Færsluflokkur: Bloggar

Kreppuflokkurinn - atlaga að lýðræðinu

Þar sem ég sit hérna steinsnar frá gröf Machiavelli, í fæðingarlandi fasismans, þar sem ennþá spilltir forsætisráðherrar fara með skammvinn völd og les fréttir og blogg frá Íslandi, þar sem fólk telur sig hafa farið að sofa í lýðræðisríki en vaknað upp við einræði, íhuga ég fyrir alvöru þátttöku í stjórnmálum.  Í fyrstalagi vegna þess að mér leiðist og fæ litla athygli hérna á heimilinu en þó fyrst og fremst vegna þess að mér sýnist að nú sé að renna upp gósentíð fyrir dáðalausa einstaklinga með vingulseðli.  Mér sýnist á öllu að Íslensk stjórnmál séu alfarið farin að snúast um að hygla frændum sínu eða að koma höggi á þá sem valdhöfum er illa við.  Koma sem flestum og þyngstum höggum á þá sem ekki vilja dansa eftir púkablístru hins upplýsta einræðis sem virðist ríkja í heimalandi mínu.  
 
Kreppuflokkurinn ætlar því að fara að taka til starfa og bjóða fram í næstu alþingiskosningum.  Ég var líka búinn að lofa Bergi í kommentakerfinu hans að leyfa honum að ráðskast með Ísland að vild í fjarveru minni.  Sérstaklega þegar ég er drukkinn.  En sem komið er er ekkert á stefnuskrá flokksins nema að ná niður verði á rauðvíni og kaffi, gefa þurfalingum og hreppsómögum sem brátt munu skipta þúsundum, súpu og brauð og koma bloggvinum í sem bestu og arðbærustu embætti sem þjóðin hefur upp á að bjóða.  Þetta er einföld og ágæt stefnuskrá sem höfðar til flestra og ætti að gefa okkur svona 40 þingsæti næst þegar verður kosið.  Og þá legg ég niður lýðræðið tímabundið að hætti Mussolinis, svona rétt á meðan ég er að koma þjóðinni í gegnum verstu kreppuna.  Búið ykkur undir tímabil fjöldafunda þar sem svartklæddur múgurinn þarf að hilla mig dauðadrukkinn að slefa í ræðustól.  Ég efast um að nokkur muni taka eftir því að breytt hafi verið um karlinn í brúnni!

mbl.is Glitnir hefði farið í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Das Verzauberte licht

Skrapp á barinn á horninu til þess að athuga hvort norðmaðurinn sem vinnur þar væri að vinna en ég skiptist stundum á athugasemdum við hann yfir glasi.  Hann var í frí svo ég staulaðist aftur heim.  Það byrjaði að rigna.  Hörku haustskúr svo ég rennblotnaði á augnabliki og kom inn með hárið ofan í munn og fötin límd við mig.  Allt við það sama þegar ég kom aftur - verðandi frú Kreppa að teikna í gulum kjól með hvíta slaufu um mittið - ég sé það á kjólunum hennar að það er nýr dagur, því að hér eru allir dagar eins.  Fékk senda þýska þýðingu á Í töfrabirtu eftir William Heinesen sem útleggst Das Verzauberte licht.  Með henni fylgdi stutt bréf frá vini mínum sem sendi mér bókina frá Rostock að ég ætti að lesa hana til þess að bæta þýskuna mína.  Svo nú sit ég í rigningunni í Firenze og blaði í Færeyskri bók á þýsku í nokkra metra fjarlægð frá staðnum þar sem helstu stórmennum endurreisnarinnar var holað niður.  Og læt mér leiðast.  Búinn fyrir löngu að gefast upp á því að reyna að ná sambandi við verðandi frú Kreppu þegar hún er svona niðursokkinn í að teikna og sá eini sem er inni á msn hjá mér er hraðlyginn Kúrdi sem getur ekki komið út úr sér einni setningu nema með því að ljúga alla veganna tveimur atriðum.  Oftast hef ég gaman af svona fýrum en í kvöld nenni ég ekki að eiga samskipti við einhverja kjána.  Finnst að ég ætti að lesa Prinsinn eftir Machiavelli, hann sefur næstum upp í hjá mér, svo nálæg er gröf hans.    

Sjálfsdýrkandinn ég!

Ég hef nú alltaf verið talinn til hégómlegustu og sjálfsánægðustu manna, jafnvel þótt að stundum hafi verið rýr innistæða fyrir ánægjunni, en samt er ég alvega ókunnugur þessum vef facebook.  Veit reyndar að verðandi frú Kreppa fær daglega bónorðsbréf frá álitlegum körlum frá hinum og þessum krummaskuðum um allan heim og stundum hækkar einhverskonar sexapíl hjá henni þegar nógu margir sveittir graðnaglar hafa reitað hana hot.  Svo veit ég til þess að einhverjar vinkonur mínar hafi farið og hitt karlmenn af þessari síðu sem hafa litið vel út á myndum en verið svo illa þefjandi og fákunnandi dusilmenni þegar á hólminn var komið.  Allt vegna þess að enginn er maður með mönnum á Facebook nema hann geti flaggað þar stóru safni af myndum, helst í þannig pósum að hitt kynið missi sig af hrifningu yfir þeim.  Með hjálp photoshop.  En það forrit mun vist vera þess eðlis að jafnvel ljótasta fólk verður skítsæmilegt eftir að myndum af þeim hefur verið breytt þar.  Ég veit það ekki?  Kannski er ég að verða gamall og nöldrandi asni en ég hef alltaf haft þá trú að fólk eigi að hittast auglitis til auglitis í fyrsta skipti en ekki með hjálp einhvers sem er kallað ,,tengslanetssíða" en er að sögn þeirra sem til þekkja, ekkert annað en einkamálvefur með myndasafni.  Æji það er orðið sorglegt að vita til þess að fólk liggi heilu og hálfu dagana yfir þessari og svipuðum síðum í stað þess að fara út á barinn og þá alla vegna sjá annað fólk af holdi og blóði og finna jafnvel af því lyktina líka...
 
Ég er að hugsa um að fara niður á ölstofuna hérna á næsta horni, sitja við barinn svo ég geti séð sjálfan mig speglast bakvið flöskurnar á barnum.  Það er alvöru sjálfsdýrkun.  

mbl.is Sjálfsdýrkendur þrífast á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt farið til fjandans!

Það má ekki líta af þessu landi í nokkrar mínútur án þess að allt fari til fjandans.   Ef ég er ennþá læs og skil fréttirnar af ástandinu rétt þá er einhver svartasta kreppa skollinn á í heimalandi mínu og ég fjarri góðu gamni.  Sé það eins og svarthvíta heimildarmynd frá því fyrir stríð:  ég með sixpensara og í slitnum jakkafötum í langri röð að bíða eftir súpuskál frá Hjálpræðishernum... Og svo niður á höfn að reyna að snapa nokkra tíma við uppskipun.  Ég á eftir að missa af þessu öllu, því miður og vera þess í stað í alsnægtum og leti í þessu landi þar sem rauðvín fossast útúr krönunum og fólkið sem bölvar mér gerir það á einhverju hrognamáli sem ég nenni ekki einu sinni að koma mér inn í!   En sennilega er þessi kreppa sem núna virðist ríða yfir þjóðina og mér skilst (og leiðréttið fáfræði mína og vankunnáttu) að sé afleiðingar af mikilli þenslu sem lítil innistæða var fyrir auk samdráttar á erlendum mörkuðum eða eitthvað sem maður með félagsvísindamenntun á erfitt með að skilja, sé svona svipað dæmi og þegar ég er búinn að vera fullur í fjóra, fimm daga í röð, manna glaðastur við að bjóða ungpíkum í glas á barnum og vakna svo upp, óglatt, baugóttur og kominn með yfirdráttinn á kaf.  Þá fara yfirleitt í hönd dagar iðrunar og sjálfsvorkunnar, þar sem ekkert sterkara en vatn er sett inn fyrir mínar varir.  Hugsanlega verður það jólamáltíðin í ár á mörgum heimilum: vatn og hrökkbrauð!

mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Punto Maglia

Sökum ofurölvunar lét ég verðandi frú kreppu mana mig í veðmál þar sem líkurnar voru einn á móti sex mér í óhag.  Og auðvitað tapaði ég.  Hún hló svo mikið að tárin streymdu niður kinnarnar á henni og sagði að ég (veðmálið var ekki upp á peninga né nokkuð kynlífstengt) yrði: punto maglia!

Kvöldstund

Rökkrið er skollið á.  Við settumst út á svalir og drukkum hvítvín og horfðum yfir torgið og á Santa Croce kirkjuna.  Á hæðinni fyrir neðan okkur var feit og sveitt kerling frá Senegal að blaðra í símann og var svo hávær að ég minntist helvítis Pólverjanna í vor og varð að kalla upp í eyrað á verðandi frú Kreppu til þess að yfirgnæfa hávaðann.   Ef hún hefði ekki verið svona hávær hefði þetta verið mjög rómantísk stund, kirkjan falleg í rökkrinu, fátt fólk að læðast yfir torgið eins og mýs sem skjótast um á eldhúsgólfi, einn bíll rann hjá...
 
Svo færðist kerlingin öll í aukana og brátt var hún orðin svo hávær að fólk var farið að staðnæmast fyrir neðan húsið og góna upp á svalirnar hjá henni.  Við færðum okkur inn og byrgðum hurð og glugga.  ég virðist alltaf eignast nágranna sem framleiða óhljóð.  Ætla að sætta mig við þau örlög.
 
Núna sit ég við tölvuna og horfi á hana bogra yfir blöðunum.  Hún er í fallegum silkikjól.  Dökkur lokkur fellur á hálsinn og húðin er bronslitið í þessari birtu.  Og ég er að hugsa um að sitja bara hérna og horfa á hana og hvernig hún brosir öðru hvoru á meðan hún vinnur og ekki hlusta á tónlist heldur bara á skrjáfið í pennanum að renna yfir blaðið...   

Nú verður fleygt í mig skópari

Fékk mail frá systir minni á föstudaginn þar sem hún skrifaði að þjóðverjinn sem ólmur vildi gera hana að móðir barna sinna og leiða hana eftir kirkjugólfi í fallegum kjól, hefði sparkað henni út og hún væri vegalaus í Berlín.  Það er ekki nóg með að stúlkan sé kvenkynsútgáfan af mér í útliti og hegðun, þá virðist hún líka hafa lánleysiíástum-genið sem fjölskyldan okkar er að verða fræg fyrir.  En það gen er reyndar dálítið heimtilbúið vegna þess að við erum bölsýn,döpur, drykkfeld, tilfinningalega heft og eigum auðvelt með að særa fólk með því einu að líta á það.  Og í stað þess að yfirvöld hafi látið brennimerkja okkur á enninu (sem þau hefðu gert á 17.öld svo dæmi sé tekið) eða látið drekkja okkur fyrir hórdóm, þá fáum við að valsa um vinnandi á sakleysingjum tjón.
 
Nú á ég reyndar von á því að í mig verði fleygt svona eins og pari af skóm ef stúlkan mín lítur upp úr blöðunum og fer í tölvuna og les þar á þessu bloggi hvað ég er mikið gæða mannsefni en ég á það alveg skilið.  Jafnvel að það yrði fleygt í mig öðru skópari sem fyrirbyggjandi aðgerð svo ég haldi mig á mottunni í nokkra daga.     

Þórbergur þeirra Bandaríkjamanna

Mikið er nú gott að þeir fyrir vestan hafa nú eignast sinn Þórberg.  Reyndar nokkuð við aldur miða við óléttu meistarans en eflaust er þetta svo mikill snillingur að hann fer að skríða um gólf á fjórum fótum og hripa niður doðrant á ungbarnamáli.  Og móðgi Hitler í bréfi.  Hugsanlega að hann haldi líka dagbók yfir sjálfsfróun?  Jafnvel að hann skauti í tunglsljósinu undir jökli og láti sig dreyma um hvít segl við sjóndeildahring?  Nú ætla ég að leggja þetta nafn á minnið og bíða spenntur eftir því að Pippen umbreyti bókmenntum í vesturheimi, því af þeim hef ég haft mikinn leiða hin síðustu ár.  Þessi maður er höfuðsnillingur Bandaríkjanna.  Ég vildi að ég væri hann.


mbl.is 71 árs karl ófrískur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggsendiherra

Af hverju datt engum í hug að útnefna mig bloggsendiherra á þessum auma stað sem ég dvel núna á?  Ég hefði orðið svo verðugur fulltrú i þjóðarinnar og sérstaklega hins kvartandi manns á mbl.is!  Eins og ég lít út núna, úfinn í allt of stuttri hvítri skyrtu og guðdómlega timbraður - að venju - yrði ég svo glæsilegur fulltrúi að mann mundu ósjálfrátt hugsa til Borisar Jeltsín þegar ég mundi mæta á svæðið!  Og það er nú ekki leiðum að líkjast (nema í útliti).
 
Ég næ ekki neinu sambandi við þessa konu sem ég rekst stundum á í þessu alltof stóra húsi.  Hún er svo önnum kafin þessa dagana að ég hef það á tilfinningunni að og ég pakkaði ofan í tösku og léti mig hverfa þá tæki hún ekki eftir því fyrr en eftir svona viku.  Ég er að hugsa um að fara og elda ofan í okkur eða opna flösku af hvítvíni og drekka mig fullann af tómum leiða yfir bók, bloggi eða útsýninu yfir Santa Croce.

mbl.is Fyrsti sendiherra leiklistar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er dimmt

Fyrr í kvöld kom ég upp á efri hæðina sem hún er búin að breyta í vinnustofu og horfði á hana hulda dökku hári grúfa sig yfir blöð, sitjandi í stellingu sem ég veit að getur ekki verið þægilega til lengdar með penna í munninum og annan í hnút í hárinu, rissandi á hvítt blað.  ,,Hvað ertu að teikna" Spurði ég?  Hún svaraði ekki, tónlistin í botni.  Ég gekk að svölunum og horfði út, nágrennið horfið í þoku.  Velti því fyrir mér að fá mér að reykja en hætti við.  Helti mér rauðvíni í glas.  Hún leit upp og ég spurði hana aftur hvað hún væri að krota.  ,,Brúðakjóla"  Svaraði hún.  Og mér svelgdist á og frussaði rauðvíni á hvítu skyrtuna mína.  Hún hló og sagði:  þeir eru á konur sem eru 185 á hæð og 40 kíló, ekki mig.  Mér létti en ropaði út úr mér:  Mér leiðist að hanga og horfa á þig hanna.  ,,Skrifaðu"  sagði hún og hvarf ofan í myndina.  ,,Ég nenni því ekki!."  Farðu þá að blogga, stakk hún uppá!  Og það geri ég núna.  Af eintómum leiðindum yfir því að hún þarf að ljúka þessari tískulínu sinni fyrir apríl og ég er hálfgerður vikapiltur á þessu heimili þangað til.  Hálfgerður húskarl með engin verkefni.  Svo ég er komin aftur.  Engum til gleði og fáum til skemmtunar.  Núna er allt orðið dimmt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband