Færsluflokkur: Bloggar

Regn og orð

Allt grátt og blaut og þokukennt í dag.  Drullaði mér samt til þess að labba á dvergvaxinn hól með fallegt útsýni yfir lítinn foss.  Og mér datt andartak í hug hversu gaman það væri að sitja við þennan foss í brattri fjallshlíð með allt sem ég hef skrifað útprentað á hvítum blöðum og búa til úr þeim báta og fleyta þeim svo niður fossinn.  Og horfa á orðin berast til sjávar til þess að týnast fyrir fullt og allt.

Orð eru svo léttvæg.  En samt svo þung á metum.  Fer eftir því hvernig þau eru notuð.  Eins og þessi blessaði regngalli minn, hann lekur og er því ekkert skjól fyrir þeim orðum sem eitt sinn hafa kannski verið fleytt niður ókunna á og svo gufað upp til himna og fallið aftur.

Best væri ef ég mundi aldrei tala við neinn aftur.


Gáfaðar kindur og tíu ára strákur

Fór í göngutúr í þokunni niður að sjó.  Ótrúlega alltaf sefandi að ganga með fram ám og lækjum og heyra í þeim niðinn.  Mætti engum nema kind sem horfði á mig eins og Íslenskar kindur einar gera: á svo heimskulegan og opinneygðan svip, að ekki er hægt annað en að hlæja.  Samt held ég að íslenska kindin sé frekar klár.  Klárari en hún lítur út fyrir að vera.  Rökin fyrir því eru þau að hún hefur ekki dáið út á þessu skeri á þessum 1150 árum sem byggð hefur þrifist hér.  Svo eru þær ótrúlega fótvissar og hægt að rekast á þær í meira en þúsund metra hæð yfir sjávarmáli á svo litlum klettasyllum að ekki einu sinni reyndustu ofurhugar mundu hætta sér út á þær.  Og hvað þá að þær láti morðóða skotmenn kála sér.  Rollur eru engir ísbirnir. 

Niður við sjó: dauður mávur fullur af ormum, Egils pilsner í flæðamálinu og hálf dós af kotasælu marandi í kafi.  Einhver hefur ekkert til sparað við matargerðina í kvöld.  Ég varð aftur tíu ára og fann mér prik og potaði í opið og maðkafyllt sárið á mávinum.  Svo settist ég á stein, fleytti kerlingar og velti því fyrir mér hvað ég mundi gera ef ég væri tíu ára og staddur hérna?  Mér datt ekkert í hug.  Ég er kominn svo langt frá tíu ára stráknum sem ég eitt sinn var.  Ég get munað atriði frá lífshlaupi hans en ekki tengt mig við hugsunargang hans og uppátækjasemi.  Það hvarflaði helst að mér að ég tíu ára mundi fara undir sæng með koníaksdreitil og lesa bók. 

Á leiðinni til baka fannst mér ég vera eins og síðasta mannveran á lífi í þessum heimi enda ekkert sem ég sá á leið minni sem gaf tilefni til þess að búast við mannabyggð eða einhverju gerðu af mannahöndum fyrr en ég kom upp á veg og sjá sjoppuna og hótelið.  Þetta er land jökla, sanda og einstaka heimspekilegra kinda.

Marglitir regnstakkarnir í móttökunni og bjagaða enskan sem þeir tjáðu sig á, gerðu mig dapran.

Héðan í frá einbeiti ég mér bara að þessu eina fjalli sem ég á eftir að klífa; helvítis Hvannadalshnúk.


mbl.is Tákngervingur frelsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dópið í póstinum

Fékk bréf rétt áðan stílað á mig með litlum pakka inn í.  Ég sá að það hafði verið opnað og límt aftur með límbandi.  Einhverjum tollverði, póstafgreiðslumanni eða guð má vita hverjum, lá víst mikið á að vita hvaða ofnæmislyf ég tek.  Gott að vita að það er fylgst með okkur og einkabréfum okkar.  Nú líður mér svo mikið betur.


Þar kom að því...

Gekk á fjall í dag og fylltist engum sérstökum fögnuði yfir því að sigra það.  Þetta var bara enn einn mosa og grasivaxinn bingurinn sem endar í grjótnibbu.  Ég settist á hana og reykti og horfði á Hvannadalshnjúk.  Fimm dagar í þá ferð, einn í hvíld og svo er ég farinn héðan.

Á leiðinni niður fann ég ekki fyrir söknuði til Reykjavíkur en samt yfir einhverjum leiða yfir því að vera hérna.  Kannski smá pirring yfir því að þurfa alltaf að tala við fólk sem svarar bara á bjagaðri ensku  Hringdi í bróðir minn um leið og ég sá að ég var kominn með signal.  Sagði honum að mér leiddist, mér gengi ekkert með það sem ég væri að gera og tilvistarkreppan magnaðist bara með hverri grjóthrúgunni sem ég þyrfti að pissa á.  Hann sagði mér að ég yrði jafn leiður á Reykjavík.  Ég sagði honum að ég hefði hringt til þess að heyra einhvern segja mér það.  Hann lofaði að senda mér diska og bækur áður en ég yfirgæfi hótelið.

Þegar ég kom á hótelið bað ég Mark um að hjálpa mér að fjarlægja saumana úr mér.  Ég gat tekið sjálfur alla þá sem voru ekki í höfðinu á mér og á meðan við vorum að þessum hjúkrunarstörfum okkar minntist ég þess þegar ég síðast dró úr mér saum.  Og ég velti því fyrir mér hvort að að því kæmi einhverntíman að ég mundi þurfa að sauma mig saman sjálfur.  Ég rétt vona ekki.

Nú er ég svo eirðarlaus að ég þoli varla við.  Er leiður á allt og öllum og hef ekki hugmynd hvað ég á til bragðs að taka?  Ég held að það hafi kannski verið óráð (eins og svo mörg af mínum óráðum) að leggja upp í þessa ferð?  Eða kannski er þetta þröskuldurinn sem ég þarf að yfirstíga?  Þessi leiði sem sest að mér núna?  Ég veit ekki neitt.  En ég ætla mér að vera hið minnsta fram að verslunarmanna helgi í þessu ferðalagi mínu.  Helst lengur, án þess að fara til útlanda.  Ég held að ég þurfi bara að fara að gera meira af því að ganga upp að næsta búkarli og taka hann tali?  En ég er því miður ekki þessa hressa og opna týpa.  Ég segi yfirleitt ekki margt við ókunnuga.

Allt er grátt úti.  Kannski ég fari hringinn á puttanum og sjái hvað komi út úr því?


Morðingjaslóð

Annars er hótelið hérna fullt af misdrukknum kennurum frá Englandi sem slaga hér um alla ganga og virðast vera í einhvers konar ævintýraferð til þessarar eyðimerkur.  Þessi hópur minnir mig á fyrstu og einu ,,óvissu" ferðarinnar sem ég fór í meðan ég hafði það að aðalstarfi að kenna unglingum heimspeki.  Það var leiðindaferð á söguslóðir einhverrar gamallar lygasögu sem allir höfðu lesið og sumir svo oft að þeir byrjuðu á tárfella yfir fyrsta snafsinum af tilhlökkun að vera að leggja af stað til að skoða einhvern grasbala þar sem kannski einhver hafði verið höggvinn.  Fyrir utan það að það rigndi þegar lagt var upp í þessa ógæfu ferð, varð konan sem sat hliðina á mér bíl og drykkjuveik og þurfti að fara út til þess að draga að sér hreint loft á klukkutíma fresti.  Gerðust svo allir drukknir, bæði af veigum og því að rifja upp línur óþekkt sögumanns sem hafði setið í fjósi á 13. öld og í stað þess að blogga, logið upp á sveitunga sína, morðum, framhjáhöldum, óeðli, íkveikjusýki og öllu því sem mönnum sem sitja í skjóli jökla og hafa ekkert þarfara við tíma sinn að gera, fabúlera á skinn.  Þetta þóttu þáverandi samkennurum mínum vera toppurinn á tilverunni.  Að drekka á lygaslóðum.  Mér leiddist heil ósköp þessa ferð enda aldarfjórðungi yngri en næst yngsti ferðalangurinn.  Og mér sýndist að þessir Bretar væru í samskonar ferð.  Því að nokkrir þeirra eru núna úti á túni í mistrinu sem leggst svo oft yfir hérna á kvöldin, drukknir að höggva hvorn annan með ósýnilegum sverðum.  Núna missti einn af sér skóinn um leið og hann datt eftir að hafa verið lagður spjóti í gegnum magann.  Ég er frekar kátur með það að hafa aldrei lifað mig svona mikið inn í gamlar bækur.  Því að ekki mundi ég vilja taka upp á því , þegar austar dregur, að fara að glíma við drauga og reisa mér heiðarbýli og hokra þar í þrjósku minni og svita.  


Skrímslaveiðar

Í dag gerði ég eitt af mínum margfrægu plönum (sem sjaldnast rætast og má samt ekki taka sem einhverskonar útúrsnúninga á lífsreglum Þórbergs, þótt ég sé nýkominn frá Hala).  Eitt af því fyrsta sem ég skrifaði niður á blað var að draga úr drykkjunni.  Ég sveik það um leið og ég settist niður til að blogga.  Næsta er að gangaá Hvannadalshnúk 12. júlí og halda svo héðan, nýr og öðruvísi maður, þann 14.  Þá ætla ég að koma við hjá þýskum myndlistamanni í Stöðvarfirði, míga utan í Skriðuklaustur og bölva Gunnari og fara svo að veiða skrímsli í Lagafljóti.  Ég er nokkuð vissum að ef ég blóðga mig og veð út í vatnið, muni skrímslið koma æðandi undir sellóspili eins og hákarlinn í Jaws.  Svo ætla ég að skoða Kárahnjúka ef ég nenni og sjá hvað hefur valdið því að andlega heilt fólk hafi staðið og mótmælt þar sumar eftir sumar og jafnvel hlekkjað sig við gular og ljótar vinnuvélar og haldið sér þar jafn fast og drukknandi maður um björgunarhring.


Iðrun

Þegar ég kom að Hala, örlítið vonsvikinn ég viðurkenni það af því að ég upptendraðist ekki af snilligáfu þar, frekar hitt, rakst ég á bókmenntakennara við HÍ hér á hótelinu.  Við urðum örlítið drukknir.  Það var gaman en líka á einhvern hátt biturt fyrir mig.  Fokk öllum biturleika.

Laugadeginum eyddi ég svo við það að ganga á fjöll eins og til yfirbótar fyrir syndir mínar síðustu daga.  En þær eru miklar og stórar og eflaust ritaðar með blóði í þykka bók.


Kominn aftur

Kominn til baka frá Hala.  Mun rita um för mína á morgunn eða í nótt eins og múhameðstrúarmaður sem snýr frá Mekka.  Eða eins og bitur gaur sem fann ekki það sem hann leitaði að.  Fer eftir því hversu drukkinn ég verð...


Haldið í austur á ný...

Áðan stóð ég úti og virti fyrir mér sjóndeildarhringinn að hafi.  Ótrúlega víður og ekkert að sjá nema fáeina grasbrúska og sanda og haf og yfir því dökk regnský, svo langt sem augað nemur.  

Það er búinn að vera svo mikill dumbungur hérna síðustu daga og mikið rok að allt virðist stundum renna saman í eitthvað þykkt og svart sem stöðugt færist nær og þegar maður heldur að það sé að fara að steypast yfir mann, svo þykkt og svart og ógnvænlegt eins og hungruð ófreskja, þá gliðnar það í sundur og mökkurinn fellur hægt til jarðar eins og svört snjókorn og marglita ljós leyftra fyrir aftan...

Nú fer ég að sofa og þegar ég vakna held ég að Hala til þess að sjá hvort að mér takist að komast aftur í tíman og sjá drifhvít segl franskra skúta við sjóndeildarhring.  Hvort að mér takist að sjá bændakurfa í peysum slá með orfi og ljái á milli þess sem þeir drekka kaffi af undirskálum.  Hvort mér takist að heyra steinana tala.  Hvort þar bíði mín frosnar tjarnir með förum eftir skauta á.  Hvort að þar ríki sama rökkuróperan og hér...

Hvort ég finni handteiknað stjörnukort sem sýni Síríus.  Síríus, stjörnuna sem menn eiga að sýna elskunni sinni út um þakglugga um nótt. 

Og allt í einu hellist yfir mig svo mikil depurð að mér finnst andartak eins og eitthvað vanti?


Litir yfir sandi og svefn

Áðan lá yfir sandinum (um leið og það lygndi) nokkurskonar öfugur regnbogi, rauður litur yfir þeim svarta og ofan á honum gulur, út í grænt og svo dökk ský...

Og ég gat horft á þessa liti renna saman við þann dökk, dökk bláa sem táknar það að núna er júlínóttin votviðrasöm að fara að skella á. 

Píanóleikarinn er þagnaður svo mér fer að verða óhætt að skreppa á barinn í drykk fyrir svefninn...

Ég skal sofa í nótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband