Mannorðskrossfestingar

Í öllum þeim æsingi sem verið hefur ekki bara á Íslandi, heldur heiminum öllum, undanfarna daga hefur skapast kjörlendi fyrir allskonar flökkusögur.  Ég veit ekki hversu margar ég hef heyrt af sjálfsvígum þekktra auðmanna sem og almennings.  Þessi og hinn eiga að hafa hengt sig eða svæft sig inni í bílskúr. Fyrir utan alla þá sem fengu hjartaáföll eða voru lokaðir inni á geðdeildum vegna hrunsins.  Það er nefnilega þjóðaríþrótt Íslending að búa til sögur.  Þetta höfum við gert síðan land byggðist, kastað fram kvæðum eða flækst á milli bæja og logið upp á náungann.  Svo hafa alltaf verið til auðtrúa fífl sem hafa sett lygarnar niður á bók.  Þannig varð Njála til. 
 
Það er alveg ótrúlega ríkt í Íslendingum sú dægrastytting að koma saman og tala illa um náungann.  Helst einhvern sem maður þekkir vel og er vinur manns en er víðsfjarri og því varnarlaus fyrir slúðrinu.  Og heyrir maður eitthvað sagt sem er virkilega safaríkt, er best að bera það óritskoðað og helst aðeins ýkt áfram til næsta manns.  Sögur verða bara betri ef slúðurberi bætir aðeins við þær.  Helst meiri eymd og volæði um þann sem sagan fjallar um.  Enda veit ég ekki hversu oft ég á að hafa hengt mig.  Og lítið til í því, ég er ennþá hálflifandi.  En yfir þessu getur fólk skemmt sér.  Ógæfu annarra.  Því að sá þykir leiðinlegur í kaffi eða víndrykkjuboðum sem opnar munninn til þess að tala fallega um einhvern og mæra kosti hans.  Það gera bara fífl og höfðingjasleikjur.  Við öll hin, við viljum sjá blóð fossa og fólk kveljast.  Og mannorðskrossfesta sem flesta.

mbl.is Orðrómur um fjölgun sjálfsvíga rangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáleysi og fangelsi

Hverskonar vitleysingur geymir hlaðin skotvopn heima hjá sér?  Dauður vitleysingur samkvæmt þessu.  Þótt að maður eigi ekki að hlæja af svona drama.  Og greyið stúlkan, skiljanlega hefur hún stungið af og haldið heim.  Því að þótt allt sé að fara til fjandans hérna, þá er Ísland betri staður en rússnesk fangelsi.  Það sem maður hefur heyrt af þeim er ekki lýsing á sumarbúðum eins og Litla Hraun virðist vera.  Sá heimildamynd um rússnesk glæpagengi og hvernig þau stýra fangelsunum og verðirnir gera fátt annað en að forða sér á hlaupum undan kúlnahríð.  Ekki staður fyrir ungar stúlkur.  Samt er ég hálfpartinn að vona að þessi frétt sé ekki sönn og rétt.

mbl.is Íslenskur skiptinemi sagður eftirlýstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekktustu afbrotamennirnir

Bókmenntasagan er full af þekktum glæpamönnum.  Þeir sem fyrst koma upp í huga koma fyrir í verki eftir Thorbjörn Egner.  Ef eitthvað gerist í Kardimommubæ, þá eru þeir skúrkar Kasper, Jasper og Jónatan strax heimsóttir af bæjarfógetanum og stungið syngjandi í jailið.  Þar fá þeir svo að dúsa fyrir framan borð sem svignar af kræsingum þangað til það kviknar í turninum í Kópavogi, þá fá þeir að hjálpa til við slökkvistarfið og hljóta frelsi og heiðvirð störf að launum.  Og einn giftist svo gribbu í kjölfarið.  
 
Aðrir þekktir glæpamenn úr heimsbókmenntunum er svo Bjarnabófarnir í Andabæ.  Þeir öfugt við Kasper, Jasper og Jónatan eru óbetranlegir, sama hversu oft og lengi þeir sitja inni, þeir gefast aldrei upp.  Jónas og Tindur og félagar virðast vera líkari þeim.  Um leið og þeir komast út eru þeir farnir á glæpabrautina á ný.  Og því miður fyrir Íslendinga er það ekki hnupl úr peningageymi sem þeir íhuga.  Heldur að koma sér upp sínum eigin amfetamíngeymi.  Eitthvað sem Bjarnabófarnir eru of saklausir til þess að láta sér detta í hug.

mbl.is Höfuðpaurar á reynslulausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarsetur um mig

Á Sirkus bjó ég í nokkur ár.  Þar kynntist ég fullt af fólki.  Og konum.  Einni trúlofaðist ég, önnur fékk mig upp að altarinu.  Einu sinni var ég líka kýldur þar fyrir misskilning og fékk blóðnasir.  Barstúlka þurrkaði framan úr mér blóðið.  Við vorum sérstakir vinir í nokkrar vikur á eftir.  Bróðir minn hékk oft þarna líka, svo mikið að hann þurfti að vinna sem barþjónn til að borga niður skuldir.  Systir mín vann líka á barnum og skrifaði þar bókmenntafræði ritgerðir.  Sonur minn kom einu sinni þar inn og settist við hlið mér og pantaði kók.  Mamma hans var þá að hengja upp auglýsingar um sýningarhald á málverkum.  Ég og verðandi frú Kreppa sáumst oft á þessum stað.  Stundum fylgdumst við þá að heim.  Svona þegar ég var ekki upppantaður af öðrum.  Og núna hafa Bretar höfuðóvinir okkar opnaðu um mig safn.  Tekið ef svo má segja, bernskulóðir mínar og sett á stofnun.  Þeir vita að ég mun fá nóbelsverðlaunin í bloggi og þá verður slegist um alla bari sem ég hef setið á.  Ég er ekki enn orðinn 37 ára en búinn að fá mitt eigið, nokkurskonar Þórbergssetur.  Guð minn góður hvað ætli þeir geri þegar ég dey?  Setji hundraðogeinn eins og hann leggur sig á safn?

mbl.is Listin vinsælli en bankarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúðarkjóll elskan mín!

Ég hefði betur náð mér í Ingibjörgu.  Þar fer sko mikill kvenkostur og svo hæfileikarík að hún getur hannað allskonar fína fylgihluti á sig og bónda sinn.  Annað en verðandi frú Kreppa sem þrátt fyrir alla sínu fínu fatahönnuðarmenntun hefur ekki teiknað á mig ein jakkaföt.  Ekki svo mikið sem sokkapar.  Það eina sem henni dettur í hug, þessari elsku, eru trilljónir af brúðarkjólum.  Og ekki ætla ég að fara að valsa í þeim um götur og torg.  Nú er ég farinn í fýlu sem á að endast langt fram á nótt nema að þetta nöldur mitt hér á alþjóðarvettvangi verði til þess að hún kroti upp eins og einum jakkafötum á mig.  Ég vil þá hafa þau blá elskan! 

mbl.is Ingibjörg hannaði lystisnekkjuna 101
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Operation Einstein

Sennilega hafa þessir kumpánar ætlað sér að sjúga tonn af hvítu drasli upp í nefið á sér og komast með því í svo mikinn vísindaham að þeir gætu betur bætt afstæðiskenningu Einsteins og jafnvel opnað ormagöng og ferðast á milli pláneta án þess að þurfa til þess geimflaugar.  Eða kannski hafa þeir ætlað sér að bjarga okkur út úr fjármálkreppunni með því að gefa ókeypis amfetamín til seðlabankastjóra, það hefur löngum þótt skerpa hugsun og svo þarf fólk ekkert að sofa.  Davíð á spítti mundi nú ekki verða lengi að redda okkur úr kreppunni.  Sennilega mundi hann bara gera það sama og Idi Amin félagi hans gerði þegar Uganda varð dollara laust, hann lét einfaldlega bara prenta meira.

mbl.is Á sér ekki hliðstæðu hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bananalýðveldið Ísland

Nú verður tilkynnt það sem ég hef lönguóttast - lögreglustjórn.  En það er útgáfa okkar Íslendinga af herstjórnum þeim sem hafa tíðkast í gegnum tíðina í vanþróuðum ríkjum (sem við tilheyrum þessa dagana) eins og Fjarskanistan.  Nú verður Björn Bjarnason einvaldur og útgöngubann sett á eftir að rökkva tekur.  Loksins erum við orðið fullkomið bananalýðveldi eins og við höfum alltaf stefnt að.  Ég yrði ekki hissa þótt að í kjölfarið mundi fullt af fólki hverfa...

mbl.is Lögreglan boðar blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn hól fyrir Holland

Ég legg til að Holland fái fjall af eigin vali sem skaðabætur.  Landið þeirra er flatt og ljótt og veitir ekki af eins og einum Skaftárjökli til þess að flikka upp á útsýnið hjá þeim.  Hér á Íslandi er fullt af Pólverjum sem eru í þann mund eða hafa, misst vinnuna og það má nota þá til þess að moka jöklinum í poka (sem eru svo númeraðir svo hægt sé að raða honum rétt upp í Hollandi) og setja um borð í skip.  Og fyrst talað er um skip og mokstur og Holland, þá má líka leyfa þeim að grafa upp Gullskipið og endurheimta þá 400 ára gamalt krydd upp í þann reikning sem þeir veifa núna framan í okkur!

mbl.is Hollendingar hóta málsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullur sokkur af sandi

Við sýnum hugrekki.  Bullan treður á okkur og við hlaupum beint í kennarann og klögum.  Nema bara að þessi kennari er útbrunninn, langar helst í sígarettu og nennir ekki að koma og stöðva slagsmál í frímínútunum.  Og hvað gerir maður þá, þegar mikið stærri og þyngri bulla er að berja á manni og kennarinn kemur manni ekki til hjálpar?  Fyllir sokk af sandi og slær bulluna í hnakkann þegar hún á síst von á.  Það kennir henni að láta mann í friði.

mbl.is Ekki síðan í þorskastríðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafka og Ísland

Öfugt við Jósep K sem aldrei vissi almennilega fyrir hvað hann var handtekinn og svo ákærður, þá vita Íslendingar mjög vel hversvegna Hollendingar, Bretar og eflaust fleiri þjóðir eru að undirbúa málsókn á hendur þeim.  Vegna þess að fáeinir auðmenn stungu undan digrum sjóðum.  Þannig að það á ekki að koma Íslendingum á óvart ef þeir verða leiddir út, allir með tölu, einn hráslagalegan morgunn og skornir á háls, en það voru örlög Jósefs K ef ég man minn Kafka rétt.  

mbl.is Allir eru sekir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband