Færsluflokkur: Bloggar

Stúlkan ...

... mín:
DSC01229
 
 

Bónorð

Ung:
 
segjum (29 ára) gömul myndlistarkona bað mín í nótt.
 
En hún hefur fylgt mér í nokkurn tíma; undanfarið...
 
Ég er að hugsa um að taka bónorðinu:
 
Hún er það klár.  Það falleg.  Það dökkhærð.  Það brúneygð.  Það hávaxin. Það kúl.... 
 
(Æji: ég er ekki besti maður til að giftast: 
 
en þegar ég horfi á hana sofa núna:  þá veit ég að engin stúlka er fegurri en hún með augun lokuð, með augun lokuð.  Svo dökk.):

ég ætti að sofa. mig ætti að dreyma...

Ég ætti að snerta hár hennar.  Ég ætti að vakna upp á morgunn með hana í faðminum ...

Æji: ég er Mortensen í bók eftir Heinessen og steypi mér af húsþaki vegna konu!
 
Hún er fegurri en allt sem ég hef áður litið:
 
Ég er sæng hennar, ský og máni í nótt...
 
Í nótt.  
 

Tunglið

Tunglið er núna eldrautt yfir hafinu og svo stórt að það er eins og það stefni hraðbyri til jarðar.  Ég vona að það lendi ekki á mér því að ég þarf að vakna snemma á morgunn til þess að hossast á vit óminnis með Flytjanda. 

En núna ætla ég að gleyma mér við það að horfa á tunglið yfir nýslegnum túnum, hvernig það eins og hangir yfir heyrúllum og baðar landið í dularfullri birtu.


Norður

Ákvað að hitta félaga minn (þennan sem er búinn að vera með giftu konunni) á Akureyri á morgunn og detta ærlega í það með honum þar.  Drekkja öllum biturleika og sorgum í fossi af sterku áfengi, helst í svo miklu magni að það eyðileggi í okkur magann og valdi óbærilegum krömpum og innlögn á bráðamóttöku.  Nú þarf ég bara að redda mér fari í gegnum þessa firði og framhjá þessum fjöllum til þess að komast á djammið á Akureyri.  Á reyndar ekkert sérlega skemmtilegar minningar frá Akureyri.  Var þar einu sinni á ráðstefnu fyrir 6-7 árum á hóteli sem sýndi klám nonestop og var næstum barinn í Sjallanum eða einhverju álíka pestabæli fyrir að vera ekki úr plássinu.  Ég ætla samt ekki að láta þær minningar né þá þegar ég og þáverandi unnusta mín vorum niðurrignd og köld að ráfa á milli hótela og gistiheimila og var hvarvetna vísað frá, um miðja nótt og neyddumst (ég) til að keyra drukkinn yfir á Dalvík.  Já, Akureyri.  Ekki staðurinn sem ég á að vera á.


Morgunverður

Ég hélt að ég væri að ganga inn í annan heim eða kvikmynd þegar ég kom niður í matsalinn á þessu gistiheimili og sá gamlan lotinn karl með svart pottlok aftan á hnakka standa yfir borði með eggjum, grænmeti og brauði og muldra eitthvað fyrir munni sér um leið og hann rétti upp hendurnar til blessunar.  Í kringum hann stóð tugur lotinna gamalmenna og ég tók eftir því að karlmennirnir fimm héldu allir utan um eiginkonur sínar á meðan á athöfninni fór fram.  Og mér flaug það í hug að þessi hjón sem þarna stóðu og biðu síns fábreyta matar væru ekki bara sameinuð af ást, heldur einhverju meira og dýpra sem ég fengi aldrei skilið.  Og að eiginkonur þessara lotnu og slitnu manna væru þeim meira en bara félagar og vinir.

Ég horfði svo á þetta fólk matast í auðmýkt, hvíslandi sín á milli, andlitin rúnum rist og ég velti því fyrir mér hvað þessi hópur fjörgamalla gyðinga væri að vilja hingað?  Hvaða tengsl þessi hópur gæti mögulega átt við Ísland?  Ég efast um að ég komist nokkur sinni að því.  Enda skiptir það ekki máli.  Ég fylltist einhverri taumlausri gleði við það eitt að sjá þau matast á sama hátt og þessi forna og tvístraða þjóð hefur matast í fimmþúsundir ára, sama hvar þeir eru staddir.  Sama hvað bjátar á. 

Ég er farinn út að horfa á skipin leggja úr höfn og halda út á hafið, eirðarlaus eins og ég.


Að látast

Aðfaranótt mánudags vaknaði ég upp við að síminn hringdi um fjögurleitið og rödd sagði svo langt í burtu:  Veistu að alltaf þegar ég hlusta á þetta lag, hugsa ég um þig?

Svo var símtólið lagt upp að hátalara og ég gat heyrt lagið sem olli því að einhver svo langt í burtu hafði hugann drukkin við mig.

,, Og veistu, núna ertu eina manneskjan í heiminum sem ég mundi vilja að væri hjá mér!"
 
Og þegar samtalinu lauk var ég mjög ánægður að jafnvel þótt að ég sé svo fjarri, sé ég sumum svo nærri. 


Regnboginn minn...

... sem ég er alltaf að elta.  Verð kominn þangað von bráðar.  Og hann þá eflaust horfinn.  Þannig gengur þetta víst fyrir sig.
 
Held samt að ég muni ná að standa undir honum fljótlega.  Finn það á mér einmitt núna, þegar sólin er að hverfa bakvið fjöllin og er hætt að speglast í sjónum.

mbl.is Regnbogi við Fáskrúðsfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinur ársins

Mikið er gaman að vera aftur kominn af stað þótt að landslagið hérna sé ósköp tilbreytingarlaust: fjöll og firðir. Og auðvitað þessir jöklar.  En eirðarleysið sem búið er að hrjá mig er loksins að renna af mér.  Kannski líka vegna þess að ég sá til sólar í fyrsta sinn í 14 daga í gær og í dag. 

Vinur minn hringdi í mig fyrr í kvöld og sagði mér farir sínar ekki sléttar.  Hann er víst búinn að vera í sambandi við stúlku í nokkrar vikur og þau ástfangin af hvort öðru en einn galli – hún á eiginmann og hann vill hana aftur og að hún hætti að sofa hjá og elska þennan vin minn sem telur stúlkuna vera á báðum áttum þótt að hún hallist að því að hún ætti að fara og reyna að bjarga hjónabandinu en vildi þó samt halda áfram að hitta hann... 

Ó hversu fokkuð er ástin!

Ég sagði honum að í fyrstalagi væri ég ekki rétti maðurinn til þess að leita til með svona ráð.  Ég væri vonlaus í því að ráðleggja fólki og svo vissi ég að enginn tæki hvort eð er mark á mér.  Hann spurði hvað hann ætti að gera?  Leyfa henni að fara til mannsins síns og gleyma henni eða berjast og sannfæra hana um að skilja og vera með sér?  Ég sagðist halda að í svona stöðu mundi aldrei neinn vinna og þetta mundi enda eins og harmleikur eftir rússneskt leikskáld, einhver mundi fremja sjálfsmorð og eftirlifendur deyja þessum hæga dauða sem lífið er.

Hann þakkaði mér fyrir að vera svona skilningsríkur og bað fjöllin að geyma mig.  Ég sagði að hann ætti að reyna að gleyma þessari konu.  Það væri til nóg af þeim.  Hann hló og sagði að það væri dásamlegt að heyra mig segja það.  Ég sagðist koma og drekka með honum í ágúst.  Þá mundum við gleyma öllu sem lífið hefði skellt yfir okkur á liðnum árum.

Ég verð brátt tilnefndur til verðlaunanna: ,,vinur ársins 2008!“


Guð minn góður - vondir strákar fá meira að ríða!

Afhverju datt mér þetta ekki í hug fyrr?  Ég hefði getað verið svo vondur og óáræðanlegur. Og jafnvel efast um allt og alla?  Og ungar konur hefðu orðið heitar fyrir mér!  Vá! 
 
Það er af þessum sökum sem mér gekk aldrei vel í þeim áföngum þar sem reyndi á að lesa úr skoðanakönnunum/prófum/blablabla....
 
Niðurstöðurnar voru alltaf þær sömu: vondir strákar fá meira að ríða en þeir góðu. Sama hvað a listar voru lagðir fyrir fólk.
 
Það er út af þessu sem ég sagði ekki mikið á barnum áður en ég yfirgaf Reykjavík.  Það er út af þessu sem ég ákvað að fara frá höfuðborginni.  Það verður svo leiðinlegt að vera óábyrgur auli til lengdar.  Það er nefnilega ekki neitt kúl við það að vera ,,slæmur" strákur! 

mbl.is Vondu strákarnir sigra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi prófíll

Stóð við barinn og var að ná mér í það sem átti að verða síðasta rauðvínsflaskan sem drukkinn yrði hér þegar ég heyrði: þennan prófíl mundi ég þekkja allsstaðar í heiminum! Og svo var nafnið mitt nefnt í fyrsta sinn í nokkrar vikur með hárréttum framburði á þ-i og ð-i!  Og fyrir aftan mig stóð gömul skólasystir mín úr framhaldsskóla (við vorum á tímabili mjög náin án þess þó að hafa verið par, þótt að margir hefðu haldið það á þeim tíma), ofboðslega brún og kát. 

Hún sagðist hafa séð mér bregða fyrir fyrr um daginn arkandi á hól en trúði því ekki að það væri ég þar sem mín náttúrulegu heimkyni væru ekki í náttúrunni, heldur frekar innann um steinsteypu og gler.

Og þegar við vorum búin að segja svona það helsta sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast (fyrir þremur árum) bað hún mig um að vera svo almennilegur að vera eina nótt hérna lengur svo við gætum haldið upp á endurfundina annað kvöld, þar sem hún þyrfti að fara í koju til þess að vakna fyrir sex á morgunn og draga Breta á fjöll. 

Þannig að - ég verð hér fram á þriðjudag.  En það er í það fína því að ég mun geta talað á íslensku við þessa fornu vinkonu mína og gleymt mér við að rifja upp galgopaháttinn í okkur þegar við vorum í kringum tvítugt.

Það verður gaman en að mér læðist þó grunur að enn og aftur séu örlögin að meina mér að halda áfram í átt að mínum óljósu takmörkum! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband