Færsluflokkur: Bloggar

Tíðindarleysi

Drengurinn kom fimm og vildi borða snemma.  ég lét hann skera niður allt hráefnið á meðan ég yfirheyrði hann um skólann.  Svo eldaði ég pottrétt og hitaði brauð.  Hann spurði hvað ég ætlaði að gera í kvöld?  Ekkert svaraði ég.  Hann ákvað þá að vera áfram og horfa á einhverjar bíómyndir.  Mér finnst þægilegt að hafa hann þótt að hann sé horfinn inn í heim sem ég tek ekki þátt í: horfa á dvd, lesa og senda og svara smsum, allt í einu.  Ætli ég væri svona fjölhæfur ef ég væri á fjórtánda ári í dag?

Bróðir minn hringdi á meðan ég var að elda.  Sagði mér að hljómsveitin sem hann er í stæði tilboða útgáfusamningur í Bandaríkjunum.  Ég sagði að það skipti ekki máli hversu ómerkileg hljómsveitin væri, ef hún væri frá Íslandi, mundi hún meika það úti.  Hann sagði að meik væri nú lagt undan.  Spurði mig síðan hvort ég hefði farið á gjörningana í Samhjálp.  Ég sagðist ekki hafa haft áhuga.  Gjörningar væru eitthvað sem ég skildi illa.  Við ákváðum að borða saman eftir vinnu einhvern tíman í vikunni.

Ég er að spá hvort á eigi að setjast við hlið sonar míns í sófanum og láta skerminn mata mig eða halda áfram að lesa?  Það er eitthvað slen yfir mér?  Ég nenni engu.  það er ekki oft sem ég er svona ótrúlega andlaus og latur.  En það er samt eflaust gott inn á milli? 


Of mikið val

Þreif og lét erfingjann ryksuga ganginn.  Uppgötuðum síðan að leikurinn sem við ætluðum að horfa á er ekki fyrr en á morgunn svo drengurinn var leystur undan frekari skyldum við föður sinn.  Fékk að skokka til vinar síns í vesturbænum, dauðslifandi feginn að þurfa ekki að fara með mér að gera helgarinnkaup.  Ætlar svo að líta við á bakaleiðinni og borða með mér.  Ég er að hugsa um að fara og leita mér að bókum í Kolaportinu eða í sund.  Ekki búinn að gera það upp við mig.  Gæti samt líka bara skriðið upp í sófa með bók.  Ótrúlega mikið af valkostum alltaf hreint.


No more affairs

Ég lagði mig einu sinni fram um það að læra að dansa eins og sýnt er í meðfylgjandi myndbandi.  Einmitt í gömlum danssal sem var skreyttur með gylltri málningu og dempuðum ljósum í kristalsljósakrónum.

Sum kvöld var ég mjög góður, önnur stirður.  Held að örvænting og þrá geri mann að góðum dansara...

Og ég hef sungið með sjálfum mér eitthvað í líkingu við:  If I tremble in your armes/If I sigh through your hair... 

Og ég hef verið svo mikill elskhugi að ég hef gert lítið úr gönguferð Þórbergs þvert yfir landið til fundar við elskuna sína er ég hef hlaupið í gegnum fjandsamlegan bæinn bara til þess að falla að fótum tálsýnar eins og hann...

Og fyrir mörgum árum stóð ég á svölum eina vornótt og svalirnar náðu yfir framhlið hús við Hverfisgötu og þaðan mátti sjá fólk streyma frá börunum á Klapparstígnum og heyra bjórflöskur brotna og sírenurnar í sumarnóttinni og hlátranna en við heyrðum það ekki, þar sem við héldum utan um hvort annað og hreyfðum okkur hægt í hringi og það byrjaði að rigna.

Og ég hef setið mörg kvöld eins og þetta í kvöld og margar langar nætur og hugsaðu um liðna dansa, um fornar ástir og hversu oft:  but we caught the other/climbed into bed whit all our previous lovers...

Og tíminn líður.  En ég kann ennþá grunnsporinn í tangó.  Og ég kann ennþá að njóta þess að finna ilm af hári þétt upp við vanga minn.  Og þetta lag og þetta myndband minnir mig á það sem er liðið en líka á það sem er ókomið og verður.  Því að þótt að ég hafi lofað sjálfu mér því að flækja mig ekki í neitt sem ég ræð ekki við næstu vikur og mánuði, þá veit ég að það er eins með að dansa tangó og að elska.  Hafi maður lært það einu sinni, rifjast það upp við rétt tækifæri aftur.

     


Í stuði fyrir þunglyndi

Í stað þess að fara út að borða skokkaði ég upp á Háaleitisbraut og sagði hæ við afa og ömmu.  Drakk bolla af kaffi og neyddi ofan í mig kökur sem ég hafði ekki list á.  Skokkaði aftur downtown og keypti mér skyndibita.  Er ekki að reyna að grenna mig með þessu skokki, frekar að koma mér í form.  Er 8 kg léttari í dag en sama tíma í fyrra.  Sturtaði mig og spjallaði í síma við vini og kunningja.  Sumir eru að halda matarboð, sumir eru að fara á tónleika, einn félagi minn stakk upp á því að við mundum hittast og tefla.  Ég frestaði því til morguns.  Var eiginlega of þreyttur í líkamanum til þess að fara að rölta upp á Grettisgötu.  Er í stuði fyrir einveru, depurð og þunglyndi.


Enn ein höfnunin

Hringdi í son minn og spurði hvort að hann hefði áhuga á því að fara í bíó í kvöld?  Nei, ég er upptekinn við annað!  Hvað, sagði ég, getur verið merkilegra en bíóferð með föður þínum?  Vinir mínir tildæmis, var svarið?  Þér verður ekki boðið í bíó aftur á þessum áratug hótaði ég!  Skiptir ekki máli, svaraði hann, ég fékk útborgað um mánaðarmótin og get farið í bíó þegar ég vill!  Óþolandi sjálfstæði hugsaði ég með mér en við sammæltumst um að fá okkur pizzu og horfa á fótbolta á morgunn.  Ég verð bara að sætta mig við það að vera ekki skemmtilegri kostur á föstudagskvöldi en þetta.  Ætla að athuga hvort að myndirnar mínar séu komnar ef ekki þá ætla ég að borða úti og fara svo tiltölulega snemma undir sæng.


Götuspilari

Daglega heyri ég Jojo eða hvað sem hann heitir berja kassagítarinn sinn fyrir framan 10-11.  Aldrei sé ég neinn gefa honum pening en stundum róna bjóða honum sjúss.  Ég man líka eftir sígaununum sem spiluðu fyrir utan Bónus og Nóatún á harmonikkur.  Ekki sá ég marga gefa þeim.  Kannski fólk hafi þó hent einum og einum kóktappa í hattana þeirra?  Ætli það sé eitthvað upp úr því að hafa að vera götuspilari?


Við dauðlegir menn

Fyrir svona tveimur árum síðan hringdi sonur minn í mig æstur og sagði:  Gettu hvern ég sá í Kringlunni?  Ég stakk upp á bróðir mínum en sonur minn leiðrétti mig strax og sagðist hafa séð Morrissey og að hann hefði verið að leiða tvær litlar stúlkur og kona með honum.  Þar fór helvítis hommamýtan.  Og ég spurði son minn hvernig hann hefði verið?  Hann svaraði að hann hefði verið til fara eins og ég að fara á stefnumót, í jakkafötum, en eldri og feitari.  Ég sagði að það ætti fyrir okkur öllum að liggja, að verða eldri og feitari, nema mér, ég yrði bara eldri og grennri.  Sonur minn svaraði:  enda ertu líka alltaf á hlaupum eftir einhverju sem þú nærð aldrei í skottið á!  Þá var hann tólf ára.  Og við fórum ekki á Morrissey tónleikana en ég gaf honum boðsmiðana sem ég fékk á Nick Cave í september 2006 í staðinn.  En þetta lag er alltaf í miklu uppáhaldi hjá verðandi fermingar drengnum sem var svikinn um að fara á Morrissey (var búinn að lofa) vegna þess að faðir hans var svo upptekinn af verðandi eiginkonu sinni.

   


Stundum dreymir mig

Stundum dreymir mig:  Flagnaða málningu, silfurskottur sem skjótast á milli óhreinna potta, nakta víra fyrir ofan sturtuna sem gneista um leið og heita vatnið fellur, blaut gólf, tómar flöskur, stútfulla öskubakka sem flóir út úr, rauð málverk af hengdum mönnum...

Stundum dreymir mig:  stúlku með ljósrautt hár og stór blá augu sem situr á rúmstokk og drekkur bjór, ekki klædd í neitt annað en grænan brjósthaldara og svo horuð og veikbyggð að ég hugsa að ef ég mundi snerta hana fengi hún mar.  Ekki sú fyrsta, ekki sú síðast af rauðhærðum konum.... Og hún réttir að mér flöskuna og brosir og hún er með húðflúraðan hrafn á upphandleggnum og ég stand fyrir framan hana ennþá svartklæddur með hárið ofan í augun og tek ekki við flöskunni.  Handan við þilið er fólk að slást yfir síðasta spíttskammtinum...

Stundum dreymir mig:  hann liggur á gólfinu nakinn í beltisstað og úti snjóar og götuljósin eru appelsínugul bakvið flygsurnar og gluggatjöldin hafa fallið af köppunum og niður á gólf og ég lít aftur á hann sem liggur á gólfinu og sé að hann liggur í polli og þefur af hlandi og stöðnu áfengi fyllir vit mín og ég sný mér við og tek upp símann og hringi og spyr: má ég gista hjá þér?

Stundum dreymir mig:  næstum fullt tungl og það er hætta að snjóa.  Nakin gömul tré og við göngum eftir stígnum sem liggur á milli húsalengjanna og það marrar undan okkur í nýföllnum snjónum og köttur sker leið okkar og við þegjum því að það er ekkert til þess að tala um lengur...

Stundum dreymir mig:  Ris og fyrir ofan rúmið hefur einhver sem heimsótti fyrrum leigjanda þessara íbúðar skrifað með blýanti á vegginn: ástin sefur laust!  Og ég hugsa um þessi orð löngu síðar þegar ég hiti hana sem sagðist hata mig á bar og áður en ég vissi hélt hún utan um mig og teygði andlit sitt á móti mínu...

Stundum dreymir mig:  Á ganginum tveir strákar í sleik, ég þekki þá báða og annar hefur sett höndina undir skyrtuna á hinum og þeir taka ekki eftir mér.  Og ég hugsa með mér hversu mikið e þeir hafi tekið þessa nótt og heyri í henni sem heldur í hönd mína flissa fyrir aftan mig þegar hún sér það sem ég er að horfa á...

Stundum dreymir mig:  Að ég standi ber á ofan í svörtum buxum inni í eldhúsi og þeir sitja þar naktir með handklæði um sig miðja og reykja og á milli þeirra er flaska með einhverju glæru í og úti rignir og það er sunnudagur og klukkan er að verða tvö og þeir líta á mig þegar ég kem inn í eldhúsið, silfurskottur flýja inn í öll horn, mygla á eldhúsborðinu, viðbrenndar matarleifar á eldavélini og annar þeirra segir varfærnislega: hvað sástu mikið í nótt?  Og ég lýg: átti ég að sjá eitthvað.  Fyrir aftan mig heyrist sagt: ég er farinn, hringi...

Stundum dreymir mig:  Slagsmál frami á gangi og ég vakna upp og það er aðfaranótt miðvikudags og öskrin eru eins og það sé verið að flá mann lifandi.  Ég ligg bara og hreyfi mig ekki.  Er fyrir löngu búinn að átta mig á því að í þessu húsi skiptir sér enginn að neinu. Lít á síman, sé að ég hef fengið sms:  þú veist útaf hverju ég kem aldrei í heimsókn til þín aftur?  Ég ligg og les sagnfræðibækur því ég get ekki sofnað, handa veggjarins er verið að berja mann með hamri...

Stundum dreymir mig:  Það er komið vor og allur þessi djúpi snjór fyrir löngu orðinn að slabbi sem svo lak ofan í ræsi og hvarf og það er sandur á stígnum og trén eru að fara að laufgast og hún bíður fyrir utan, hún kemur ekki oftar inn, eftir mér í kjól og stuttri kápu.  Og ég kem út og tek um hönd hennar í fyrsta skipti eftir alla þessa mánuði.  Og hún brosir til mín og segir: þetta er í fyrsta skipti sem við leiðumst!  Og ég svara: og það er meira að segja bjart!  Og ég veit að ég er að flytja og þessu verður öllu brátt lokið...

Stundum dreymir mig: að ég sé kominn tíu ár aftur í tímann og ég sé ennþá bara horaður hálfmaður, hvorki fullorðinn né barn. Og ég viti ekki hversvegna ég sé þarna.  Og ég viti ekki hversvegna það séu leifar af brotinni bjórflösku á veggnum fyrir aftan mig.  Ég veit ekki hver drakk úr öllum þessu tómu flöskum, ég þekki ekki manninn sem liggur á gólfinu, nakinn með handklæði um sig miðjan sem flest hefur upp svo sér í samanskroppin kynfæri hans.  Ég veit ekki hvort að þessir draumar séu partur af lífi mínu eða bara draumar sem mig dreymir þegar ég sakna þess sem var og verður aldrei aftur.  Þegar mig dreymir að lífið sé eitthvað meira en bara skuggar á vegg og brostnar raddir úr hátölurum.  Og orð.   


Nokkur orð um Michael Strunge

Þegar ég var rúmlega tvítugur kynntist ég ljóðum Michaels Strunge (1958-1986) og mundi allt í einu eftir honum þegar ég var að svara kommenti frá Röggu um daginn.  Fáein ljóð eftir hann komu út í litlu kveri hérlendis sem hét Líkami Borgarinnar og deildi Strunge kveri þessu með Sören Ulrik Thomsen og ég held að Magnús Gezzon og Þórhallur Þórhallsson hafi þýtt ljóðin?  Þessari litlu bók hef ég fyrir löngu týnt, því miður, því að hún er alveg ófáleg í dag. 

Það sem heillaði mig við Strunge var ekki bara það að hann hafði kastað sér fram af svölum í amfetamínvímu, haldandi það að hann gæti flogið, heldur augljós tengsla hans við hljómsveitir frá þeim tíma sem hann var afkasta mikið ljóðskáld.  Eins og the Cure, Echo and The Bunnyman, Strangles og Joy Division, end örlög Strunge og Ian Curtis söngvara þeirra sveitar þau að falla fyrir eigin hendi þegar heimurinn lá að fótum þeirra. 

En þetta litla kver, Líkami borgarinnar, varð til þess að ég keypti nokkrar bækur eftir Strunge á dönsku.  Bækur sem ég gróf upp um daginn og blaðaði í.  Og fann fyrir smá sorg yfir örlögum Strunge því að á margan hátt var hann að fjalla um svipaða hluti og ég á þessu bloggi og gamla blogginu mínu sem nú er horfið inn í víðáttur netheima.  Á einfaldan og auðskilinn hátt.  Án þess að reyna eitthvað á tungumálið.  Mörg ljóða hans eins og textar.  Engin tilgerð.  Ef einhver skildi rekast á áðurnefnda bók, Líkami Borgarinnar, látið mig þá vita hvar hægt er að nálgast hana!  Plís.  Og að lokum, stutt ljóð sem ég snaraði úr dönsku:

Ef þú ert sólin

þá er ég Merkúr

lítill og hringsólandi

brennandi eyðimörk geisla þinna

dauðþreyttur af eigin innblæstri.

Ef þú ert gull

þá er ég kvikasilfur

tætandi agnir á líkama þínum

fá þig til að iða, þú hvæsir

gríman fellur og afhjúpar reiði þína.

Þetta ljóð höfðaði alltaf mikið til mín.  Er örlítið tvíræðara á dönsku en íslensku en ég efast um að allir séu dönskudúxar eins og ég svo að ég snaraði því í fljótheitum.  Reyndar þýddi ég talsvert af ljóðum eftir Strunge fyrir svona 10-12 árum en tölvan sem geymdi þær þýðingar er fyrir löngu sofnuð til IBM feðra sinna.    


Að nenna að vera til?

Ótrúlegt hvað það breytir Íslendingum að það skíni smá sól.  Laugavegurinn allt í einu fullur af fólki sem var ekki að flýta sér og það sást jafnvel votta fyrir brosviprum á einstaka manni og konu.  En auðvitað ekki mér, til þess er ég alltof kúl, enda fel ég líka augun bakvið sólgleraugu flesta daga ársins, nema þegar það rignir eða snjóar of mikið.  Rakst á gamla kunningjakonu mína, við eigum furðulega fortíðarsögu saman sem hún á tímabili lét bitna á systur minni.  Og það var eflaust eitthvað samviskubit sem fékk hana til þess að spyrja mig hvernig systir mín hefði það og hvað hún væri að gera?  Hún spurði ekkert um það hvernig ég hefði það eða hvað ég væri að gera enda hefði ég eflaust líka bara svarað út í hött.  En hún sagði mér án þess að ég þyrfti að spyrja að hún byggi handan hafsins með manni.  Við kvöddumst þurrlega og ég velti því fyrir mér á meðan ég saup á vondu kaffi hvers vegna hún hefði haft fyrir því að stoppa mig?  Hún hefði alveg getað látið það duga að segja hæ? 

Langaði ekki heim og stoppaði því fyrir utan gluggann á hverri einustu verslun á leiðinni og skoðaði í gluggann.  Keypti mér reyfara í Máli og Menningu.  Reykti sígarettu á gatnamótum og horfði á fólk.  Velti því fyrir mér í hálfa mínútu að hringja í einhvern kunningja minn og fara á bar en hætti við nánast samstundis, er í heilsuátaki og svo búinn að gera mér upp fólksfóbíu eða réttara sagt barfóbíu sem á að endast þangað til drengurinn verður fermdur.

Kom heim og horfði á hlaupaskónna, ætla þó ekki að skokka aftur fyrr en á morgunn til þess að ofgera mér ekki, alla veganna ekki fyrstu vikuna.  Opnaði ísskápinn.  Það er til nóg í salat og til þess að verðlauna mig fyrir staðfestuna fékk ég mér bjór.  Er þó ekki svangur en verð það vonandi á eftir.  Og núna sit ég bara og velti því fyrir mér hvort ég eigi að skrifa, hvort ég eigi yfir höfuð að nenna að vera til, hvort ég sé einhverjum til gagns? 

Stundum þoli ég ekki þetta helvítis tilvistarvæl mitt.  Og bölva öllum heimspeki áföngum sem ég hef tekið um ævina.  Án þeirra væri ég eflaust bara lukkulegur hagfræðingur... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband