftir því. ,,Af hverju eru sumir frændur mínir svona skrítnir", spurði hann áður en við kvöddumst? ,,Af því að við erum afkomendur landflótta norðmanns sem var ekki allur þar sem hann var séður" Var eina svarið sem ég gat gefið honum.
Og ég hélt heim. Til þess að fínpússa það sem ég er búinn að vera að skrifa. Og hugsa um ættingja mína. Sérstaklega karlpeninginn í móðurætt minni sem er allur steyptur í sama mótið. Kjaftforir, kaldhæðnir, greindir en samt í svo miklum erfiðleikum með sjálfan sig að þeir eru nánast ófærir um það að reima á sig skónna. Við líkjumst þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2008 | 21:39
Geldur fyrir barnaníð
Uppúr fimm á laugardaginn vorum við systkinin mætt á opnun hjá vini okkar í gallerí 101. Flott opnun en aðeins of mikið rokk þó fyrir mig. Samt cool. Hittum mikið af fólki þar. Fórum þaðan á Kling og bank. Get ekki sagt að ég hafi kunnað að meta þá sýningu nema þá kamarinn. En ofboðslega var troðið þar. Um klukkan sjö fórum við í mat til bandaríkjamanns á Room whit a view. Það var hressandi leiðinleg boð. Bandaríkjamaðurinn rassakyssir af verstu gerð í leit að hæfileika fólki á Íslandi. Honum leist mjög vel á systir mín og spurði mig (eins og við erum lík) hvort ég væri kærastinn hennar. Ég sagðist ekki eiga kærustu, gæti það ekki, hefði verið geldur fyrir barnaníð. Eftir það talaði hann ekki meira við mig en gaut öðru hvoru til mín áhuga, flóttalegur á svipinn. Ég og systir mín stungum af um tíuleitið til þess að fá að vera smá stund ein saman. Þurftum smá stund fyrir þetta venjulega: Þú ert besti vinur minn/mér þykir svo vænt um þig, drykkjuraus okkar. Laukum við það. Skipulögðum komu mína til Berlínar í maí. Mikið verður gaman að hrella þá þýsku. Systir mín sagði mér að þegar væri einn mjög hræddur við mig, það væri kærastinn hennar, hann hefði heyrt svo mikið af mér að hann væri hræddur um að ég mundi líta á hann sem fáfróðan asna og fokka illa í honum. Það mun ég aldrei gera. Ekki við piltinn sem ann systur minni. Nú þarf hún bara að sannfæra hann um að borði ekki viðskiptafræðinga í morgunverð.
Á einhverju tímabili á Organ þar sem við vorum að bíða eftir að tónleikarnir byrjuðu, ákváðum við í sameiningu að ég væri orðinn of drukkinn til þess að hringja í konur. Því að það er fátt jafn glatað og vera þvoglumæltur í símann með feedback í eyrunum að hringja í stúlku sem maður hitt í fyrsta sinn tuttugu tímum áður. Mikið skynsamlegar að horfa bara á Mammút, Singapore Sling og Jakobínarína. Það var alveg sæmilegt stuð en við skunduðum samt á Kaffibarinn einhvern tíman um nóttina. Vorum þá komin í keppni hvort systkinið þyldi meira af skotum. Þess vegna þurfti systir mína að yfirgefa mig allt of allof snemma. Og við munum ekki endurtaka svona kvöld fyrr en í Berlín. Hef ég reyndar lofað því að vera stilltur og ekki leika homma inni á yfirlýstum nazistastöðum, svo eitthvað sé nefnt. En svona loforð eru samt til þess að gleyma þeim. HItti stúlkuna frá kvöldinu áður sem spurði mig með hnyklaðar augnabrúnir hversvegna ég svaraði ekki sms-um. Ég reyndi að útskýra það fyrir henni að ég hefði slökkt á símanum til þess að ég færi ekki að senda henni furðu lega sms. Ég held að hún hafi ekki alveg skilið það. Fengum okkur pizzu og ég fræddi hana af því að í portinu bakvið staðinn væri allt krökkt af rottum. Skyndilega var hún ekki svöng lengur og vildi að ég fylgdi henni heim. Það gerði ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2008 | 15:21
Í nótt
Er að fara á opnun hjá vini mínum. Mun hitta systkini mín þar og við ætlum út að borða. Og ég lofaði stúlkunni frá því í nótt að hringja. Ég er mjög fegin að hún gisti ekki og er ekki ein af þeim sem fer úr nærbuxunum hjá hverjum sem er. Ég kann að meta það. Annars var ég með elsta vini mínum í nótt. Við létum eins og það væri ennþá 1998. Það var ekki gæfulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2008 | 07:12
Sleikur
Fallegasta kona í heimi var hjá mér í nótt til klukkan 6.30. Þá fór hún og ég horfði á eftir henni, stutthærðri, grannvaxini, þokkafullri.
M.a. í listum.
Fullkomin.
Og svo falleg að ég gleymdi öllum öðrum konum. Og við fórum i sleik í anddyrinu. Og þegar hún dró andann á eftir kossinum sagði hún: Ég ætla alltaf að vera hjá þér....
Og við kysstumst. Og við kysstumst Og við....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.3.2008 | 20:31
Örlítið um kvöldið og ...
Í kvöld stendur tvennt til boða. Að fara á blúsað fyllirí með litlu systur og tala um liðnar ástir og hvernig dagarnir hafa glatað lit sínum og ölduniðurinn hljóm sínum og himininn blámanum. Og ræða um það hvernig henni gangi að skrifa úti í Berlín? En það getur líka beðið þangað til á morgunn. Svo get ég líka farið til vinkonu minnar og drukkið hóflega rauðvín og horft á sérviskulegar kvikmyndir? Ég er ekki alveg búinn að gera upp hug minn þótt að mér lítist alltaf best á að hella systir mína skáldlega drukkna. Hún verður svo skemmtileg. Og sæt. Og blíð og minnir mig alltaf meira og meira á mig. Þegar ég var ungur. Og ef ég hefði verið sæt stelpa. Það gera taktarnir og hvernig hún talar og hugsar og kryfur hlutina. Og lygnir aftur augum þegar hún fer að finna á sér.
Ég er mjög þakklátur fyrir ættingja mína. Það er upp til hópa fólk með stórt hjarta og góða greind og næman smekk á listum. Enda hugsa ég oft um það hvernig hefði farið ef ég hefði fæðst inn í annarskonar umhverfi? Til dæmis umhverfi þar sem allt hefði snúist um að græða sem mesta peninga? Ég væri þá örugglega með tvöfaldra tekjur í dag en laus við smekk á því sem mér finnst í dag gefa lífinu tilgang. Því að það er sama hvað gerist, ég á alltaf athvarf í listinni. Og get notið þess sem fallega er framsett sama hversu skýin fyrir ofan höfuðið á mér eru dökk og drungaleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2008 | 20:10
Pólverji kemur í heimsókn
Ég var varla kominn heim frá daglegu amstri og tuði en það var bankað uppá hjá mér. Fyrir utan stóð karlmaður á mínu reki og spurði á bjagaðri ensku hvort ég væri rithöfundur. ,,Hver er núna að gera grín?" Hugsaði ég um leið og ég sagði honum hvað ég gerði. Hann skildi það ekki. En gat gert það ljóst að hann væri að leita að einhverjum sem gæti lesið og skrifað íslensku. Ég taldi mig geta það og bauð honum inn. Hann var með bæklinga og umsóknir um atvinnuleysisbætur. Ég blaðaði í gegnum þá á meðan ég skemmti mér yfir skelfingarsvipnum sem kom á hann er hann skoðaði olíumálverkin í stofunni. Þau eru ekki allra. Sérstaklega ekki þetta nýjasta, flennistórt verk af dvergakonu að hýða gamlan mann með svipu. Hún er mjög afskræmd í korselettinu sínu og ég fékk það á tilfinninguna að Pólverjinn, því að pólskur var hann, teldi mig einhvern stórhættulegan pervert. Ég þýddi fyrir hann það sem þýða þurfti og útskýrði fyrir honum í hvaða línur hann ætti að skrifa viðeigandi útskýringar. Hann var mjög þakklátur fyrir hjálp mína. Sagðist búa í næsta húsi og stundum sjá mig á hlaupum. Hann þekkti enga íslendinga fyrir utan þá sem hann vann með og yfirmann hans sem rak hann þannig að hann gat ekki snúið sér til þeirra. Ég gaf honum rauðvínsglas og spurði hann út í lífið í Póllandi. Hann svaraði því alltaf á sömu leið með því að brosa, hrista hausinn og tuldra fokkingshitt. Hann spurði mig hvort ég væri ríkur. Það væri svo mikið af bókum og málverkum hjá mér? Í Póllandi ætti bara mjög efnað fólk bækur og málverk. Ég sagðist ekki vera ríkur. Og ekki kæra mig um það en ég kæmist ágætlega af. Hann sagði mér að menn eins og ég væru ekki matvinnungar í heimalandi hans. Ég sagðist trúa því, þannig væri það líka farið með marga hér á Íslandi. Ég sagði honum að mig minnti að byrjunarlaun sálfræðinga væru um 250þús kall. Og að ég hefði neitað tilboði um kennslu því að það væri ekki hægt að lifa á því. Honum fannst erfitt að búa á Íslandi. Konur litu ekki við honum og félögum hans. Þeir væru oft mjög einmana. Mér fannst hann auka á þunglyndisstemninguna í íbúðinni. Svo höfðum við ekki neitt lengur að tala um. Hann kláraði úr glasinu og laumaðist til þess að líta aftur á málverkin. Svo kvaddi hann með loforði um að bjóða mér einhvern tíman í mat til sín og félaga síns. Ég sagðist hlakka til og meinti það. Ég hef oft skemmt mér vel með drykkfeldum slövum. Þessi nágranni minn heitir því ópólska nafni Albert. Það kom mér mest á óvart.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 02:39
Hamingju árás
Eyddi kvöldinu með þremur mjög fallegum stúlkum á bar. Sátum og krufðum gamla the Smiths slagara og pældum í textunum. Ég fór uppúr klukkan eitt þegar ég vissi að ég gæti ekki drukkið sopa af bjór í viðbót og vilji ekki heyra setningu meira úr herbúðum þeirra karla í the smiths. Sem enginn man eftir í dag. Nema svona tuttugu og tveir. Keypti mér fitandi pizzu á leiðinni heim og blístraði hamingjusamur yfir lífinu og tilverunni og yfir því að vera bara ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.3.2008 | 21:02
Að deyja og deyja og deyja
Ég ætla að vera einhver annar en ég er í kvöld. Og fara og horfa á hrukkurnar í andlitum fólksins sem ég kann að mæta. Og hugsa um dauðann og hugsa um dauðann og hugsa um dauðann.
Og ekki snúa aftur fyrr en þessi hrollur sem setið hefur í mér í allan dag er horfinn. Þessi hrollur og þessi sorg yfir liðnum stundum sem aldrei koma aftur og yfir því hvað við nýtum þær yfirleitt illa.
Það er stundum í lagi að vera dapur og þungur. Það er stundum í lagi að gráta með orðum þegar maður hefur ekki þennan hæfileika að fella tár. Það er stundum í lagi að vera meyr. Mér finnst ég alltaf vera meyr. En það er eflaust ástæða fyrir því?
En það brosti stúlka til mín á Lækjartorgi í dag og sagði hæ. Og ég þekkti hana ekki. Og það minnti mig á það að það er til fólk sem man eftir þeim sem það hittir. Það er til fólk sem kann að gefa. Og ég stóð bara dökkklæddur að bíða eftir mágkonu minni og horfði á eftir henni og tók eftir því að hún var í stuttu pilsi og síðri úlpu. Og hárið var dökkt og stutt og úfið. Og ég veit að ég mun aldrei sjá hana aftur. Enda skiptir það ekki máli. Þótt hún væri fögur.
Þegar ég kemst að því hvað skiptir máli, þá deili ég því eflaust með einhverjum. En ég held að það sé ekki dauðinn. Og ekki heldur dökkhærðar stúlkur í stuttum pilsum. Eða snjór í fjallshlíðum eða vor í einangruðum firði þar sem öll hús eru gömul og skökk og málningin öll flögnuð og manni verður hugsað til þess að einu sinni bjó önnur kynslóð í þessu landi en hún er farin...
Kannski er það rétt að ef maður dokar við innan um gömul hús sem brakar í ef hreyfir vind, þá geti maður heyrt nið aldanna? Þá geti maður upplifað sögu þeirra sem voru?
Segir aldan í fjöruborðinu manni eitthvað? Eða mosi sem vex á steini? Lærir maður eitthvað á þeim sem á undan hafa gengið? Kennir dauði einhvers okkur hvernig við eigum að lifa? Eða hvernig við eigum að deyja?
Ég sá fyrir mér í dag mína eigin kistulagningu. Horað gamalmenni í hvítri kistu. Sonur minn og eiginkona og eina barn þeirra. Tveir gamlir frændur, lifrasjúkur drykkjubróðir. Og prestur. Aðrir voru þar ekki. Þetta eru sporin sem ég mun skilja eftir mig. Tár miðaldra sonar og nafn sem ég risti í tré í fyrra vor.
Í tré sem grær og lifir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2008 | 17:07
Húmorlaus vegna sorgar
Kistulögnin var efið þótt að stutt væri. Meira að segja töffurum eins og mér og bróður mínum vöknaði um augun. Það er eitthvað við þessar sópransöngkonur sem eru fengnar til þess að syngja á svona stundum, sumar hafa rödd sem geta vakið þá sem eru burtu sofnaðir aftur til þessa heims. Eftir athöfnina fór ég beint heim og sit hérna alveg svartklæddur, reyndar búinn að losa um bindið og reyki og reyni að forðast að hugsa um það að öllum er okkur búin sömu örlög. Örlög sem ættu að tengja okkur öll saman hvern dag en gera það ekki. Og láta okkur vera góð við hvort annað.
Nú vantar mig að húmorinn minn komi aftur í leitirnar. Ekki síðar en strax!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)