Færsluflokkur: Bloggar

Heilabrot

Í gær kom kona til mín þar sem ég stóð og blaðraði um fótbolta með vini mínum og þakkaði mér fyrir að skemmta sér með blogginu mínu.  Ég var hissa, ég vissi ekki að ókunnugt fólk gæti þekkt mig af skrifum mínum.  Þessi kona veldur mér ennþá miklum heilabrotum.

Svo heyrði ég líka slæma kjaftasögu um sjálfan mig frá vinkonu minni sem kom mér í fýlu.  En bara í svona tíu mínútur.  Það sem fólk slúðrar um aðra stafar af leiða hjá því sjálfu eða einhverjum hvötum sem maður á ekki að reyna að skilja, bara að leið hjá sér.


Stjörnurnar í nótt

Og eins og svo oft áður læt ég seiðast af stjörnum sem tindra á himninum og neonljósum sem lýsa upp inngang á börum. Og ég er dreginn út af þessum öflum, þessum ljósum, sem stundum hafa orðið mér til gæfu, oftast til fjörtjóns.  Og ég fer út svartklæddur en þó ekki dapur og mun undrast á leiðinni á vit glaumsins, hvað himininn getur verið fallegur og hvað margar stjörnur eru þar sem á jörðu niðri, sem eru tilbúnar að lýsa mér aftur leiðina heim.  En ég ætla ekki að láta þessi ljós sem skína hvað skærast og geta orðið að augum, brúnum og grænum og dökkbláum og stórum, heilla mig.  Nei, ég mun bara feta mína slóð staðfastur, fram og til baka.  Og kannski, ef ég verð of fullur, leggjast á bakið í einhverjum garð og horfa á himininn koma niður á móti mér uns ég verð umvafinn glitrandi ljósum, stjörnum, þessari tilfinningu að það sé allt í lagi að deyja, hafi maður elskað!


Uppáhalds söngkonan mín

Ég heyrði fyrst í uppáhalds söngkonu minni í mars árið 1997.  Ég fór á myndina Romeo and Juliet einn sunnudags eftirmiðdag með stúlku og einhvern tíman í myndinni er lagið Little star með Stinu Nordenstam.  Og það var það minnisstæðasta við þessa mynd.  Næstum jafn minnisstætt og þegar stúlkan leiddi mig á kaffihús því að við höfðum ákveðið að fara að búa saman og þurftum að ræða málin.  Það kom aldrei að því að við bjuggum saman.  En lagið ómaði í eyrum mínum lengi á eftir.  Og eftir það hef ég alltaf keypt allt sem Stina hefur gefið út.  Gladdist mjög þegar hún söng nokkra dúetta með Brett Anderson og einn þeirra hefir alltaf verið mér hugleikinn.  En þessi söngkona þrátt fyrir að vera með englarödd er ekki allra.  Fer ekki hátt og ég nýti öll tækifæri til þess að minna fólk á tilvist hennar.  Hún er einstaklega góð til þess að laða fram tilfinningu um ástleysi og tómleika.  Að veröldin sé köld og ljót og við munum öll deyja ein og öllum gleymd.  ég fer ekki fram á meira frá listamönnum en að minna mig á þessa einföldu staðreynd! 


Mailar

Fékk tvo maila frá systur minni í dag.  Hún vorkenndi okkur báðum fyrir lánleysi í ástarmálum þótt að hún vissi að það væri engum nema okkur að kenna.  Svo sagðist hún sakna þess að komast ekki reglulega á okkar dapurlegu bömmers fyllirí.  Þó að það væru bara sex vikur í það næsta sem yrði úti í Berlín þá saknaði hún þess að hafa ekki einhvern sem skildi sig.  Mér finnst merkilegt hvað við höfum alltaf verið náin og verðum alltaf nánari og nánari með aldrinum.  Og jafnvel þótt að ég hafi gert eitt og annað á hennar hlut og hún á minn, þá þarf aldrei að ræða það neitt frekar.  Það dugir að segja: fyrirgefðu.  Sennilega mundi einhver segja að við værum meðvirk og reiðubúin að viðhalda þessu bömmers ástandi þar sem alltaf allt er á hvolfi og við eigum engan að í heiminum nema hvort annað?  Óheilbrigt er það, já.  En við getum alltaf kennt mömmu um.  Og hvernig hún er við fólk.  Við lærðum af meistaranum.  Systir mín sagði líka að vinur okkar hefði verið að spila úti í Berlín en hún ekki komist.  Þessi sami vinur okkar er fertugur og giftur átján ára stúlku og spurði mig einu sinni hvort að það væri í lagi ef hann giftist systur minni ef hann mundi skilja?  Ég sagði að hann yrði að spyrja pabba og vera reiðubúinn að borga fyrir systur mína með geitum.  Hann bauðst til þess að borga fyrir hana með gíturum.  Ég sagði að tuttugu skot á barnum og ég mundi tala hans máli.  Svo mundum við ekki meira um sinn.   


Uppáhalds skemmtistaðurinn minn!

Er búinn að komast að því hver er uppáhalds skemmtistaðurinn minn.  Það er ekki subbuleg búlla.  Ekki heldur kúl og trendý hótelbar.  Ekki heldur heldur líkastan sem ég sef í á næturnar.  Nei það er kommentakerfið á þessu bloggi mínu.  Það kallað fram hláturrokur sem yfirgnæfa allt rapp og fá mig til þess að gleyma því að brátt mun súr lykt af stöðnu rusli fara að berast hinga upp til mín.  Skál!


Tíðindalaust af tónlistavígstöðvunum

Var kominn á fremsta hlunn með að fara niður og athuga hvort að strákarnir fyrir neðan mig hefðu nokkuð fargað sér í einhverri gleðinni en þá heyrðist það - blessað rappið!  Og allt er núna eins og það á að vera hérna.  Hávaði sem minnir á endaloka heimsins, berst frá neðri hæðinni og hérna uppi sit ég bitur eins og spámaður á fjallstind sem veit að mönnunum er ekki ætlað að lifa af í þessum heimi nema þeir finni guð og láti af eftirsókn í hégóma og prjál.  En þar sem ég er frekar latur spámaður læt ég mér nægja að bölva bara tíðarandanum, jeppum, ruslahaugnum fyrir utan sameiginlega dyr okkar sem búum hérna (pokafjall sem að mér sýnist geymir aðallega bjórdokkur og pizzubakka) og því hvað góða bækur eru sjaldfundnar.  Ég er samt sáttur við það að allt er eins og það á að vera!

 


Heimsendir í nánd!

Ég vissi að það kæmi að þessu!  Í gær sá ég gamlan spámann með skilti sem stóð á eitthvað um gvöð!  Og núna hrun í kauphöllinni.  Brátt munu riddararnir úr Opinberunarbókinni koma ríðandi og lúðrar gjalla.  Ég ætla að fara að byrgja mig upp af rauðvíni, sígarettum og bókum.  Á meðan Ragnarök ríða yfir og fólk tapar aleigunni og brýst örvæntingarfullt inn í Bónus til þess að stela hrísgrjónum og súrmjólk, myrðandi kerrustrákana, mun ég vera slompaður undir sæng að lesa Heinesen.  Það er alltaf svo róleg stemning í bókunum hans.  Heimurinn fer á hvolf og ég mun varla taka eftir því, loka glugganum til að heyra ekki angistaróp þeirra deyjandi.  Og svo þegar það kemur að því að endurbyggja heiminn í einhverskonar trúarsósíalisma, verð ég fyrstur til þess að blogga um það!

Ég bara varð að gera þetta, sjá fyrri færslur um teik við fréttir!

 


mbl.is Hrun í kauphöllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákakvöld

Í kvöld ætla ég með félaga mínum að horfa á Man.utd-Bolton.  Það er ávísun á strákarugl.  Og umræður um bækur á meðan við horfum á 22 menn hlaupa á eftir leðurtuðru.  Mér finnst stundum eins og ég verði meiri og meiri strákur með aldrinum?  Kannski af því að ég fór ungur í sambúð og það kom langt tímabil þar sem ég gat ekki ræktað unglinginn í mér af því að ég var alltaf að skipta á syni mínum?  Kannski er þetta bara þörf sem kemur sterkar fram með aldrinum?  En ég fíla það vel að vera bara strákur og gleyma öllu öðru.

 


Hvítlauksolía og rauðvín....

Fór á bar og fékk ein bjór.  Var ekki búinn að súpa marga sopa þegar ung stúlka kom og spurði: ertu ekki söngvarinn í ????

Kláraði ekki bjórinn minn en fór og keypti pizzu.  Best að vera heima þegar fólk er svona firrt.  Fullt af rauðvíni, pizzu og engin vinna á morgunn og engin sem mun angra mig, er búinn að slökkva á símanum.   Hvítlauksolía og rauðvín...

Og dramatísk tónlist.


I want to be happy boy!

This meen that you must employ my lies/when I want you...

Kvöldið byrjaði á því að ég opnaði flösku af rauðvíni til þess að fagna nokkurra daga fríi og sat og hlustaði á Torna surriento og þýddi lauslega textann:  sólskinið dansar á haftoppum/ljúfar hugsanir sækja að mér/ég hef svo oft litið augu þín/á næturnar þegar mig dreymi.  Ekki merkilegur kveðskapur og minnir um margt á ljóð eftir ungling eða blogg eftir miðaldra rómantíker.  En lagið er fallegt og ég komst við og söng yfir pönnunni með snarkandi kjúklingnum.  Saup meira vín og allar kreppur voru gleymdar um sinn.

Setti inn tvær færslur undir vellíðan víns.

Og ég borðaði og fyllti glasið mitt aftur og dramatísk óperutónlist yfirgnæfði rappskruðninginn frá neðrihæðinni og ég opnaði gamla bók og las um dauðann og fánýti allra hluta og gladdist yfir tilveru minni.  Og ég lagði frá mér bókina og tók upp símann og hringdi.  Þýð rödd sagði lágt hæ.  Ég spurði hvað hún væri að gera?  Ekkert svaraði hún en þú?  Hlusta á tónlist og fá mér smá vín.  Ég líka: má ég vera memm?  Hvað ertu að hlusta á, ég heyri það ekki spurði hún?  Ég hækkaði.  Þetta er svo fallegt lag sagði hún.  Ég fór með textabrot og hafði það eins hallærislegt og ég gat.  Það tísti í henni yfir leirnum.  Þú eyðileggur lagið sagði hún svo og ég heyrði að henni var mjög skemmt. ,,En þú kvaddir mig/nú get ég ekkert nema syrgt...

Ertu að kveðja mig, spurði hún stríðnislega?  Og áður en ég vissi af hafði ég sagt kannski?  Það var þögn í símanum og svo spurði hún hvað ég ætti við með kannski?  Hún væri búin að fá einn skammt af efasemdum frá mér og vildi ekki annan.  ég sagði að kannski þýddi já.  Það kom þögn og svo sagði hún nafn mitt og bætti við, það er eitthvað mikið að hjá þér!  Já, svaraði ég.  Ég get þetta ekki núna en kannski síðar?  Það er ekkert síðar, það er núna eða aldrei! 

Og ég kvaddi hana og sagði að ég sæi eftir þessu, að vera svona mikill asni við hana.  Ég væri bara ekki tilbúinn í eitt né neitt, ég væri ennþá flakandi sár, ekki eftir aðra konu, heldur frekar eftir sjálfan mig og hvernig ég brygðist alltaf við því þegar stúlkum þætti vænt um mig.  Og ég sagði að ég sparaði okkur báðum mikinn sársauka.

,,Ætlarðu að hringja einhvern tíman í mig?"  Spurði hún og var leið.  Ég lofaði engu og lagði á.  Og slökkti öll ljós og hækkaði þetta helvítis gaul í botn og sá eftir því sem ég hafði gert og varð leiður og bloggaði.  Bloggið.  Það er mína kona.  Kona sem ég hata og fyrirlít.  Sennilega kem ég ekki hingað aftur og þó ég er dregin að vörum sem eru times new roman og brosa til mín í svefni sem vöku.  varir sem ég snerti hvenær sem hægt er.  Meðan aðrar bogadregnari eru látnar ókysstar.  Ég er svín, ég veit.  ég hendi frá mér því sem alla dreymir um.  ég fórna öllu fyrir ekki neitt.  Verði svo.

Ofan á allt er ég að drekka argentínskt vín. Og ekki hlusta á Pavarotti syngja þetta lag.  Heldur Uppáhaldið mitt hann Di Stefano, en hann er búinn að vera lengur í gröf sinn en bæði ég og Pavarotti. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband