Færsluflokkur: Bloggar

Krummi svaf í klettagjá

Það er einhver á barnum að spila illa á píanó, skrykkjótt eins og þegar drukkinn maður ekur bíl, ef hægt væri að nota þá samlíkingu.  Og núna allt í einu sé ég að trén svigna skyndilega undan rokinu.  Ég er ekki frá því að vindurinn séu fiðlur sem leika undir með píanóleikaranum: krummi svaf í klettagjá.  Þessari dramatík verður að linna.  Á morgunn held ég áfram austur.

 


Fæst gefins

Sonur minn hringdi í mig til þess að fullvissa sig um að ég væri búinn að kaupa miða á Tindersticks í september fyrir okkur.  Ég spurði hann hvort að hann ætti von á því að ég yrði kominn til Reykjavíkur í tæka tíð?  Hann sagðist halda það.  Ég þrifist ekki lengi án félagsskapar við fallegt kvenfólk og hann ætti ekki von á því að konur sem féllu að mínum smekk fyndust undir jökli.  Ég sagði að mér þætti hann veraorðinn full hortugur að tala svona við föður sinn.  Sonurinn svaraði að hann hefði lært hvernig ætti að tala við mig af einhverri af þessum konum sem ég hefði verið í tygjum við.  ég sagði drengnum að lesa vel Fréttablaðið næstu daga, sérstaklega dálkinn: fæst gefins.  Þar mundi innann tíðar birtast svohljóðandi auglýsing:  Kjaftfor og rauðhærður 14 ára drengur fæst gefins með öllu sem honum fylgir, gegn því að vera sóttur.  Er með slæm gen og sérviskuleg áhugamál.  Hugsanlega húsvanur. 

Drengurinn efaðist um að nokkur mundi nenna að ná í hann.  Því var ég sammála.


Er einhver til...

Klukkan er að verða sex. Ég svaf í tvo og hálfann tíma í nótt. Ég veit ekki hvort það er birtan eða þögnin sem vekur mig? Eða þessi eini fugl sem syngur stundum fyrir neðan gluggann minn en ég hallast samt að því að það séu rifbeinin, ef ég velti mér að aðra hliðina virðist ég vakna af sársauka.  Ég er víst ekki meira karlmenni en það...

Ég er samt leiður á þessu svefnleysi, það gerir mig eirðarlausan og taugaveiklaðan: mér finnst ég vera að vanrækja eitthvað!  Eins og ég hafi stungið af frá ógreiddum reikning á veitingarhúsi eða hringt mig veikur inn í vinnu bara vegna þreytu eða timburmanna (hef þó ekki gert það síðan fyrir svo löngu... ) eða eitthvað álíka fáránlegt sem minnir mig á unglingsárin mín.  Þá sveikst ég undan öllu. Er einhver til í að koma og lemja mig með girðingarstaur í hausinn svo ég komist inn í draumalandið?

En kannski dugar það ekki til?  Hausinn á mér er víst býsna harður af sér. 

Las það reyndar að þeir sem drekka mikið af áfengi sofa oft laust og hrökkva upp við minnsta hljóð, svona eins og þegar tappi er tekinn úr góðri rauðvínsflösku í tveggja kílómetra fjarlægð!  Þeir sem drekka mikið eru líka í þeim áhættu hóp að eiga að hættu að detta niður kletta fullir.  Ég ætti kannski að hætt að drekka?


Hótelbarinn

Rétt fyrir ellefu bankaði Mark (þjóðverjinn) hjá mér og spurði hvort ég vildi ekki koma með honum á hótelbarinn (hann mundi styðja mig ef ég þyrfti), landverðir og leiðsögumenn væri þar nú fjölmennir og á meðal þeirra konur.  Ég átti nú bágt með að trúa því að í hópi þessa fólks leyndust konur, því að ég hef alltaf tengt það orð brotthættum verum sem klæðast í pils eða kjóla og ganga um á háhæluðum skóm og það síðasta sem ég átti von á væri að þannig skepnur væru að flækjast á bar í miðri sandauðninni.  En ég fór þó samt.  Enda félagskapurinn við Mark með þeim betri sem ég hef verið í undanfarin ár.  Það voru svona umþaðbil þrjátíu manns á barnum, í vindjökkum og flíspeysum og við settumst við barinn og fengum okkur bjór og viskí og sökktum okkur niður í að ræða um bók Færeyska rithöfundarins Heðins Brú: feðgar á ferð.  En öfugt við Heinesen þá ræðum við um Brú til þess að henda gaman af honum.  Við erum ekki betur innrættir en svo.

Fjallagarparnir og tröllkonurnar sem voru á barnum, var þetta háværa og ópalskots glaða lið, sem maður getur séð á hvaða bar sem er í Reykjavík.  Óteljandi frasar úr auglýsingum og úr Næturvaktinni yfirgnæfðu næstum Bubba Mortens sem virðist ennþá eiga greiða leið að hjörtum þeirra sem búa fyrir utan hundraðogeinn.  Og í fyrsta sinn síðan ég yfirgaf Reykjavík saknaði ég hundraðogeins, en þá bara þess að heyra góða tónlist og geta, þó ekki væri nema horft, á fallegt kvenfólk.

Reyndar vorum við ekki búnir að hæðast lengi að Heðin Brú þegar tvær stelpur spurðu okkur hvort þær mættu setjast við barinn hliðin á okkur.  Þær voru svo sem laglegar og ef einhver kynvilltur þáttastjórnandi úr raunveruleikaþáttaröð hefði klætt þær og meikað, eflaust fallegar.  Mér leiddist samt félagsskapurinn um leið og ég komst að því að þær höfðu bara áhuga á því að tala um mannfræðinámið sitt.

Rétt fyrir tvö stóðum við félagarnir svo fyrir utan hótelið, Mark að fara (án þess að segja það en mig grunaði það sterklega) að skríða uppí hjá þeirri Ítölsku, ég að rífa í sundur miða með símanúmeri sem annar mannfræðingurinn hafði gefið mér og falast um leið eftir því að við félagarnir mundum gera eitthvað skemmtilegt með þeim vinkonunum.  Ég man að ég kvaddi með því að mér dytti aldrei neitt skemmtilegt í hug.  Jafnvel þótt að ég sé uppi á fjöllum þá mun ég aldrei fara á stefnumót með stelpu sem er í vindjakka og í gönguskóm!


Ferjumaðurinn gamli

Þegar ég staulaðist til þess að fá mér eitthvað að borða í hádeginu, gekk ég næstum á gamlan sæhák eða þannig kom karluglan mér fyrir sjónir: stór og þrekinn, þótt að hann væri tekinn að bogna með sítt hvítt skegg og kastskeyti yfir rytjulegum leyfum af hári.  Ég brosti og baðst afsökunar á því að rekast utan í hann.  Hann hreytti í mig ónotum og það eina sem ég skildi var:  Du... opprörene... mankjönn... ihjelslagen...  og það hvarflaði að mér að þessi geðvonda kempa kynni að vera fjarskyldur ættingi eða jafnvel sá gamli ferjumaður sem mér hefði verið ætlað að mæta, þegar ég hrapaði í fjallinu, til þess að sigla með síðasta spölinn.  Og þegar ég var sestur niður og beið minnar daglegu bleikju, gat ég séð fyrir mér hvernig sú sigling hefði orðið:  Gamall árabátur sem hann rær og ég sit í skuti og hann siglir bátnum hægt í gegnum loftið og klettarnir sem ég hrapaði í minnka og við hverfum inn í ský og ekkert heyrist nema niður í ánum á söndunum og karlinn tuldrandi:  overstroken i liste, overstroken i liste, overstroken i liste...


Vindur og flagg

Í dag var svo mikið rok að svartur sandurinn tókst á loft og byrgði öllum sýn og það var varla stætt á milli húsa.  Ekki það að ég þyrfti að fara neitt út nema til þess að reykja en það var magnað að sjá eins og allt landið takast á loft og blandast dökkum skýjum.  Svo kom Dannebrog fjúkandi hjá glugganum mínum og mér fannst það viðeigandi þar sem hann féll af himnum á sínum tíma yfir danska herinn í Eistlandi 1219 og var núna greinilega á leiðinni heim. 


Leiðarvísir fyrir þunglynda drykkjumenn

Mér er of illt til þess að sofa og svo klæjar mig í saumana sem eru í hársverðinum.  Jökullinn er hulinn þoku svo ekki er hann mikill félagsskapur í nótt.  Og fyrir utan tölvuna (800 kall tíminn á netinu!) þá hef ég fátt við að vera nema að lesa og klára flösku af MaCallan viskí sem þjóðverjinn skildi eftir.  Og gera heimskuleg plön fyrir áframhaldið á þessari ferð.  Ég er að hugsa um að fara á Hala um helgina, ég ætti að vera orðinn vel rólfær þá og heimsækja líka Höfn, öðruvísi en í hálfgerðu móki.  Svo þarf ég að gera uppvið mig á næstu tveimur vikum hvert ég held þegar ég hef lokið við að ganga á sem flest fjöllin hér.  Ég sé það í hendi mér að ég mun ekki klára alla þá tinda sem ég ætlaði mér svo ég býst við að sleppa þeim sem líta út fyrir að vera ómerkilegust eða minna mig á kirkjur og ganga bara á hina.

Mér datt í hug áðan að taka svo Norrænu yfir til Noregs og fara og líta á þunglyndustu lönd í heimi (samkvæmt minni skilgreiningu) sem væri þá (fyrir utan Ísland) Noregur, Finnland, Litháen, Pólland, Úkraína og Moldavía.  svo gæti ég komið heim og skrifað ferðahandbók sem mundi heita: leiðarvísir þunglyndra drykkjumanna um vingjarnleg lönd!  Og gefa löndum og stöðum einkunn frá fýlukalli og upp í snöru, eftir því hversu dapurleg stemning væri á viðkomandi stað.  Ég mundi alla veganna kaupa mér þannig ferðavísi ef hann fengist.

Eitt er þó víst:  ég er ekki að fara að sækja um ábyrgðarstöður í Reykjavík, metnaður minn fyrir borgaralegu lífi og flóknum skyldum er fyrir löngu horfinn.  Núna er ég bara ánægður ef ég vakna ennþá dragnandi andann.


Fall II

Í morgunn vaknaði ég við það að sænska þernan spurði mig hvort mig vanhagaði um eitthvað?  Ég svaraði að mig vantaði þjóðverja til að hjálpa mér í sturtu og svo vefja mig aftur og klæða, því ég hafði ekki hugsað mér að liggja lengur í rúminu.  Því sama hvernig ég lá, verkirnir nístu í gegnum merg og bein.  Og ég hallaðist að því að það yrði kvala minna að standa í lappirnar en vera endilangur í bóli.  Sú sænska bauð brosandi fram aðstoð sína við að sturta mig og klæða.  Ég sagðist efast um að það stæði í starfslýsingu hennar að þrífa ferðalanga en ef hún vildi baða eldri herra eins og mig gæti hún auðveldlega fengið vinnu á elliheimili í Reykjavík.  Hún sagði að ég væri að hressast, á því væri enginn vafi, svo tók hún í hönd mína og spurði mig hvort ég væri mikið þjáður um leið og hún lagði hina yfir enni mitt eins og hún væri að athuga hvort ég væri með hita.  Ég bað hana um að finna karlmann til þess að aðstoða mig ef það væri möguleiki.  Hún yfirgaf mig treg að mér sýndist?  Úti var sólskin en á sandinum farið að rigna og mig langaði að komast út til þess að reykja.

Hálftíma seinna kom litháenski kokkurinn og sagði að ég væri kær vinur sinn og hann hefði vafið marga menn í sovéska hernum og mundi redda þessu eins og skot.  Hann lyktaði af áfengi.

Hann vafði af mér eins og varfærinn elskhugi færir feimna stúlku úr nærfötum og þvoði mér í sturtunni svo mjúklega að þegar hann nuddaði sjampóinu í hárið á mér, efaðist ég um að nokkur af þeim stúlkum sem hafa elskað mig, hefðu farið jafn gætnum höndum um líkama minn.  Hann bölvaði reyndar hressilega á móðurmáli sínu þegar hann sá að varla nokkur blettur á skrokknum á mér væri ekki svartur, fjólublár eða hruflaður.  Svo hló hann og sagði að eftir nokkra daga yrði ég eflaust gulur eins og helvítis Japani.  Ég bað hann um að styðja mig í matsalinn því að nú vildi ég verða drukkinn eins og helvítis litháeini.

Hann studdi mig og lofaði mér því alvarlegur á leiðinni í matsalinn að ef ég einhvern tíman stofnaði íslenska mafíu mundi hann drepa fyrir mig andstæðinga mína á afsláttarverði.  Ég sagðist hafa það bakvið eyrað.

Og núna sit ég við gluggann á herberginu mínu, búinn að bryðja forte með koníakinu, svo drukkinn og undir áhrifum lyfja að ég finn varla fyrir líkama mínum og hugsa ekki skýrt og horfi á fjöll og rökkur sem borða regn á morgunn og andvaka fugla og túrista að týnast heim af fjöllum með tebrúsa undir hendinni í marglitum vindgöllum eins og veifur á sölutjöldum á þorpshátíð og ég veit núna, ég veit núna, að dauðinn er allstaðar nálægur og þótt hann hafi ekki hremmt mig í þetta skiptið, þá vinnur hann eflaust næst.


Fall I

Maður á ekki að ganga drukkinn á fjöll og ég má víst teljast heppinn að vera á lífi eftir að hafa skrikað fótur aðfaranótt laugardags í hamrabelti og runnið niður skriðu og þurft svo nánast að skríða inn á hótel, fölur og ælandi að mér hefur verið sagt.

Starfsfólkið vildi keyra mig á Höfn til læknis en ég neitaði og fór í rúmið með koníak og verkjalyf.

Eftir laugardeginum man ég lítið en hef frétt að þegar ég kom ekki í hádegismat var farið að svipast um eftir mér og þar sem ekkert gekk að vekja mig, var ég studdur út í bíl og mér ekið á spítala.  Þar heyrði ég frá sloppklæddum unglingi að ég væri með heilahristing, nokkur rifbein brotin, auk beina í vinstrihönd.  Búið að sauma í hendi og höfuð ein 42 spor og þau bein sem væru óbrotin brákuð og fleiri vöðvar rifnir en hann kærði sig um að þylja yfir mér.  Engin mikilvæg líffæri væru sködduð sem væri ótrúlegt eftir svona fall en miðað við höfuðhöggin sem ég hlyti að hafa fengið skildi ég ekki búast við því að ljúka doktorsnámi, ég mætti teljast heppinn að vera enn læs og skrifandi.  Helst vildi hann leggja mig inn í einn eða tvo daga, ég þyrfti að vera undir eftirliti eftir svona byltu.  Ég neitaði því og fór aftur á hótelið, vafinn eins og dauður faraó með alla vasa fulla af parkódín forte.

Þegar þangað kom spurði hótelstýran hvort hún ætti að sjá til þess að ég kæmist aftur til Reykjavíkur?  Ég sagði að koníakglas væri nóg fyrir mig og ef að þýski móttökustjórinn ætti stund aflögu mundi ég þiggja aðstoð hans við að hátta mig, því ég væri ófær um það sökum verkja og vafninga.  Það var auðsótt og þessi nýi félagi minn eyddi svo kvöldinu með mér við koníaksdrykkju og bókmenntaumræður ef það er þá hægt að eiga í samræðum við  heilaskemmda menn eins og mig?

Sunnudeginum varði ég í rúminu.  Það var frekar vont.  Sama hvernig ég reyndi að liggja, alltaf var mér of illt til þess að geta verið kyrr.  Þjóðverjinn kom og reyndi að mata mig á lambafile.  Þegar ég reyndi að tyggja leið mér eins og ég væri á pyndingarbekk hjá einhverjum sem hugsanlega hefði þá frómu nafnbót ,, engill dauðans!"  Ég fékk þess í stað súpu, rauðvín og verkjalyf sem hádegismat.  Svo tefldum við þjóðverjinn skák þangað til hann fór að vinna.

Ítalska þjónustustúlkan færði mér kvöldmat:  súpu, brauðbita og koss á ennið.  Hún ruglaði svo hárinu mínu og sagði eitthvað að skilnaði.  Ég skildi ekki neitt og stóð eiginlega á sama.  Svo hringdi ég í foreldra mína. Pabbi svaraði og ég sagði eitthvað um það að ég hefði dottið örlítið og hruflað mig.  Hann bað mig að fara varlega, hann ætti ekki neitt of mikið af börnum. 

Svo kom löng nótt.

 


Skálað við sólina

Ef það verður ekki fellibylur eða jarðskjálftahrina eða ég of timbraður eftir partýið í kvöld, ætla ég í lengstu fjallgönguna til þessa á morgunn.  Magnað fjall sem hefst á bröttum skriðum (þar sem ég ætla upp) svo taka við hamraveggir (en það er leið upp gil á milli þeirra) og svo þessar dæmigerðu grænbrúnu brekkur sem einkenna svo mörg Íslensk fjöll.  Aftur hamrar, stutt brekka og svo tindur.  Ég ætla að reyna að muna að taka myndir en ég hef ekki verið nógu duglegur við það (nema af fólki og lafhræddum rollum).
Annars var eitt af því fyrsta sem ég las augun í hérna á hótelinu: heildarsafn af leikritum Ibsens í þýðingu Einars Braga.  Ég hef alltaf haft miklar mætur á Ibsen og kann betur að meta hann hérna á heimsenda.  Finnst stundum að þessi fjöll séu Norsk, hugsanlega ólöglegir innflytjendur, alla veganna fjarskyldir frændur...
Talandi um fjarskylda frændur og aðra ættingja: sonur minn hringdi í dag og eftir spjall um daginn og veginn sagði hann mér að það væri alltaf einhver stelpa að hringja í hann og hann vildi ekki tala við hana því að hún væri leiðinleg og ekkert svo sæt: hvað á ég að gera pabbi?
Ég sagði honum að alvöru karlmenn mundu segja stúlkunni varfærnislega að enginn áhugi væri fyrir hendi en að ég mundi slökkva á símanum í tvo, þrjá daga og vona að hún mundi hætta að hringja.  Sonurinn andvarpaði: hvernig datt mér í hug að spyrja þig?  Ég gat ekki svarað honum því.  En benti honum þess í stað á að tékka á nýju (og einu) plötunni með Peter and Wolf.  Drengurinn sagðist vera nægilega þunglyndur í bili og bað mig um að hætt að kvelja sig, hvort sem það væri með vondum ráðum eða tónlist.  Við lögðum á. 
Og nú ætla ég að fara að halda út, vitandi að flott tónlist, Ibsen og slatti af jöklum er það eina sem ég þarf til þess að vera hamingjusamur.  Ég ætla að skála við sólina! 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband