Færsluflokkur: Bloggar
17.4.2008 | 17:43
Genaflækjur
Það sem hrjáir mig er slavnesku genin sem ég hlaut frá móðir minni. Þeim fylgja alheimsþunglyndi og sú tilfinning að ég sé í raun og veru persóna úr bók eftir Dostojevskí. Og með morð á samviskunni. Frá föður mínum fékk ég írsk gen. Þeim fylgir þorsti í lífsins vatn og Joyceísk snilligáfa sem sjaldan brýst út nema þegar ég er einn á næturnar og frem þessa furðulegu dansa sem fáir hafa séð. Þessi gen valda því að ég er ólíklegur til afreka á öðrum sviðum en dansmennt. Afgangurinn af mér er íslenskur. Því fylgir minnimáttarkennd. Ég er kominn af þjóð sem er full af minnimáttarkennd yfir því að vera til. Og reynir að breiða yfir vanmáttinn með því að eignast allan heiminn. Þess vegna er ég alltaf uppfullur af plönum um að sigra og verða eitthvað! Helst svo mikið að það verðir reist af mér stytta á fjölförnu torgi eða settur skjöldur úr bronsi á öll þau hús sem ég hef búið í. En helvítis slavagenin, þau fá mig alltaf til þess að fallast hendur. Því að ekkert er þess virði að byrja á því eða klára því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi. Þess vegna leyfi ég yfirleitt Íranum í mér að sigra. Hann er kátastur og skemmtir sér alltaf vel, hvort sem það er í margmenni eða glimrandi einsemd. Ég ætla að fara að ganga út á Gróttu og vökva snilligáfuna sem er dæmd til þess að sturtast eins og hvert annað hland, niður í salernið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.4.2008 | 14:41
Samviskubit
Þegar maður hefur skrópað í vinnuna bíða manns því miður einhver óleyst verkefni. Gæti trúað því að ég þyrfti að hangsa hérna aðeins lengur í dag. Sem er drepleiðinlegt. En það er þá bara að tóra hérna og vona að kvöldið verði betra? Það sem mun koma mér í gegnum daginn er mikið kaffi og tónlist í botni (er einn hérna núna) þannig að þetta er næstum því eins og vera heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 23:03
Brúðkaup og ökuferð
Þetta lag minnir mig alltaf á stúlkuna sem eyðilagði brúðkaupsveisluna þegar ég gifti mig með ótímabærum yfirlýsingum um ást hennar til mín. En henni hefur verið fyrirgefið það fyrir löngu. Einu sinni fórum við í ökuferð um óbyggðir Íslands og stoppuðum í hverri einustu sjoppu til þess að leita að sérvitringum og drykkjusjúklingum (töldum þetta rannsóknarferð í sálfræði) og enduðum svo blindfull á Risebar eða eitthvað álíka í Hólmavík og sváfum í einbreiðu rúmi í gallabuxunum og ég held að ég hafi jafnvel verið í leðurjakkanum líka. Varð hugsað til hennar því að hún sendi mér boðsbréf í pósti um það að hún ætli að ganga í hjónaband í vor með mannsefninu sínu. Ég ætla ekki að standa upp í kirkjunni og öskra að ég elski hana og að hún eigi að velja mig en ekki hann, því að það væri lygi. En vorið og sumarið 2005, þá skemmtum við okkur ofboðslega vel þótt að ég hafi aldrei rennt í grun að hún bæri einhverjar aðrar tilfinningar til mín en vináttu. Svona gengur þetta víst en ég söngla með laginu: I wonder if we´ll meet again...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.4.2008 | 20:33
Memento mori
Stóð úti á svölum áðan og horfði yfir portið og naut þess að vera undir gráum vorhimni. drakk Hennessy úr vatnsglasi eins og ruddi og hugsaði með mér að það væri gaman að blása sápukúlum og horfa á þær svífa yfir ruslatunnunum og ælupollinum sem annar pólverjinn skildi eftir sig í gær. Rómantísk tónlist í stofunni og ég hvarf treglega aftur inn til þess að sinna helvítis skriftum en ég var víst skammaður fyrir leti og að virða ekki deadlines í dag.
Og núna sit ég og blogga, endurskrifa og punkta niður. Og set saman mail handa elsku systir minni í Berlín; eitthvað þunglyndislegt og dapurlegt og grátt um það að andadráttur borgarinnar sé þrunginn dauða og ég fái ekki sofið og bleikir skuggar leiki um þilið. Já, stelum þessu öllu beint frá Hannesi og öðrum módernistum ef það fær litlu systur til þess að sakana mín minna...
Ég hugsa um forn þrep sem grikkir hjuggu í bergið á brattri og eyðilegri hæð fyrir 3000 árum síðan og mig að puða þangað upp í hvítri skyrtu og gallabuxum og svitinn fær fötin til þess að límast við mig en upp fer ég samt til þess að sjá minnismerki sem á var letrað á latínu: memento mori! Og ég horfði á þessa styttu af engli með útbreidda vængi og sverð og vogarskál, kominn eflaust til þess að dæma lifendur og dauða og strauk hendinni yfir áletrunina: mundu að þú ert dauðlegur...
Sólin hvarf bakvið ský. Miðjarðarhafið varð samstundis grátt og ýfðist. Það rigndi. ég gekk hægt niður þrjátíu alda gömul þrepin og horfði á höfnina. Haustið 1904 réðist hvíthákarl á mann sem var að draga net upp í lítinn bát og beit hann í tvennt. Síðar réðist eflaust sama skepna á bát og hvolfdi honum, kona hvarf í hafið og sást ekki oftar. Best varðveitta leyndarmál landana við Miðjarðarhafið, ókindurnar í djúpunum...
Og núna hugsa ég um þessa ljótu styttu og þessa áletrun: memento mori. Hvað á ég að láta hana segja mér? Að fara varlega? Hætta að reykja og drekka, kaupa mér líftryggingu, skera fituna af kjötinu?
Mundu að þú ert dauðlegur!
Ég veit það ekki? Ég er bara þessi horaði hálfmaður. Ekki maður og ekki strákur. Ekki fullorðinn en þó ekki barn. Og sit hérna í grárri birtu vorsins með sígaretturnar mínar og koníakið fyrir framan mig og símann. Fokkings símann.
Kunningi minn gifti sig síðasta sumar. Hann skildi strax því að hann greindist með æxli á stærð við handbolta við lungun og vildi ekki gera konuna sína að ekkju. ég skildi ekki það viðhorf? Svo var hann skorinn upp og æxlið fjarlægt. Hann fór að hringja í mig í vetur eftir nokkurra ára samskiptaleysi, honum fannst alltaf gaman að drekka með mér. Ég veit ekki hvar hann drekkur? En hann er ekki hjá konunni sinni.
Gömul menntaskólavinkona varð ekkja í sumar. Þrjátíu og fimm ára. Ég hef nokkrum sinnum hitt hana etir það. Augun í henni eru alltaf rök og hún á það stundum til að strjúka mér um handlegginn og segja eitthvað sem hefst á: manstu? Manstu hvað mér þótti hann ljótur fyrst þegar ég sá hann?
Memento mori.
Man erindi úr þýsku ljóði: Til þess að lifa verður þú fyrst að læra að deyja...
Ég vildi að það færi að rigna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 19:14
Hvít jakkaföt
Var að taka til í skápum þegar ég rakst á hvítu jakkafötin mín sem ég held að ég hafi bara notað einu sinni? Það var í ágúst og ég fór í þeim til að horfa á opnunarleikinn í enskaboltanum. Svo ekkert meir. Mér finnst ég alltaf vera eins og glæpamaður þegar ég er í þeim. Eða atvinnu flagari sem tælir eldri konur og hefur af þeim sparifé þeirra. Sem er, þegar maður hugsar út í það,stórlega vanmetin atvinnugrein. Það er spurning um að leggja það kannski fyrir sig?
En ég komst í svo gott skap við að máta fötin að ég hefði rokið í þeim út ef ég væri ekki að skrópa í vinnuna eins og hálfviti. Ætla samt að lauma hérna myndbandi með smekkmönnum í svipuðum fötum og ég á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 15:41
Góður staður
Ætlaði að blogga um einhentan mann sem ég sá drekka séniver á bar á heimsenda einu sinni. Það var engin á barnum nema hann sem sat og þjóraði með aðra úlpuermina dinglandi tóma...
Svo kom inn kona sem hefði getað verið vændiskona á eftirlaunum og bað um bjór. Og úti hnituðu mávar hringi yfir barnum og brim svarf klappir og ég hafði ekki hugmynd um hversvegna ég var staddur þarna. Sat bara og fylgdist með þeim einhenta verða fyllri og fyllri.
En ég hætti við þessa færslu. Hún hafði ekkert upphaf eða endi. Og þjónaði engum tilgangi. Nema bara til að segja að þegar ég stóð upp skálaði sá einhenti við mig og sagði: óþarfi að fara, allir staðir eru eins. Þessi er ekki svo slæmur!
Með það hvarf ég út og horfði á fjöll og haf og hugsaði með mér að þetta væri ekki svo slæmur staður til þess að vera á...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2008 | 13:51
Að skrópa
í dag er ég eiginlega að skrópa í vinnuna, er ekki veikur lengur en líður eins og ég sé tíu ára að hlaupum undan tónmenntakennaranum því að ég vil ekki singja do re mí... En hann náði mér aldrei til þess var hann of feitur og mikið af nýbyggingum sem ég gat falið mi gí. Á þó ekki von á því að félagsmálaráðherra komi æðandi hingað inn og spyrji hversvegna ég sé að skrópa? Enda fengi viðkomandi þá uppsagnarbréfið mitt beint framan í sig. Búinn að skrifa það. Nú er bara að drekka í sig kjark og ýta á send...
En til þess þarf víst sterkari drykki en teið mitt græna sem ég er að sulla með. Horfi á það og fitja upp á nefið af fýlunni. Ojj bara að það sé ætlast til þess að maður drekki þetta?
Annars er magnað partý á neðrihæðinni. Byrjaði klukkan níu, fór áðan niður (var reyndar í símanum) bankaði á dyrnar og óð inn og lækkaði sjálfur í tölvu þeirra Pólsku, ullaði á þá og fór út. ég er ekki betri en svo. Og núna eru þeir að hefna sín, sennilega búnir að tengja tölvu drusluna í magnar. Allt titrar og skelfur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 08:59
Þetta mun enda með ofbeldi
Og maður vaknar upp fyrir klukkan átta við taktinn og trommusláttinn. Það er víst byrjað party hjá þeim pólsku! Og ég ætlaði að vera veikur en sé fram á það að það verður meiri hvíld í vinnunni! Ótrúlegt hvað fólk getur tekið daginn snemma í drykkju og dópneyslu! Brátt fer ég að finna mér rörbút úr járni og geng svo í skrokk á þessum aumingjum og lendi á mbl.is sem maðurinn sem gafst upp helvítis pólverjunum og fæ dóm fyrir það eitt að vilja fá frið til þess að sofa. Það verður leitt. En ég er alveg að verða brjálaður á þessu sambýli við þessa aumingja. Þessir menn eru mestu skíthælar sem ég hef komist í návígi við. Þegar þeir eru ekki ælandi út ganginn og dauðir fyrir klukkan fimm þá eru þeir dansóðir. En ég man ekki eftir því að þeir hafi startað partýi svona snemma - fyrir klukkan níu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2008 | 18:57
Öll þessi ást...
Stalst aftur út því að mig vanhagaði um eitt og annað úr búðum því að ekki borða ég nýhreinsuðu jakkafötin, þótt að þau bláteinóttu líti út fyrir að vera ætileg. Og á leiðinni, nánar tiltekið í portinu fyrir aftan Brynju þar sem félagi minn rekur eitthvað jaðarfyrirtæki sá ég stúlku og pilt kyssast áfergjulega eins og dagurinn í dag væri sá síðasti í þessari veröld. Og mér hlýnaði um hjartaræturnar við það að sjá þessa ást eða girnd í unglingunum (jæja segjum svona ca 25 ára) að ég táraðist næstum af fögnuði og fannst eins og á sömu stundu upplifði ég öll mín ástarævintýri í einu og bak við sólgleraugun birtust myndir af mörgum brosmildum stúlkum með blik í augum. Og ég næstum valhoppaði heim með aulalegt bros á vör sem var ekki í neinum takt við svart átfittið, sólgleraugun og þann venjulega fyrirlitningarsvip sem ég hef tamið mig á að setja upp þegar ég er innann um pöpulinn.
Og núna stend ég í eldhúsinu og hlusta á dramatísk ástarlög og sker niður epli sem ég ætla að steikja með fisknum og horfi út í portið þar sem einn Pólverji sitjur á tröppum með höfuðið á milli hnjánna og ælupoll og bjórdós fyrir framan sig og ég held að kvöldið í kvöld verði ekki eins hávært og vanalega þar sem helmingurinn af nágrönnum mínum virðist hafa dæmt sig úr leik, í bili! Og ég ætla að skála fyrir öllum þessum konum sem skilið hafa eftir sig varalit á rauðvínsglösum hjá mér í gegnum tíðina. Og ég ætla að skál fyrir öllu þessu unga fólki sem búið er að finna eitthvað sem það getur kalla ást. Og ég ætla að skála fyrir syni mínum og láta mig hlakka til þerrar stundar sem ég þarf að hugga hann í hans fyrstu ástarsorg...
Frá tölvunni berst örvæntingarfullur söngur: amphetamin thin with teen drinkers skin/and never stop to worry about mess that you are in...
Minnir mig á stolinn koss á N1 bar árið 1991 og granna stúlku með rauðbrúnt hár og dökk augu og pönkaraklippingu í alltof stórum leðurjakka og grænu pilsi. Og síðar sátum við fyrir neðan Sólfarið og deildum bjór og það var vor og hétum hvort öðru ævilangri vináttu. Nú hef ég ekki heyrt frá henni svo lengi...
En vorið er ekki tími fyrir endurminningar. Vorið er tími aðgerða og ásta. Alla veganna fyrir þá sem eru ungir og með opinn hug og tilbúnir að skemmast, brennast, særast, giftast, skilja og verða svo draugum að bráð...
Og á eftir vorinu. Á eftir vorinu kemur þetta ljúfa og stutta sumar með öll sín tækifæri og ævintýri. Ég ætla þegar ég kem heim frá Berlína að taka mér tíma til að skoða landið eins og í fyrra. Og liggja í votu grænu grasi hjá fossi sem úðar yfir mig dropum og heyra ekki neitt nema niðinn í vatninu...
Því að vorkoma á þessu skeri í Dumbshafi er ekki bara vorkoma, heldur örlítið kraftaverk sem vekur fólk úr dvala eins og þegar birnir skríða úr hýði. Og fólkið hér hungrar jafn mikið og magra birni, bara ekki eftir kjöti, heldur hamingju og ást.
Það er fegurðin við þetta land, þessa þjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2008 | 14:42
Nicole Kidman, flóðhestur og klæðskiptingur
Þessi frétt sýnir nú bara hvað kynni á netinu eru varhugaverð! Ég man eftir vini mínum sem fór á stefnumót fyrir nokkrum árum við stúlku sem hann hafði kynnst á netinu og lýsti sér eins og yngri útgáfu af Nicole Kidman. Þetta var fyrir daga digitlamyndavéla og fólk varð að láta sér lýsingar eða skannaðar myndir nægja áður en komið var að því að bóka deit. Strákurinn sat spenntur inni á bar og beið taugaóstyrkur og ímyndaði sér að honum yrði hafnað þar sem hann væri nú ekki nógu sætur til þess að deita svona ofurskutlu. Í hvert sinn sem stúlka gekk inn á barinn, hrökk hann taugaóstyrkur í kút því að hann var svo kvíðinn. En ekki kom gyðjan. Þegar hún var orðinn þessum venjulegu fimmtán mínútum of sein sem fallegar konur leyfa sér, dimmdi allt í einu inni á barnum um leið og útidyrnar opnuðust. Í dyragættinni stóð flóðhestur sem hafði troðið sér í háahæla og eitthvað sem virtist vera segl hafði verið saumað utan um dýrið. Var rautt strý á höfði skepnunnar. Og kom hún kjagandi beint til þessa félaga míns og heilsaði. Settist niður og pantaði sér glas. Var þar komið deitið sem lýst hafði sér sem Nicole Kidman. Rauðhærð var hún en lengra náði samlíkingin ekki. Vinur minn var ekkert rosalega hress og til þess að kóróna að því er honum þótti niðurlæging, var fyrrverandi kærast hans gengilbeina á þessum bar. Hugsanleg hefur hann ætlað sér að sitja með fljóðinu fagra til þess að svekkja hana. Lítið varð hún svekkt en þurfti því oftar að bregða sér afsíðis til þess að hlæja. Drakk nú þessi vinur minn glas með flóðhestinum þögull áður en hann strunsaði út.
Held að það sé ekki fyrir heilvita fólk að treyst því sem fram fer á netinu. Gamlir karlar hanga á stefnumótsíðum dulbúnir sem táningar til þess að tæla til sín bráð. Fólk bloggar undir óljósum myndum af hverjum sem er og gefur ekki upp nafn og kennitölu (eins og ég). Fólk eflaust líka fegrar sig og bætir þegar það býr í haginn fyrir stefnumót í þessum venjulega heimi sem flest okkar lifa í. Og því kemur mér það ekkert á óvart að maðurinn hafi kvænst manni. En fyndið að uppgötva það ekki fyrr en á brúðkaupsnóttina, fólk á miðjum aldri með einhverja sögu á baki um kynni af hinu kyninu? Er búinn að senda þessa frétt á vin minn til þess að minna hann á það að þrátt fyrir allt var hann svo lukkulegur að deita eitthvað úr dýraríkinu en ekki klæðskipting. Það hefði hugsanlega getað riðið honum að fullu?
![]() |
Vonbrigði á brúðkaupsnóttinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)