Færsluflokkur: Bloggar

Kirkjan og kreppa

Stundum minnir kirkjan mig á mig.  Hún er alltaf að reyna að fóta sig í heimi sem breytist ört og hafnar gömlum gildum í gríð og erg.  Heimi sem er orðinn svo hraður að fólk gefur sér aldrei tíma til þess að setjast niður og íhuga stöðu sína í veröldinni.  Ég geri það sjaldnast, þó reyndi ég það í gær.  En að breyta ímynd helvítis er ansi gott.  Helvíti í dag er það að vera einn og sviptur þeirri líkn sem annað fólk sem þykir vænt um mann er fært um að veita.  Að vera svo einn og týndur í þessum heimi að þar er ekkert sem getur svipt í burtu einmanakenndinni.  Ekki bros né hlý snerting.  Eflaust eru fleiri í helvíti hér á landi en í helvítunum hans Dantes.  Og líða mun verri kvalir.  Hjá Dante lentu samkynhneigðir á 7 stigi helvítis og var þar gætt af mínatárum og kentárum.  Ekki eru mörg ár síðan þessi minnihluta hópur varð fyrir örvum kentára hér á landi sem annarstaðar.  Þurfti að fara með veggjum og neita hneigðum sínum og tilfinningum, opinberlega.  Er það ekki verra en fáein spörk frá goðsagnaveru sem er hálfur maður og hálfur hestur?  Að geta ekki staðið með sjálfum sér? 

Og ef það er helvíti að vera einn og týndur, þunglyndur og háður vímuefnum eða svo firrtur að maður getur ekki notið samneytis við fólk, er þá kirkjan himnaríki?  Um leið og hún tekur mann í faðm sin verður allt gott?  Tár upp þurrkast, einmanaleikinn hverfur og maður á öruggt skjól og frið í samfélaginu innann kirkjunnar?  Kannski?  Ég ætla ekki að dæma það?  Hef aldrei verið trúrækinn maður þótt að stundum hafi örlað á trúarþörf hjá mér.  Þó ekki lengi í einu.

En það er gott að kirkjurnar í nágrannalöndum okkar eru farnar að endurskoða þennan 1600 ára opinbera texta sem Biblían er.  Til þess að kirkjan geti viðhaldið lifandi trú, þá þarf hún að þroskast og þróast og færa sig nær nútíma manninum.  Hugmyndin um að helvíti sé á jörðu og sé andlegt, saman ber andleg veikindi, er góð.  Og að vinna bug á þessum annmörkum sé að finna guð?  Eða prósak.

En ef að svona mörgu fólki finnst lífið einskinsvert, og mig grunar að það séu fleiri sem hugsa þannig en maður vill trúa, þá hljótum við að þurfa á einhverju öðru og meira en bara kirkjunni að halda?  Hvað með manneskjulegra samfélaga?  Þar sem peningar og öflun gerviþarfa eru ekki númer eitt og tvö?  Hvað með samfélag sem gerir fólki kleyft að lifa á 46 stunda vinnuviku eða 32?  Hvað með samfélag þar sem fólk þarf ekki að leiga tveggja herbergja kytru á 140þúsund?  Eða kaupa kjallaraholu á fimmtán milljónir?  Hvað með samfélag þar sem hollur matur er ódýrari en skyndibitarusl?

Æji, það skiptir engu máli hvað ég tuða.  Ég hef svo sem engar skoðanir á trú eða samfélagsmálum og aldrei reynt að halda öðru fram.  En ég held að bæði kirkjur og stjórnvöld í þessum ríku Norðurlöndum, ættu að taka höndum saman og reyna að frelsa sem slesta úr þeim helvítum sem þessi velferðarsamfélög hafa búið mörgum þegnum sínum.  Búið þeim vegna þess að einhvern tíman gleymdu þau sér í þenslu og frjálshyggju.  Og maður sér það stundum í augum samborgara sinna hvað lífið og kapphlaupið eftir næsta kartöflupoka er þeim mikil kvöl og pína. 


mbl.is Helvíti andlegt frekar en líkamlegt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn snýst í kringum mig

Dásamlegur afslöppunardagur runninn upp.  Ekki heyrt svo mikið sem tón af rappi þótt að nóttin hafi verið frekar furðuleg og full af ónæði.  Fyrst rétt fyrir fjögur rumskaði ég við sms: hæ hvað segir þú?  Ég þekkti ekki númerið en kannaðist við það svo ég fletti því upp.  Það var ekki skráð.  En ég held að ég eigi að þekkja þetta númer.  Það grefst kannski upp úr hyldjúpum míns aldna huga.  Ég var alveg að festa svefn þegar það var hringt, nálægt hálf fimm.  Deitið mitt frá síðustu helgi.  Að spyrja hvað ég væri að gera.  Sofa sagði ég.  Ætlarðu ekkert að tala við mig, sagði hún?  Ég sagðist ætla að tala við hana.  Þá vildi hún fá að koma, mér fannst það mjög vond hugmynd undir morgun og hún greinilega mun drukknari en ég.  Svo ég sætti mig við þá málamiðlun að hún mætti hringja í mig í kvöld.  Á samt ekki von á því að hún geri það fólk er oft hrætt við að efna það sem það segir undir áhrifum.  Ég var rétt búinn að losna við hana úr símanum er vinkona mín hringdi: þú ert svo mikill aumingi!  Nú, hvað hef ég aumingjast?  Þú svara ekki sms-unum mínum?  Þá mundi ég eftir því að hafa fengið 2-3 sms frá henni á miðvikudagskvöldið, nóttina en verið of upptekinn af vini mínum til þess að svara, átti líka von á því að rekast á hana á Ölstofunni.  Ég sagði henni það, hlustaði á hana draga af sér stígvél með andvörpum og tilheyrandi sparki.  Svo blaðraði hún eitthvað um fólk sem ég þekki lítið en hef stundum hitt með henni.  Heimtaði loks að ég kæmi með sér út á páskadag.  Ég sagðist hugsa málið, yrði hjá foreldrum mínum í mat og ætlaði að vakna snemma til þess að eyða deginum með afkvæminu.  Ég bauð góða nótt.  Leið eins og ég væri vinsælasti maður í heimi.  Að sólin kæmi bara upp til þess að skína á mig.  Búinn að fá eitt sms og tvö símtöl á innan við klukkutíma.  En merkilegt að þetta fólk muni bara eftir mér þegar það er komið undir morgunn?  Nema að það hafi varið allri nóttinni í örvæntingarfullri leit að mér?  Heimurinn snýst í kringum mig!


Enn eitt teknókvöldið runnið upp!

Hið nánast daglega partý er byrjað á hæðinni fyrir neðan með amfetamínteknói.  Ég ætla ekki að láta það fara í taugarnar á mér í kvöld og ekki að láta það hrekja mig úr kastalanum mínum.  Sem betur fer er ég á hæðinni fyrir ofan.  Hef tvisvar búið fyrir neðan skemmtanaótt fólk og það var martröð.  Þá heyrir maður í hverjum einasta pinnahæl, hvert einasta aðdáunar hróp þegar bassinn verður úberkúl.  Þá er ekki möguleiki að gera neitt nema finna sér skjóla á bar sem er með lágværari tónlist.  Núna þarf ég þess ekki, þótt að Mozart greið nái ekki að yfirgnæfa nema verstu taktana.  Svo er þetta timburhús svo að stundum nötra veggirnir.  Ég læt bara eins og það sé dómsdagur í nánd og fyrr en síðar muni þetta taka enda og húsið hrynja og allir sem í því eru grafast undir í rústunum.  Er að hugsa um að vakna snemma á morgunn og ryksuga stigaganginn.  Svona uppúr sjö. 


Töfrar útvarpsins

Það er fátt eins notalegt og klukkuhljómur og rödd sem segir að nú verði sagðar kvöldfréttir.  Ríkisútvarpið er svo guðdómlega tímalaust og notalegt að það kalla fram geispa um leið og þulurinn kynnir sig og hefur lestur.  Og þegar ég hlusta á fréttirnar verð ég tímalaus í aldri.  Ég gæti allt eins verið lítill strákur við eldhúsborðið hjá afa og ömmu að bíða þess að vera sóttur.  Kertaljós í glugga, amma að bauka í eldhúsinu, afi í baði eftir vinnudag, snjómugga fyrir utan gluggann.  Ég gæti líka verið kominn í íbúðina úti á landi þar sem brimið skvettist upp á stofuglugga hjá mér í verstu hviðunum og draugar reikuðu um á milli timburhúsa og einveran var stundum svo dásamlega að hún opinberaði mér þau sannindi að ekkert í náttúrunni væri eins, engar tvær greinar yxu á sama hátt, engar tvær öldur væru jafn stórar eða freyðandi, engir regndropar jafn stórir.  Það eru þessir töfrar sem rás eitt nær að framkalla hérna hjá mér í kvöld.  Búa til frið og staðleysi.  Tímaleysi.  Ég er á öllum aldursstigum í augnablikinu, ég er á öllum stöðum sem ég hef heimsótt.

Og dagskráin er búin að vera með þyngsta móti í dag.  Kirkjutónlist, Jesús í skáldskap Davíðs Stefánssonar, Passíusálmarnir...  Ekki beint popptónlist og dægurspjall.  En samt á einhvern hátt svo vel viðeigandi á degi þar sem fólk á að hvíla sig og leita inn á við.  Dokka við og hugsa um það að þrátt fyrir víðáttu mikla og svarta sanda eru engin sandkorn eins, ekkert blóm vex upp aftur, og ekkert fólk skilur eða hugsar það sama og næsti maður.


Fjallið horfið

Skaust út í búð að kaupa mér gos og nammi og viti menn!  Ruslahaugurinn var kominn í sjö svarta plastpoka.  Ótrúlegt!  Skyndilega datt mér í hug að þeir félagar læsu bloggið mitt en það er frekar langsótt.  En ég er talsvert kátur með það að ruslið er þó ekki flæðandi út um allt.  Og þótt að það sé ennþá fjall í anddyrinu sem maður verður að skáskjóta sér framhjá er það þó í vellokuðum pokum og lyktin ekki eins megn og áður.   

Kalt og fallegt veður úti og fullt af fólki í bænum.  Sá að öll kaffi og veitingahús voru opin.  Gott, þá getur fólk glaðst í kvöld og djammað fram eftir morgni.  Ég ætla mér sem fyrr að lesa og hvíla mig.  útlitslega (er heldur fölur og tekin núna, meira að segja of mikið fyrir minn smekk) hef ég gott af því og líka að ég er kominn með nett ógeð á barsamskiptum.  En það ógeð gæti samt runnið af mér á morgunn. 

Ætla að klára bókina sem ég er að lesa og svo ætla ég að skrifa systur minni mail sem tengist gömlum og súrsætum minningum.  Algjör harmagrátur og tilfinningaklám.  Það ætti að ergja hana á morgunn þegar hún les mailið.

Því að það er hin eina rétta páskastemning, annað hvort að ergja fólk eða fara til Filippseyja og láta krossfesta sig með nagla í gegnum alla útlimi og allt!

 


Föstudagurinn langi

Í dag er dagur þar sem fólk á að vera rólegt.  Njóta þess að vera með sínum nánustu eða eitt og kanna sínar innri lendur.  Ekki æða af stað í leit að partýi eða djammi, frekar njóta þess að komast að því í rólegheitunum hvað það vill og langar að gera.  Ég ætla að liggja í bókahrúgu og elda svo góðan mat (afþakkaði boð foreldra minna um að borða með þeim, geri það á sunnudaginn í staðinn) og njóta þess að ekkert mun trufla mig.  Góð tónlist, og friðarstemning.  Í besta falli göngutúr út í 10-11 að kaupa mér nammi.  Eitthvað sem ég geri ekki mikið af því að láta ofan í mig. 

Man að þessi dagur var í barnæsku minni þannig að ég fékk ekki einu sinni að hlusta á popptónlist.  Mátti ekki leika mér í stríðsleikjum.  Og hann var alveg tvöfalt lengur að líða en aðrir dagar.  Ég vona að hann verði jafn lengi að líða í dag og þá.  Mér veitir ekki af degi til þess að tæma hugann og safna orku. 


Vaknað alltof snemma

Vaknaði klukkan 6.35 við sms: hæ, sæta hvað ertu að gera?  Langaði að senda til baka: telja bringuhárin foli!  En hætti við, var ekki vissum að drukkinn og sætuþyrstur kynbróðir minn hefði húmor fyrir því svona í morgunsárið.  Var samt í augnablik svo glaðvaknaður að ég fór að lesa.  Sofnaði samt ofan í bókina bara til þess að vakna skömmu síðar við skarkala og læti niðri.  Þó ekki rapptónlist, frekar einsog einhver dytti.  Þegar ég fór í þvottahúsið komst ég að því hvað hafði valdið hávaðanum.  Einhver hafði dottið um sorpfjallið með þeim afleiðingum að stigapallurinn er eins og snjóflóð af tómum bjórdósum.  Ekki falleg sjón og lyktin eins og á subbulegum bar þar sem bjórklístruð gólf eru aldrei skúruð.  Ég er að hugsa um að ræða við strákana á neðrihæðinni seinna í dag og spyrja þá hvort að þeir bíði þess að húsið verði innsiglað af heilbrigðiseftirlitinu eða hvort að þeir ætli að losa sig við draslið. 


Planið fyrir páskana

Eftir óvenju tíðindalítinn dag þar sem ég sat bara heima (og lesist: ætla að sitja heima fram á þriðjudag) þá er ég að hugsa um að skríða undir sæng með þessa hundleiðinlegu sjálfsvorkunnarbók sem ég er að lesa.  Ævisaga næstum óþekkts undirmálshöfundar sem loksins gat komið frá sér bók 1955, þá jafn gamall mér.  Ég ætla bara að lesa núna í 4 daga fyrir utan eitt matarboð hjá foreldrum mínum, búinn að afþakka allt annað.  Ég finn það bara að ég þarf að taka því rólega og sofa vel og lengi og vera í friði og ró og afslöppun.  Það mest æsandi sem ég mun gera að lesa ævisögu manns sem var heróínneytandi í London í kringum 1980.  Það verður mesta víma sem ég mun komast í næstu daga!


Óvænta stefnumótið

Fyrir nokkrum dögum lofaði ég vinkonu minni að fara út með erlendum gestakennara sem er á Íslandi núna.  Ég var ljúflega beðinn um að taka þessa stúlku (sem er víst jafngömul mér) og sýna henni einhverja neðanjarðar bari (sem eru deyjandi) og sjá til þess að hún kæmist í kynni við hugsandi fólk.  Vinkona mín sem bað mig um þetta er frekar ferköntuð og gift með tvö börn og heldur að ég viti allt um íslenskt skemmtanalíf.  Og í kvöld er svo víst komið að þessu?  Fékk símtal þar sem ég var spurður hvort ég talaði þýsku.  Helst ekki svaraði ég og fékk svo að vita deil á viðmælanda mínum.  Jú, ég var víst búinn að lofa að fara með henni út.  Ég hélt reyndar að það kæmi aldrei að þessu og þess vegna lofaði ég upp í ermina á mér.  Og núna hef ég klukkutíma til þess að finna einhverja afsökun hvers vegna herra djamm, kemst ekki á djammið.  Sjálfur get ég ekki hugsað mér að fara út og alls ekki með konu sem ég hef aldrei séð og er þar að auki þjóðverji.  Mín reynsla af stúlkum frá þessu heimshorni sem Þýskaland er er sú að þær séu ekki mestu tísku´drósir í heimi, heldur frekar svona í Hagkaupssloppum úti að labba með stóra hunda.  Fordómar?  Já, viðurkenni það.  45 mínútur til að búa til sannfærandi lygasögu.


Ævisögur

Mér leiðast ævisögur þar sem biturleiki og vonbrigði leka af hverri blaðsíðu.  höfundur réttlætir að hvers vegna minna varð úr honum en efni stóðu til.  Ef það var ekki fátækt og basl og kreppa, þá var það vegna þess að hann var sósíalisti og fékk því ekki notið sammælis.  Nú eða þá að hann var svo hægrisinnaður að helvítis kommarnir í bókmenntaklíkunum hindruðu að hann fengi þá dóma og umfjöllun sem hann átti skilið.  Mér leiðist svona sjálfsvorkunn.  Þegar ég lýk við ritun ævisögu minnar (en hún er ennþá í endalausum brotum og nokkur þúsund blaðsíður nú þegar) verður allt mér að kenna.  Ekki neinum öðrum.  Ég mun viðurkenna öll mín mistök og ef einhver hefur sett stein í götu mína mun ég einfaldlega glotta: ekkert er nokkur tíman nokkrum að kenna!  Hafi orðið minna úr mér en efni stóðu til, þá er það einfaldlega vegna leti og metnaðarleysis.  Ég man ekki að nokkur hafi nokkurn tíman hindrað mig í því að láta drauma mína rætast nema ég sjálfur.  En ég byrjaði á þessu þusi því að ég sökkti mér niður í ævisögu manns sem er löngu látinn (og verður því ekki nefndur hérna) en sú bók er full af grenji yfir því hvað annað fólk hindraði hann í því að verða stórskáld.  Í staðinn varð hann biturt smáskáld, orti eitt og eitt ljóð og týndi þau á áratuga fresti í þunn kver.  Og hvað er þá þessi ævisaga?  Afsökun?  Réttlæting á afkastaleysi? Þegar mín kemur út (fyrsta bindi) mun hún koma út til þess að skemmta fólki og fá það til að hlæja að eymd minni og óhamingju.  Ef hún kemur þá út?  Mér er slétt sama með það.  Alla veganna ætla ég ekki að skrifa ævisögu til þess að útskýra hvers vegna ævisagan mín kom ekki út! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband