Færsluflokkur: Bloggar
27.6.2008 | 03:17
Fossar og fossar
![]() |
Fossar falla í Austurá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2008 | 23:50
Kæfast í sandi
Vinur minn og frændi sem lést um aldur fram og á dró mig út eina dimma desembernótt, þá á hátindi geðveiki sinnar, til þess að sýna mér hinn helga grail sem reyndist vera tóm flaska af pilsner, orti:
Verð ég lygn/eins og klakaflóð úr Vatnajökli/og bráðna niður í sandinn
Eins og skipbrotsmennirnir á hinstu stund ævi sinnar
Kæfast þeir í sandi/fæðast í vatni/vígjast logandi krossi.
Ég las uppúr bókinni sem þetta ljóð er í, standandi á hæð með svarta sanda og gruggugt jökulfljót svo langt sem augað eygði fyrir framan mig, svo hávært þar sem það féll hjá að ekki einu sinni fuglarnir sem svifu yfir höfði mínu námu orð mín og ég lagði frá mér bókina og vissi að fegurstu ljóðin fæðast í því vatni sem eru líkamar okkar svo þungir að þeir sökkva og kæfast í sandi.
Og núna sit ég hér og hugsa um grænleitarflöskur sem hefðu átt að varðveitast sem helgigripir og allt það vatn sem hefur umlukt mig og umvafið og ég minnist þess að hafa sem barn verið hræddur við vatn og sérstaklega hafið.
Og ég velti fyrir mér geðveikinni sem knýr suma til þess að fremja voðaverk aðra til þess að sveipa líf sitt áru einhverskonar snilligáfu og dulúðar. Mér sýnist ég vera að finna þess konar mannlíf hérna undir þessum fjöllum. Hér eru allir eitthvað furðulegir, allir nánast á barmi geðveiki þótt að enginn sé ennþá búinn að gera mig að hestasveini til þess að halda með sér út í húmið í leit að einhverjum hlutum sem aldrei voru til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2008 | 20:49
Uppáhalds kjóllinn hennar
Þar sem ég sat á fjallsbrún og dinglaði löppunum utan í hamrabeltið og reykti sígarettu, svona til þess að spilla hreina loftinu, vorkenndi ég sjálfum mér vegna þess að vitavarsla er hverfandi starfsstétt. Ég sá það í hillingum að búa einn í vita sem mundi lýsa upp hafið, sama hvernig viðraði og ég gæti kúldrast þar yfir bókum á milli gönguferða. Ef það væri netsamband og einhver mundi skutla til mín reglulega smá mat, tóbaki og einhverju örlítið sterkara en pilsner, held ég að þar yrði ég best geymdur. Gjörsamlega ófær um að gera nokkuð að mér.
Ég var ennþá upptekinn af þessari hugmynd, meira að segja farinn að ímynda mér jólahald í vitavarðahúsinu, með stórhríð og brim beljandi á gluggum, þegar ég næstum gekk á sænsku herbergisþernuna á hlaðinu fyrir utan hótelið. Hún brosti til mín og roðnaði og spurði hvort ég hefði verið að klífa fjöll. Ég sagði henni að ég hefði lokið við fjall númer fjögur. Án teljandi vandræða, bætti ég svo við en hélt fyrir sjálfum mér þeim minningum sem ferðin upp hafði kveikt. Ég var ekki alveg búinn að gleyma tryllingnum á tíundaáratugnum, sporum í snjó sem lágu heim að litlu húsi og manni í rúmi sem átti ekki að vera þar. Hún spurði mig hvort ég vissi hvað Litháenski kokkurinn kallaði mig og hélt áfram: Icelandic mafia Ég sagðist vita að hann kallaði mig það en spurði hvort hún vissi af hverju? Hún sagði að hann segði öllum að ég væri viðriðinn mafíuna og væri að fela mig hérna og það mundi ekki koma honum á óvart ef ég fyndist einn morguninn skorinn á háls eða fyndist alls ekki. Hér væru margar dimmar jöklasprungur. Ég hló svo mikið að allir vitar sem lýsa skipum og ótrúar kærustur voru löngu gleymdar og annað hvort varð hún svo taugaveikluð við viðbrögð mín eða hlátur minn svo smitandi að hún byrjaði að skelli hlæja og hló svo mikið að hún þurfti að styðja sig við mig.
Þegar þessi geðveiki var runninn af okkur spurði hún hvort að það væri búið að bjóða mér í partýið sem halda á annað kvöld. Ég sagði að það hefði eitthvað verið minnst á það kvöldið áður við mig. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að koma. Ég sagðist mundi mæta, ég hefði eitt og annað að segja við drykkfeldinn kokk. Hún horfði á mig skamma stund og sagðist svo ætla að koma í uppáhalds kjólnum sínum í þessa fyrirhuguðu veislu og svo snéri hún sér snöggt við og hljóp í burtu og sló hæl við þjó. Ég stóð og horfði á eftir henni og fannst vitavarðarstarfið aftur vera orðið freistandi.
Bloggar | Breytt 27.6.2008 kl. 04:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2008 | 01:35
Næturgestur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.6.2008 | 23:55
Refur, kokkur og gæði heimsins
Bloggar | Breytt 26.6.2008 kl. 04:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2008 | 20:34
Nöfnin á fjöllunum
Bloggar | Breytt 26.6.2008 kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.6.2008 | 01:02
Lost in Iceland II
Og ekki mun ég leita að gröf og standa þar undir dökkum skýjum, óttasleginn yfir því að í hári mínu kynnu fyrstu gráu hárin að leynast og hvísla: ég sakna þín.
Það væri hræsni sem ég geri mig ekki sekann um.
Þess vegna stóð ég allt í einu fyrir framan kirkjuna í Vík, í svörtum fötum og strigaskóm með bakpoka fullann af nauðsynjum, svo timbraður af hreinu lofti og síðustu ferðinni með brjálæðing sem ók á 160 og hlustaði á hnakkamúsík, að mér fannst ég þurfa að æla.
En ég ældi ekki heldur settist niður í stilltri sumarnóttinni og beið þess að dagaði svo ég gæti fengið far áfram. Og ég sat og drakk viskí og reykti og hlustaði á fugla og beið og hugsaði um það að sennilega væri stutt þangað til ég yrði möðkum að bráð.
Eftir eina nótt hérna á hótelinu í rúmlega tuttuguþúsund króna hjónaherbergi fékk ég mig fluttan í minni þægindi. Eiginlega engin þægindi en þau kosta mig með þrem máltíðum svona svipað og leiga á lítilli íbúð í Reykjavík.
Ég veit ekki hversvegna ég valdi þennan stað? Kannski var það vegna jökulsins? Eða fjallana eða sandanna eða...?
Ég veit þó ekki hvað ég er búinn að vera hérna lengi? Viku eða tíu daga? Tvo?
Dagarnir renna saman í eitt: ég vakna í hádegismat, fer svo og geng í 4-7 tíma. Fer í sturtu. Borða kvöldmat, sest svo niður með tölvuna og skrifa og drekk rauðvín. Og þegar matsalurinn lokar upp úr tíu, færi ég mig upp á barinn og starfsfólkið hér fer að týnast til mín (byrjaði á því á þriðja degi mínum hérna) og fylla glasið mitt með Jack Daniels viðbjóði sem virðist vera það sem þau drekka. Og þetta er merkilegur hópur sem ég hef kynnst: Kúrdi sem talar frábæra íslensku og er síbrosandi og reynandi við stelpurnar. Litháenskur kokkur sem er drukkinn frá dagrenningu til dagrenningar og segir þreytandi sögur á bjagaðri ensku af veru sinni í Sovéska hernum. Þjóðverji á mínum aldri sem er vel lesinn og deilir með mér velþóknun á Heinesen og Hamsun. Ítalska stúlkan sem þjónar til borðs og talar næstum enga ensku en tjáir sig við mig með því að snerta mig í tíma og ótíma. Sérstaklega hárlubbann. Hún hefur lofað mér því að panta inn uppáhalds vínin mín. Sænska herbergisþernan sem horfir á mig með augnaráði sem bara stúlkur geta sent mér og ég veit að boðar vandræði ef ég horfi á móti. Ungu Íslensku strákarnir sem dreyma um hundraðogeinn og stórborgir og gruna mig um að vera eitthvað annað og meira en ég er. Allt þetta fólk (og fleiri sem hér vinna en ég þekki ekki eins vel) trúir því ekki að ég sé hérna til að ganga á fjöll. Á hverju kvöldi spyr einhver mig hvað ég sé í ,,alvörunni" að gera hér? Hvort það sé rétt að ég ætli að vera hérna fram í miðjan júlí?
Hér er ég loksins einn með sjálfum mér og veit að þetta er bara einn áfangastaður á ferð minni. Hinir eru 27 fjallstindar og svo áframhaldandi ferðalag og leit að staðnum þar sem tíminn sefur, staðnum þar sem allir hlutir hafa misst merkingu sína og orð. Og orð verða óþörf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.6.2008 | 03:33
Lost in Iceland
Og krakkarnir sem þjóna hérna rukka mig aldrei fyrir áfengi.
Og hingað er ég kominn til að ganga fjöll (og hef verið duglegur við það) til þess að gleyma öllum þeim konum sem ég hef kynnst, þeim konum sem ég hef gifst.
Og allt í einu er ég hamingjusamur. Standandi einn uppi á jökli. Sitjandi í rökkri að skrifa.
Bloggar | Breytt 25.6.2008 kl. 05:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.5.2008 | 18:08
Verkfalli lokið
Datt aftur í sama gamla farið á leiðinni heim þegar ég sá mann með íbogna og mjög svo langa pípu standa á götuhorni með hendur fyrir aftan bak, rugga sér og reykja. Og mér varð samstundis hugsað til pípukaflans í Íslenskum aðli og hversu hégómlegur Þórbergur hafi verið að halda að langar og bognar pípur gerðu mann gáfulegan. Svo ég hló, gekk fram hjá pípureykingarmanninum sem hugsanlega hélt að yfir hann færðist 19. aldar menntamannsbragur með svona fallegri pípu og glotti að honum eins og ótíndur götustrákur. Og allt í einu var ég hættur að hugsa um hamborgara og pizzur og farinn að hugsa um texta og gamlar bækur og sérvitra karla og byrjaði að labba hraðar í stað þess að dóla mér eins og maður sem ekki á neitt erindi á neinn stað. Þess í stað gekk ég hratt og rakst utan í fólk því að ég hafði munað það að ég þyrfti ekki á neinu lifandi fólki að halda, bara því sem eitt sinn hafði verið og skrifað, og heilum helling af brennivíni til þess að létta mér lundina um helgina. Því að ég ætla að bjóða heilan velkominn til starfa aftur með því að fremja á honum hryðjuverk í formi áfengisdauðra heilasella og sökkva mér niður í bækur og skrifa og tónlist og gefa skít í þetta fólk þarna úti. Ég þarf ekki á því að halda og það sérstaklega ekki á mér!
Því verður hinu fróma plani um að draga stúlku út í drykkju, stungið undir stól og ekki dregið þaðan aftur á meðan ég get haft ofan af fyrir mér á annan hátt. Því að síðustu dagar hafa verið langir og andlausir og mér fundist eins og það væri ekkert lengur neitt til þess að lifa fyrir nema CSI og annar álíka hroði sem ég hef verið að horfa á. Og ég ætla að gera samkomulag við hausinn á mér. Ef hann hættir svona verkföllum skal ég ekki misþyrma honum með neinu nema áfengi og bókum - aldrei oftar sjónvarpsefni og auglýsingabæklingar frá Bónus með gulnuðu svínaketi á forsíðu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.5.2008 | 11:54
Breytingar, breytingar...
Það er kominn föstudagur en samt er ennþá allt í verkfalli hérna uppi (bendir á höfuð sitt) og ég skil ekki hvað ég á að gera? Er búinn að fletta í velskrifuðum meistaraverkum, hlusta á tónlist, bjóða áfengi sem mútur en er jafn heimskur og andlaus og undanfarana daga. Er allt í einu skíthræddur um að ég sé kominn á eitthvað breytingarskeið, að aldurinn hafi loksins rænt mig allri skapandi hugsun, að ég muni aldrei láta mér detta neitt annað í hug en pulsur til þess að hafa í matinn. Oj.
Kannski ætti ég bara að taka þessari heimsku fagnandi? Að halda upp á daginn í dag sem þann fyrsta í mjög svo hamingjusömu lífi þar sem efi og tilvistarspeki er fyrir bý og allt mun snúast um það eitt að koma sem mestu kjöti og öli í minn mjóslegna maga? Að ég muni héðan í frá verða ánægður með það sem lífið rétti að mér. Hætti að gera kröfur um eitthvað sem heitir andlegsæla og fókusi bara á það að hafa skrokkinn sæmilega mettan og sælan. Sé fyrir mér að dvd og bókasafnið mitt breytist. Allt sem er þungt og tormelt verði selt í Kolaportinu eða skipt á því og heildarverkum Farellybræðra. Jafnvel innbundið í leður.
Þessi dagur færir mig hægt og rólega nær andlegri glötun en líkamlegri vellíðan. Núna er ég að hugsa um stóra pizzu með þremur kjöttegundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)