Færsluflokkur: Bloggar
1.5.2008 | 21:00
Að þegja
Klukkan fjögur gekk ég fram hjá kaffi Hljómalind, þar sat stúlka við borð og talaði. Hún sat þar eins og hún hefði ekki hreyft sig fjórum og hálfum tíma síðar þegar ég var á leiðinni heim. Ég öfundaði hana að hafa frá svona miklu að segja að geta bara blaðrað út í eitt. Ég segi alltaf færra og færra og brátt mun ég eflaust hætta að tala utan vinnutíma. Sem dæmi, fór og heimsótti foreldra mína. Skiptist á tíu orðum við þau. Og fannst eins og ég hafði ekki samkjaftað. Það var samt áætt að heimsækja gömluhjúin og þegja með þeim. Góð tilbreyting frá því að þegja einn. Ég ætti kannski að íhuga það að fara út úr húsi um helgina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.5.2008 | 14:30
Enn og aftur úr karakter
Ég ætla að halda áfram að vera óstarfhæfur í dag. Það fer mér mjög vel að látast bara berast með straumnum í nokkra daga. Slökkt á öllu. Og ég brosi eins og vanviti. Djöfull er ég eitthvað ólíkur sjálfum mér en það er samt í lagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2008 | 20:33
Error
Allt bilað sem getur bilað. Búinn að hengja miða framan á mig: lokað vegna bilunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2008 | 21:12
Fiskar synda
Fyrir nákvæmlega sextán árum lokaði ég mig inni í kjallaranum þar sem ég bjó hjá foreldrum mínum til þess að lesa undir stúdentspróf eins og aðrir jafnaldrar mínir. En í stað þess að lesa þau ágætu fræði sem mér hafði verið sett fyrir þambaði ég te og Jack Daniels frá morgni til kvölds og keðjureykti og skrifaði fyrstu skáldsöguna sem ég hef skrifað. Ég man að ég hamraði hana manískur á silverreed ritvél og þúsundir a4 arka urðu hroðanum að bráð. Og þegar vinir mínir luku prófum sat ég fölur og óvenju horaður og eflaust timbraður fyrir framan 400 bls bunka af þéttvélrituðum örkum og spurði sjálfan mig að því hvort það hefði verið þess virði? Auðvitað ver það ekki þess virði því að við hátíðlega athöfn að einum vini mínum viðstöddum var bunkinn brenndur úti í garði hjá honum í veislu sem haldin var vegna þess að hann fékk að setja upp skrítna húfu. Sjálfur lenti ég í leiðeindar stappi við æðri menntastofnanir vegna þess að ég lauk aldrei þessum 14 einingum sem ég átti eftir en auðvitað hafði ég alltaf betur á endanum. Og þau leiðindi eru meira að segja líka gleymd eins og þessi bók sem enginn veit um hvað var en ég man að ég hlustaði mikið á þetta lag meðan ég hamraði hana skjálfandi af tei og viskí og það rigndi yfir utan kjallaragluggann og herberið mitt var ljósblátt og mér fannst ég stundum vera fiskur í búri...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2008 | 20:41
Að detta úr karakter!
Ég er búinn að öskra og hoppa upp og niður og stappa í gólfið af svo miklum móð að helvítis pólverjarnir á hæðinni fyrir neðan mig hafa slökkt á teknóinu og hjúfra sig eflaust að hvor öðrum skíthræddir um að ég sé gjörsamlega búinn að fá nóg af þeim og stígi stríðsdans meðan ég brýni axirnar sem ég ætla að nota til þess að höggva þá í búta í baðkarinu. En svo er ekki rauninn. Ég datt örlítið úr annars rósömum og yfirveguðum karakter þegar man.utd tryggði sér ferð í úrslit meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í níu ár!!! Og ég sem sat annars nokkuð yfirvegaður yfir leiknum (sem ég horfði á í tölvunni sökum þess að ég treysti mér ekki svona kvefaður á bar) og lapti örlítið rauðvín (lesist á aðra flösku) og hafði ekki fyrir því að fara úr vinnugallanum (og núna er bindið sem svitaband um ennið) og slökkti á símanum og blokkaði einu stúlkuna sem nennir af mér að vita á msn og öskraði úr mér lungu, sál og geðheilsu! Það var mjög hressandi. Enda ást karlmanns á knattspyrnuliði eitthvað sem er dýpra og heilagra en ást hans á konu eða börnum eða hundum og köttum og blómum og sólarljósi... Sú kennd verður aldrei útskýrð til fullnustu enda er ég að hugsa um að sofa með einhvern af man.utd bolunum mínum í fanginu í nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.4.2008 | 18:43
Bloggheimur ærist
Það er alltaf jafn fróðlegt að sjá hvað bloggheimur verður alltaf yfirvegaður þegar fréttir af meintum barnaníðingum rata á forsíðu mbl.is. Tjúllast þá flestir og heimta blóð og helst meira en í líkama hins seka leynist. Verður reiði og hefndarþorsti sumra bloggar svo mikill að fara þarf aftur til daga rannsóknarréttarins til þess að sjá fólk jafn sannfært um að þeir seku skulu brenndir lifandi að undan gengnum aflimunum, helst í augsýn almennings. Nú ætla ég ekki að reyna að réttlæta gerðir herra Fritzl, frásögnin af misnotkun hans með þeim ljótari sem maður hefur lesið um en ég skil ekki hvers vegna eitthvað lið uppi á hinu kalda Íslandi þarf að heimta líf þessara ellilífeyrisþega? Hversvegna á óréttlæti að vera refsað með frekari óréttlæti? Og hversvegna er fólki svona í mun um að kynferðisafbrotamönnum sé hengt með kvöl, pínu og dauða? En það viðhorf birtist alltof oft í skrifum bloggara. Þar sem dauðarefsingar eru við líði eins og í mörgum Bandaríkjum Norður-Ameríku, hefur það fyrir löngu sýnt sig að þær hafa ekki neinn fælingarmátt frá glæpum og þeir sem fremja glæpi eiga sjaldnast von á því að vera dæmdir fyrir þá, hvað þá til dauða. Og furða sig yfirleitt manna mest á því þegar þeir eru leiddir síðasta spölinn í þessu lífi. Þannig að hækkun á refsingum, jafnvel aftökur á miðju Lækjatorginu (sem mundu gleðja blóðþyrstustu bloggarana) hafa ekkert að segja um það hvort að barnaníðum mundi fjölga eða fækka. Það eina sem mundi gerast er að slefandi fífl og fábjánar mundu stöku sinnum safnast saman opinberlega og garga af hrifningu þegar hausar færu að rúlla. En það var löngum helsta skemmtun moldarétandi almúgans, bæði hérlendis sem og annarstaðar, á miðöldum að klappa yfir velframkvæmdri dauðarefsingu. Og það verður að teljast helvíti magnað að það sé ennþá til fólk sem finnst að auga fyrir auga, tönn fyrir tönn eigi að gilda sem almennt réttlæti. Það sama fólk vill væntanlega þá að konur sem geta ekki feðrað börn sín séu drekkt. Að þeir sem stela snærisbút missi framan af fingri og séu brennimerktir, þeir sem ekki borga skattinn sinn skulu dæmdir til þess að þræla í tíu ár upp á vatn og brauð uns skuldin er greidd, að sá sem mætir ekki til vinnu skulu hýddur í votta viðvist tuttugu svipuhöggum... Eða eru það bara barnaníðingar sem eiga að hljóta miðaldarrefsingu?
![]() |
Hótaði börnum sínum dauða í kjallaranum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.4.2008 | 16:42
Og ástandið er ekki að batna
Á leiðinni heim hugsaði ég með mér hvað ég er heppinn að vera ekki með hárkollu. Þá væri ég eflaust núna á Laugaveginum að skríða undir bíla eða klifrandi í trjám í veikri von um að endurheimta það sem halda ætti hita á höfðinu á mér. Reyndar er ég ekki týpa sem væri með kollu límda á hausinn ef ég væri sköllóttur. En það er gaman að ímynda sér það í þessu hvassviðri.
Kom við í háskólanum sem eyðilagði mig og fékk frábærann feril minn sem námsmanns vottaðan á öllum þeim tungumálum sem ég mundi eftir að séu töluð og skrifuð í þessum heimi. Fór svo og skutlaði inn óvandaðri umsókn um rándýrt framhaldsnám sem ég hef svo sem engan áhuga á því að læra en sæki um bara venjuleg illgirni og þeirri von að taka pláss frá öðrum. Svona mannvonska ræður oft um það að ég sæki um hitt og þetta í þessum heimi. Reyndar er eitt nám í boði hérlendis sem ég er spenntur fyrir en það er kennt á Bifröst sem er norðan við hinn byggilega heim og því ekki fræðilegt val. En ég er að hugsa um að hafa þann möguleika í haust að dunda mér við eitthvað nám, fari svo að ég finni mér ekki neina spennandi vinnu við hæfi.
Annars er lítið héðan að frétta. Vinnudagurinn í gær var svo erfiður að hann lagði mig eins og ungabarn beint í rúmið að honum loknum og ég er ennþá drullu kvefaður svo ég fer ekki að horfa á seinni leik man.utd - Barcelona í kvöld. Og er ennþá eitthvað svo langt frá mínu besta að mér dettur ekki einu sinni neitt í hug til þess að ergja samborgara mína með. Mér leiðist að vera þessi skuggi af sjálfu mér. Hann er svo leiðinlegur og fer svo mikið í taugarnar á mér að mig langar til þess að öskra - ARRRRGGGG!
Heimurinn er að verða eins og lag sem William Shatner syngur. Gjörsamlega vonlaust, falskt og á góðri leið með að gera mig geðveikan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2008 | 16:17
Að drepa tímann
Það var bara skítsæmilegt að mæta aftur til vinnu þótt að ég ætti það til að fá hóstaköst í mestu leiðindunum og blána í framan eins og ég væri að kafna. En það er bara gaman af svona krankleika. Annars er ég enn að jafna mig eftir selskapinn í gær. Sennilega talaði ég úr mér allt vit í þessari veislu. Og hef það allt í einu á tilfinningunni að mér sé ofaukið í þessu samfélagi. Ég er búinn að koma þessu barni mínu til manns og þar sem konur hafa farið mjög sparlega í það að feðra börn sín mér, þá sé ég ekki fram á neitt meira að gera. Drengurinn á eflaust eftir að komast þessa hefðbundnu leið í gegnum menntakerfið án minna afskipta. Og ekki geri ég mikið gagn hérna í vinnunni. Sé það á því að allt gekk nokkuð veginn eftir áætlun meðan ég var veikur. En það eru 31 ár eftir í ellilífeirinn. Hvernig í andskotanum á ég að fá tímann til þess að líða þanngað til?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2008 | 22:03
Ferming
Í dag var sonur minn tekinn í fullorðinna manna tölu með tilheyrandi hippa serimóníu sem karl faðir hans ekki skildi. En hann stóð sig vel og var ótrúlega töff og flottur á sviðinu. Og hélt frábæra ræðu í upphafi veislunnar. Reyndar ekki langa en ef tekið er mið af karlmönnum í föðurætt hans, þá verða þær lengri og póstmódernískari þegar aldurinn færist yfir. Um áttatíu manns voru í veislunni og maturinn og kökurnar frábærar, einu orði sagt. Við kunnum að halda veislur, það verður ekki tekið af okkur. Og við foreldrar hans og stjúpi vorum ofboðslega montin og stolt af drengnum þrátt fyrir að afrekið á bak við þessa fermingu hafi verið að mæta vikulega í tíma og halda sér vakandi. En þetta er líka hátíð fjölskyldunnar en ekki bara fermingarbarnsins. Ég vartiltölulega lítið félagsfælinn og hafði gaman af því að hitta ættingja barnsmóður minnar sem suma hverja ég hef ekki hitt í áratug eða meira. Skemmtilegast held ég samt að hafi verið þegar drengurinn kom og spurði: pabbi, hvað ætlarðu að gera um næstu helgi? Ég sagði að það væri óráðið. ,,Ég var að pæla í að bjóða þér fínt út að borða, ég fékk svo mikla peninga í fermingargjöf!" Honum langaði semsagt að fara í jakkafötum með föður sínum á fínt veitingarhús og borða steik eins og fullorðinn maður. Ég sagði að við skildum bíða með það, ég gæti boðið honum út að borða í sumar við tækifæri ef hann endilega vildi dressa sig upp en að hann ætti ekki að eyða sínum peningum í að fita og fylla föður sinn. Og svo komst ég að því að mái verður troðfullur af veislum sem ég verð að mæta í með þessum ágætu ættingjum mínum. Frábært tækifæri fyrir drenginn að æfa sig í borðsiðum í þeim, áður en við förum að verða reglulegir gestir á betri veitingarhúsum bæjarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.4.2008 | 19:41
Undirbúningur
Varði deginum í því að vera ekki fyrir við fermingarundirbúning. Og stóð mig vel í því. Tókst alltaf að komast hjá erfiðum og flóknum verkum og gera mig ósýnilegan og heyrnalausan þegar mamma kallaði á mig. Sérstaklega varð ég daufdumbur þegar hún sagði mér hvað ég ætti að borga. Loksins þegar hún náði athygli minni með kostnaðinn þá spurði ég hvort að þetta væri ekki örugglega upphæðin í gjaldmiðli Trinidad og Tobacco? Nei, víst þessum hraðfallandi íslensku krónum. Og eftir að hafa borgað minn hlut þá verð ég víst að segja mig á sveitina til þess að geta átt fyrir hnefafylli af grjónum til þess að lifa af út mánuðinn. Og núna liggur við að ég óski þess að sonur minn verði aldrei stúdent eða giftist eða eitthvað annað sem krefst þess að karl faðir hans þurfi ekki að opna sín mögru pyngju. Jæja, á mánudaginn þarf ég að fara og leysa út hluta af sparnaðinum mínum sem ég hafði ætlað að nota til þess að lifa óábyrgu og rótlausu lífi í sumar fyrir. Sem betur fer sé ég ekki fram á aðrar fermingar í bráð svo það er óþarfi að gráta mikið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)