Færsluflokkur: Bloggar

Fossar og fossar

Ég var rétt í þessu að koma heim úr miðnætur göngu minni, örlítið reikull í spori en búinn að standa hjá fossi með höfuðið uppi í skýjabakka og með stressaða rollu og afkvæmi hennar að félagsskap.  Rollan hegðaði sér reyndar eins og einhverskonar loðið og ferfætt afbrigði af Woody Allen: taugaveikluð og hafði undarlegan áhuga á svæði því á afkvæmum sínum þar sem kynfæri og endaþarmur á svona skepnum kann að leynast og minnti mig á það að Allen er nú giftur dóttur sinni.  Á leiðinni heim gekk ég fram hjá grjóthnullungum sem í fjarlægð litu út eins og þrír menn í biðröð að komast inn á bar, það drukknir að þeir þurftu að styðja sig við hvorn annan.  Ég settist aðeins niður á stað sem er orðinn mér nokkuð kær: græn tjörn ofan í skál, nokkurskonar minni útgáfa af Kerinu, nema að allt er svart og grænt og rennur einhvernvegin saman og ég veit að þarna fær ekkert líf þrifist. 
 
Og nú er ég kominn hingað aftur á herbergið mitt og á erfitt með að sofna (eins og alltaf) og vorkenni þeim sem þurfa að láta gervifossa, sama hversu fallegir þeir eru, vera náttúran sín.  Jafnvel þótt að náttúra stórborga geti verið falleg með sínum auglýsingaskiltum, brjálaða mannlífi og dimmu og röku og munúðarfullu nóttum, þá finn ég það svo vel núna, hversu heppinn ég var að láta öldurnar skola mér hingað en ekki í Kreuzberg hverfið eða hvert svo sem í fjandanum ég ætlaði að álpast?
  

mbl.is Fossar falla í Austurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæfast í sandi

Vinur minn og frændi sem lést um aldur fram og á dró mig út eina dimma desembernótt, þá á hátindi geðveiki sinnar, til þess að sýna mér hinn helga grail sem reyndist vera tóm flaska af pilsner, orti: 

Verð ég lygn/eins og klakaflóð úr Vatnajökli/og bráðna niður í sandinn

Eins og skipbrotsmennirnir á hinstu stund ævi sinnar

Kæfast þeir í sandi/fæðast í vatni/vígjast logandi krossi.

Ég las uppúr bókinni sem þetta ljóð er í, standandi á hæð með svarta sanda og gruggugt jökulfljót svo langt sem augað eygði fyrir framan mig, svo hávært þar sem það féll hjá að ekki einu sinni fuglarnir sem svifu yfir höfði mínu námu orð mín og ég lagði frá mér bókina og vissi að fegurstu ljóðin fæðast í því vatni sem eru líkamar okkar svo þungir að þeir sökkva og kæfast í sandi.

Og núna sit ég hér og hugsa um grænleitarflöskur sem hefðu átt að varðveitast sem helgigripir og allt það vatn sem hefur umlukt mig og umvafið og ég minnist þess að hafa sem barn verið hræddur við vatn og sérstaklega hafið.

Og ég velti fyrir mér geðveikinni sem knýr suma til þess að fremja voðaverk aðra til þess að sveipa líf sitt áru einhverskonar snilligáfu og dulúðar.  Mér sýnist ég vera að finna þess konar mannlíf hérna undir þessum fjöllum.  Hér eru allir eitthvað furðulegir, allir nánast á barmi geðveiki þótt að enginn sé ennþá búinn að gera mig að hestasveini til þess að halda með sér út í húmið í leit að einhverjum hlutum sem aldrei voru til.


Uppáhalds kjóllinn hennar

Þar sem ég sat á fjallsbrún og dinglaði löppunum utan í hamrabeltið og reykti sígarettu, svona til þess að spilla hreina loftinu, vorkenndi ég sjálfum mér vegna þess að vitavarsla er hverfandi starfsstétt.  Ég sá það í hillingum að búa einn í vita sem mundi lýsa upp hafið, sama hvernig viðraði og ég gæti kúldrast þar yfir bókum á milli gönguferða.  Ef það væri netsamband og einhver mundi skutla til mín reglulega smá mat, tóbaki og einhverju örlítið sterkara en pilsner, held ég að þar yrði ég best geymdur.  Gjörsamlega ófær um að gera nokkuð að mér. 

Ég var ennþá upptekinn af þessari hugmynd, meira að segja farinn að ímynda mér jólahald í vitavarðahúsinu, með stórhríð og brim beljandi á gluggum, þegar ég næstum gekk á sænsku herbergisþernuna á hlaðinu fyrir utan hótelið.  Hún brosti til mín og roðnaði og spurði hvort ég hefði verið að klífa fjöll.  Ég sagði henni að ég hefði lokið við fjall númer fjögur.  Án teljandi vandræða, bætti ég svo við en hélt fyrir sjálfum mér þeim minningum sem ferðin upp hafði kveikt.  Ég var ekki alveg búinn að gleyma tryllingnum á tíundaáratugnum, sporum í snjó sem lágu heim að litlu húsi og manni í rúmi sem átti ekki að vera þar.  Hún spurði mig hvort ég vissi hvað Litháenski kokkurinn kallaði mig og hélt áfram: Icelandic mafia  Ég sagðist vita að hann kallaði mig það en spurði hvort hún vissi af hverju?  Hún sagði að hann segði öllum að ég væri viðriðinn mafíuna og væri að fela mig hérna og það mundi ekki koma honum á óvart ef ég fyndist einn morguninn skorinn á háls eða fyndist alls ekki.  Hér væru margar dimmar jöklasprungur.  Ég hló svo mikið að allir vitar sem lýsa skipum og ótrúar kærustur voru löngu gleymdar og annað hvort varð hún svo taugaveikluð við viðbrögð mín eða hlátur minn svo smitandi að hún byrjaði að skelli hlæja og hló svo mikið að hún þurfti að styðja sig við mig.  

Þegar þessi geðveiki var runninn af okkur spurði hún hvort að það væri búið að bjóða mér í partýið sem halda á annað kvöld.  Ég sagði að það hefði eitthvað verið minnst á það kvöldið áður við mig.  Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að koma.  Ég sagðist mundi mæta, ég hefði eitt og annað að segja við drykkfeldinn kokk.  Hún horfði á mig skamma stund og sagðist svo ætla að  koma í uppáhalds kjólnum sínum í þessa fyrirhuguðu veislu og svo snéri hún sér snöggt við og hljóp í burtu og sló hæl við þjó. Ég stóð og horfði á eftir henni og fannst vitavarðarstarfið aftur vera orðið freistandi.


Næturgestur

Um hálf eitt var bankað á dyrnar hjá mér og fyrir framan mig stóð Litháenski kokkurinn, ennþá í kokkagallanum með vodkaflösku í svuntunni og sagði: Icelandic mafia you need a drink!  Og tróð sér framhjá mér og settist á rúmið mitt (ofan á útprentuð blöð) og saup af vodkaflöskunni.  Ég settist í skrifborðsstólinn og fékk mér sopa af rauðvíni sem ég hafði verið að drekka.  Ég spurði hvað honum væri á höndum, hann svaraði engu en tók bara annan sopa af vodkaflöskunni.  Mér sýndist hún næstum tóm.
Svo sátum við í nokkra stund í þögn, ég að horfa á hann og hann að horfa í gaupnir sér á milli þess sem hann tók sopa af vodka.  Fyrir utan gluggann minn höfðu allir fuglar þagnað og trén stóðu kyrr í næturrökkrinu og græn blöð þeirra virtust vera gul eins og að hausti, í skini ljósanna frá hótelinu.
Loks leit hann upp og horfði á mig, rétti mér flöskuna og spurði mig hvort að ég væri ekki vinur sinn? 
Ég taldi mig vera það.
Þá tók hann upp snjáð veski og dró fram mynd af dökkhærðri konu á óræðum aldri, augun brún og sítt hárið slegið yfir ljósan kjól.  Hann sagði að þetta væri eiginkona sín sem svaraði ekki í símann þegar hann hringdi.  Ég sagði að hún væri fögur og ég sæi það á henni að hún væri skapstór.  Hann drakk meira.  Svo sýndi hann mér myndir af börnunum sínum og spurði mig hvort ég ætti börn?  Ég sagðist eiga stálpaðan son.  Svo þögðum við og létum dreggjarnar í vodkaflöskunni ganga á milli okkar.  Þegar hún var tæmd stóð hann á fætur og sagði að hann mundi drepa fyrir fjölskyldu sína svo gekk hann út án þess að kveðja.
Og núna sit ég hér að reyna að tæma rauðvínsflöskuna og allt er svo kyrrt og hljótt.  Meira að segja fuglarnir eru annað hvort dauðir eða farnir að sofa.  Og ég er að hugsa um þennan nýja vinn minn og sorgir hans, ég er að hugsa um þennan nýja vin minn og þær sorgir sem hann á og deilir með öðrum, ég er að hugsa um þennan nýja vin minn sem ég þekki ekki neitt og segir svo fátt og veit ekki hvert hann sé að fara...
 

Refur, kokkur og gæði heimsins

Í morgunn mætti ég ref sem horfði á mig óhræddur og jafnvel með fyrirlitningarsvip og skaust svo út í ánna og synti yfir.  Ég vissi ekki að refir kynnu að synda og ekki heldur kettir fyrr en ég eignaðist einn sem kunni vel við sig í baðkarinu.  Sá köttur var skýrður eftir gömlum klæðskiptingi og ég held að sú nafngift hafi ekki valdið læðunni teljandi andlegum skaða.
Annars gekk ég ekki á svo mikið sem hól í dag.  Ranglaði þess í stað með fram ánni og niður í fjöru.  Þar sat ég á stein og lét öldurnar dáleiða mig og missti skin á tíma og stað og það var ekki fyrr en það fór örlítið að falla úr lofti að ég stóð á fætur og gekk til baka.
 
Þegar ég gekk framhjá eldhúsi hótelsins heyrði ég að Litháenski kokkurinn kallaði á mig.  Þegar ég gekk til hans stóð hann á fætur (hann hafði setið á bjórkút og reykt) og sagði bæði fornafn mitt og föðurnafn skýrt og greinilega  (Fyrir nokkrum dögum bað hann mig um að skrifa það á blað fyrir sér, útlendingunum gengur frekar illa að bera fram Þ.) og stóð svo brosandi stoltur fyrir framan mig eins og þetta væri helsta afrek hans á fjörutíu og fimm ára langri ævi.  Ég hrósaði honum og spurði hvort hann gæti sag: helvítis útlendingur!  Hann gat það og til þess að fagna þessum merka áfanga hvarf hann inn í eldhús en kom vonbráðar aftur með tvö vatnsglös hálffull af vodka.  Við skáluðum og hann sagði nafn mitt og drakk úr glasinu í einum teig.  Ég fékk mér alltof stórann sopa og barðist við að halda honum niðri.  Hann hló og endurtók nafn mitt einu sinni enn og sagði að mér líkaði betur við koníak.  Svo spurði hann mig hvort ég hefði gengið á fjall.  Ég sagði honum að ég hefði farið til þess að horfa á sjóinn.  Hann sagðist vera búinn að vera þarna í marga mánuði og það eina sem hann hefði farið væri í næstu byggðalög til þess að sækja áfengi.  Hefði ekki svo mikið sem gengið upp á næsta hól.  Ég lofaði honum því að ef hann vildi gæti ég tekið hann í barnagönguferð að næsta skriðjökli.  Hann varð svo uppveðraður af því að hann snaraðist inn í eldhús og sótti vodkaflöskuna.  Hún var nærri tóm.  Hann sló henni við glas mitt og endurtók enn einu sinni nafn mitt og sagði að ég væri besti vinur hans á þessum stað.  Svo settumst við niður á sitthvorn bjórkútinn og reyktum og horfðum í átt til hafs sem óðum var að hverfa í mistur og þögðum.
 
Ég borðaði magra bleikju í kvöldmat.  Úti var dalalæða og ég heyrði húsvörðinn segja við einhvern að á morgunn mundi rigna.  Mér stóð á sama um þær fréttir, ég er með hlífðarföt og get notað þau ef ekki er hægt að ganga á skyrtunni eða í lopapeysu.  Ef ég ætla að ná að ganga á öll fjöllin þá má ég eiginlega ekki missa úr dag.  Stelpan sem þjónaði mér er há og grönn og dökkhærð og einhverntíman hefði ég haft smekk fyrir henni og eflaust eytt tíma mínum í að reyna að komast upp á hana en ekki að klöngrast skriður og klífa hamrabelti (sem mér er þó illa við, hef oftar en ekki farið flatt á svoleiðis klungri eða misst hjartað í buxurnar) til þess eins að leggja að baki fjall og minningar.  Ég er samt sáttur við það að vera að breytast.  Og ég er ekki bara að breytast í þessu gagnlausa höfði mínu, heldur er líkaminn öðruvísi en fyrir nokkrum vikum.  Vöðvarnir á löppunum harðir eins og grjót og maginn, helvítis maginn sem vildi stundum virðast of mikill, hann er löngu horfinn og ekki mikill söknuður í honum.  Ég hef ekki verið jafn grannur í tíu ár.  Og þegar ég horfi í spegil þá eru baugar vetrarins löngu horfnir og maðurinn sem brosir á móti mér er útitekinn og ekki þetta eilífðar regnský yfir höfðinu á honum...
 
Og núna er ég hérna, á herberginu mínu sem minnir meira á fangaklefa á Hrauninu en hótelherbergi en mér er sama.  Þægindi skipta mig ekki svo miklu máli núna og það að hafa skrifborð og fataskáp finnst mér nægur lúxus.  Veraldleg gæði skipta mig núna engu, bara fjöll og útivera og sú staðreynd að þegar ég held héðan þá verður það á vit einhvers stórfenglegar en slímsetna á börunum í hundraðogeinum...  

Nöfnin á fjöllunum

Fyrstu tvo dagana hérna gekk ég skriður, hóla og ómerkilegar hæðir til þess að koma mér í form.  Óð eina á og skokkaði upp á minnkandi skriðjökul.  Allan tíman hafði ég varla augun af fjöllunum, sérstaklega ekki hæsta tindi landsins.  Og eitt kvöldið er ég sat yfir víni og korti af nágrenninu og reyndi að búa til gönguplan og leggja á minnin nöfnin á fjöllunum, laust þeirri hugmynd niður hjá mér að allir þessir tindar sem ég ætla að klífa væru tákn um ákveðin uppgjör.  Og ég fór út í sumarnóttina og stóð í döggvotu grasinu í blanka logni og horfði á fjöllin og jökulinn og ég endur skýrði tindana eftir konunum í lífi mínu.  Og því meiri tilfinningar sem ég bara eða hafði borið til stúlkunnar, því tilkomumeira og tignarlegra var fjallið sem ég gaf nafn hennar.  Og ég ákvað að á leiðinni upp á hvert og eitt þessara fjalla mundi ég hugsa um samband mitt og stúlkunnar og skála svo fyrir liðnum gleðistundum á toppnum og vona að á leiðinni niður mundi ég skilja allra minningar um hana eftir.
Því gekk ég í glaða sólskini upp á frekar ómerkilegt fjall: greiðfær leið á milli svartra hamra og ég var orðinn kenndur af koníaki þegar ég stóð á tindinum.  Útsýnið fallegt yfir jökulinn og sandana og fjöllin og græn tún og yfir mér þessi blái himinn...
Og ég hugsaði um stúlkuna sem ég hafði nefnt fjallið eftir og mundi að hún hafði hent í mig súpuskál eina febrúarnótt fyrir svo löngu og örið á enni mínu eftir skurðinn sem ég hlaut, verið lengi að dofna.  Ég mundi ekki hvort ég átti þessa skál skilið í höfuðið á mér og stóð eiginlega á sama.  Settist þess í stað niður og skeit.
Skeindi mér svo með blaðsíðum úr bók eftir kvenkyns rithöfund sem ég hef aldrei þolað, áður en ég gekk blístrandi heim.
Síðan hef ég gengið á þrjá tinda eða fjöll.  Dáðst að fegurð heimsins.  Skálað fyrir því sem aldrei kemur aftur.  Fundið hvað ég vex að þreki við hverja heimför, fundið hvað ég slít hægt og hægt á tengslin við hið liðna: að með þessu brölti er ég ekki bara að kveðja allar þessar konur, heldur líka að kveðja mitt gamla líf.
Því að ég hef ákveðið að snúa ekki aftur til Reykjavíkur fyrr en ég sé orðinn annar og öðru vísi maður.  Hvernig maður veit ég ekki og þori ekki að hugsa svo langt eða um svo miklar breytingar.  En ég veit að ég þarf að sleppa hönd af því hlutverki sem ég held dauða haldi í.  Því hlutverki sem ég hef verið alltof lengi að leika.
Enn eru 23 tindar eftir.  Enn heyri ég engin hljóð í nóttunni nema tíst fugla.  Enn eru dagarnir langir.  Enn...
Enn er hálft glas af víni eftir.


Lost in Iceland II

Það þarf skilnað eða dauðsfall til þess að fá mig til að rjúfa rútínuna sem nokkurskonar einhverfa festir mig í.  Og þar sem ég hef hvorki gifst né skilið síðan ég hætti að blogga í vor, upplýsist hér að dauðinn steypti sér yfir líkama fullann af vonum og þrám og hremmdi hann eins og sjófugl fisk úr hafi.  En ég ætla ekki að reyna að leggja í endi alls einhverja merkingu sem er aðeins lífsins að glæða, ekki hins miskunarlausa sigurvegara allra manna og borga. 
Ég ætla heldur ekki að kenna um óendurgoldinni ást, geðveiki, eiturlyfjum, reipi eða stól sem veltur um koll, að svona hlyti að fara.
Og ekki mun ég leita að gröf og standa þar undir dökkum skýjum, óttasleginn yfir því að í hári mínu kynnu fyrstu gráu hárin að leynast og hvísla: ég sakna þín.
Það væri hræsni sem ég geri mig ekki sekann um.
 
Síðustu vikur hafa verið eins og kvikmynd hraðspóluð: ljós nætur renna saman í marglit strik, andlit afmyndast og öll hljóð verða að suði.  Þarna eru varir sem vilja verða kysstar...
Þess vegna stóð ég allt í einu fyrir framan kirkjuna í Vík, í svörtum fötum og strigaskóm með bakpoka fullann af nauðsynjum, svo timbraður af hreinu lofti og síðustu ferðinni með brjálæðing sem ók á 160 og hlustaði á hnakkamúsík, að mér fannst ég þurfa að æla.
En ég ældi ekki heldur settist niður í stilltri sumarnóttinni og beið þess að dagaði svo ég gæti fengið far áfram.  Og ég sat og drakk viskí og reykti og hlustaði á fugla og beið og hugsaði um það að sennilega væri stutt þangað til ég yrði möðkum að bráð.
 
Þannig skolaði mér hingað.  Þreyttum og vegamóðum í leit að einhverju sem ég veit ekki hvað er?  Hugsanlega er ég að leita að staðnum þar sem heimurinn endar?  Hugsanlega er ég bara á leið til Hala í Suðursveit til þess að sjá hver Þórbergur fæddist?  Hugsanlega er ég að leita að einhverju öðru?  Hugsanlega er þetta bara enn ein vanhugsuð ákvörðun í lífi mínu?
Eftir eina nótt hérna á hótelinu í rúmlega tuttuguþúsund króna hjónaherbergi fékk ég mig fluttan í minni þægindi.  Eiginlega engin þægindi en þau kosta mig með þrem máltíðum svona svipað og leiga á lítilli íbúð í Reykjavík.
Ég veit ekki hversvegna ég valdi þennan stað?  Kannski var það vegna jökulsins?  Eða fjallana eða sandanna eða...?
 
Það var ekki fyrr en eftir nokkra daga að ég komst að því hversvegna örlögin skoluðu mér hingað.
Ég veit þó ekki hvað ég er búinn að vera hérna lengi?  Viku eða tíu daga?  Tvo? 
Dagarnir renna saman í eitt: ég vakna í hádegismat, fer svo og geng í 4-7 tíma.  Fer í sturtu.  Borða kvöldmat, sest svo niður með tölvuna og skrifa og drekk rauðvín.  Og þegar matsalurinn lokar upp úr tíu, færi ég mig upp á barinn og starfsfólkið hér fer að týnast til mín (byrjaði á því á þriðja degi mínum hérna) og fylla glasið mitt með Jack Daniels viðbjóði sem virðist vera það sem þau drekka.  Og þetta er merkilegur hópur sem ég hef kynnst:  Kúrdi sem talar frábæra íslensku og er síbrosandi og reynandi við stelpurnar.  Litháenskur kokkur sem er drukkinn frá dagrenningu til dagrenningar og segir þreytandi sögur á bjagaðri ensku af veru sinni í Sovéska hernum.  Þjóðverji á mínum aldri sem er vel lesinn og deilir með mér velþóknun á Heinesen og Hamsun.  Ítalska stúlkan sem þjónar til borðs og talar næstum enga ensku en tjáir sig við mig með því að snerta mig í tíma og ótíma.  Sérstaklega hárlubbann.  Hún hefur lofað mér því að panta inn uppáhalds vínin mín.  Sænska herbergisþernan sem horfir á mig með augnaráði sem bara stúlkur geta sent mér og ég veit að boðar vandræði ef ég horfi á móti.  Ungu Íslensku strákarnir sem dreyma um hundraðogeinn og stórborgir og gruna mig um að vera eitthvað annað og meira en ég er.  Allt þetta fólk (og fleiri sem hér vinna en ég þekki ekki eins vel) trúir því ekki að ég sé hérna til að ganga á fjöll.  Á hverju kvöldi spyr einhver mig hvað ég sé í ,,alvörunni" að gera hér?  Hvort það sé rétt að ég ætli að vera hérna fram í miðjan júlí?  
 
Þau grunar að ég sé að flýja eitthvað.  Og það er rétt.  Ég er að flýja smæðina í Reykjavík.  Ég er að flýja fólk.  Ég þurfti að fá frið til þess að hugsa og mér finnst ég hafa fundið hann hér.  Standandi ofan á skriðjökli í conversskóm og gallabuxum, gónandi ofan í sprungur og það eina sem rýfur þögnina er þegar molnar úr jöklinum og ég heyri ísklumpana skella í ánni sem rennur beljandi grá undan honum.  
Hér er ég loksins einn með sjálfum mér og veit að þetta er bara einn áfangastaður á ferð minni.  Hinir eru 27 fjallstindar og svo áframhaldandi ferðalag og leit að staðnum þar sem tíminn sefur, staðnum þar sem allir hlutir hafa misst merkingu sína og orð.  Og orð verða óþörf. 

Lost in Iceland

Og hvernig stóð á því að ég vaknaði upp með jökul falin í þoku fyrir aftan mig og svarta sanda fyrir framan mig? 
 
Ég veit það ekki? 
 
Ég settist niður fékk mér að reykja.  Og hér hef ég verið í næstum tvær vikur og búinn að díla um fæði og húsnæði í svo langan tíma...

Og krakkarnir sem þjóna hérna rukka mig aldrei fyrir áfengi.
 
Og hingað er ég kominn til að ganga fjöll (og hef verið duglegur við það) til þess að gleyma öllum þeim konum sem ég hef kynnst, þeim konum sem ég hef gifst.
 
Öllu þvi sem miður hefur farið....

Og allt í einu er ég hamingjusamur.  Standandi einn uppi á jökli.  Sitjandi í rökkri að skrifa.
 
Hér verð ég meðan sjóðir endast!
 
 
 

Verkfalli lokið

Datt aftur í sama gamla farið á leiðinni heim þegar ég sá mann með íbogna og mjög svo langa pípu standa á götuhorni með hendur fyrir aftan bak, rugga sér og reykja.  Og mér varð samstundis hugsað til pípukaflans í Íslenskum aðli og hversu hégómlegur Þórbergur hafi verið að halda að langar og bognar pípur gerðu mann gáfulegan.  Svo ég hló, gekk fram hjá pípureykingarmanninum sem hugsanlega hélt að yfir hann færðist 19. aldar menntamannsbragur með svona fallegri pípu og glotti að honum eins og ótíndur götustrákur.  Og allt í einu var ég hættur að hugsa um hamborgara og pizzur og farinn að hugsa um texta og gamlar bækur og sérvitra karla og byrjaði að labba hraðar í stað þess að dóla mér eins og maður sem ekki á neitt erindi á neinn stað.  Þess í stað gekk ég hratt og rakst utan í fólk því að ég hafði munað það að ég þyrfti ekki á neinu lifandi fólki að halda, bara því sem eitt sinn hafði verið og skrifað, og heilum helling af brennivíni til þess að létta mér lundina um helgina.  Því að ég ætla að bjóða heilan velkominn til starfa aftur með því að fremja á honum hryðjuverk í formi áfengisdauðra heilasella og sökkva mér niður í bækur og skrifa og tónlist og gefa skít í þetta fólk þarna úti.  Ég þarf ekki á því að halda og það sérstaklega ekki á mér!

Því verður hinu fróma plani um að draga stúlku út í drykkju, stungið undir stól og ekki dregið þaðan aftur á meðan ég get haft ofan af fyrir mér á annan hátt.  Því að síðustu dagar hafa verið langir og andlausir og mér fundist eins og það væri ekkert lengur neitt til þess að lifa fyrir nema CSI og annar álíka hroði sem ég hef verið að horfa á.  Og ég ætla að gera samkomulag við hausinn á mér.  Ef hann hættir svona verkföllum skal ég ekki misþyrma honum með neinu nema áfengi og bókum - aldrei oftar sjónvarpsefni og auglýsingabæklingar frá Bónus með gulnuðu svínaketi á forsíðu!


Breytingar, breytingar...

Það er kominn föstudagur en samt er ennþá allt í verkfalli hérna uppi (bendir á höfuð sitt) og ég skil ekki hvað ég á að gera?  Er búinn að fletta í velskrifuðum meistaraverkum, hlusta á tónlist, bjóða áfengi sem mútur en er jafn heimskur og andlaus og undanfarana daga.  Er allt í einu skíthræddur um að ég sé kominn á eitthvað breytingarskeið, að aldurinn hafi loksins rænt mig allri skapandi hugsun, að ég muni aldrei láta mér detta neitt annað í hug en pulsur til þess að hafa í matinn.  Oj. 

Kannski ætti ég bara að taka þessari heimsku fagnandi?  Að halda upp á daginn í dag sem þann fyrsta í mjög svo hamingjusömu lífi þar sem efi og tilvistarspeki er fyrir  bý og allt mun snúast um það eitt að koma sem mestu kjöti og öli í minn mjóslegna maga?  Að ég muni héðan í frá verða ánægður með það sem lífið rétti að mér.  Hætti að gera kröfur um eitthvað sem heitir andlegsæla og fókusi bara á það að hafa skrokkinn sæmilega mettan og sælan.  Sé fyrir mér að dvd og bókasafnið mitt breytist.  Allt sem er þungt og tormelt verði selt í Kolaportinu eða skipt á því og heildarverkum Farellybræðra.  Jafnvel innbundið í leður.

Þessi dagur færir mig hægt og rólega nær andlegri glötun en líkamlegri vellíðan.  Núna er ég að hugsa um stóra pizzu með þremur kjöttegundum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband