Færsluflokkur: Bloggar

Ég - Barbara!

Lífið komið í fastar og rólegar skorður. 
 
Og líka komin nettenging hérna svo ég get setið í haustblíðunni úti á svölum og bloggað, þegar ég er ekki of drukkinn til þess.  Kannski ég byrji á því á morgunn ef einhver hefur áhuga?
 
Efast samt um það, því að mín sterkasta hlið hefur verið að lýsa angist og eymd en ekki einhverri helvítis hamingju og ástaratlotum.  Guð, ég gæti hæglega breyst í Barböru fokkings Cartland!!!
 
Ég er farinn inn að setja í mig permanet og lita hárið bleikt. 
  
 

Það sem má ekki hugsa

Það er of heitt til þess að hugsa eða anda eða elskast eða skipuleggja nýtt líf.  Eftir nokkra tím aförum við í flug til helvítis reykjavíkur (hennar verk á menningarnótt) og svo snúum við aftur hingað til Þess á stikna.
 
Vorum í sundi í dag með vinkonu og 12 vikna barni og hún var alltaf að láta barnið synda og horfa á mig og segja:  hvenær?
 
Þegar allir jöklar hafa bráðanað, svaraði ég.  En hugsaði um leið hvað barn getin af okkur yrðu fagurt með svo blá augu og svo há kinnbein og svo dökka húð og svo dökkt og...
 
og...
 
... allt sem við eigum ekki að hugsa! 
 
 
 

Fokkings Hólmavík

Fyrir neðan svalirnar skjótast rottur á milli ruslatunna og ef ég beygi mig næstum klæðalaus yfir handriðið get ég séð áfengisdauðan mann liggja í eigin ælu, tólf metrum fyrir neðan mig.  Á morgun förum við heim til Íslands til að taka þátt í Menningarnótt og svo aftur út og svo, síðar aftur heim í snjó og storm og til norðurljós og gulavita við hafnarminnið þar sem við ætlum að búa í vetur - frá desember!
 
Og hún sefur og lakið yfir henni er hvít og yfir henni er þessi leiðinlega eftirprentun af verki eftir Gustav Klimt og ég fer að vekja hana núna því að við erum að fara héðan út hitanum í kuldann og til einskins að mér finnst en ég er að hugsa um kvöldið okkar í Hólmavík sem var líkt og eftirfarandi myndband, alltof vel klædd kona á bar með sveitavörgum sem flykktust að henni og vildu berja mig eða dansa við hana.
 
Þannig gengur það!
 


Drukknaðir sjómenn

Ég er búinn að standa á svölunum í allt kvöld og reykja og drekka vín.  Bara brýr og kirkjuturnar fyrir framan mig og þessi forna dimma.
 
Núna liggur hún fyrir innan og sefur og snýr í mig baki og ef ég lít við get ég séð hana svo brúna með húðflúðin á hryggnum og far eftir bikinnibuxurnar svo rassinn er svo einkennilega hvítur í tunglsskininu og hjartað í henni slær bakvið rifbeinin. 
 
Hún snýr sér við og umlar.  Dökkt hárið úfið yfir hvítum koddanum. 
 
Og fyrir neðan svalirnar safnast þeir saman, sígarettustubbarnir, og ég er orðinn drukkin og í fjarska slær dómkirkja og einhver helvítis fugl gefur frá sér hljóð sem minnir mig á kveinin í drukknuðum sjómönnum.  
 
Man þegar við gengum upp að þessu litla græna vatni og hún hafði raðað kertum í kringum það og allir hólarnir í nágrenninu voru svartir og örfoka og við sátum á sitthvorum steininum og drukkum vín úr plastglösum með blómaminnstri og hún setti mér þessa úrslitakosti - að fylgja sér eða gleyma...
 
Og í nótt meðan við, í 2500 km fjarlægð frá þessum polli, leiddumst í gegnum garð með sölnuðum laufblöðum fallandi í snemmbúnu hausti og fjórar stjörnur sem virtust greypast í augu hennar sleppti hún taki handar minnar og hvíslaði:  hvert stefnum við Þórhallur?  
 
Afhverju ekki til baka, svaraði ég?  Og varð hugsað um nóttin þegar hún kom akandi í gegnum þoku og gömul tár til þess að finna mig...
 
,,Til bak til jökla og svartra sanda eða til baka til fokkings Akureyrar?"  Svarði hún? 
 
Og við staðnæmdumst og snertumst og kysstumst og slepptum hvort öðru og hún draup höfði og við vorum sveitt og rök eftir veru á veitingarstað og rauðvínsdrykkju og við þögðum uns hún varla bærði varirnar en ég nam það sem hún sagði:  förum, þessi staður er ekki fyrir okkur!
 
Og nú mun okkur bráðum skola hingað, eins og drukknuðum sjómönnum skolar á land.  Ekkert nema kjötlausir skrokkar í dimmunni. 
 

Fokking...

Stundum undir morgunn.  Þegar allir sofa.  Líka fuglarnir.  Líka dauðinn.
 
Og ég get ekki legið á koddanum.  Og ég finn hvernig heitur líkami hennar smitar mig með svita.  Og ég finn að drukknar æðar mínar slást frá hæl og upp í heila.

Og ég finn...

Þá:
 
Hugsa ég um hana. 


Svo djúft inní þér...

Ég er að hugsa um að fara út á svalir og reykja eða hengja mig.  Mér er sama hvort verður.  Ég er of drukkinn til þess að eiga val.  Ég er orðinn of gamall til þess að eiga nokkurn möguleika á öðru en aðrir stýri mér...
 
Hækka í botn, gamla plötu síðan ég var 18 ára og hún 9 ára og hafði ekki hugmynd um að við mundum hittast.  Ekki frekar en ég átti von á því að verða þrítugur.  Ég hélt alltaf að eiturlyf og áfengi mundu enda skynjun mína löngu fyrr.  En ég er hér ennþá.  Fáum til gagns.
 
OG eins og segir í ælaginu og síterar þá Eugene O´Neill:  Long days journey into/long nights journey out/knee deep so deep whitin you/I kept and keep whitout...
 
En ég er ekki lengur átján ára.  Hún er ekki átta ára.  Ég er orðinn svo fullur.  Svo dapur.  Og líkist alltof mikið Ian McCulloch með vagninn sinn.  Það er allt í nótt.
 


Helvítis Reykjavík

Ég hata þessa borg svo mikið.  Líka núna á meðan hún sefur og ég vaki.  Sérstaklega núna.  Ég er feginn að vera að fara, þótt að mig kvíði því að setjast að í ókunnu landi.  Þó ekki svo ókunnu.
 
,,Hvað á ég að gera?" Spurði ég!
 
Skrifa, fara í framhaldsnám!
 
Og hún dró af sér kjólinn og stóð í rökkvuðu herberginu á grænum nærbuxum einum fata og tyllti sér á tær svo það brakaði í þeim - kækur sem ég sá fyrst fyrir áratug.  Og ljósið frá minnkandi tungli skáskaut sér í gegnum gardínurnar í þessu herbergi sem var eitt sinn hennar - þegar hún var ung - yngri.  Og ég var bara einhver maður á barnum með dökkt stutt hár sem horfði á hana píreygður.  
 
Man að hún sagði þegar hún kom til mín í Skaftafell eftir nóttina sem hún hringdi og spilaði fyrir mig Tindersticks í símann:  þú varst dökkhærður þá.  Og fölur.  Núna ertu svo breyttur.
 
Það var fyrir tíu árum - svaraði ég.  ,,Tíu árum" sagði hún ,, eða í gær!"
 
Eða í gær.  Og núna erum við hérna.  Svo nálægt götum og húsum sem ég bjó í eftir að ég kynntist henni og hún fékk aldrei að heimsækja með mér.  Húsum og götum sem ég þoli ekki lengur.  Og næstu daga mun þetta litla herbergi fyllast af töskum og kössum.  Því sem við munum taka með okkur til Þýskalands.
 
Þetta litla herbergi sem ég gisti í fyrir sex árum. Og áður.
 
Og núna.
 
Myndin á veggnum er sú sama og hún málaði þegar hún var átján ára:  the tree hugger.  Stúlka í kjól í skógi að faðma tré. 
 
Stúlka í skógi með stór augu að faðma einmana tré.
 
Bara bjór í nótt og bílar að aka niður þessa götu og brjóst hennar bifast þar sem hún sefur.  Og dökkt hárið er orðið svo úfið.  Svo úfið.  Og ég svo fullur og svo vita vonlaus.  Svo mikið yngri og heimskari en ég var fyrir tíu árum.  Svo laus við það að geta haldið uppi samræðum, að geta haldið utan um nokkuð.
 
Ef ég opna þessa flösku af viskíi og skelli í mig nokkrum snöfsum, þá kannski sofna ég og sef án þess að dreyma.  Í fyrsta sinn í meira en ár.
 
 

Skúmur og mávur

Hólmavík: ég kom þar síðast að vetri.  Allt svo hvítt og ömurlegt og bara tvö börn að hlaupa á milli húsa og sjoppu í fannferginu.  Fituhlunkur að spila í spilakassanum og kerling að rétta honum fitugar franskar.  Fitan lekandi úr munni hans ofan á iðandi fingur.  Bílstjóri ropaði kaffi yfir Fréttablaðinu!
 
Núna var allt öðruvísi. 
 
Oasis í botni á barnum og tvær, þrjár hræður þar inni og hún hallaði sér að mér og spurði: verður allt eins og þá eða verður það öðruvísi núna?  Ég svaraði: öðruvísi!
 
,,Ertu viss um að þú komir með mér?"  Og ég horfði ofan í bjórinn minn og leit svo upp og sagði: ég kem með þér!  Þú átt það inni hjá mér!
 
,,Svo ég er bara einhver skuld eftir tíu ár?"
 
Hrukkurnar á enni hennar, fyrir ofan nefið gáfu það til kinna að henni væri ekki skemmt.  Augun minni og meira stingandi en vanalega.  ,,í tíu ár er ég búinn að þekkja þig.  Og ef þú verður ekki almennilegur núna, gefst ég upp á þér!"  Hún tók stóran sopa af bjórnum sínum.  ,,Ég nenni ekki meira drama með þér!" 
 
Wonderwall:  par að dilla feitum rössum við barinn.  Stúlkan á stærð við bíl.  Fingur saman tvinnaðir við mína fingur.   ,, Auðvitað kem ég með þér!"  Og ég stóð á fætur til þess að losna frá þessu furðulega andrúmsloftiog hönd hennar.
 
Síðar: bjórflaska og sígarettur og skúmur að garga og fjara og klettar og myrkrið að víkja og við tvö.  Höfuð hennar í kjöltu minni: það er bara eitt - þú elskaðir aðra sem þú giftist!  Ég mun seint fyrirgefa þér það!
 
,,Þú varst í Svíþjóð þá!"
 
,,Helvítis Svíþjóð!  Við skulum hata það land alla okkar ævi!"
 
Við skáluðum fyrir því.  Við ætlum að hata Svíþjóð.
 
Og skúmur og mávur að slást um sjálfdautt síli.  Og kríur yfir okkur og himininn verður örlítið blárri en öldurnar, öldurnar sem ganga á land.
 
,,Ég kem með þér!"
 
Sígaretta tendruð í rökkrinu.  Augu sem horfa án þess að líta undan.  í spurn. 
 
,,Ég trú þér ekki en ég vil trúa því!"
 
Og svo sátum við og horfðum á helvítis fuglana skíta á klappirnar og stinga sér í sjóinn og heyrðum í hafinu og í fólkinu sem valt út af Riise-bar, dauðadrukkið og við þögðum. 
 
Daginn eftir fórum við til Reykjavíkur. 
 
 

Og?

Skýin eru að falla ofaní hafið.  Grá og dökk, ofan í það bláa.  Og ég get ekki sofið.  Ég þarf að flytja bráðum og ég þarf að efna loforð sem ég gaf fyrir svo mörgum árum eða: ef þú fylgir mér ekki núna, þá er áratuga vinátta og ást farin til fjandans!
 
Hvers virði er það?  Hversvegna get ég ekki bara hvílt í örmum hennar?
 
Hversvegna eru hamrarnir hérna sem rísa úr sæ hærri en annarstaðar?  Hversvegna þarf ég að fara aftur til Reykjavíkur og þaðan til borgar (sem ég hef verið í áður) í þýskalandi sem ég hata?  (Verð þó nærri systur minni, það er bót), hversvegna geng ég ekki bara upp á einn hamarinn og steypi mér í hafið?
 
Þannig væri gott að enda allt!
 
Ég er að drekka smirnoff.  Ég hata þann drykk.  Ég er svo hræddur við austur Evrópu.  
Ég er hræddur við allt. 
 
Aðallega sjálfan mig. 

Að flytja

Ég ætlaði að blogga um það hvernig það var þegar ég og þessi stúlka hittumst fyrir tíu árum í fyrsta skipti og hún sagðist vera tuttugu og tveggja ára svo ég tæki mark á henni.  Ég ætlaði að blogga um það en sumt sem gerist í þessu lífi er þannig að það er ekki hægt að skrifa um það. 

Ég ætlaði líka að blogga um það þegar við svo hittumst fyrir fimm árum og hvernig það allt endaði.  En ég hef ekki orku í það.  Ég hef ekki orku í það að hugsa og skrifa um sjálfan mig og mín afglöp lengur.

Eða hversvegna fólk getur komið og farið inn og út út lífi annarra, án þess virkilega að hverfa úr því.  En það skiptir ekki máli. 

Það er rigning og ég þarf að fara til Reykjavíkur.  Og pakka því niður sem ég vil hafa með mér.  Ég hef ekki lengur neitt val.  Ekki nema um það hvort ég vilji verða eftir og bíða kannski í önnur fimm ár eða tíu eða koma með.

Ég fer með.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband