Færsluflokkur: Bloggar

Tilvist guðs

Var að koma heim eftir þennan langa dag.  Ákvað að fresta stefnumótinu við leikarann ,,frænda" minn þangað til á sunnudag.  Honum var slétt sama sem betur fer.  Ekki mér.  Ekki dropi eftir af blóði á hreyfingu í líkama mínum eftir daginn.  Stundum skil ég ekki þetta puð á mér?  Hvers vegna ég nenni að standa í því að rífast við ókunnugt fólk gegn borgun?  Það er furðulegt stig af framfærslu.  Og svo lýjandi að ég borðaði vondan hamborgara á hlaupum sem veldur truflunum í mínum annars kyrra maga.  Ég ætla að fara í sturtu og fá mér svo eitthvað gott að drekka og kveikja á kertum og útvarpinu.  Efist einhver um tilvist guðs, þá liggur sönnunin í því að til er heitt rennandi vatn sem getur fallið yfir stirða líkama. 


Ófögur sjón

Útlendingar höfðu það sér til skemmtunar að horfa á kvenkyns róna liggja í eigin spýjupolli fyrir utan 10-11 þegar ég kom arkandi heim frá vinnu.  Þegar útlendingarnir koma heim minnast þeir reykjavíkur sem borg róna og veggjakrots.  En það er best að gera ekki neitt í þessu.  Leyfa bara rónunum að betla og ónáða fólk á fjölförnum götum og krökkum að valda tjóni á byggingum fyrir milljónir í skjóli myrkurs.  Nema að það sé til fólk sem hefur smekk fyrir svona skreytingum og svona fallegu mannlífi? 


Tímaleysi

Tími, tími, tími...  Þetta syngur í höfðinu á mér eins og leiðinlegt popplag.  Tími, tími, tími... ég hef engan tíma.  Ég er búinn að tvíbóka mig tvisvar í dag.  Bæði í vinnu og eftir vinnu.  Það mun ganga ef ég hleyp á milli staða eins og ég ætli mér að ná ólimpíulágmarki!   


Uppgjöf - leikrit, bækur!

Hringdi í bæði leikarann og leikstjórann sem hafa leikrit eftir mig undir höndum og sagði það sama við þá báðu: ég er til í að endurskrifa verkinn ef þú vilt setja þau upp!  Báðir tóku því fagnandi. 

Og ég endaði samræður við báða á því að segja: ég gefst upp, ég gef mig örlögunum á vald, ég verð fokking leikskáld ef þið viljið!  En þá fáið þið líka leikskáld sem er pain in the ass.  Ég mun anda ofan í hálsmálið á þér og verða reiður um leið og þú breytir stöðu sem ég hef skrifaði, um leið og þú breytir snertingu sem ég hef skrifað, tilliti sem ég hef skrifað.  En ef þú sættir þig við það, verð ég þinn. 

Báðir, í sitthvoru lagi, sættu sig við allt sem ég sagði.

Ég gafst upp í dag.  Fyrir skriftum.  Og stefni á þau mið að verða leikskáld og rithöfundur, þótt að ég sé hvorki ungur né efnilegur.  En eitthvað fólk úti í bæ mun sjá um að koma mér á framfæri.  Eða draga vagninn sem ég er.  Til þess eru ritstjórinn minn og þessir leikstjórar.


Um bók

Búinn að eiga 4 tíma samtal við ritstjórann minn um væntanlega skáldsögu.  Ég þarf að endurskrifa bókina alla veganna tvisvar segir hún.   En þó án þess að ég glati því sem er í bókinni, að fólk geti grátið yfir henni, yfir hverri blaðsíðu, hverri málsgrein... 

Ég vissi ekki að ég hefði þessi áhrif?

Og það besta er: ég sendi þessa bók aldrei á neitt forlag, vinkona mín sá til þess.  Og sér til þess að henni sé ritstýrt og hún útgefinn.  Ég gerði ekki neitt nema að skrifa.  Það má segja að þessi bók hafi verið dreginn út úr mér með glóandi töngum , í dimmum kjallara meðan tunglið óð í skýjum.  Enda þegar hún verður útgefinn, þá mun nafn þessarar þolinmóðu konu sem sá til þess að ég fór aftur að skrifa vera eina nafnið á þakkalistanum. 

Þá getið þið hatað hana ef bókin er vond!


Gamall ,,frændi" og leikrit

Ég var að ganga niður Laugaveginn í þungum þönkum þegar ég var ávarpaður:  Hvað asi er á þér frændi!  (Rödd sem ég heyrði fyrst í Húsverðinum eftir Harold Pinter fyrir svo mörgum árum) og fyrir framan mig stóð stórleikari í síðum bláum frakka með loðhúfu á höfðinu.  Og hélt áfram með sinni nefmæltu en þó skýru röddu:  Í hvað kjallara felurðu þig núna?  Ég sagðist fela mig á háaloftinu hjá Mic K.  Hann hló. Það var þá staðurinn, bætti hann við.  Ég spurði hann hvað hann væri að gera.  Fara á æfingu fyrir generalprufuna á Engisprettunum, serbnesku leikriti.  Ég sagðist hafa lesið um það.  Hann mælti með því.  Við stóðum fyrir utan Prikið, það var kalt svo við ákváðum að drekka sitthvorn koníaksnafsinn því að hann var á hraðferð.  Ég fékk mér reyndar Calvados. 

Inni var urmull af unglingum með fartölvur, leikarinn hvíslaði að mér:  Heldurðu að þetta lið sé að skrifa ódauðleg tímamótaverk?  Nei, þau eru að klæmast á Facebook svaraði ég.  Við tókum okkur stöðu við barinn.  Drykkurinn minn var kærkominn eftir að hafa gengið Laugaveginn í þunnum jakka.  ,,Ég er ennþá með leikritin þín!"  Sagði hann nefmæltur.  Og brátt fer ég að verða of gamall til þess að leika Föðurinn ef þú ferð ekkert að gera við þau?  Ég sagði að leikritin mín hefðu öll, á sínum tíma, strandað á sameiginlegum vini okkar sem hafði hrökklast frá Þjóðleikhúsinu sem leikstjóri og ég gefið þau og allar skriftir upp á bátinn.  Honum þótti það leitt.  En spurði hvort að hann mætti nota þau næst þegar hann mundi leikstýra.  Ég sagðist ekki var hrifinn af því að framhaldsskólakrakkar klæmdust með textann minn.  Það hefði verið reynt fyrir áratug með þvílíkri útkomu að gagnrýnandi Morgunblaðsins hefði misst sig yfir endaþarmsskrifum mínum í næstum heilsíðu leikdómi.  Hann mundi eftir því en rifjaði líka upp annan leikdóm um annað leikrit sem hafði verið mjög vinsamlegur í minn garð.  Ég mundi ekki eftir honum og fékk mér annað staup af Calvados. 

Og beindi umræðunni að minningarbókum Jóns Óskars og biturleikanum í þeim.  Það var betra en að ræða um mín eigin skipbrot sem leikskáld eða hvað það nú var sem ég ætlaði að verða fyrir tíu, fimmtán árum.  Leikarinn spurði um bróðir minn, hvenær það yrði næst sýning hjá honum.  Ég sagðist ekki vita það?  Hann hefði frestað sýningu í gallerí 101 og úti í USA til þess að þéna mikla peninga hjá tölvufyrirtæki.  Leikarinn varð við það svo leiður að mér fannst ég næstum sjá blika á tár í augnkrókunum og hann sagði með talsverðum tilþrifum:  þetta land er að hrekja alla snillingana sína út í meðalmennsku og ásókn eftir vindi. 

Við skáluðum og stungum úr glösunum og héldum út.  Ég tók eftir því að það er að koma vor.  Hann kvaddi mig með handabandi og orðunum: Ég hringi í þig bráðlega og við ræðum þessi leikrit þín.  Ég sagði að það þýddi ekkert, ég væri alltaf með slökkt á símanum.  Þá get ég ekki boðið þér á frumsýninguna, glotti hann.  Jæja, þú mátt hringja.  Við ákváðum að hittast á morgunn og gefa okkur tíma til að drekka smá rauðvín og ræða bækur og leikrit og gamla vini og syni okkar sem eru frændur og vinir.  Á leiðinni heim hugsaði ég með mér að ég þyldi það ekki þegar fólk ofmetur mig.  Í kvöld ætla ég samt að lesa þessi helvítis leikrit sem ég hef ekki litið á í næstum tíu ár.


Að vera með bindi

Ég er með bindi í dag.  Ég átti von á fólki á fund sem ég hef ekki séð áður og vildi reyna að draga úr ungæðislegu útliti mínu.  Í gegnum tíðina hef ég oft lent í því að fólk setur upp einhvern svip þegar það hittir mig í fyrsta sinn og ég les úr svipnum: hvað veit þessi strákur?  Samt er ég enginn strákur lengur en ég get virkað sem slíkur.  Kannski eru það fötin eða einhvet samspil af útliti og framkomu sem stundum vill gera fólk óöruggt.  En það er að hverfa veit ég, aldurinn er smá saman að setja mark sitt á mig og er það fínt.  En að vera með bindi (auðvitað var það kannski ekki eftir hefðinni þetta bindi en hvað um það) minnir mig á þá staðreynd að utan fjármálageirans eru karlmenn nánast hættir að vera með hálstau.  Kennarar, sálfræðingar, læknar, meira að segja lögfræðingar, þessar stéttir hafa fyrir löngu lagt til hliðar slaufur og bindi.  Mér finnst það dapurleg þróun.  Ekki fyrir svo mörgum árum sást varla karlmaður á götu án þess að vera með bindi.  Ef hann var þá ekki að koma frá þess meira óþrifalegri vinnu.  Leiðinleg þróun sem ég vona að verði einhvern tíman endurvakin. 


Að pissa í skóinn og skvetta í garð nágrannans

Einhvern tíman las ég frétt um það að pólverjar hefðu fengið húsnæði frá atvinnurekanda sínum - í gámi.  Fannst mér það minna á nútímaþrælahald.  Nú fylgir ekki þessari frétt hvort að þetta séu Pólverjar eða fimm manna fjölskylda á hrakhólum.  En eitthvað hlýtur að vera bogið við þetta blessaða velferðarkerfi okkar þegar reglulega berast fréttir af fólki sem býr í bílflökum, tjöldum og gámum?  Nema að þetta fólk sem hafist við í þessum gám á Bergstaðarstrætinu, séu svo forfallnar miðbæjarrottur að óupphitaður gámur sé betra en blokkaríbúð í Hólunum?  Stutt á barina og svona.  Og hægt að pissa í skónna og skvetta úr þeim í garð nágrannans.  Ef svo er þá er skemmtanafíknin að fara með þetta fólk.  En sé þetta fólk á hrakhólum, þá eru þau ekki öfundsverð af hlutskipti sínu.  Ég veit reyndar um mann sem þurfti í neyð að búa í illa upphituðum og frágengnum bílskúr einn vetur.  Hann var sífellt með kvef og gerði ekkert annað en að ráfa á milli búða og bara, til þess að fá í kroppinn hita.  Svaf svo í svefnpoka, undir sæng , fullklæddur og með rafmagnsofn við höfuðlagið.  Sá bílskúr hlýtur þó að hafa verið höll miðað við gám.


mbl.is Búa í gámi í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá minningabrot frá nóvember ´99

Nóvembernótt og stormurinn er svo megn að brimið gengur yfir bátana í höfninni og þeir rugga til og frá og skella utan í hverja aðra og í verstu hryðjunum sést ekki í ljós vitans á hæðinni fyrir ofan höfnina.  Við stöndum uppi á hól, undir útvarpsloftneti, við bræðurnir í gallabuxum og gömlum úlpum.  Öll götuljós hafa fyrir löngu verið slökkt og eina birtan í þessum bæ er stöku uppljómaður eldhúsgluggi.  Snjórinn sem berst frá hafinu festist ekki á götunum, til þess er rokið of mikið.  Þegar við erum orðnir gegnum votir rönglum við með vindinn í bakið heim til mín.  Þar skellur brimið á stofuglugganum og skerið sem er rétt undan landi og í miðjum stofuglugganum þegar maður dregur frá hverfur undir hvítar bylgjur hafsins.  Stofan er öll á rúi og stúi.  Glös ofan á bókum, teikningar í bunkum, kertastjakar á ólíklegustu stöðum.  Geisladiskar í stæðum.  Við skiptum um föt og kveikjum á tónlist.  Gsm símarnir okkar ná ekki neinu sambandi í þessu húsi.  Við þurfum að fara niður á skrifstofu til mín ef við viljum hringja í kærusturnar okkar.  Fyrir bróður mínum eru þrír dagar á þessum stað sem eilífð.  Ég er orðinn því vanur að sjá ekki kunnugleg andlit nema um helgar.  Hann á eftir að vera í tvo daga og kemst þá með mér til Reykjavíkur, ef að veður leyfir.  Við fyllum glösin okkar, stofuglugginn nötrar, rafmagnið hikstar eins og það sé að fara af.  Eftir mánuð eru aldamót.

Síðar átti ég sjálfur eftir að fá nóg af stormsinfóníunum sem voru leiknar á næstum hverju kvöldi á möstur bátanna eins og þau væru vindhörpur og gefast upp á þessum stað, en það var þó ekki fyrr en ári síðar.  En þessa nótt var engin uppgjöf í mér.  Ég naut þess að vera á þessum stað þar sem ég þekkti engan og var svo mikill einstæðingur að utan vinnu talaði ég ekki veið neinn og var því veru bróðir míns mjög feginn þessa viku sem ég hafði ráðið hann til þess að vera með myndlistarnámskeið.  Og þessi vika var öll mjög einsleit.  Alltaf rok og snjómugga.  Við vorum alltaf blautir þegar við komum heim til mín eftir að hafa verslað eða komið frá vinnu.  Ekkert að gera nema  að tala, hlusta á tónlist, teikna og lesa.  Og borða og drekka og þegar við höfðum loksins ekkert lengur að segja og vorum búnir að ganga út á hvert einasta annes í brjáluðum veðrum, bara til þess að standa þar og láta hafið ýrast yfir okkur, þögðum við og spiluðum fótbolta í leikjatölvu. 

Það eru næstum tíu ár síðan.  Og ég sakna þess stundum að vera ekki úti á landi.  á einhverjum stað þar sem það er ekkert val.  Maður heldur bara til vinnu og svo heim.  Engir vinir og félagar.  Engar kvaðir um að koma og gera eitthvað?  Nema þá sjaldan sem maður heimsækir höfuðborgina.  Og stutt í óblíða náttúru.  Kannski ætti ég að fara að svipast um eftir vinnu úti á landi?  Jafnvel þótt að ég viti að ekki einu sinni bróðir minn mundi heimsækja mig þangað.   


Eyjastemning

Vinkona mín hringdi og spurði hvort ég væri maður til þess að drekka með henni einn bjór.  Ég sagðist því miður ekki vera sá maður í kvöld.  Ég væri sokkinn ofan í tónlist frá Sikiley og bækur frá Færeyjum.  Það væri mikil smáeyjastemning hjá mér í kvöld.  Hún spurði hvort ég væri þá að drekka vín frá Sikiley og borða skerpukjöt frá Færeyjum.  Hvorugt sagði ég.  Bar að lesa og njóta þess að hlusta.  Verð kannski líka sofnaður fyrir tvö.  Ég þekki þig ekki lengur fyrir sama mann sagði hún og kvaddi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband