Færsluflokkur: Bloggar

Ég er hættur að vera til

Magnað að það skuli sjást í heiðan himinn og sól þegar ég er að fara héðan.  Ef ég mundi trúa á tilviljanir eða himnesk tákn, mundi ég halda á regnið og þokan færu á undan mér til þess að vara óviðbúna við komu minni.  En ég trúi ekki á neitt slíkt, ég trúi ekki á það að ég sé öðrum til óheilla.

Hlakka til þess að halda af stað á morgunn,þótt að ég hafi svo sem ekki grun um hvert ég fer.  Enda skiptir það svo sem ekki neinu.  Aðal atriðið er að vera á ferðinni.

Furðulegt samt hvað fólk er hætt að senda mér maila, hringja í mig og allt það sem tilheyrir því að búa í borg og eiga vini og fjölskyldu.  Núna hringir síminn í mestalagi einu sinni á dag!  Mailboxið yfirleitt tómt, fyrir utan það að háskólinn sendir mér af eldgömlum vana einhver funda og ráðstefnuboð.  Sem auðvitað fara öll í ruslatunnuna.

Það er eins og maður hætti að vera til, hætti að skipta máli ef maður heldur út á land og er þar í einhvern tíma.

 

 


Saddur lífsdaga

Ég er ekki eins eftir mig og ég hélt eftir þessa ferð á Fjallið.  En því miður, hér er nákvæmlega enginn til þess að ræða við.  Mér skilst að öll sveitin eins og hún leggur sig hafi haldið á ball í tvöhundruð kílómetra fjarlægð.  Þess vegna hringdi ég í vin minn.  Hann var fullur á leiðinni á bar og fór eitthvað að tala um konur.  Ég nennti ekki að hanga yfir honum í símanum og bað hann um að koma á flakk með mér eða hafa mig afsakaðan þangað til síðar.  Hann sagðist aldrei yfirgefa vellaunaða vinnu og rútínubundið líf fyrir ferðalag um auðnir þessa lands.  Ég skildi hann vel.

Fór niður og keypti mér verstu rauðvínsflöskuna á barnum.  Rétt rúmur sólahringur eftir hérna og þá held ég á Djúpavog.  Ætla að fara þangað gangandi og á puttanum.  Fer eftir því hvernig viðrar. 

Fékk þá hugmynd að ég ætti að reyna að ráða mig á sjó eða á bát eða í fisk  Gera eitthvað sem reynir á líkamann og jafn mikið á andlegu hliðina en er aðeins of aumur í skrokknum og þreyttur núna til þess að nenna að hugsa það mál til enda.  Ég hef líka velt því fyrir mér að leiga mér herbergi eða eitthvað álíka í einhverju plássinu og sjá hvernig það leggst í mig?  Helst einhverju með undir fimmhundruð íbúum.  Það gæti verið áhugavert að sjá hvernig mannlíf ég kynni að rekast á þar?  Eða hvort ég mundi yfirleitt rekast á eitthvað þar nema mávana niður á höfn?  En svo er líka partur af mér sem finnst að ég ætti að lesa atvinnuauglýsingar og senda út CV og hætta þessu rugli og vitleysu og reyna að skapa mér einhverskonar líf?

Æji, mér leiðist allt núna.  Skildi mér vera farið að leiðast það að lifa? 


Hvannadalshnjúkur

Það var ljúf sumarnótt þegar ég lagði af stað. Eins ljúf og mild og grá og þær geta einungis orðið hérna á Íslandi. Einsstaka fugl að væla annars algjör þögn. Og ég var með nesti og í láns gönguskóm því að ég vissi að conversskór eru ekki gerðir fyrir meira hæð en þúsundmetra og alls ekki snjó. Og ég var með hvíta trefilinn minn um hálsinn og mér fannst ég vera eins og horaðri útgáfa af Edmund Hillary, nema að ég ætlaði ekki að láta neinn Tenzing drösla mér síðustu metrana á toppinn. Og í bakpokanum mínum var allt sem ég þarfnaðist.

Gekk fram hjá fosssprænu sem var í þokuhjúpi og fyrir ofan hann teygði fyrsta fjallið sig upp svo dásamlega votgrænt og mér fannst eitthvað svo skrítið að vera allt í einu lagður af stað í þessa ferð, einn og án þess að nokkur yrði þess var.  Enginn mannfjöldi sem fylgdi mér úr hlaði með lúðrahljómi eða árnaðaróskum.  Bara ég sem laumaðist af stað eins og ótýndur þjófur sem hraðar sér á brot með ránsfenginn inn í húmið.  Og svo þessi foss.

Skrítið að vera á ferðinni fyrir klukkan sex aðfaranótt laugardags, undir venjulegum kringumstæðum væri ég að skakklappast heim en ekki á fjall. Skrítið að heyra ekki í sírenum lögreglubíla, í brotnandi flöskum, fólki að öskra, dúndrandi tónlist. Bara langdregið jarm í þokunni. En ég var ekki í hundraðogeinum, ég var að fara að ganga á fjall. Og þetta fjall var ekki bara eitthvað fjall. Þetta er hæsta fjall landsins og tákn um það allt sem ég ætlaði að leggja að baki. Mitt gamla bitra líf og allar minningarnar sem tengdust því hvernig ég hafði lifað. Og ég ætlaði að ganga á þetta fjall til þess að grafa þar niður fornan sársauka.

Það var þoka yfir öllu og þegar ég kom upp á Svínafellið var ég hættur að sjá hvorki til hægri né vinstri, áfram eða afturábak og auðvitað var ég ekki með áttavita, þótt að ég eigi að heita læs á þannig grip, en ég bjóst við að meðfædd heppni mín mundi koma mér á endanum á áfangastað og svo aftur heim.

Og í svarthamragili átti ég von á því í mistrinu að að mér mundu sækja draugar. En það gerðist ekki. Það eina sem bar þar við var að hrafnar flugu á undan mér eins og ég væri eineygður förumaður á leiðinni að boða mönnum stríð og válynd tíðindi og ipodinn minn varð næstum batteríslaus svo ég slökkti á honum. Ég bölvaði því þar sem ég hafði ætlað að spila eitthvað af mínum dapurlegu uppáhaldslögum á þaki landsins.

Svarthamrar eru fallegir í drunga sínum í mildu júlíregni og þokuslæðing. Og Jökulinn fyrir neðan sem ég hef svo oft staðið á, eins og gráleitur og súr rjómi sem bráðnar á fati eftir einhverja veislu... En ég staðnæmdist ekki þar. Ég staðnæmdist ekki neitt nema til þess að pissa og kveikja mér við og við í nýrri sígarettu. Ég gekk þetta eins (og þeir þekkja sem hafa gengið með mér á fjöll) og ég væri hundeltur af einhverjum eða í kapphlaupi við að komast á leiðarenda. Amundsen að keppa við Scott. Ég er sennilega ekki með norsk gen fyrir ekki neitt?

Ég var orðinn mjög blautur í fæturna og eiginlega í gegnum gallann þegar ég kom að Hvannadalskamb. Þá sá ég fyrst til sólar. hún skein á mig ofar skýjum og fyrir neðan mig var allt þetta hvíta. Þar borðaði ég maukaða brauðsneyð með skinku og smurosti sem ég get ekki sagt að hafa verið mikill veislumatur og æsti eiginlega bara upp í mér sultinn og fékk mig til þess að hugsa um túnfisksteik og kjúkling og gott rauðvín og hvað í helvítinu ég væri að flækjast á fjöll?

Og Hryggurinn á milli jöklanna: Bíðandi eftir mér eins og ævaforn sofandi ófreskja, tilbúin til þess að rumska um leið og ég stigi á hana og hrissta mig til með allt sitt hvassa grjót og með allar sínar skriður og ísklumpa sem mundu hrufla mig og skera. Hryggur í sorta sem virkaði á mig eins og endalaus og óklífandi torfæra þótt að ég vissi að hann sé ekki nema svona tveggjakílómetra langur og handann við hann bara Dyrhamar. Svo mjúkur snjór á leiðinni upp.

Undir dyrhamri varð mér hugsa til sonar míns og hvað hann héldi um pabba sinn sem ævinlega var alltaf nálægur en hafði núna um meira en mánaðar skeið verið á einhverju hæðaflakki til þess eins að ,,finna" sig þótt að við eflaust báðir vissum að það væri ógerningur. Þessi pabbi væri öllum að eilífu týndur. Og ég lofaði sjálfum mér að ef ég kæmist aftur heill niður, þá mundi ég hætta allri vitleysu. Hætta að vera fífl og bjáni og baka fólkinu í kringum mig vandræði og fara að lifa rólegu og tíðindalitlu lífi, helst bara innann um bækur.

Það var á þessa leið sem ég hugsaði, pirraður, svangur, þreyttur og blautur, hrasandi í hverju spori í snjónum á leiðinni upp á helvítis toppinn sem í einhverju ölæði hafði virst svo auðveldlega kleyfur en var núna klifinn af mér blóðrissa og grenjandi af þrjósku. Og það rigndi eins og höfundur Biblíunnar hefði ákveðið að reyna að skola mér niður af þessu fjalli í nýju syndaflóði.

En svo. Sólarglæta og síðasta hindrunin í seilingarfjarlægð. Bara eins og ein sandbreiða af hvítri og sprunguskorinni auðn og svo þessi bunga, svona 30-40 metra þar fyrir ofan. Og ég vissi að frá henni lægi þverhnípi niður og útsýni væri yfir allan hinn fagra og nýja heim, skrýddan snjó. En er ég lagði af stað gat ég ekki betur séð en að það væri hópur af fólki upp á Hvannadalshnjúki eins og þetta væri einhver hversdagslegur áningarstaður, einhverskonar Hlemmtorg þarna á fjallinu?

Og ég settist niður í snjóinn, blautur og kaldur. Og horfði á þennan loka áfanga farar minnar: sundurskorinn slétta og svo einn stubbur, þessi Hvannadalshnúkur sem ég hafði komið til þess að klífa. Og þar var fólk. Eflaust í geimbúningum með ísaxir og reipi um sig miðja. Og ég tók ákvörðun. Stóð á fætur og gekk yfir þessar leiðinda sprungur og opnaði um leið aðra litlu freyðivíns flöskuna mína og saup af henni. Og skálaði fyrir því að haf náð þessu, stæði næstum í 2119 metra hæð. En um leið og ég var að rölta í áttina að fólkinu, í áttina að loka takmarkinu vissi ég að ég mundi aldrei ná á tindinn. Ég væri ekki ennþá tilbúinn til þess að skilja við mitt fyrra líf. Hvorki minningar né þann gamla mig sem ég hafði viljað gleyma. Ég hafði fundið það þegar ég opnaði flöskuna áður en ég náði tindinum. Þannig er ég. Ég gefst alltaf upp áður en síðasta áfanganum er náð. Þess vegna lét ég mér nægja að stoppa í kallfæri við hópinn (sem voru leiðsögumenn frá þjóðgarðinum, hef hitt suma þeirra á barnum áður) og einhverjir útlendingar og veifa til þeirra flöskunni. Þeir veifuðu á móti.

Þá kallaði ég til þeirra hvort einhver hefði eld? Tveir þeirra hlógu. Ég hélt áfram að brosa og veifa og endurtók bón mína um eld. ,,Þú verður að koma upp", kallaði einhver til mín! Ég sagðist þá vera með eld og kveikti mér í sígarettu. Svo snéri ég mér við og tók að ganga til baka, klístraður af regni og snjó. Þessi tindur verður þarna áfram ef ég nenni á hann síðar.

Á Hvannadalskambi settist ég niður og kláraði hina litlu freyðivínsflöskuna. Skrifaði skilaboð í hana og setti á milli tveggja steina. Ég veit að þau munu finnst síðar og þarna á kambinum komst ipodinn minn aftur í gagnið og ég klöngraðist til byggða í þoku og sudda með Tindersticks í eyrunum. Ofboðslega ánægður með það að vera þessi eilífðar lúser. Ofboðslegar ánægður með það að ég get næstum allt sem ég ætla mér.


Lagt af stað

Vaknaði alltof snemma, fullur af kvíða yfir því að veðrið yrði ömurlegt og það mundi valda mér vandræðum í þessu príli en það er eins og það hefur verið hérna síðustu fjórtán daga.  Grátt og þokulegt.  Hafði séð mig fyrir mér beran á ofan í þessari ferð, svona með sólgleraugu í snjónum á leiðinni á toppinn en ég efast um að af því verði.  Það er spáð rigningu í dag.  En það er nú eða aldrei.

Ég er ekki mikið fyrir hrakspár svo að ef ég blogga ekki í kvöld (ferðin á ekki að taka meira en 12-15 tíma) þá er það vegna þess að ég er of þreyttur eða hef komið við á hótelbarnum, ekki vegna þess að ég hafi hrapað eða eitthvað svo dramatískt. 

Hvað er að mér að vera á fótum svona snemma  klukkan er bara hálfsex?  En það er núna eða aldrei held ég?  Best að ná í nestið og koma sér svo af stað.  En fyrst ætla ég að hella í mig eins og þremur föntum af svörtu kaffi. 


Rifnir smokkar...

Ef við flokkum þetta rangl mitt á þúfubörð hérna í sveitinni sem sumarfrí en ekki tilvistarangist, þá hef ég farið virkilega vanbúinn af stað.  Fyrir utan að einu skjólfötin eru regngalli og lopapeysa, gleymdi ég alveg að fylla allar töskur og vasa af verjum ef svo færi að á leið minni yrðu kynóðar breskar konur í sumarfríi.  Ég skammast mín fyrir að hafa haldið af stað í svona langt ferðalag án þess að leiða huga að þeim möguleika að njóta frjálslyndis í ástum með tilkippilegum konum.  Ég hlít að vera orðinn hormónalaus fyrst ég gerði ekki ráð fyrir þessum möguleika?  Eða kom ég kannski hingað til þess að losna undan öllum þeim gildrum sem hundraðogeinn hefur svo oft lagt fyrir mig?

 


mbl.is Óvarlegt kynlíf í sumarfríum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldsagnapersónur

Í gærkvöldi, á milli fjallaferðar í þoku (sem ég er hættur að skrifa um því að þær eru hverri annarri líkari) og óminnis, hins djúpa nætursvefns, rakst ég á Finna á barnum.  Sem er ekki í frásögur færandi nema að hann hét því merkilega nafni Juhani Hakala.  En bækur Antti Tuuri um Hakalaættina (Dagur í Austurbotni, Til Ameríku, Ný Jerúsalem...) voru mikil skemmtun.  Enda greina þær frá þremur kynslóðum drykkfelda ógæfumanna af hinni mjög svo þunglyndu þjóð Finnum.  Ég minntist á þetta við Juhani þennan sem var ekki skemmt og sagði að Tuuri hefði óafvitandi komið slæmu nafni á sína dyggðum prýddu ætt.  Ég fékk eiginlega samviskubit yfir því að hafa einhverntíman brosað út í annað yfir ættingjum hans sem voru ekki ættingjar hans og reyndi að segja honum það.  Honum þótti það svo sem ekki til bóta.  Svo spurði hann mig hvað ég væri að gera hérna?  Ég sagði honum að ég gengi á fjöll og reyndi að finna mig.  ,,Og þið hlæið að Finnum og finnst þeir þunglyndir?"  Hváði hann og hló.  Ég játti því.  Og þú gengur á fjöll af því að þú þjáist af lífsleiða, spurði hann mig, glottandi?  Meira að segja finnskum rithöfundum hefur ekki ennþá dottið sú vitleysa í hug, bætti hann við.  Við skáluðum og drukkum svo í þögn. 


Loka áfangi dvalarinnar undir jökli

Á morgunn eða eigum við að segja að það verði enn nótt, legg ég á stað í þessa gönguför sem var tilgangur komu minnar hingað.  Það er spáð rigningu og kulda og mér finnst það svo viðeigandi í þessari för minni á hæsta hól landsins.  Ég er alls óhræddur þótt að mér hafi verið bent á að tveir Þjóðverjar hafi farið þangað í fyrra og sé ennþá ókomnir.  Ég veit að mér tekst þetta án vandræða.  Ég veit að það eina sem skiptimáli er vilji og að fara varlega.

Í nótt var ég truflaðir í frásögn minni af sérvisku íslenskra rithöfunda (Mark var þolinmóður og áhugasamur hlustandi) við það að litháenski kokkurinn ruddist næstum inn á okkur, haugadrukkinn.  Og fór að sýna okkur sár sem hann hlaut í Afganistan meðan hann barðist undir hamar og sigð.  Sárið líktist mest botnlangaskurði en hann fullyrti að það væri eftir byssusting.  Svo hlunkaði hann sér niður og úr honum allur vindur og hann slefaði einhverju samhengislaust á móðurmáli sínu.  Við Mark drösluðum honum fram og fóru svo út og stóðum og horfðum á þokuna og drukkum viskí.  Ég sagði honum að ég mundi sakna þessa staðs þegar ég væri farin ná mánudaginn.  Hann sagði að hann mundi aldrei geta yfirgefið Ísland oftar.  Ég taldi að svo geðveikur væri hann ekki ennþá orðinn af einsemd og íslenskum bókum.

Og nú er að halda sér frá drykkju og fara snemma að sofa því að á morgunn er lokaáfangi dvalarinnar hérna.  Svo einn dagur í hvíld og kveðjur og svo eitthvert lengra austur á bóginn.  Ég er farinn að hallast að því að ég klári að fara hringinn. 


Sígarettur og Amlóði

Sígarettutegundin mín hefur ekki fengist hérna í nokkra daga svo ég reyki þessar sem framleiddar eru af okkar gömlu nýlenduherrum og ég held að þeir hafi skýrt í höfuðið á sínum frægasta ríkisarfa, þessum með efann; Amlóða. 

Og með hverri sígarettunni sem ég drep í í kaffibollanum (bannað að reykja á hótelinu en ég sit út í glugga sem hægt er að opna upp á gátt) líður mér eins og að ég heyri raddir í draugum eða eigin efa og velti því fyrir mér hvort ég eigi ekki bara að gera eins og Amlóði - gangast geðveikinni endalega á hönd?  Er það kannski bara geðveiki að hafa hætt í fullkomlega ágætri vinnu sem ég réði vel við og þvælast þetta út á land bara af því að mér þótti Reykjavík vera orðin leiðinleg og ég staðnaður og fastur í áralöngum spólförum?  Eða er ég kannski á geðveikisstiginu sem Amlóði gerði sér upp til þess að bjarga lífi sínu? 

Dapurlegt að Skjöldungasaga sem er aðalheimild Saxo Grammaticus er fyrir löngu týnd, hafi hún verið til.  Og einu tengslin sem fólk tengir við Shakespeare, löng og misskemmtileg leikrit sem sýnd voru í denn í sjónvarpinu til þess að koma landanum í hátíðarskap.  Því að blóðhefnd hefur löngum kætt íbúa þessa lands.

Mér finnst þessar dönsku sígarettur tað og ég er orðin leiður á bókum og lygasögum og þessari eilífða þoku og klungri upp á fjöll.  Og í raun og veru öllu sem mér áður þótti skemmtilegt.  Ég er orðið að tuðandi og nöldrandi gamalmenni, langt um aldur fram. 

Ég vildi óska þess að ég væri bara þjóðsaga eins og Amlóði. 

Ég er að hugsa um að finna einhvern til þess að drekka mig fullann með. 

 


Speed and cocaine

Fór og fann fullann litháa.  Hann sat á sínum bjórkút næstum afvelta af vodka og slefaði tóbaki á stéttina.  Ég þáði ekki sopa af honum því að mér sýndist eitthvað brúnt vera í flöskunni.  Hugsanlega slef.  Leitaði að Mark en fann hann hvergi en rakst þess í stað á rauðvínsflösku sem ég keypti.  Hefði samt vilja deila henni með félaga mínum og ræða bókmenntir og tónlist og hvað það nú er sem karlmenn ræða um.  Þess í stað sit ég hérna einn og sveifla löppunum út um gluggann, inn í þokuna sem ætlar aldrei að hopa upp til fjalla og hlusta á lög sem heita eitthvað eins og speed and cocaine og hangover you og eru þykk og myrk eins og fokking vetrarnótt í desember.  Og ef ég væri í Reykjavík væri ég núna eflaust að staulast heim af barnum til þess að vakna illa sofinn og rauðeygður til vinnu á morgunn.  Ég er feginn að ég er hérna núna en ekki þar.  Hér get ég drukkið og horft á fjöll og látið mér þykja vænt um örfoka land.  Á morgunn ætla ég að vekja litháan (hann á frí eftir því sem hann drafaði áðan) og draga hann timbraðan með mér á fjall.  Ég hef víst lofað honum því fyrir löngu.


Þessi ský

Búinn að athuga veðurspánna fyrir þann tólfta, ekki neitt sérlega glæsileg spá, ég mun eflaust ganga inn í skýin í svona átthundruð metra hæð og rangla um þau uns toppinum er náð.  Sem minnir mig á það að þegar ég var um það bil fimm ára átti ég mér þann draum að geta farið upp í skýin og gengið í þeim.  Í þessum bernskudraumi mínum voru skýi viðkomu eins og kandísflos nema að þau klístruðust ekki við smá vaxnar hendur og fætur... 

Í dag veit ég að þau eru blaut.  Bara gamalt regn sem býður þess að falla á ný.  En ég get þó huggað mig við það að ég hef svo oft áður teygt út hönd og snert þessi ský og fundið að þau eru ekkert neitt sem maður getur höndlað.  Svona eins og draumar.  Eitthvað sem hverfur um leið og maður færist nær eða opnar augun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband