Færsluflokkur: Bloggar
25.3.2008 | 15:36
Gestur gerir boð á undan sér
Í desember kynntist ég sænskri stúlku á Sirkús. Þetta var frekar lávaxin, dökkhærð stelpa með stór augu og fallega spékoppa og við skemmtum okkur vel saman í nokkra daga. Svo hvarf hún aftur yfir hafið til Svíaríkis. Á milli okkar gengu nokkrir rafpóstar um allt og ekkert þangað til þeir urðu strjálar og loks virtist kunningsskap okkar sjálfhætt. Þangað til í morgun að ég sá að ég hafði fengið póst frá henni. Hún er búin að vera eina önn í New York og er að velta því fyrir sér hvort að hún megi vera tvær vikur hjá mér áður en hún heldur til Svíþjóðar? Ég veit ekki hverju ég á að svara? Finnst það ekki alveg nægilega góð tilhugsun að fá nánast ókunnuga manneskju inn á heimili mitt í svona langan tíma? Svo er ég enn ekki búinn að gleyma annarri sænskri stúlku sem lagði mig í einelti á slæmu tímabili í lífi mínu og endaði á spítala eftir ítrekaðar sjálfsmorðstilraunir sem höfðu víst eitthvað með mig að gera? En maður á svo sem ekki að leggja allar sænskar stúlkur að jöfnu? Man að þessi sem vill heimsækja mig var lífleg og skemmtileg og átti það til að kyssa mig leiftur snökt á kinnina í einhverjum galsa. Erótískari voru samskipti okkar ekki. En eitt sem ég velti fyrir mér? Hún spurði ekki að því hvort ég ætti kærustu eða væri í sambúð? Hún virðist hafa gert ráð fyrir því að ég væri bara einn með nóg pláss og nægan tíma til að sinna henni? Er ég svona fyrirsjáanlegur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2008 | 02:51
Sumar fyrir svo löngu
Það er sumar og ég er í gúmmískóm og ullarsokkum og ljósbláum gallabuxum og brúnni peysu sem er að verða of stutt á mig því að ég get ekki hætt að vaxa. Ég stekk á milli steina yfir læk. Á eftir mér kemur stelpuskott sem ég er nýbúinn að kynnast. Hún er með rautt úfið hár í gulum kjól, berleggjuð í grænum stígvélum. Hún biður mig um að fara ekki svona hratt. Hún fetar sig varlega á milli steinanna yfir lækinn. Sólin hverfur andartak bakvið ský, í hyl sé ég tvo silunga undir steini.
Við fetum kindagötu upp á gróður litla hæð. Fyrir neðan okkur hjalar lækurinn. Hún talar. Ég þegi. Hún er nýkomin í sveitina, ég er búinn að vera þarna í nokkrar vikur. Upp á hæðinni sést yfir bæinn og næstu býli. Á sem liðast í gegnum þennan þrönga dal. Kýr á beit. Hestar að velta sér upp úr mold. Og fyrir framan okkur liggur dauður spói. Ég velti honum við með priki. Kös af hvítum ormum eru búnir að éta sig inn að beini spóans. Oj, segir hún og grettir sig. Ég pota í ormakösina. Þeir halda áfram að éta sig lengra inn í líkið. Og ég man að ég hugsaði að svona endum við öll. Fæða orma og moldar. Stúlkan stóð þétt upp við mig. Ég færði mig frá. Viltu koma að veiða, spurði ég? Henni leist ekki á það. Gat ekki hugsað sér að þræða orma á öngul, aflífa fisk með því að slá honum upp við stórann stein.
Ský þutu yfir himininn.
Síðar sátum við á þúfu. Ég tuggði strá, hún krafsaði í moldina með grein. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja við hana. Stalst öðru hvoru til þess að líta á hana. Mér fannst hún sæt. Hún var með eilítið uppbrett nef. Og freknur. Hún æfði fimleika. Ég skrópaði á fótboltaæfingar áður en ég fór í sveitina. Ég var með heyofnæmi og gat því ekki verið að hjálpa til út á túni. Ég sá um fjósið í staðinn og hafði svo allan daginn til þess að veiða eða liggja á maganum og fleyta laufblöðum niður bæjarlækinn.
Ég sparkaði í stein. Hún sló út í loftið með greininni. Við vorum á leið í gil sem lækurinn rann í gegnum. Þar var foss og stór hylur, sléttur. Þar skaut ég með bóndanum af riffli í dósir. þar þurfti hún að pissa. ég benti henni ás tórann stein. Lofarðu að kíkja ekki? Ég lofaði því. Ég horfi á þig allan tíman og drep þig ef þú snýrð þér við, hótaði hún mér. Ég stóð teinréttur og hélt með báðum höndum fyrir augun á mér. Ég heyrði í bununni. Mér leið einkennilega.
Svo lágum við hlið við hlið á maganum og horfðum á fiskana í stóra hylnum. Dökkir skuggar sem skutust á milli steina á botninum. Stundum stirndi á þá þegar örmjór sólargeisli rataði í gegnum gárurnar alla leið niður á botn. Hefurðu kysst stelpu? Spurði hún og horfði á mig með svip sem ég hafði aldrei áður séð á stelpu áður. Naujts, sagði ég. ,,Ég hef kysst strák!"
Ég hélt áfram að stara á fiskana. Og hugsaði um það hvað það hefði verið notalegt að sitja bara einn á bakkanum og reyna að veiða. Eða byggja virki handa tindátum. ,,Ertu hræddur við stelpur?" Spurði hún. ,, Aflverju talarðu ekki við mig?" Og ég gleymdi öllum áætlunum um að byggja stór virki, snéri mér á hliðina með hönd undir kinn og horfði á hana. ,,Um hvað eigum við að tala?" Spurði ég. Hún hló. Og spratt á fætur. ,,Ég veit það ekki? Mér finnst strákar leiðinlegir!"
Tuttugu og fimm ár. Og ég man þetta svo vel. Og ég man þetta ekki nógu vel. En ég man þegar bóndinn spilaði á harmonikku í eldhúsinu og fullorðnafólkið og stálpuðu börnin af næstu börnum voru í kvöldkaffi (ég fékk staup af landa í fyrsta sinn þetta kvöld) og sungu, öll nema ég sem sat í hurðardyrunum með hundinum og strauk honum en gat ekki haft augun af henni. Hún söng hæðst.
Loks stóðu allir úti á hlaði að kveðjast. Kind jarmaði í fjarska. Fjallið á móti hulið dalalæðu. Bóndinn hár og þrekinn, snoðklipptur með alskegg í lopapeysu, eins og myndin af Hemingway sem síðar hékk uppi á vegg í herberginu mínu, að skamma ungling fyrir að gefa mér landa. Ég þögull við hlið þéttkennds bóndasonar. Hún sem lengst í burtu frá mér. ég kallaði á hundinn sem var að sleikja rassinn á öðrum heimalningnum.
Og hún átti að vera í kojunni fyrir neðan mig. Þar hafði besti vinur minn og fóstbróðir í sveitinni alltaf verið en þetta sumarið hafði hann farið í ferðalag með foreldrum sínum. Nú var hún þar í hvítum náttfötum með myndum af böngsum eða kanínum á. Við höfðum ekki sagt orð við hvort annað síðan fólkið kom heim frá slættinum. Ég lá á bakinu og hlustaði á fuglana fyrir utan syngja. Allir voru sofnaðir. Ég gat ekki sofið. Kannski var það staupið af landanum. Kannski var það fiðringurinn sem ég hafði fundið fyrir þegar hönd hennar snerti óvart mína er við fetuðum okkur niður mjóan stíg á eftir sískítandi kúnum sem við höfðum smalað saman.
Þegar ég var að festa svefn, fann ég að hún spyrnti löppunum upp í botninn á efri kojunni svo ég hrökk við. Heyrði hana tísta fyrir neðan mig: Á morgunn vil ég fara með þér að veiða...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2008 | 22:00
Fer að finna mér hauskúpu
Mér skilst að það sé nýjasta trendið að vera með hauskúpur sem öskubakka? Og þar sem ég er forfallinn tískuþræll og reykingarmaður verð ég að eignast eina slíka! Bara verð. Ég er búinn að finna mér vasaljós og skóflu og það er orðið dimmt. Núna vantar mig bara kroppinbak sem aðstoðarmann. Hann verður helst að klæðast kufli og kalla mig meistara. Áhugasamir umsækjendur eiga að mæta með ferilskrá sem inniheldur meðal annars stærð á kryppu og meðmæli frá fyrrum skuggalegum vinnuveitendum (gott ef þeir bæru ættarnöfn eins og Frankenstein eða Dracula), við kirkjugarðshliðið við Suðurgötu á miðnætti. Í boði er spennandi starf þar sem viðkomandi mun hitta líflegt fólk. Engin föst laun eru í boði en viðkomandi mun fá saggafullt og óvistlegt herbergi í niðurgröfnum kjallara til afnota. Þær rottur sem þangað kunna að slæðast teljast sem bónus fyrir vel unninn mokstursstörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.3.2008 | 20:38
Teikn allra hluta
Á leiðinni niður Laugaveginn flaug mér í hug ein af uppáhalds tilvitnunum mínum: Ég er hingað kominn til þess að ráða í teikn allra hluta! Og fór að velta því fyrir mér hvað þessir dökkleitu draugar sem hröðuðu sér fram hjá mér á flótta undan fáeinum snjókornum, gætu mögulega táknað? Mér fannst ég kannast við hvern mann, hverja konu sem ég mætti. Eins og þetta væru skuggar frá mínum fyrri lífum? Ég hélt á tveimur bókum. önnur var klám, hin ljóðabók sem ég ann og hef gert í sautján ár og er full af gamalli dimmu. Og ég hugsaði með mér handkaldur því að ég hafði ekki tekið með mér vettlinga þegar ég skaust út, að ég hefði kannski lifað of mikið af lífi mínu í gegnum bækur. Í stað þess að lifa sjálfur? Eða lifað of mikið sjálfur og gleymt að það leynist líf í bókum. Að þær geta kennt okkur að ráða í teikn allra hluta?
Heima sauð ég vatn í te og reyndi að nudda lífi í rauða fingur. Og hugsaði með mér að ég hefði aldrei neitt lært? Hvorki í skólum né af lífinu sjálfu. Og eflaust síst af bókum. Ef ég leggst núna niður og einhver leggur höfuðið á bringu mína til þess að hlusta á hjartað slá, heyrist ekki reglubundið bank þessa vöðva, heldur eitthvað sem minnir á þunglyndislega popptónlist sem enginn nennir að hlusta á. En ég mundi leyfa viðkomandi að hlusta. Og loka augunum. Og það mundi snjóa yfir mig rifrildum af hvítum óskrifuðum örkum og hylja mig...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2008 | 15:59
Var og kemur ekki aftur
Þegar félagsskapurinn minn í gærkvöldi fór að sofa upp úr hálftvö, fór ég að lesa gömul skrifa eftir mig. Enda höfðu samræður okkar verið mjög svo tengdar bókmenntum. Og metnaðarleysi. Og ég festist í einhverjum af þessum áttahundruð mailum og bréfum sem ég hef sent en geymt. Mailar gefa góða mynd af því hvernig maður hugsaði á einhverjum tíma. Og eru oft með því besta sem ég skrifa. ég er oft eins og William Saroyan sem var ekkert um það að endurrita verk sín, honum fannst þau spretta fullmótuð undan penna sínum ef stemningin var rétt. Það sama fannst mörgum bítskáldum sem mörg hver leituðu í sagnahef hans. Og mér. Þótt að ég sé ekki kenndur við bít. Né skáld. Þá finnst mér alltaf það vera best sem skrifað er undir ákveðum hughrifum, undir stemningu. Og bréf eru oftast þannig. Þau eru skrifuð því að maður er brotinn og bitur, saknar, þráir, er að hugsa um eitthvað sem var og kemur ekki aftur.
Eitt bréfið hófst á þessum orðum: Mig dreymdi í nótt að ég sæi þig tilsýndar á Laugaveginum og við gætum af gömlum vana leiðst aftur heim. Í gegnum brotnar bjórflöskur og öskrandi mannhafið, undir þessum þungbúna stjörnulausa himni... Þetta bréf sendi ég aldrei. Sum bréf eru skrifuð til þess að vera aldrei send. Þau eru skrifuð til þess að losna undan einhverri tilfinningu. En eitt bréf sem ég fann hófst á orðunum: Ég vildi óska þess að þú hefðir aldrei lært að gráta! Og var sent stúlku sem saknaði mín svo mikið að hún gat ekki sofið, vegna fjarlægðarinnar frá mér. Blátt Atlandshafið var á milli okkar og hún þoldi það illa. En ég skildi það ekki. Mér leið ágætlega án hennar þótt að ég unni henni. Og svo síðar þegar við slitum samvistum gengu á milli okkar nokkur bréf sem voru full af þakklæti fyrir það að fá að hafa kynnst og leiðast skamman spöl.
Ég á líka fullt af bréfum sem mér bárust handskrifuð löngu fyrir tíma emaila og smsa. Ég var svo gæfusamur að nenna að pikka þau inn í tölvuna fyrir nokkrum árum þegar ég stóð í flutningum. Því að ég veit ekki nema að nokkur þeirra hafi glatast í flutningum eða tiltekt. Eitt þeirra var frá vini mínum, rétt áður en hann dó, sem þá var vistaður á geðdeild. ,, Ég veit ekki hvort það er dauðinn sem ég hræðist eða sú staðreynd að ég iðrast svo margs sem ég hef gert og ekki gert..."
Og ég hugsaði um þennan vin minn og allar þær ferðir sem hann hóf á börunum í maníu að leita að hinum heilaga grail eins og persóna í bók eða kvikmynd og sporin eftir hann í nýföllnum snjónum þegar hann hélt inn á milli lítilla timburhúsa undir hálfu tungli í leit að kastala þeim þar sem grailið er falið. Og það var hægt að elta skjögrandi sporin í nóttinni og sjá hvar hann hafði fallið til jarðar. Kannski svo drukkinn, kannski til þess að ákalla guð?
Og nóttin ómaði af draumi.
En draumar óma ekki. Þeir eru hljóðlausir öllum nema þeim sem dreymir. Ég hef kannað Afríku í draumum, ég hef gifst og skilið sömu nótt og vaknað upp og saknað svo sárt einhverrar sem aldrei var til, að hjartað í mér var að springa. Ég hef siglt lygn blá höf á milli sólríkra eyja... En mundi einhver skilja hvað ég hef séð eða upplifað þegar mig dreymir, þótt ég reyni að segja frá?
Það er eins með bréf. Bréf eru eins og draumar sem skráðir eru niður í vöku. Þeir eru persónuleg upplifun á einhverju andartaki. Einhver tilfinning sem festa ber niður á blað. Bréf er handartak, snerting, að sýna örlítið sínar innstu vonir og þrár. Því skilur enginn þegar ég skrifaði: Ég vildi að þú hefðir aldrei lært að gráta.
Nema hún sem var svo langt í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2008 | 20:32
Bitra fjölskyldan borðar saman
Við vorum fá. Ég, myndlistamaðurinn og eiginkona hans fatahönnuðurinn, dóttir þeirra og foreldrar mínir. Tónninn var, var eins og í Tsjekov leikriti sleginn með fyrstu setningunni: Viltu afréttara? Ég sagði móðir minni að ég væri ekki timbraður og tók við glasi af víni. Þú lítur þannig út sagði hún og kyssti mig á kinnina. Á ég að hjálpa þér spurði ég þar sem ég stóð fyrir aftan hana í eldhúsinu. Ef þú værir ennþá giftur þá hefði eiginkona þín komið að liði, þú flækist bara fyrir. Ég leit á klukkuna, hálf fimm, þetta yrði langt kvöld.
Mákona mín settist hjá mér við eldhúsborðið. Ertu búinn að kynnast enn einni verðandi eiginkonu spurði hún? Móðir mín snéri sér við, tók sopa og svaraði fyrir mína hönd: Auðvitað, hann er ekki lengi á því? Ég urraði og sagði að þær þyrftu ekki að búast við því að ég drægi oftar konur í kvöldverðaboð með fjölskyldunni, ég vildi ekki að ókunnugt fólk þyrfti að sjá persónur eftir Inoesco verða að holdi og blóði. Það eina sem þú kannt, svaraði mamma, er að snúa útúr og vitna í leikskáld. Ég stakk úr glasinu og fór inn í stofu. Þar sat pabbi og reifst í bróðir mínum fyrir eitthvað sem hann átti að vera búinn að vera löngubúinn að gera. Ég fór niður, kveikti á sjónvarpinu og horfði á Chealsea vinna Arsenal.
Við matarborðið um leið og pabbi hellti í glasið mitt sagði hann: sonur þinn er að verða alveg eins og þú! Heldur að hann geti kjaftað sig og skrifað í gegnum skóla? Ætlarðu að láta það viðgangast? Mamma: Engar fleiri konur, hvers vegna gastu ekki verið giftur? Mágkonan: Hvað gerir þessi kona? Frænka mín: Viltu spila veiðimann? Bróðir minn þagði. Ég: hvers vegna fæddist ég inn í fokkings Tyrone fjölskylduna.
Pabbi: Þú þarft að fara að huga að framtíðinni? Þú getur ekki búið þér og syni þínum heimili og verið í því starfi sem þú ert að fokka í núna? Það slítur þér og er illa launað? Mamma: Hvers vegna gastu ekki verið giftur? Mágkonan: Ætlarðu út á lífið á eftir? Frænka litla: Viltu spila veiðimann? Bróðir minn: (þögn, skóflar í sig matnum). Ég: Ég er alltaf sextán ára!
Loks lauk matnum. Mamma fór að hita kaffi með eftirréttinum. Pabbi settist og bölvaði fréttum. Mágkona mín opnaði tölvuna. Bróðir minn fór á hljómsveita æfingu. Ég stóð úti á svölum og reykti og horfði á regnmistrið hylja Kópavoginn handan við dalinn og hugsaði um áramót og flugelda og kampavín og fólk að skála og mig kyssa systur mína og svo aðra stúlku og allir voru brosandi og vingjarnlegir en ekki eins og hópur af geitungum sem hrekkur upp við að einhver kastar steini í búið þeirra.
Þú drekkur of mikið, sagði pabbi og helti koníaki í glasið hjá mér! Ég saup á því og svaraði: þið hafið nú aldrei reynt að halda áfengi frá mér! Mamma: Hlustaðu á pabba þinn. (Dæsti) Þú hefur aldrei hlustað á pabba þinn og sonur þinn verður eins! Hvernig ætlarðu að eiga við hann þegar hann fer að drekka? Hann sagði í jarðaförinni að hann fengi oft bjór hjá þér, er það satt? Ég svaraði ekki enda ásökunin fullkomnlega út í hött. Skar mér sneyð af köku og horfði á hana eins og hún væri úr grjóti og ég yrði að neyða hana ofan í mig. Og hún yrði um alla eilífð að meltast í maganum á mér, eins og þessi fjölskylda yrði alla eilífð að bergmála skoðanir sínar í höfði mínu. Mér var óglatt.
Og ég greyp tækifærið um leið og mágkona mín sagðist þurfa að fara á annan stað að fá far með henni niður í bæ. Móðir mín gaf mér rauðvínsflösku að skilnaði og sagði: Þú ert orðinn of gamall fyrir páskaegg! En drekk ég ekki of mikið? Svaraði ég. ,,Ef þú vilt hana ekki, þá drekk ég hana!" Ég stakk henni í frakkavasa og kyssti foreldra mína og ætlaði að fara, þá kom pabbi og rétti mér tvær bækur eftir Heinesen með orðunum, ég tók þær frá handa þér. Þú átt svo fjögur, fimm hundruð bækur úti í bílskúr sem frændi þinn vildi að þú fengir. En ég tók þessar frá svo þú gætir fengið þær strax. Frænda þínum þótti svo leitt að þú hættir að skrifa, hann hefur alltaf svo mikla trú á þér. Og ég stóð fyrir utan húsið þeirra og rökkrið var að falla á og við skildum öll hvort annað. Stundum svo vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
23.3.2008 | 15:03
Sjúkur brandari
Í nótt var mikið stuð. Fór út og gekk smá hring. Drakk tvo bjóra ekki af því að mig langaði út, varð bara að vera innann um fólk í smá stund. Kom heim rétt fyrir tvö og sendi vinkonu minni sms þar sem ég sagðist vera kominn á kaf í dóp og rugl. Það var illa gert. Í einhverju partýi fékk hún taugaáfall af áhyggjum og ég var lengi að sannfæra hana um að ég væri bara heima en ekki að sprauta mig inn á einhverju subbulegu klósetti í bakhúsi á Hverfisgötunni. Fólk getur verið svo meðvirkt. Ég sá strax eftir þessum brandara, stundum á maður ekki að svara smsum út í hött. Það er nefnilega til fólk sem lifir fyrir það eitt að hafa áhyggjur af öðrum. Mæðrasyndróm. Hlustaði svo á kjánalega popptónlist og las bók þangað til það fór að daga. Þá lá ég brosandi í myrkrinu yfir einhverju sem ég skil ekki alveg?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2008 | 22:46
Undir morgunn
Og þegar ég kom út af baðherberginu stóð hún koparbrún á annarri löppinni í næstum gegnsæjum kjól og var að festa á sig háhælaða skó. Ætlarðu að ver svona sagði hún og ég leit á snjáðar gallabuxur og hvíta skyrtu og vissi að ég þyrfti að vera í jakkafötum. Og eftir nokkur ár saman vissi ég að það var ekki hægt að þrætta við hana svo ég fór í jakkaföt þótt að það væru næstum 30 stiga hiti úti. Hún kyssti mig á kinn og sagði: þú ert ágætur svona og ruglaði stuttu hári mínu. (ég var stutthærður fyrir svo löngu...)
Fyrir utan beið leigubíll til þess að keyra okkur í matarboð í næstu borg. Og við ókum í gegnum sölnandi gróður, meðfram ljósbláum miðjarðarhafinu. Þögðum og héldumst í hendur. Og horfðum á öll þessu litlu þorp sem virðast hanga í fjallshlíðunum, hvít og friðsæl og sólin lækkaði sig á lofti uns hún sökk yfir Afríku um leið og við komum á áfangastað.
Síðar snæddum við með fullt af fólki út á svölum og horfðum yfir einhverja frægustu snekkjuhöfn í heimi. Og drukkum og skáluðum og horfðumst í augu og létum fáein orð falla á íslensku. aðallega um það hvað við elskuðum hvort annað mikið eða þættum við falleg. Og Svo vorum við ein á svölunum meðan fólkið stóð í stofunni og velti fyrir sér hvert það ætti að fara og við kysstumst. Og ég mann þann koss enn, þótt það séu þúsund ár síðan.
Og enn síðar leiddumst við í gengum þvögu af fólki þar sem við vorum höfði hærri en allir, enda ég 187 og hún svipuð á hælum, og enduðum á bar þar sem við keyptum ódýrustu rauðvínsflöskuna sem var samt ekki undir 30þúsundum og hlógum af því hvað við værum miklir snobbhanar að gera þetta og sturtuðum henni í okkur. Sígarettur komu á silfurbakka sem prúðbúinn þjón færði okkur. Og við hættum að fylgjast með því hvað við eyddum miklu, sígarettupakki á fimmþúsund þótti okkur bara vera hlægilegt verð og við buðum kleppurnum sem voru með okkur umgang, vitandi að það þýddi hrísgrjón og vatn í viku.
Og svo kom nótt. Svona nótt eins og maður upplifir bara við miðjarðarhafið. Hlý og logn og lykt af steiktum mat og sölnuðum gróðri og ómur frá diskótekum. Og við leiddumst í gegnum göngin þar sem kappaksturinn fer fram og bílar hægðu á sér til þess að keyra ekki á okkur og við ulluðum eða sendum fokkmerki og eitt sinn lyfti hún upp kjólum og sýndi á sér nærbuxurnar þegar benz var næstum búinn að aka yfir okkur.
Og við enduðum í spilavítinu sem eitt sinn gerði þessa smáborg fræga. Hún sagði: núna ert þú James Bond, gerðu okkur rík! Ég sat bindislaus í jakkafötum og spilaði 21 og hún stóð fyrir aftan mig með kampavín í hendi og ég fann fyrir brjóstum hennar þegar hún hallaði sér að mér til þess að hvísla mér góðum ráðum. Og dáðist að því hve hún var fögur þegar ég sá hana útundan mér hvísla einhverju að hinum konunum og hlæja. Var eflaust að segja þeim að það skipti engu hvað við töpuðum, við værum hvort eð það rík. Og ég sat og spilaði, búinn að eyða meira en hundrað þúsund í drykki á stöðum þar sem bjórinn var á fimmþúsundkall. Og vissi að við þyrftum að ganga heim ef ég tapaði. James Bond þurfti aldrei að ganga heim.
Og um nóttina þegar við höfðum leyst út rýra vinninga og drukkið allt það kampavín sem hægt var að drekka og dansað á svölum fyrir ofan spilasalinn gengum við heim. Einhverja þrjátíu kílómetra. Hún haldandi á skónum, berfætt, ég með jakkann á öxlinni og kampavíns flösku i hinni hendinni og bílar sveigðu úr vegi fyrir okkur og flautuðu því að í þessu landi tíðkast ekki að fólk gangi á hraðbrautunum. En við gerðum það samt og vorum vissum að lífið mundi standa í stað og þessi nótt yrði eilífð. Og ég man að stundum dróst ég aftur úr henni bara til þess að geta horft á dökkt sítt hárið á ljósum kjólnum og hvernig iljar hennar voru næstum hvítar miðað við dökkan líkamann. Og hún stoppaði oft til þess að ég gæti náð henni og hún kysst mig og strokið hönd í gegnum stutt hárið. Og við vissum að við höfðum eitt mánaðarlaunum mínum og næstu vikur yrðu vikur hrísgrjóna og vatns og ódýrasta bjórsins í ódýrustu búðinni en okkur var sama. Við höfðum átt kvöldið okkar eins og frægt fólk. Gefið þjónum fimmþúsundkalla, verið hrokafull og horft á móti ljósunum þegar fólk sem var ekki samboðið okkur spurði hvaðan við værum, hvað við gerðum. Við höfðum drukkið allt dýrasta kampavínið sem hægt var að fá, spilað og dansað á svölum sem einkaþjónn fylgdi. Þjónn sem kom með kampavínsglas handa okkur á milli laga. Hvað er hægt að biðja um annað?
Og undir morgunn sáum við borgina sem við bjuggum í og ég henti tómri kampavínsflöskunni yfir hvíta kletta út í sjó og tók utan um hana og við slöguðum inn í borgina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2008 | 19:23
Að hlusta á þögnina
Var að glugga í bók með heildarútgáfu ljóða eftir Samuel Taylor Coleridge (1772-1834) og rakst á þessar línur úr frost at midnight sem ég geri ekki að klámi og hroða með því að reyna að snúa þeim, en birti á frummálinu: And extreme silentness. Sea, hill, and wood/This populous villiage! Sea, hill and wood/Whit all the numberless goings-on life... Ég var dálítið glaður að vita að menn hafa hugsað svipað og ég fyrir meira en hundrað árum. Að við höfum fundið kyrrðina og þögnina og undrast yfir því að aðrir hafa ekki haft tækifæri til þess að skynja fegurðina í kringum sig? En þetta ljóð minnir mig á önnur ljóð og jafnvel popptexta? Kannski er fólk alltaf að hugsa það sama? Að staldra við til þess að nema tíman og hans þunganið í fallandi laufum, snjó sem bráðnar? Kannski erum við bara sum sem tökum eftir þessu? Og þá bara stundum? En ég man eftir stúlku sem dró mig stilla sumarnótt um langan veg bara til þess að sýna mér hvar uppáhaldsblómin hennar uxu á móti rauðri miðnætursól. Mér þótti vænt um það. Annars er erfitt að lesa 19. aldar ljóð hérna núna, partý á svölunum fyrir neðan, fólk kemur og fer. Og hurðum er skellt aftur. Ég reyni að hunsa það. Heyri bara það sem ég vill heyra og ætla mér ekki út. ég læt ekki þessa vandali fæla mig út úr mínum kyrru og hlýju híbýlum sem eiga að vera griðastaður minn. Staður þar sem ég sinni mínum sérviskulegu áhugamálum, staður þar sem ég get lesið ljóð löngu gleymdra skálda, staður þar sem ég á að geta setið og hlustað á þögnina og andardrátt þeirra sem áður bjuggu hérna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.3.2008 | 18:10
Ofboðsleg leti
Ég er svo latur að ég nenni ekki einu sinni að elda eða fletta bókinni sem ég er að lesa. Bíð eftir að fá heimsendann mat, reyndar fyrir tvo þótt ég sé einn, ég er ekki svona bjartsýnn að eiga von á óvæntum gesti í mat, heldur þarf ég þá ekki að hafa fyrir hádegismat á morgunn. En bókin mætti gjarnan vera sjálfflettandi í þessu letikasti. Hápunktur kvöldsins er svo sá að ég ætla að hlusta á Villtir strengir og vangadans rúmlega ellefu í kvöld. Það verður örugglega geðveikt rokk. Er smá fúll að myndirnar þrjár eftir John Ford sem ég pantaði komu ekki til landsins fyrir páska. Var eiginlega að stóla á 6 klukkutíma gláp á John Wayne leika í þrem myndum eftir nafna sinn Ford. En það bíður næstu helgi. En það er eitthvað svo gott að vera svona latur. Ég er meira að segja of latur til þess að argast út í tónlistarsmekk íbúana í neðra, vitandi það að þeir fara út áður en langt um líður. Gott að vera farinn að þekkja svona vel inn á hegðun þeirra. Er hættur að ergja mig á nábýlinu við þá. Það gætu verið verri nágranar. Til dæmis einhver sem æfir gömul þungarokkslög á gítar? Eða nágrannar sem eru alltaf að brjóta niður veggi. Eða koma upp og fá eitthvað lánað. Kannski ég opni eina rauðvín?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)