Lýst er eftir forseta Íslands!

Hvar er sá sem á að sameina þjóðina á sundrungartímum?  Er hann búinn að opna munninn til þess að stappa í okkur stálinu og róa niður?  Eða er hann kannski flúinn úr landi með vinum sínum auðmönnunum?  Ef ég man rétt þá hélt ég að hlutverk hans væri að vera sameiningartákn þjóðarinnar?  Eða er hann kannski nú þegar búinn að sætta sig við það að vera ekkert annað en hreppstjóri í Rússneskum hrepp og er því upptekinn við að láta skraddara sauma á sig viðeigandi þjóðbúning?  Eða er hann kannski alltaf að koma fram og faðma að sér bágstadda en fjölmiðlar greina ekki frá því enda ómerkilegt að skrifa frétt um mann að gegna sínu starfi?  Eða er ég bara svona illa læs að þetta fer allt framhjá mér?  Leiðréttið mig ef svo er, þá bið ég forsetan afsökunar.  Ef ekki, þá mun ég telja að hann sé úti í London að hugga vini sína auðmennina inni á einhverjum fínum billjóneraklúbb!

Bókaþjóð aftur

Það er gott að vita samt af því að mitt í allri kreppu og svartnætti breytist sumt ekkert.  Kvöldin hér eru alltaf eins.  Verðandi frú Kreppa með óperu í botni að teikna, ég að bora í nefið og horfa á tunglið í gegnum gluggann.  Ef ég væri ekki svona saddur af kjöti mundi ég standa á fætur og teygja mig í bók.  Ekki eitthvað eymdarvæl eins og Sult eftir Hamsun, þó mig gruni að sú skræða verði brátt skyldulesning á Íslandi, heldur eitthvað léttmeti sem gæti fengið mig til þess að brosa.  Ég reyndar man ekki eftir því að eiga þannig bók?  Þó það gæti samt sem best verið?  Sennilega hefði verið betra fyrir Íslensku þjóðina að halda sig við það að vera bókaþjóð en ekki bankaþjóð.  Þá hefðu allir setið heima yfir einhverri uppbyggilegri skræðu í stað þess að sitja yfir tölvum að ráða í sveiflur á hlutabréfamörkuðum reiðubúnir til þess að kaupa allt sem til sölu var.  Það er líka mikið skemmtilegra að tilheyra bókaþjóð, eins og ég reyndi eitt sinn sjálfur í leigubíl í Prag þegar bílstjórinn missti sig af hrifningu yfir Laxness, en að vera núna einn af þessum skríl sem setti heiminn næstum á hausinn.  Það er enginn neitt sérlega ánægður með það.


Nágrannaskot

Einu sinni kynntist ég stúlku sem bjó á hæðinni fyrir neðan mig örlítið meira en góðu hófi gegnir.  Það byrjaði með því að ég lánaði henni eitt kvöld fyrir sígarettum og varð til þess að hún fór stundum að banka upp á hjá mér og leitast eftir félagsskap.  Ég hafði ekki neitt á móti því til þess að byrja með en þegar hún vildi að við yrðum meira en vinir og fór auk þess líka (að mér fannst) að sitja fyrir mér úti á götu, á börum, búðinni, sá ég í hvað stefndi: katastrófu!  Þá var stúlkan farin að kynna sig sem kærustuna mín og hringja í keppinauta sína (hvort sem þeir voru það eða ekki) og biðja þær um að halda sér frá mér annars hlytu þær verra af!  Sumar þessara stúlkna sem hún hringdi í voru mér nánast ókunnugar, aðrar vinkonur og alltaf þurfti ég svo að sverja þessa konu af mér. Enda fór svo að ég sá mér þann kostinn vænlegastan að flytja í hinn endann á miðbænum.  Þá var reyndar búið að loka stúlkuna inni á sjúkrahúsi og taka af henni leyfi til þess að hringja því að hún var haldinn einhverri sjúklegri þráhyggju gagnvart mér.   Sem betur fer virðast lyf og læknar hafa hjálpað henni því að mörgum mánuðum eftir að hún lagði mig í nánast einelti, sendi hún mér bréf og baðst afsökunar.    

mbl.is Voru nágrannar í 17 ár en ástin kviknaði á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórfalt húrra fyrir forseta vorum!

Gegn láninu fá þeir afnot af herflugvellinum á Keflavík og það verður bara byrjunin á því að við sameinumst Rússum og verðum eitt af fylkjunum þar.  Þá mun nú allt verða með besta móti hér.  Mafían kaupir bankana og borgar fyrir með vodka.  Og Íslendingar þurfa aldrei oftar að vinna í fiski eða öðrum lálauna óþrifastörfum því framboð af harðduglegum steppubúum verður nóg.  Við verðum milljóna þjóð og hinir upprunalegu Íslendingar, bara svona skemmtilegt og sérviturt þjóðarbrot í hinu mikla Rússneska ríki.  Og þá þora Bretar ekki lengur að ybba gogg við okkur, því að við verðum einfaldlega ekki lengur til og enginn vill ergja öfgafulla Rússa!  Ekki sá ég þetta fyrir?  Ég hélt alltaf að við mundum enda sem 53 fylkið í Bandaríkjunum.  Mikið kemur heimurinn manni alltaf skemmtilega á óvart.  Ég er að hugsa um að skella mér á Rússneskunámskeið og hengja upp þessa mynd í stofunni, af hinum nýja einvaldi okkar.  Sú gamla af Davíð sem hefur vakað yfir mér í næstum 20 ár, fer beint í ruslið.
putin_040913  
 

mbl.is Fundur um rússneskt lán á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæst gefins...

Geir gleymdi að bæta þessu við eða auglýsa í smáauglýsingum undir ,,fæst gefins":  Veðursæl Eyja á besta stað.  Með nokkrum jöklum og fullt af stórum jeppum.  Íbúar um 300þúsund en fer fækkandi.  Fæst gefins gegn yfirtöku lána.  Gæti hentað vel Rússneskum einvöldum eða auðugum aröbum...
 
Ég hefði lagt inn tilboð enda er ég í viðskiptum við eina bankann á Íslandi sem er ennþá starfhæfur, að hluta, án þess að senditíkur Ríkisstjórnarinnar sé að vasast þar í pappírsflóðinu.  Er alveg vissum að einhver mundi skrifa upp á lánið hjá mér.   
 

mbl.is Viðskipti milli landa verða tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarstolt

Nú er ég stoltur af því að vera Íslendingur.  Við erum búnir að ergja aðrar þjóðir með því að eyða eins og unglingur með greiðslukort.  Og setja milljónir manna á hausinn.  Litla þúfan sem velti þungu hlassi...
 
Ég ætla samt ekki að koma við á Englandi á næstunni.  Held að ég yrði ekki vinsæll ef ég glopraði út úr mér þjóðerni mínu.  Sennilega yrði ég rassskelltur.  Án þess að eiga það skilið.   

mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf er ég jafn heppinn

Var að vona að Davíð ætlaði að borga fyrir mig mínar fjárfestingar í útlöndum.  Sem er smá barreikningur og Visakortsskuld.  En núna hefur hann tekið af allan vafa, ég verð að leita til annara með mínar skuldir.  Kannski ég opni söfnunarreikning og reiði mig á góðsemi samborgara mína?  Held samt ekki því að ég er búinn að frétta af fólki sem stendur mér nærri sem er búið að vera að tapa tugum milljóna króna á þessari litlu ,,dýfu" í efnahagslífinu.  Og fyrst að það bara yppir öxlum og tekur því eins og hverju öðru hundsbiti, ætla ég ekki að fara að gráta eða betla þótt að hann Davíð bregðist mér.

mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlíf og klám...

Nú á þessum síðustu og verstu tímum ættu sem flestir að taka Duchovny sér til fyrirmyndar og hætta að eyða peningum í óþarfa eins og áfengi en skella sér þess í stað á fullum krafti í kynlífsiðkun.  Helst svo mikla að hún verði að þráhyggju og fíkn.  Minnir mig á það sem gestur á heimili okkar verðandi frú Kreppu fræddi okkur um um daginn en það er svokallaður hestaleikur, þar sem annar makinn klæðist búningi sem minnir á hross og setur á sig hnakk eða söðul og hinn ,,ríður" viðkomandi.  Svo vinsæll er þessi leikur orðinn að búið er að opna sérstaka reiðskóla út í hinum stóra heimi.  Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki mikinn áhuga á svona óhefðbundnu kynlífi, og er eiginlega þannig maður að ég verð eflaust seint vistaður á meðferðarstofnun vega svona fíknar.  Eða fíkna yfirhöfuð.  Sennilega er ég ekki nógu ríkur til þess að geta legið yfir klámi eða vændiskonum alla daga.  Og efast um að ég mundi gera það, ætti ég kost á því.  Maður veit þó aldrei?

mbl.is Duchovny kominn úr meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðvínsverð fryst

Mikið er það gott fyrir mig að vita að rauðvínsglasið niður á horni verði um ókomna tíð á 861,25 krónur íslenskar.  Síðustu daga hafa verið of miklar sveiflur á verði á þessum nauðsynlega drykk og ég hef setið sveittur að reikna hversu mikið ég greiði fyrir sopann.  Það hefur valdið mér svo miklu stressi að ég hef eiginlega ekki getað notið glassins.  Og ekki haft tíma til þess að hreyta ónotum í Norska barþjóninn, þegar hann er á vakt.  En nú hefur allt verið tryggt heima á Íslandi og ég veit nákvæmlega að ég greiði 200 kalli meira fyrir glasið hér en á Ölstofunni í Reykjavík.  Einu sinni var ódýrara að drekka í útlöndum, nú hefur enginn efni á því að vera túristi nema þeir sem settu þjóðina á hausinn með því að sigla hagkerfinu í strand.  Ég læt þetta samt yfir mig ganga.  Því ekki vill ég borga 602 krónur fyrir kaffibollann.  

mbl.is Gengi krónu fest tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppboðið hafið...

Uppboðið á Íslandi er hafið og fyrrum gjaldþrota stórveldi er komið með forkaupsrétt á herflugvellinum í Kaflavík.  Það var nú gott.  Þá þurfa þeir ekki að ráðast á okkur eins og Finna í gamladaga.  Enda mundum við ekki getað sallað Rússana niður eins og lang drukknir frændur okkar í Finnlandi gerðu.  Við hefðum bara gefist upp.  En það er skárra að fá málamyndagreiðslu fyrir frelsi okkar.  Sem samsvarar nokkrum hummerum og einkaþotum.  Það gengur ekki að auðmenn landsins hafi ekkert reiðufé á milli handanna.  ég ætla á Rússneskunámskeið sem fyrst.

mbl.is Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband