Færsluflokkur: Bloggar

Miklar vinsældir mínar

Skoðaði eitt hundrað blogg af vinsældalista mbl.is.  95 af þessum hundrað eru þannig að viðkomandi hengir sig alltaf við fréttir, aldrei neitt sem kemur að fyrra bragði frá eigin brjósti.  Hin fimm voru stundum að hengja sig við fréttir.  En jafn sjaldan kom eitthvað frumlegt eða gáfulegt frá þeim.  Bara skoðanir á dægurmálum.  Og fáir af þessum bloggurum höfðu eitthvað á valdi sínu sem kallast gæti íslenska eða stíll.  Flestir þumbuðust í sama frásagnarhættinum án þess að bregða fyrir sér frumlegum líkingum eða líkingum yfir höfuð.  Ég er farinn að endurskoða veru mína hérna.  Mér líður eins og læsum manni í landi hinna dvd-sinnuðu.  Sem aldrei hafa séð bók.  Það eru of fáir sem skrifa án þess að nota Britney Spears sem hækju og þegar þeir skrifa um hana er það ekkert frumlegt: hún er í tjóni, þessi stúlka!  Hefur fólk fokking ekkert annað að segja?  Núna opna ég aðra flösku eða fer á barinn eða hengi mig af vanlíðan fyrir að vera í þessum félagsskap.  (Það eru þó svona fimm eða sex bloggara sem eru ekki svona grunnir á þessu bloggi og þeir flestir kommenta hjá mér reglulega).  Hafi þökk fyrir félagskapinn hingað til. 


NYC

Fyrir nokkrum árum gekk ég í gegnum mikla tilvistarkreppu.  Hún var tengd konu sem fór og því að vera forstöðumaður á stað sem ég vildi ekki stýra.  (Mörgum árum síðar er sama kreppa í gangi, bara önnur kona, annar staður eða eitthvað) og ég festist í eftirfarandi lagi.  Sat í eymd minni og hlustaði á það aftur og aftur.  Þangað til að einn daginn ég nennti ekki að hlusta á það var kominn með ógeð og um leið var sársaukinn eftir stúlkunni liðinn hjá.  Og ég farinn að sætta mig við leiðinlegu vinnuna.  Ég saknaði sársaukans.  Það er stunum jafnvel betra að sakna en elska.

Núna hækka ég þetta lag í botn.  Ekki til að fyllast fortíðarþrá heldur til að - getið bara - yfirgnæfa mitt daglega rapp sem berst upp frá pizzuætunum nágrönnum mínum.  (Jamm allar ruslatunnur fullar af pizzukössum og þeir eru ekki frá mér.)  En þeir eru samt ágætir, þessi grey.


Borinn frjáls í hlekkjum

Rakst á svohljóðandi áletrun eftir Rousseau:  Maðurinn er borinn frjáls, en allstaðar er hann í hlekkjum.  Og ég fór að velta því fyrir mér í hvað hlekkjum skildi ég vera?  Fyrir utan leiðinlegrar vinnu og þráhyggju til kvenna?  Ætli ég sé líka haldin einhverjum öðrum meinlokum sem ég sé ekki?  Eins og þeirri að halda að ég sé svo klár að það sem mér dettur í hug, eigi erindi til annarra, í gegnum þetta blogg? Að ég sé svo víðsýnn og velupplýstur að ég sé laus við fordóma?  (Helvítis kynvillingum er bannað að kommenta á þetta blogg!)  Ég held að ég sé eins og Houdini áður en honum var varpað í Dóná.  Hulinn keðjum nema að ég er engin jogameistari sem get smeygt mér undan fargi hlekkjanna.  Í besta falli get ég feikað það gagnvart öðrum hversu margir, þykkir og þétt ofnir þeir eru.  Þó ekki gegn rappþyrstum nágrönnum mínum, svipurinn sem ég sendi þeim niður á næstu hæð í gegnum steinsteypt gólfið mundi meira að segja hræða mömmu!

Núna pæli ég í því hvernig ég eigi að losa mig við þessar meinlokur sem þrá mig?  Ég óttast bara að ef ég færi til sálfræðings þá yrði ég eins og Alvy Singer í Annie Hall, farinn að geta sofið með slökkt ljósin eftir vikulegan tíma í fimmtán ár!  Það kæmi sennilega bara meira rusl upp á yfirborðið, fleiri og þyngri hlekkir.  Ég held að ég geri bara eins og Houdini.  Fari í jóga og smjúgi á milli hlekkjanna háll eins og áll og endi á bólakafi í Dóná, þeim drulluga pytt.     


Niðurrif dagsins

Sagði næstum upp í dag.  Engin sérstök ástæða, sat bara við skriftir og yfir mig helltist einhver örmögnun.  Að vera búinn að vinna með fólki í fimmtán ár.  Að vera búinn að vera forstöðumaður hér og þar í næstum tíu ár.  Alltaf það sama.  Alltaf kvabb í starfsmönnum, skjólstæðingum, aðstandendum, stundum lögreglu eða öðrum yfirvöldum.  Kvabb í yfirmönnum að maður eyði of miklu.  Kvabb, kvabb, kvabb...  Og aldrei segir maður neitt fyrr en einn daginn að maður vaknar upp og finnur að maður er útbrunninn.  Eða frekar, aðrir í kringum mann sjá það.  Ég hef nokkrum sinnum brunnið út en alltaf getað endurhlaðið mig aftur, oft með því að skipta um starf.  En ég held að störfin séu eins og konur og sambönd, ef maður tekur ekki til eftir sig þar sem maður var, kemur maður með skítinn á næsta stað.  Þannig að niðurstaðan fyrir daginn í dag er:  ég er ómögulegur í bæði vinnu og einkalífi.  Frábært að fara í páskafrí með þetta á bakinu!

 


Að loknum helvítis nördadeginum

Er orðinn svo kaótískur í hausnum eftir að hafa horft á hákarla og geimverur og reynt að vera ekki asni þegar ég svaraði nokkrum smsum að ég finn ekki fyrir löppunum.  Held að þær hafi dansað sig í örvæntingu í burtu frá mér.  Svo ofan á allt saman hringdi Serbinn vinur minn í mig og var alveg með koffínótt plan um það hvernig við gætum grætt peninga á sem skjótustum tíma.  ég sagði honum að prófa að drekka vín á kvöldin áður en hann fer að sofa í stað þess að sturta í sig expressóum.  Ég sagðist sofa á gróðaplaninu.  Lífið var mikið einfaldara þegar hann var hungraður myndlistamaður sem gekk í götóttum og lekum skóm í slabbinu á eftir öllum stúlkum í heiminum.  En svo klippti hann rómantíska hárlubbann og giftist og eignaðist börn.  En hann er ennþá jafn trylltur.  Bara í peninga núna.  Dreg þá ályktun að það sé tónlistin þarna sem geri alla firrta.  Sannfærist.


Að horfa á fólk étið lifandi

Eftir að hafa horft á meira en góðu hófi gegnir af myndböndum af geimverum skornum í sundur á skurðborðum, fór ég og leitaði að hinum nördaskapnum í mér - hákörlum.  Og komst í feitt.  Fullt af myndböndum þar sem þessar skepnur ráðast á sundmenn fyrir framan vélarnar og tæta þá í sig eða í það minnsta, synda í burtu með eins og einn lim.  Og þar sem þessi myndbönd eru ekki fölsuð eins og geimverurnar úr frauðplastinu, þá eru angistarvein fórnarlambanna ein og sér nægileg til þess að manni verður hálf óglatt.  Og núna munu allar mínar hákarla og geimverufóbíur vitja mín og halda mér skjálfandi undir sæng af hræðslu.  Takist mér að sofna munu hvassar tennur eða tæki til endaþarmsrannsókna vitja mín og vekja mig upp sveittan.  Sem betur fer er bara klukkutími eftir af þessum nördamánudag og vika í að hann verði endurtekinn. 


Geimskip fundið í Síberíu

Eftir farandi myndband hrakti alveg mánudagsblúsinn á brott.  Það er svo mikil snilld að ég ræð ekki við mig.  Rússneskir vísindamenn finna leifar af nauðlentu geimfari í Síberíu.  Eða einhverjum öðrum freðmýra.  Og þessu er að sjálfsögðu haldið leyndu, svona eins og Roswell í USA.  Til að koma ekki af stað ofsahræðslu hjá okkur heimskum og fáfróðum skrílnum.  Einmitt.  Og þá vitið þið hvernig ég ver þessu kvöldi, í að lesa allar þær heimskustu og nördalegustu samsæriskenningasíður sem ég get haft upp á með google.  Það versa er að ég á það til að blogga um það sem ég les.  Til að ná úr mér pirringnum eða vegna þess að það sýður í mér hláturinn. 

 


Tekur því ekki að lesa þetta

Það er óvenju hljótt hérna í húsinu, hljóðara en ég á að venjast.  Kannski að gleðimennirnir hafi fundið sér umburðarlyndar konur um helgina sem hýsi þá og rappið þeirra?  Eða farið í meðferð?  Ég kveikti meira að segja á sjónvarpinu áðan og hlustaði á fréttir, eitthvað sem ég hef ekki getað gert lengi.  Annars finnst mér ég ekki hafa verið neitt heima lengi?  Kom hérna við í mýflugumynd á laugardaginn og svo rétt aðeins í gær til að skipta um föt.  Alltaf hálf hallærislegt að vera í djammgallanum á sunnudegi.  Alveg sama hvar maður er.  Annars er ég kvefaður og hálf þreyttur eftir vinnu og djamm.  En hver er það ekki á mánudögum?  Ætla ekki að vorkenna mér það eru að koma páskar og svona, stutt vinnuvika nýhafin.  Vei fyrir því.   


Bömmer eftir helgina

Er búinn að sjá það að það er ekki gott fyrir mig að kynnast kvenfólki.  Það dregur fram minningar um allt sem miður hefur farið í samskiptum við hitt kynið síðustu 18 ár.  Og þær sögur mundu nægja til að fylla þetta blogg í mörg ár.  Það þarf svo lítið til þess að kveikja á,,hversu stutt og stormasamt verður þetta samband?" takkanum hjá mér.  Það var nóg að ég rækist á vinkonu mína, sem er líka vinkona fyrrverandi konu minnar og ég fór í kerfi.  varð flóttalegur og vonaði að deitið mitt mundi ekki koma og vilja vera kynnt (hún var úti að reykja, þetta var á Ölstofunni) og fór að stama og vera skrítinn.  Kvaddi taugaveiklaður og dró stúlkuna á annan bar.  Var þar hálf skrítinn í hálftíma.  Það þarf ekkert til þess að koma mér úr jafnvægi.  Fyrir utan þetta var þessi helgi ágæt.  Ég er samt eitthvað niðri, finnst eins og ég sé að draga þessa stúlku á asnaeyrunum með því að láta eins og ég sé allt í lagi.


Í kvöld og að skrifa

Í kvöld ætlum við að gera eitthvað rólegt eins og að fara á bar og drekka nokkur glös og horfast í augu og ég ætla að sitja á strák mínum og ekki vera eins og asni.  Passa hvað ég segi og gleyma því að ég eigi móður sem er eins og hvíthákarl sem rennur á blóðlykt þegar kemur að þessari stúlku.

Svo skemmtilegar fréttir:  Samkynhneigður leikstjóri er búinn að vera að lesa nokkur gömul leikrit eftir mig sem hann fann hjá öðrum gay leikstjóra.  Hann vill að ég endurskrifi tvö þeirra til þess að hann geti sett þau eða annað þeirra upp í haust.  Það kitlar hégómagirnd mína því að þessi verk voru skrifaðu fyrir tíu árum með það fyrir augum að sjá þau á sviði.  Fyndið að eitthvað sé að gerast núna, svona löngu síðar!  Ég ætla að sofa á þessu í nokkra daga en ég held samt að ég muni eitthvað eiga við þau.  Auðvelt að kveikja í leikskáldinu í mér, þótt að það hafi verið fyrir svo löngu síðan borinn til moldu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband