Reikningar mínir frystir en samt enginn kreppugrautur

Ég var einmitt að athuga með reikninga mína í KBbanka.  Þar var búið að loka einum reikningi svo ég gat ekki flutt af honum yfir á aðra nema að sækja um lykilorð.  Með öðrum orðum, ævisparnaður Kreppumanns hefur verið frystur.  Þangað til ég kemst í næsta útibú Kbbanka og get fengið lykilorð.  Ég held að næsta útibú sé í London.  Sennilega þarf ég að fara þangað á puttanum eða á hjóli, því að ég er enn að bíða eftir einkaþotunni sem ég keypti á ebay.  
 
Annars vantar mig svo sem ekki mikið af peningum.  Verðandi frú kreppa eldaði seint í gærkvöldi þriggja rétta máltíð fyrir okkur sem var enginn kreppugrautur.  Með matnum heltum við í okkur víni í öllum litum og sulluðum svo í okkur eins og einni koníakflösku.  Og töluðum okkur hás um efnahagsmál á Íslandi.  Meðan kreppan þar hefur ekki áhrif á okkur (nema í formi frystra reikninga) þá er hún bara skemmtilegt samkvæmisspjall.  Annars hefðum við þurft að tala um listir eða tísku.

mbl.is Reiðir viðskiptavinir Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er pirruð, hver verndar mig?

Þjóðin er pirruð, það fer ekki á milli mála.  Og á hverjum skildi það bitna?  Ráðamönnum og bankastjórum?  Nei, á mér!  Tveir virtir og vandaðir bloggarar hafa gert atlögu að mér í athugasemdakerfinu mínu og vilja að ég taki mig saman í andlitinu og haldi sem fyrst í áfengismeðferð.  Ég mundi skilja það ef ég hefði stýrt efnahag Íslands fullur að ég þyrfti að gjalda þess á einhvern hátt en ég hef ekki komið nálægt því nema með óbeinum hætti, sem virkur neytandi á ofurtolluðum innflutningsvörum.  Ég sem hélt að ég ætti hrós skilið fyrir að stuðla að því að fé kæmi í ríkiskassann en svo er ekki.  Núna er eflaust verið að fara fram á sjálfræðissviptingu og ég enda á því að vera fluttur í böndum á lokaða geðdeild, svo að með tíð og tíma ég nái tökum á stjórnleysinu.  Ég sem hélt að allur almenningur ætlaði að fara að standa saman og einbeita sér að því að ausa aur yfir stjórnmálamenn og bankablækur, nei þá bitnar pirringurinn á saklausa mér!

mbl.is Verndum hagsmuni almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar bankarnir...

Þegar bankarnir hætta útlánum til almúgans er hætt við því að þeir veststæðu fari út á götu og fái sér lánað hjá almenningi.  Enda mikið auðveldara að hrifsa bara töskur eða kýla fólk í andlitið en að sitja fyrir framan þjónustufulltrúa og undirrita eitthvað pappírsflóð, til þess að fá handfylli af verðlausri krónu sem maður þarf svo að skila þúsundfaldri til baka.  Ég er samt ekki frá því að þessi ungu athafnamenn sem voru að hrella almenning og stelandi síðasta verðlausa klinkinu, séu pólverjarnir sem bjuggu til skammstíma fyrir neðan mig og trufluð mig við blogg fram eftir vori...  

mbl.is Myndir af meintum árásarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flýtur á meðan ekki sekkur

Nú á að bjarga því sem bjargað verður.  Ef ég væri skipstjóri á þessari skútu þá væri ég kominn í bátana með flösku af einhverju sterku og björgunarbelti um mig miðjan en það er vegna þess að ég er ekkert sérlega góður skipstjóri og ætti von á því að sigla í strand.  Svo samlíkingin haldi áfram er það sem er að gerast á Íslandi sambærilegt við Titanic slysið, við steyttum á Ísjaka og það eru ekki næg pláss í bátunum fyrir alla og lítil von um björgun svo einhverjir munu drukkna.  En ekki þeir ríku.  Þeir komust flestir í bátana og líka stjórnendur skipsins  Nema sá sem smíðaði það og skipstjórinn.  Þeir sáu sóma sinn í því að fara með því niður.  Og var það ekki Davíð sem smíðaði þessa útþensluáætlun okkar og hið Íslenska góðæri?  Á hann þá ekki að fara í sjóinn - með Geir?  Ég veit að ég er ekki á leið í sjóinn enda kann ég því illa að busla þar um í kulda og innan um skötur og hákarla en það er bara vegna þess að ég hef aldrei verið farþegi á þessu skipi Ísland RE.  Frekar svona laumufarþegi.  Og best að koma ekkert til baka.  En ég ætla að sjá myndina um Íslandsslysið, vonandi verður bara ekki svona viðbjóðslega væmið lag í henni eins og Titanic!

mbl.is Skuldir bankanna þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávarp mitt til þjóðarinnar

Ég er að hugsa um að flytja þjóðinni ávarp.  Tek það upp á vél og skelli á youtube.com.  Þar ætla ég að hvetja til stillingar á þessum síðustu og verstu tímum.  Að það þýði ekki að leggjast í depurð og drunga þótt að fjármálkerfið hafi farið til fjandans.  Ég ætla að benda á að enn sé flutt inn rauðvín og enn sé hægt að sækja um styrki í Kreppusjóð sem er allur í evrum og hafi því gildnað ennþá meira í dag við hrun krónunnar.  Auk þess sem klinki var bætt í hann.  Ég er að hugsa um að biðja fólk að íhuga brottflutning frá landi, líki það ekki við ástandið.  Og flytja bara aftur til Noregs.  Þaðan komum við og við getum litið á það sem svo að við höfum bara verið í sumarfríi á Íslandi.  Leiðinda sumarfríi í vætutíð og harðindum og því sé löngu tímabært að fara heim aftur og henda öllum myndunum frá þessu fríi.  Það var algjörlega misheppnað.  

mbl.is Forsætisráðherra flytur ávarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innleiða gapastokka

Staða bankanna mundi batna ef sett væri í lög að komi einhver piltungi til starfa hjá banka og vilji fá 300 milljónkróna eingreiðslu fyrir bankastjórastólinn sinn, skuli hann tafarlaust tekinn og velt upp úr tjöru og settur í gapastokk fyrir græðgina.  Enda er það að sýna sig núna að þótt fólk hafi verið á milljarðalaunum við það að þenja út íslenska bankakerfið hafi það alls ekki verið starfi sínu vaxið.  Sem var svo sem auðséð frá upphafi.  

mbl.is Neyðarlög sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlög - útgöngubann!

Með þessum lögum hefði ríkistjórnin líka átt að bætta við útgöngubanni.  Ef það yrði sett á útgöngubann eftir að skyggja tekur yrði almenningur ófær um að fara út og eyða þessum fáu og verðlausu krónum í eitthvað heimskulegt eins og brennivín.  Fólk verður bara að hanga heima og lesa blogg ef það þarf að drepa tímann.  Mæli með því að það lesi Berg á þessum síðustu og verstu...
 
En samkvæmt þessu virðist ríkið hafa tekið sér fjármálalegt einræðisvald og getur hlutast til með og jafnvel lagt niður fyrirtæki ef þeim sýnist svo.  Ekki góður dagur fyrir forna féndur Davíðs Oddssonar og hans klíku.  Nú verður hægt að víkja Baugsfeðgum um stjórn þeirra eigin fyrirtækja ,,afþvíbara"... 

mbl.is Víðtækar heimildir til inngripa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótíðindi, dauði, hremmingar, kreppa, sjálfsmorð...

Verðandi frú Kreppa kom heim með fullt af kynvillingum.  Einn frá þýskalandi, einn frá Svíþjóð (angandi af hárspeyi og með klippingu eins og Rod Stewart) og svo gamla herfu frá landi Engla.  allt fatahönnuðir.  Og ekki bara að þetta lið talaði mig í kaf, heldur drakk það frá mér allt koníak, viskí, gin og bjór svo nú er ekkert eftir í kotinu nema vatn.  En þetta skaðræðis fólk er farið og ég er að hugsa um að negla aftur útidyrnar svo það eigi ekki innangengt í bráð.  
 
Um leið og verðandi frú Kreppa kom inn með gestina dró hún mig afsíðis og spurði hversu drukkinn ég væri og hvort ég gæti hagað mér eins og maður og skeft því að móðga gestina?  Því að hún ætti talsvert undir þessum kynvillinga og gamalmennaflokki komið.  Ég lofaði því og sat bara og þagði og prumpaði (vondur kvöldmatur- pestó og brauð) og sat á strák mínum og brosti.  Og leit öðru hvoru á klukkuna og fannst tíminn lengi að líða.  Og svo fór þetta lið þegar allt bús var uppdrukkið og núna líður mér eins og ríkinu.  Ég þarf að biðla til vinaþjóða eða vinabloggara um að fá sendingu af áfengi í gegnum netið.  Ef það er hægt.  Sem ég efast um.  Best að ég fari að sofa.  Það er allt farið til fjandans hérna eins og heim á Íslandi.  Ég segi mig á sveitina á morgunn... 

Kreppuerfingi og þjóðaríþróttin

Núna er ég einn í kotinu.  Verðandi frú Kreppa fór eitthvað út að borða með einhverri kerlingarherfu og skildi mig einan eftir, rauðvínslausan með fátt til þess að borða nema brauð, pestó og skinku þar sem ég nenni ekki að elda fyrir mig einann.  Ég á reyndar slatta af Morenabjór svo að ég þarf ekki að horfast allsgáður í augu við veruleikann.  Held að ég hefði ekki gott af því.  Þá gæti mér farið að leiðast.  Ég er líka að hugsa um að senda syni mínum bréf.  Við eigum í mjög svo áhugaverðum bréfasamskiptum þessa dagana enda pilturinn að ganga í gegnum einkennilega krísu.  Hann getur ekki gert það upp við sig hvort að hann ætli að verða rithöfundur eða myndlistamaður eins og móðir hans.  Ég reyndar vill að hann verði bankamaður og leggi sig svo fram við það, þegar við verðum komin úr þessum öldudal sem nú ríkir, að kafsigla þjóðarskútunni á ný.  Þá yrði ég stoltur.  En mér miðar lítið í þá átt.  Drengnum finnst ennþá ekkert heillandi við það að aka um á átta miljónkróna Benz og gambla með sparifé almennings í kauphöllum heimsins.  Ég held að ég þurfi að fara að kenna honum póker og koma inn hjá honum smávegis spilafíkn þannig að hann gleymi öllum óarðbærilegum listamannsdraumum og snúi sér alfarið að því að reyna að tapa sem mestu á sem stystum tíma.  Hinni nýju þjóðaríþrótt okkar Íslendinga.  

Áhyggjur páfa

Hvur andskotinn, ekki ætla ég að kveikja á útvarpinu í bráð.  Þetta er nú ljóti óskapnaðurinn að fara að lesa úr þessum bækling nónstopp!  Það er eiginlega verri hugmynd en lestur Passíusálmana ár hvert í dymbilviku.  Ekki það að mér finnist ekki trúarbrögð ágæt, hef meira að segja lesið þessa bók nánast spjaldanna á milli (veðurtepptur, fullur á hóteli á Ísafirði og ekki neitt annað lesefni)án þess að verða fyrir teljandi skaða en að þröngva landslýð til þess að heyra guðsorð, er það ekki full langt gengið?  Er það ekki svona eins og á miðöldum, mætirðu ekki daglega í kirkju verðurðu brenndur fyrir trúvillu?  Ég held að páfinn ætti að hafa áhyggjur á öðrum hlutum sem standa honum nær.  Til dæmis því að allir páfar hafa dáið í starfi.  Enginn komist á elliheimili eða getað hafið arðsamari starfsframa hjá einkafyrirtækjum!

mbl.is Páfi hefur áhyggjur af trúleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband