Færsluflokkur: Bloggar

Vorið er svo sannarlega að koma

Byrjaði á því að fara í Kolaportið og kaupa mér þrjár bækur.  Þar hitti ég kunningja minn sem sagði mér að stúlka sem ég þekkti hefði fallið fyrir eigin hendi fyrir nokkrum dögum.  Mér fannst það leitt að heyra en sagði að það hefði svo sem ekki komið mér á óvart.  Sumu fólki er lífið og listin oft of erfitt.

Rakst svo á föður minn sem var að koma af fundi og vara að spóka sig virðulegur með vindil á milli varana.  Ég brosti breitt yfir þessum óvænta fundi og við ákváðum að ganga spotta korn saman.  Hann byrjaði strax að minna mig á bækurnar í bílskúrnum hjá honum.  ég sagðist þurfa hillur.  Hann sagðist hafa beðið afa minn um að smíða tvær tveggja og hálfsmetra langar undir bækurnar.  Það ætti að duga.  Ég hef það á tilfinningunni að afi minn hafi lítið gert undan farin ár en að smíða handa mér bókahillur.  Við kvöddumst og ég stóð sjálfan mig að því að dást að því hvað faðir minn leit vel út 57 ára gamall.  Nánast eins og strákur þegar hann brosir og er í góðu skapi.  Í vikunni kemur hann með bækur og hillur en ég þarf að festa þær sjálfur upp.

Var svo varla búinn að skilja við föður minn þegar stór vinkona mín kom í flasið á mér.  Hún var svo glöð að sjá mig að hún táraðist af hlátri þegar hún sagðist alltaf vera á leiðinni að hringja í mig.  Hún tók um handlegginn á mér og sagði:  Núna göngum við okkur til ánægju og skröfum saman.  Hún var ánægð með það að ég væri ekki að manga til við einhvern kvenmann, ég hefði ekkert við það að gera.  Ég sagði að það væri lítið að marka hana, kaþólska og miðaldra og margfráskilda og eftir því bitra.  Hún spurði mig hvenær ég ætlaði að hætta þessu slítandi puði sem ég væri að vinna við og flytja til útlanda og aldrei koma aftur, því að það ætti ég að gera, þótt að henni þætti miður að hitta mig þá sjaldnar.  ég sagði henni að ég elskaði að hata Reykjavík og þrífast hérna.  Því færi ég aldrei.  Við settumst niður á Sólon og fengum okkur hvítvínsglas.  Og ég sagði henni upp og ofan af högum mínum síðan við höfðum sést síðast í desember.  Hún sagðist sjá son minn oft og að hann væri að verða mikill unglingur.  Ég samsinnti því.  Og svo slúðruðum við um ómerkileg atriði og kvöddumst með loforði um að hittast sem fyrst og drekka saman vína eða borða góðan mat.

Á leiðinni heim velti ég því fyrir mér hvers vegna lífið væri mér alltaf svona gott en öðrum oft slæmt?  Að í kringum mig sé svo mikið af góðu og skemmtilegu fólki að ég gæti hæglega ekki gert neitt annað en að sóselísara alla daga og öll kvöld ef ég hefði í það nennu og dug.  Ég hef það stundum á tilfinningunni að ég hafi fæðst undir heillastjörnu, þótt að ég reyni oft og iðurlega að skjóta hana niður eða veiða með háf þegar hún speglast í tjörn.   

 


Partý, partý...

Partýið sem hófst á neðri hæðinni klukkan fimm í morgunn virðist ekkert vera að hætta.  Og það versta er að annar gauranna er búinn að ná sér í kvenmannsbelg sem liggur svo hátt rómurinn að hún yfirgnæfir rapptaktinn þegar hún þarf athygli.  Og já, núna er hún að þakka fyrir veigarnar sem hún hefur fengið í nótt með þessum ótrúlegu öskrum og stunum að ég vildi óska að einhver gæti hækkað aðeins í rappinu.  Ég er farinn út að ganga þennan viðbjóð úr höfðinu á mér.


Biturleiki og bleik nærföt

Og ég man að ég kom heim og gekk inn í svefnherberið og hún lá í rúminu í bleikum nærfötum og bláum fótbotnskokkum og reykti og var að lesa í tímariti. Og ég hallaði mér að karminum í dyrargættinni og losaði bindi og spurðu hvernig dagurinn hafði verið.  Og hún leit á mig með þessum brúnu augum, svo ofboðslega löng og grönn og drap í sígarettunni og sagði: ég saknaði þín. Og ég hló og sagði: ég trú því varla.  Og hún reisti sig upp í rúminu og sagði: þú ert orðinn svo horaður að ég held að þú sért ekki hamingjusamur.  Bull sagði ég og settist á rúmstokkinn og horfði á hana: flestir karlmenn í heiminum mundu saga af sér löppina fyrir þig!  Og hún vatt sér að mér og kyssti mig og ég fann ilminn af henni, fann fyrirlíkamanum og fann að ég var ekki sæl. Og ég yrði það aldrei.  Hvorki með henni, né nokkurri annarri... 


Að láta fokka upp í sér

Þegar ég var 18-19 ára voru margir kennarar sem kenndu mér að fokka í mér.  Einn sagði að ég ætti að leggja leiklistina fyrir mig.  Annar að ég yrði góður málari.  Sá þriðji að ég ætti að skrifa.  Sá fjórði að best væri að gera ekkert af þessu nema verða bara kennari og njótandi lista og drekka mikið.  Ég held að ég hafi ekki hlustað á neinn þeirra en samt alla.  Það var ekki fyrr en ég var kominn í Háskóla að ég uppgötvaði að þeir höfðu allir eitthvað til síns máls.  Ég sá þá að ég yrði aldrei fræðimaður.  Til þess er ég of mikill sveimhugi og ekki nógu einbeittur.  Ég vil geta leikið mér með það form sem ég er að vinna með í það og það skiptið.  Ég hallast samt að því í augnablikinu að ég hefði átt að gerast smiður eins og afi minn.  En ég leit mikið upp til hans þegar ég var drengur og hékk á verkstæðinu hans tímunum saman við að horfa á hann og karlana hans smíða.  Lyktin af sagi tengist honum alltaf.   


Silungsveiðar fyrir löngu

Búinn að sitja og endurskrifa síðan ég kom heim í dag, fyrir utan stutt hlé til þess að steikja túnfisk og tala við son minn í síma.  Og undir þessu öllu er Charles Trenet búinn að syngja sig hásann.  Hvar svo sem honum var nú holað niður?  Og á meðan ég var að skrifa fór ég að hugsa um fólk sem er mér núna næstum horfið en var mér mjög kært og náið fyrir svo fáum árum.  Ekki það að ég sakni þess?  Allt hefur sinn vitjunartíma og ég rekst alltaf öðru hvoru á þetta fólk en innileikinn og nándin, vináttan er ekki sú sama og hún var.  Kannski er það mér að kenna?  Kannski engum?  Við öll höldum okkar leið hver svo sem hún er?  En við vorum vinir og því byrjaði að ljúka fyrir næstum sex árum við lítið vatn upp á nærliggjandi heiði...

Stóðum í fjörunni, móleitur sandur svo langt sem augað eygði og miðnætur sólin speglaðist í kyrrum vatnsfletinum. Og við Zerbinn pírðum augun og reyndum að koma auga á flotholtin. Í fjarska heyrðum við í feita Róbert og kvikmyndagerðarparinu. Þau voru orðin smá hífuð. Ég leit á Zerbann sem var ber að ofan í hermannbuxum og hreyfði sig ekki frekar en koparstytturnar niður í bæ. Er meira viskí til? Spurði ég loksins. Hann svaraði engu en benti á pokann. Ég stakk stönginni á milli tveggja steina og gekk að pokanum, hálf flaska eftir þar og ég bar hana að vörum mínum, saup tvisvar og fann það hitna í æðum mínum. Zerbinn sagði án þess að snúa sér við: hvað erum við búnir að fá marga? Tuttugu, þrjátíu sagði ég án þess að hafa hugmynd um það og saup meira viskí. Og klukkan er, spurði hann aftur á sinni hreimsterku ensku. Að verða tólf svaraði ég út í bláinn og kveikti mér í sígarettu. Hátt hróp barst frá annarri vík, þar sem grasbalar og tjöld stóðu. Ég leit þangað og sá að þau höfðu kveikt eld. Ég settist í sandinn, í snjáðum gallabuxum, strigaskóm og dökkbláum bol sem stóð á ,,eldri menn, yngri konur” sem stúlka hafði gert handa mér. Saup aftur á viskíinu áður en ég skrúfaði tappann á og setti flöskuna í sandinn. Sat bara og reykti og horfði á vin minn draga að landi. Fann titring í vasanum og tók upp gemsann, sá að ég hafði fengið sms: en biturð þín er eitt þitt helsta aðdráttarafl þrátt fyrir allt, en ég er samt byrjuð að skoða brúðarkjóla á mig... Ég hló lágt og lagðist í sandinn og horfði upp í heiðan nætur himininn, bláan eins og vatnslitur að þorna á hvítu blaði og kríur á sveimi og tíminn svo víðsfjarri.

Þau sátu við eldinn til hlés við reykinn og létu rauðvínsflösku ganga á milli sín. Hún í miðjunni og þeir þöglir, berir að ofan sitthvoru megin við hana. Öll höfðu þau farið úr sokkunum þessa fögru nótt í byrjun júní. Tjöldin voru tvö, eitt fyrir mig og feita Róbert og annað fyrir parið, Zerbinn ætlaði að vaka alla nóttina eða sofa úti í svefnpoka. Sagðist hafa sofið oft úti þegar hann elti uppi bosníu múslima eða króata eða þýska málaliða eða saklausa borgara og skaut eða skar á háls fyrir svo löngu.

Hann vildi komast aftur í snertingu við tjetnikkinn í sér.

Eruð þið svöng, spurði feiti Róbert þegar við settumst niður og fengum okkur sopa af volgu víninu? Enginn svaraði. Við getum grillað silung, hélt sá feiti áfram. Ef þú nennir svaraði ég og fór úr skónum og hellti sandinum úr þeim. Parið var þögult og starði í bálið. Ég tékkaði á símanum, ekkert annað sms. Hún var sennilega á sirkús eða farin að sofa, það var aðfaranótt fimmtudags og bara fólk sem var atvinnulaust, forstöðumenn eða kvikmyndagerðarfólk, gat verið að hanga við eitthvert vatn í Mosfellsdal um miðjanótt í miðri viku. Ég gramsaði eftir viskíinu og drakk af stút. Stúlkan spurði: hvar er kærastan þín? Ég sagði: hún er ekki kærastan mín, og fékk mér annan sopa. Feiti Róbert, sísvangur var að pakka silungi inn í álpappír. Er engin tónlist hérna bætti ég við? Zerbinn sagði nei, við gleymdum því. Um leið tísti síminn minn, sms: Ég er að koma! Hvar ertu? Ég sendi til bak: við eitthvað vatn úti í rassgati!

 Síðar lá ég berfættur í sandinum. Engin hljóð heyrðust. Sólin var ennþá á lofti. Fiskur stökk upp úr vatninu og gleypti flugu. Við hlið mér lá næstum tóm vínflaska. Ég lokaði augunum. Hef sennilega sofnað því að ég hrökk upp við það að feiti Róbert settist við hlið mér. Hann tók sopa af silfruðum pela. ,,Hvað ertu að drekka ?” spurði ég. ,, Koníak” svaraði hann. Ég tók við pelanum og saup á honum. Lagðist svo aftur í sandinn. ,,Ég vildi að við hefðum bát” heyrði ég Róbert muldra. ,,Þá gætum við siglt.!” ,,Þá gætum við siglt.” Svaraði ég.

Zerbinn og kvikmyndagerðakonan voru að tala saman, með nefin ofan í hvort annars andliti eins og elskendur að hvísla leyndarmálum. ,,Hvar er maðurinn þinn?” Spurði ég.,, Hann fór í fýlu!” Svaraði hún og benti eitthvert út með ströndinni. Eldurinn var að kulna. Ég settist við eldinn. Leit á síman minn, klukkan var að verða 3 og nýtt sms hafði borist: góða nótt, yndislegi strákur, hugsa til þín...

 

Hún sat í fjörunni grátandi. Zerbinn og feiti Róbert voru í gönguferð með flösku af vodka. Ég settist fyrir aftan hana. ,,Eitthvað sem þú vilt deila með mér?” Spurði ég. ,,Ég hata hann! Hann er asni og alki.” Já, svaraði ég: en þið eruð gift. Og við þögðum og horfðum út á vatnið. Öðru hvoru snökti hún og axlir hennar gengu upp og niður. Kríurnar sveimuðu yfir okkur.

 Loks voru allir sofnaðir nema ég og Zerbinn.  Við sátum og rótuðum í glæðum eldsins með prikum, klukkan var að verða fimm.  Heimurinn svaf.  Frá tjaldi kvikmyndagerðafólksins bárust stunur, þau voru að sættast.  ,,Heldurðu að þú giftist og eiginist börn"  Spurði ég Zerbann.  ;,,Nei,svaraði hann dapur, ég dey einn og öllum gleymdur!"  Ekki mér, sagði ég lágt.  Loks dagaði.

Í dag er hann giftur og á tvö börn.  Kvikmyndagerðafólkið er fyrir löngu skilin.  Ég líka.  Og feiti Róbert. Og það er ekkert sem bindur okkur lengur saman nema gömul kynni og ástríða fyrir veiðum.  Í hvert sinn sem ég og Zerbinn hittumst segir annar okkar: nú verðum við að fara að veiða bráðum!  Og við brosum og samþykkjum það en aldrei verður af því.  Það kemur ekki aftur sá dagur að þau komi öll á tveimur bílum og sæki mig á skrifstofuna til þess að fara að veiða því að veðrið er svo gott.  Það kemur aldrei að því að ég liggi með einhverju af þessu fólki í fjöruborðinu og horfi á kríurnar hnita hringi yfir okkur og hlusti á vatnið gára við steina og viti að brátt bíti á.  Við vorum vinir en því er lokið. 


We are all on drugs

Þessi setning er búinn að vera að angra mig í allan dag:  we are all on drugs!  Ég kem því ekki fyrir mér hvort að þetta sé brot úr texta, úr bók eða kvikmynd eða bara eitthvað sem heili minn hefur tekið upp á því hjá sjálfum sér að líma fyrir augum mér.  Og ég hugsaði um þetta þegar ég gekk Laugaveginn heim úr vinnu og horfði á fólkið sem ég mætti.  Flestri litu illa út eins og þeir væru pöddur að skríða undan steinum.  Það var kalt og fólk að flýta sér.  Mér leið eins og ég ætti hvergi heima.  Stæði fyrir utan allt saman.  Tæki ekki þátt í neinu.  Eins og ég væri svo dópaður að einungis litróf sólageislanna skiptu mig máli.  Ég kom við í Mál og menningu og keypti mér bók.  Um hákarla.

Kom svo heim og mundi allt í einu eftir því að ég hafði ekki skoðað myndir sem ég tók um daginn af mér og systur minni þegar hún var á landinu.  Þær voru nokkrar mjög góðar.  Systir mín er óvenju fögur ung kona.  Og ég leit út eins og berklaveikt skáld sem hefur verið krakaður upp úr sjónum eftir að hafa drekkt sér vegna skóleysis.  Kannski eru eiturlyfin að blekkja?  Held nefnilega að það sé staðreynd að allir séu á dópi.  Bara kannski ekki uppáskrifuðu frá læknum, kannski ekki bara keyptu í skúmaskotum skemmtistaða?  Við erum öll á einhverju sem fær okkur til þess að tikka, til þess að fara út á meðal fólks og sinna öllu því sem við þurfum að sinna. 

Ég þekki mann sem skrifaði margar bækur á prelúdíni.  Hann var ekki fyrr búin með eina en hann byrjaði á þeirri næstu.  Þessar bækur náðu því aldrei að komast til útgefanda.  Hann tikkaði á því að skrifa til þess að skrifa.  Náungarnir á hæðinni fyrir neðan mig virðast vera í sama mót steyptir og þessi ágæti höfundur margra óúútgefinna bóka, amfetamín og rapp heldur þeim vakandi og býsna ánægðum heyrist mér í augnablikinu.  En sem betur fer eru ekki allir háðir því sem er örvandi.  Sumum nægir að vita að það hafi hlutverki að gegna í lífi annarra.  Ég læt mér nægja það óvænta.  ég veit þegar ég vakna að á hverjum degi sé ég eitthvað eða það hendir mig eitthvað sem ég bjóst ekki við.  Dagarnir eru sjaldan innihaldslausir og gráir.  Öfugt við það sem ég held að sé á hæðinni fyrir neðan mig.  Sama lagið spilað aftur og aftur í botn og miðað við ruslið - sami bjórinn drukkinn á hverjum degi.     


Um fisk, son og tuðruspark

Brátt fer ég að gefast upp hérna og held í helgarfrí.  Ég ætla að kaupa mér túnfisk á leiðinni heim.  Hef ekki borðað fisk í margar vikur og sakna þess að fá ekki góðan fisk.  Var reyndar að hugsa um öðruvísi fisk sem ég ætlaði að elda með eplum og karríi en er búinn að gleyma uppskriftinni (sem var eftir sjálfan mig) svo ég er fallinn frá því. 

Ég held mér hafi dottið fiskur í hug þegar ég hringdi í son minn.  Hann er gikkur á það sem syndir í djúpunum, þótt að hann hafi verið plataður til þess að setja eitt og annað að hans sögn, miður gott, inn fyrir sínar varir.  Nú er farið að styttast í að móðir hans fari sem fulltrúi Íslendinga í þessar myndlistaþrælabúðir og drengurinn verði hjá mér í tvær vikur.  Generalprufa fyrir haustið.  Hann heldur að það verði frí að koma hingað en gamli kennarinn er vaknaður í mér og ég ætla að sjá til þess að hér verði ekkert gert nema lært og lesið.  Punktur.  Og jú, enski boltinn og botnlaus óregla á laugadögum.  Af þeim sem ég horfi á fótbolta með finnst mér skemmtilegast að horfa á fótbolta með syni mínum.  Sérstaklega ef við förum á bar saman.  Þá segir hann alltaf sama brandarann: ef þú deyrð þá er ég of lítill til þess að bera þig heim ennþá!


Ringlaður

Veit ekki hvernig ég á að túlka gærkvöldið?  Hún kom og var glæsileg og fyndin og sat hjá mér til að verða eitt og var hinn besti félagsskapur.  Og minntist ekki á neitt sem var ,,við" eða ,,okkur".  Og þegar hún kvaddi horfði ég á eftir henni, örlítið ringlaður og ekki vissum hver tilgangurinn með þessari heimsókn væri?

En nú er komin helgi og henni verður ekki eytt í rugl.  Um leið og ég er laus héðan ætla ég a læsa að mér heima og passa uppá það að ég komist ekki í nein vandræði. 


Opnað fyrir hörmungar

Fyrir hálftíma síðan hringdi stúlkan sem ég var að dandalast með fyrir svo skömmu og spurði hvernig ég hefði það?  Fínt svaraði ég og lagði frá mér bókina sem ég var að blaða í.  Hún spurði mig hvað ég væri að gera?  Lesa, eiginlega ekkert, svaraði ég og fékk mér sopa af teinu mínu.  Ég ætla að koma til þín núna, sagði hún þá, kem með eina rauðvín og við drekkum það saman og tölum um okkur! 

Ég ætla sagði hún! 

Og núna er hún á leiðinni með vín (þekkir mig ekki vel, hér er nóg vín í góða veislu) til þess að tala um okkur? Var ekki fyrir löngu búið að taka það umræðuefni út af dagskrá?  Hvað er hægt að ræða um okkur þegar það er ekkert við?  Eða var ég að opna fyrir ,,okkur" aftur með því að andmæla ekki þessari heimsókn hennar?  Ég veit að ég nenni ekki að skrifa í kvöld, ég nenni ekki á barinn og er félagskapnum feginn en ég óttast að þessar samræður um okkur, sérstaklega þegar ég verð orðinn góðglaður af víni, muni bara hafa í för með sér meira vesen? 

Ég er búinn að opna út á svalir og hlusta eftir hælaskellum á malbikinu.  Ég veit ekki hvort að mér hlakkar til að sjá hana eða kvíð því?


Flugmóðuskipið Ingólfur

Ef myndin sem fylgir þessari frétt er skoðuð (offisérar að gera honör) lítur út fyrir að við séum ekki að láta smíða varðbát heldur flugmóðuskipið Ingólf.  Fyrsta skip í stórri flotadeild sem lokið verður við að byggja snemma árs 2010.  Og mun þá halda í nærliggjandi höf til þess að trygga yfirráð okkar yfir hinum sminkandi þorskstofn.  Og vei Norðmönnum eða Færeyingum ef þeir reyna að stoppa okkur!  Þeim verður einfaldlega sökkt.  Tilgangurinn með þessari útþenslustefnu er auðvitað að bregðast við hruni krónunnar og því að hér sé allt að fara til fjandans og hin myrkasta kreppa handan við hornið.  Einfalt bragð sem við lærðum af Þjóðverjum og hvernig þeir útrýmdu kreppunni sem var að sliga þá á fjórðaáratugnum.


mbl.is Kjölur lagður að varðskipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband