Færsluflokkur: Bloggar
15.3.2008 | 15:21
Matarboð til að enda öll önnur matarboð
Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom í matarboðið var frænka mín. Þú hér? Spurði hún undrandi? Hver bauð þér? Bætti hún við eins og ég væri boðberi válegra tíðinda? Ég sagði henni það. Heimurinn er lítill sagði hún, vissirðu að við erum vinkonur? Ég sagðist ekki hafa vitað það. Hún á eftir að vera góð við þig ef þú verður góður við hana, sagði hún. Ég svaraði engu, brosti bara og tók af borðdömu minni kápuna.
Setið var á nokkrum borðum sem mynduðu U. Við vorum 26 í allt. Þríréttaður matseðill og mikið af víni í öllum litum. Andríkar samræður og ég passaði mig á því að móðga engan og vera ekki mikið ég. Var bara rólegur og yfirvegaður og reyndi að hugsa áður en ég talaði. Laug ekki upp á mig kynvillu eða barnaníðum. Minnugur þess að hafa stundum áður orðið öðrum stúlkum til skammar.
Eftir aðalréttin var frænka mín beðin um að syngja. Stúlka lék undir á píanó. Og þegar hún söng: Hugur minn þráir, hjartað ákaft saknar/er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá... Fann ég að tekið var um hönd mína undir borðinu. Og ég leit á stúlkuna sem sat við hlið mér og við horfðumst í augu og brostum. Og frænka mín fór svo hátt upp að glösin fyrir framan okkur nötruðu og ég hugsaði með mér að ég þyrfti eiginlega að gifta mig aftur og deyja, helst á hverju ári, til þess að geta fengið hana til að syngja þetta lag fyrir mig. Og alla aðra. Sem oftast.
Og kvöldið leið við drykkju og glaum og gotur augna og stolnra snertinga.
Síðar stóðum við á úti á palli fyrir utan húsið og horfðum á Öskjuhlíðina og stjörnurnar á himninum fyrir ofan okkur og ég þagði og hugsaði um það að áður hefði ég upplifað svipaða stund: garð og stjörnur og stúlku. En samt, þrátt fyrir að sú minning væri mér ennþá mjög kær og skýr, fór ég úr jakkanum mínum og lagði um naktar og grannar herðar þegar ég sá að henni var kalt og ég sagðist sjá eftir kvöldinu áður (fimmtudeginum en þá reyndi ég að binda enda á kynni okkar) og að ég vildi hvergi annarrstaðar vera en undir þessum himni með henni. Hún sagði að ég væri sætur. Ég sagði að það væri umdeilanlegt. Við vorum hljóð. Þekkirðu einhverjar stjörnur spurði hún loks. Ég drap í sígarettu og sagði: bara okkur tvær. Og hún hló. Þú ert skáld, sagði hún loks og hrukkurnar í kringum munninn og augun, þegar hún brosti, gerðu hana enn fallegri. Ég yrki ekki svaraði ég. Víst, sagði hún, þú yrkir í fólk. Það er það hættulega við þig. Ég tók utan um hana og hugsaði með mér að hún léti mig hljóma eins og skæðan flagara. Og ég hugsaði um aðra stúlku og kvaddi hana og þakkaði fyrir alla ástina sem hún bar til mín fyrir svo löngu síðan. Sagði svo upphátt: Þú veist að það er ekki til ást? Fólk elskar ekki, það telur sig gera það vegna þess að það langar að gangast einhverri hugmynd á vald! Við þögðum. Svo sagði hún: fólk elskar, þótt að þú getir ekki skilgreint ást. Ég veit að þú elskar líka. Einhverja konu úr fortíðinni, son þinn, systir. Svo marga. Þú ert bara að reyna að vera leiðinlegur eins og í gær. Ég þagði og sá að stjörnurnar fyrir ofan okkur voru sápukúlur sem sprungu þegar ég snerti þær.
Síðar tróðumst við inn á Ölstofuna og í þvögunni kom móðir mín og faðir á móti mér ásamt fleirrum ættingjum og mökum þeirra. Svipurinn á móðir minni var eins og einhver hefði dregið rautt strik þvert yfir andlit hennar. Hvað kona ert þú, spurði hún stúlkuna og horfði á hana með augnaráði sem var eins og hvassir bambusprjónar notaðir til að setja undir fingraneglur fanga. ,,Hvaða kona ert þú" sagði deili á sér og rétti fram hönd. Faðir minn tók í hana og brosti. Sagði eitthvað um það að það væri gaman að kynnast henni. Ég var á svipinn eins og kúbískt málverk eftir sama mann frá því að er ég fæddist. Það hefði verið hægt að hengja mig upp á vegg og setja verðmiða undir mig og gefa fólki rauðvín og gangrýnendur hefðu skrifað eitthvað um að faðir minn hefði náða að mála ásjónu dauðans. Móðir mín hélt áfram: X hefur einu sinni gifst og það er eina konan sem ég mun líta á sem tengdadóttir mína, mundu það! Þögn. Kúbískamálverkið varð að martröð eftir Dalí.
Þú fagra minning eftir skildi eina/sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er...
Og við stóðum undir sömu stjörnum og fyrr um kvöldið og hún draup höfði og þagði og ég þagði því að ég þorði ekkert að segja. Móðir þín er grimm stundi hún loks upp! Láttu mig vita það, svaraði ég, þegar hún bauð mér og fyrrverandi eiginkonu minni fyrst í mat starði hún lengi á hana áður en hún sagði: Þú svona gáfuð og falleg hefðir getað gert svo mikið, mikið betur!
Stúlkan hló, leit upp og rétti út hönd. Ég tók í hana. Snertingin var mjúk og hlý. Þú veist að þetta á bara eftir að versna, sagði ég! Já, hvíslaði hún, þetta er bara móðir þín, þú ert mikið klikkaðri. Ég svaraði engi. Stóð bara og hélt í hönd hennar og yfir okkur voru tungl og stjörnur og gervihnettir og götuljós og kannski gamall guð með hvítt skegg sem leggur hindranir í veg fyrir allt fólk. Þessi grimmi og vondi guð sem er alltaf að reyna Ísraelslýð og afkomendur Kains. Þessi guð sem reynir allt hvað hann tekur að láta öllum líða eins og Job. Reyna að trú og staðfestu. Þessi guð sem við fundum upp fyrir svo löngu til þess að réttlæta það hvað lífið er erfitt. Eða: hvað við erum veiklynd og gerum lífið erfitt með öllu því sem við gerum.
Ég leit niður, horfði á tærnar á henni í opnum skóm. Hælarnir háir. Fagurskapaðir leggir. Hún var með gæsahúð. Á háum hælum er hún á hæð við mig, hundraðáttatíuogsexsentímetrar. Mér er kalt stundu hún og stóð á einni löpp meðan hún losaði af sér skóinn. Svo hinn. Tók þá í vinstri hönd og rétti mér þá hægri: komdu!
Við hurfum inn í Þingholtin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.3.2008 | 21:32
Allir í bátanna!
Ég hef skipað áhöfninni á Kreppu RE-1 að fara í bátana eftir að djamm ísjakinn sem lúrir 90% undir yfirborði rappsjávar á hæðinni fyrir neðan, reif fjögra metra langt gat á kjölinn. Ég ætti sem góður og vandaður skipstjóri að fara niður með skipinu en kýs að lauma mér síðastur frá borði með fangið fullt af rauðvínsflöskum, afla síðustu viku. Svo munum við róa lífróðri upp Laugaveginn uns viti vísar okkur til heimahafnar á notalegum bar. Flakinu verður svo bjargað síðar. Eða ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2008 | 18:51
Að kúka í aðra höndina
Nú er ég búinn að kveikja á ryksugunni til þess að reyna að yfirgnæfa rapp og söng gleðimannanna á svölunum fyrir neðan mig. Sit bara og geri ekkert og hlusta á ryksuguna. Ég veit ekki hversu gott það er fyrir andlega heilsu mína? Og jafnvel þessi ryksuga getur ekki alveg yfirgnæft gleðilætin fyrir neðan mig. Verst er klappið. Það minnir mig á drukkna latínuflagara. EF ég væri api mundi ég kúka í höndina á mér og láta vaða yfir þá. Í stað þess bölva ég því hversu langt ég er kominn á þessari andskotans þróunarbraut sem kemur í veg fyrir að ég sýni þeim hug minn! Ég ætti kannski að gefast upp og fara niður og bjóða þeim bjórkassa fyrir að skrúfa lætin niður um fimmtíu desíbil?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2008 | 17:58
Á að ganga af mér dauðum!!!
Atvinnuleysingjarnir eru vaknaði fyrir neðan mig og byrjaðir að drekka í sig kjark með tilheyrandi eyrnaskemmandi tónlist og klappi! Þetta er eiginlega farið að vera fyndið. Nú standa þeir báðir á svölunum í stuttermabolum og syngja með einhverri blökkusöngkonu og klappa og arga stundum: Nonono!!! Ég neyðist til þess að fara og skvetta eins og einu glasi af rauðvíni yfir þá. Ég er farinn að kunna ágætlega við þennan húmor þeirra og með þessu áfram haldi mun ég ekkert fara oftar út. Ég verð upptekinn í nágranna stríði. Best að ég blasti á þá My bloody valentine!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2008 | 17:43
Minn staður í veröldinni
Ég er einn af þeim sem skrifa oft Kilroy was here! Þessa áletrun með rithönd minni má finna á jafn ólíkum stöðum og Rómverskufornleyfum, fyrir ofan klósett á skemmtistöðum, á Gotneskri dómkirkju, veggjum allra þeirra húsa sem ég hef búið í, allra þeirra opinbergustaða sem ég hef heimsótt starfa minna vegna, á leiði Franz Kafka, fyrir ofan stubbahúsið á Hlemmi. Fyrir mér er þetta ekki vandalismi. Ég er einfaldlega að lýsa því yfir að á einhverjum tímapunkti hafi viðkomandi staður, verið minn í þessari veröld. En ekki með réttu nafni, heldur eins og á þessu bloggi, nafnleysingi, eins og sultardropinn í verki Hamsunds. Og þegar ég yfirgef staðinn, hvort sem hann er bar í Evrópu eða útisundklefi í Laugardalslaug, þá er hann á einhvern hátt orðinn minn! Staður sem aðrir geta heimsótt en ekki eignast því að helvítið hann Kilroy, þessi kunni nafnleysingi sem eru mörg hundruð þúsund manneskjur, hefur verið þar á undan honum og á einhvern hátt gert hann að stað sem aðrir geta ekki eignast. Með þessari setningu finnst mér ég því geta stolið stöðum frá þeim sem á eftir koma, þannig að hlutdeild þeirra í þeim verður lítil sem engin. Þetta er ekki bara viðleitni´mín til þess að eigna mér eitthvert smá pláss í síminnkandi heimi, þetta er viðleitni til þess að eignast heiminn allan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.3.2008 | 00:04
Helvítisfjöfulsinsandskotans...
Helvítin þeir Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða eru komnir heim og aftur búnir að opna út á svalir með glæpamennina svörtu á hæsta. Núna duga engir rauðvínstappar ef ég á að getað sofnað um eitt og mætt til vinnu á morgunn! Nú þarf ég að fara að henda flöskum í þessa herramenn. Af hverju þurftu atvinnuleysingjar og ógæfu unglingar um þrítugt að leigja íbúðina fyrir neðan mig um síðustu mánaðarmótt. Og hver leigir tveimur útúr sukkuðum drengjum íbúð? Nema að það sé planið að láta dópista lækka fasteignaverð hérna? Það væri eftir öllu. Það væri mín gæfa alltaf hreint. Ég er að hugsa um að láta heitt vatn í skúringarfötuna og skvetta niður á næstu svalir. Vonandi er útidyrahurðin hjá mér sterkbyggð? Við komumst að því í nótt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2008 | 22:59
Baukar fullir af brostnum vonum
Var allt í einu að muna (í miðju símtali) þegar stúlka tók í höndina á mér fyrir mörgum árum og sagði: ég ætla að sýna þér svolítið sem enginn veit um. Og hún dró mig í myrkri undir örfáum stjörnum og deyjandi tungli yfir sæbarið grjót, niður í grýtta fjöru og þar sýndi hún mér svolítið sem hún hafði falið þar tuttugu árum áður og aldrei vitjað um. Bréf í kaffibauk sem lýstu vonum hennar og þrám. Og undir flöktandi loga kveikjara las hún upp lýsingu á manni sem hún vildi eiga. Og því miður passaði útlitið við mig. En ekkert annað. Ég er alltaf svo heppinn. En samt kysstumst við þarna og bátur þeytti þokulúðra undir kossinum og ský dró fyrir hin gamla mána svo hann sá ekkert sem hann hafði ekki gott af að sjá. Þetta rifjaðist upp því að stúlkan sem ég var að tala við í síma í kvöld (frá því um helgina) sagði: ég verð að sýna þér svo margt! Og ég hugsaði: vonandi ekki gamla kaffibauka fulla af brostnum vonum. Ég er ekki maður í það ennþá. Ég er ekki maður í neitt ennþá. En ég gef þessu matarboði ennþá séns.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2008 | 19:29
Stríðsyfirlýsing!
Það eru tveir gaurar á hæðinni fyrir neðan mig á svölunum þar að plasta helvítis hipphoppi eða annarri drullu yfir miðbæinn. Þeir eru að drekka hland úr áldósum sem sumir kalla bjór. Ég reyndi að yfirgnæfa þá með Chopin En það gekk ekki. Píanóverk eru ekki til þess fallinn. Þá henti ég í þá rauðvínstappa og bað þá um að lækka. Það var til þess að glæpamannaþvaðrið byrjaði að hrista timburveggina. Ég setti þá á Jesus and the mary chain og hækkaði í botn. Núna heyri ég ekki lengur í blökkumönnum tilbiðja rassa á konum, gullkeðjur og dollaraseðla en í staðinn er komin hávaði eins og einhver sé að muldra andlátsbæn ofan í keðjusögina sína. Og á milli laga: don´t try to say Im tripping´/when i gett to flipping´/then I smack the clip in/nigga my gun go off...
Þetta verður langt og andlega slævandi kvöld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2008 | 16:28
Konur með barnavagna - vorboðinn ljúfi
Skakklappaðist eftir vinnu á Kaffivagninn með félaga mínum og saup þar frekar vondan drykk sem minnti meira á fölgrænt hafið fyrir utan gluggann en þann drykk sem ég kalla kaffi. Samt voðalega notaleg stemning þarna. Allir eldri en við og enginn hippogkúl.
Græjaði það að komast í matarboð á föstudaginn sem mér er boðið í. Þetta er víst ógnarinnar samkoma af listamönnum og öðrum annáluðum gáfumönnum og svo mér. Allt í allt víst rúmlega annar tugurinn. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessari samkomu?
Held samt að það verði gaman. Fólk er almennt séð að komast í vorskap. Krían víst komin og ekki hægt að þverfóta lengur fyrir konum með barnavagna . Þær hafa í mínum augum alltaf verið hinn eini sanni vorboði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 21:50
Kertalandið
Þetta lag var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var 18 ára. Lag af plötu eftir söngvara Echo and the Bunnymen sem fór ekki hátt. En ég man að ég var duglegur að spila þessa plötu í útvarpi menntaskólanema sem var í kjallaranum á F.Á., þar sem ég var tvisvar í viku með þátt um ,,neðanjarðartónlist".
Þá þegar var ég farinn að óttast það mest að vera ekki á jaðrinum. Þótti óþægilegt ef ég mundi allt í einu vakna og vera meinstrím. Það voru mínar martraðir. Og ég átti það til að vakna upp eftir að hafa dreymt mig í jakkafötum með skjalatösku að bíða eftir strætó. Í dag óttast ég það ekki. Stundum hef ég meira að segja þurft að vera í jakkafötum og með bindi í vinnunni. Yfirleitt tengt peningum. Sleppum því. Núna tuttugu árum síðar, eða næstum því, er ég ennþá alltaf sokker fyrir öllum sem eru á jaðrinum (nema Lalla Johns og öðrum gangsterum) og veit að ég er fastur í þráhyggju sem hófst fyrir svo mörgum árum og gengur út á það að ógreitt hár og svört föt tákni frelsi. En jakkaföt kassalagaðan hugsunarhátt. Þess vegna er þetta lag svo fyndið. Ég dýrkaði það fyrir svona 18 árum en í dag finnst mér það ógeð. Það er samt flutt af einum af ,,óháðu" kóngunum. Og ég geng í jakkafötum alla veganna þrisvar í viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)