Færsluflokkur: Bloggar
10.4.2008 | 15:28
Saga mannkyns endar hér!
Í mínu tilfelli held ég að það séu ekki andlitin (en auðvitað verða stúlkur að vera snoppufríðar) heldur nöfnin. Öll mín langtímasambönd hafa verið við stúlkur með fimm stafa nöfn. Og tvær þeirra höfðu meira að segja millinafn sem var líka fimmstafa. Þannig að ef ég og segjum til dæmis Hrafnhildur værum síðasta fólk í heiminum, þá mundi ég setjast á stein grafa upp viskíflösku og fá mér sopa og segja biturlega: saga mannkyns endar hér! En ef stúlkan mundi heita Eyrún, væri ennþá von á því að við mundum finna einhvern aldingarð og tímgast eins og rottur.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er með mig og stúlkur með stutt nöfn? Hvort að þetta sé vegna þess að skammtíma minnið mitt sé orðið svona lélegt að ég treysti mér ekki til þess að muna nöfn sem erum með mörgum atkvæðum í? Eða er þetta bara ein af þessum skemmtilegu tilviljunum í þessum heimi? Ég held ekki? En þessar upplýsingar ættu að veita stúlkum með löng nöfn öryggistilfinningu, þær verða aldrei ónáðar af mér.
![]() |
Andlitið ákvarðar samböndin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2008 | 21:11
Þetta er ekki ég!
Ég ætlaði að vera rosalega fyndinn og skrifa eitthvað um það að þetta væri ekki ég. Ég sæti heima, alveg edrú og tiltölulega heill á geði. En svo snérist mér hugur því að það er frekar ósmekklegt að gera grín sem byggist á eymd annarra. Samt hef ég oft verið duglegur við það. Og kannski leyft mér það því að í mínu lífi hafa jú komið djúpir dalir sem ég hef ferðast ljóslaus í gegnum. En maður á að hafa aðgát í nærveru sála. Og svo veit maður aldrei hvenær einhver sem er manni eða hefur verið manni náinn fer sér að voða undir áhrifum eða í hreinni og beinni örvæntingu. Þess vegna ætla ég að leyfa þessari bloggfærslu að standa. sem vitnisburð um það að í fljótfærni minni var ég næstum farinn að gera grín af ógæfu annarra. Og til þess að minna fólk sem er bara heima í rólegheitunum að lesa blogg eða vafra á vefnum og rekst á þessa færslu mína, að flest höfum við það rosalega gott. En ekki allir. Það líður engum vel sem klifrar upp á þak og þarf aðstoð lögreglu til þess að nást niður. Og ég vona að það verði þeir sem það gera en ekki þyngdaraflið.
![]() |
Viðbúnaður vegna manns uppi á þaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.4.2008 | 20:09
Heimurinn er fullur af tækifærum
Skokkaði til foreldra minna og borðaði eins og hvalur. Þusaði yfir vinnunni. Pabbi sagði að hann hefði bent mér á það þegar ég tók við þessu starfi að gera það ekki. Ég væri búinn að fá meira en nóg. Ég sagði honum að hann hefði mátt vita að ég væri ekki vanur að hlusta á hann fyrr en hálfu ári eftir að hann hefði talað. Hann spurði mig hvort ég vildi vinna sem smiður í sumar á meðan ég leitaði mér að einhverju nýju? Vill einhver ráða 36 ára mann sem er að detta í sundur af hor og hefur ekki komið nálægt líkamlegri vinnu síðan hann var tuttugu ára? Þú hefur ný smíðað eitt og annað með mér svaraði pabbi. Ég mundi lítið eftir því. Dyttingar heima við og einu sinni settum við upp eldhús fyrir frænku mína í einhverju sumarfríinu okkar? Ég sagðist þó hugsa málið, maður á alltaf að vera opinn fyrir því að breyta til og hugmyndin um að stæla líkamann og hvíla sálina er ekki svo slæm. Þegar ég var að kveðja og ætlaði að fara að skokka heim missti pabbi útúr sér að einn vina hans vantaði mann til að sjá um starfsmannahald hjá einu af fyrirtækjunum sínum en hann gæti ekki mælt með mér við hann þar sem ég væri sonur hans. En ég gæti sjálfur flett honum upp í símaskránni og haft samband við hann ef ég héldi að ég hefði eitthvað í þetta starf að gera. Og með það skokkaði ég af stað með bros á vör. Ég brosti ekki yfir því að eygja nýja vinnu, heldur það að ég á þrátt fyrir allt dásamlega foreldra þótt að þau þykist alltaf hafa rétt fyrir sér og að heimurinn er fullur af tækifærum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
9.4.2008 | 15:26
Skokk
Eftir vinnu ætla ég að skokka til foreldra minna í mat og svo þaðan heim. Held að það sé svona 8km ferð reyndar í tvennu lagi. Best að byrja ekki með offorsi því að þá hættir manni til þess að gefast upp. Í fyrra byrjaði ég einmitt rólega á því að skokka svona 3-4 km í fyrstu skiptin. Það gafst vel því að það var svo auðvelt að lengja svo leiðina um eitthvað örlítið í hvert sinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2008 | 00:07
Ég held í stríð!
Það er einmitt útaf þessari stemningu sem ég hætti að fara á barinn á 101 fyrir nokkrum árum. Allir þessir ,,valda" miklu ungu menn sem sitja og ræða um það hvað þeir græða mikið, frá því að þeir koma og þangað til gálurnar þeirra koma þeim í leigubíl heim til eiginkvenna sinna. En núna er komið bakslag, báturinn er tekinn að leka og þeir finna ekki ausuna. Og verða bara fjandsamlegir og láta útúr sér yfirlýsingar (þeir voru svo sem yfirlýsingaglaðir áður) sem þeir ættu betur að hvísla að fylgdarkonum sínum eða börnunum heima, þurfi þeir að tjá sig um það. OG ég er vissum að þeir eru löngu hættir að panta koníak eða kampavín og láta senda á önnur borð. En ef stemningin er orðin svona á Hótel 101, þá gæti ég séð mér leik á borði og farið að mæta á barinn þar aftur. éG hef alltaf haft gaman af því að rífa kjaft við yfirlýsingaglaða menn, sérstaklega menn sem hafa siglt skútunni sem þeim var trúað fyrir í strand og óttast það að geta orðið af feitum bónusum, jafnvel bara sínum ömurlegu ,,nokkrarmilljónirámánuði" launum. Núna er þetta einmitt staðurinn fyrir opinberann starfsmann að gera sig breiðan!
![]() |
Allir taka skort í Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 22:17
Ég er að deyja... úr leiðindum!
Ég er alveg ofboðslega andlaus í kvöld. Nenni ekki að skrifa, dettur ekkert í hug til þess að blogga um, svara ekki emailum því að ég nenni ekki að taka undir skoðanir vina minna, eiri mér ekki við lestur. Tók mig til og bar á og pússaði alla skó. Fannst það mikið afrek. Setti allan rauðleitan þvott í vél og setti með honum eina hvíta tusku. Bara til þess að sjá hvort að eitthvað af þessum skyrtum liti ennþá út frá sér. Kannski get ég flokkað þetta undir vísindastörf? Viðraði sængurnar. Og meðan ég stóð úti á svölum fór ég að hafa áhyggjur af aulunum á hæðinni fyrir neðan mig. Partýið sem stóð yfir í allan mars virðist vera lokið í bili. Varð lítið var við þá um helgina og hef ekki heyrt negratakt í nokkra daga. Get ekki sagt að ég sakni þess en mig rámar að hafa lesið í einhverju dagblaði að 7 mjög drukknir menn af erlendum uppruna hafi verið handteknir um helgina og ekki vilja gefa upp nafn og númer og sitji því í grjótinu enn. Kannski það hafi dregið úr djamminu á neðrihæðinni?
Og núna get ég ekkert fundið mér til dundurs og mér leiðist allt í einu. Ég er gjörsamlega óvanur því að láta mér leiðast, mér dettur yfirleitt alltaf eitthvað í hug til þess að drepa tímann. En núna - ekki neitt? Ætli ég forheimskist með vorinu? Verð ég orðinn að slefandi aumingja í júní? Ef ég væri ekki búinn að strengja þess heit að fara að lifa örlítið heilbrigðara lífi, mundi ég stökkva á barinn og hella í mig bjór. Læt mér þess í stað nægja grænt te. Mundi horfa á dvd en ég er enn ekki búinn að fá myndirnar sem ég pantaði fyrir svo löngu síðan og sjónvarp... Æji, ég er eiginlega alveg búinn að gefast upp á því nema stundum fréttum á meðan ég borða. Kannski að í kvöld sé rétti tíminn til þess að byrja að skrappa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2008 | 20:07
Er ég ennþá á lífi?
Ég sakna þess dálítið að þurfa ekki að berja saman langri ritgerð með helst tuttugublaðsíðna viðauka eða fara í löng og ströng próf. Þótt að þannig hlutir séu taugatrekjandi og hundleiðinlegir á meðan á þeim stendur, þá myndast nú oft ágæt stemming í svona firringu. Símtöl frá örvæntingarfullum félögum um miðja nótt, taugaáfall yfir glötuðum heimildum og svo andvökur með kaffiþambi þegar svona tossar eins og ég reyna að frumlesa sig í gegnum þúsund blaðsíður á tæpum sólahring. Mér fannst það alltaf meiri vorboði en lóan eða kríur. Ég held að ég sé örlítill spennufíkill í mér enda finnst mér ég altlaf vera voðalega mikið á lífi þegar svona stress stendur yfir. Núna er ég svo rólegur að ég þarf að stinga mig með gaffal í handabakið til þess að tékka á því hvort ég sé ennþá á lífi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.4.2008 | 18:22
Nýr lífstíll?
Tók þá ákvörðun að fara að hugsa betur um mig fyrst það er komið vor. Fara að skokka aftur og synda og borða meira grænmeti á kostnað kjöts. Ekki það að ég sé eitthvað með áhyggjur af því að vera að fitna, alltaf grannur eins og ljósastaur, heldur þarf ég að styrkja mig og fara að borða þannig að mér líði betur. Ætti líka að íhuga að fara að leggja sígarettunum enn og aftur. Alla veganna að reyna það. Jafnvel þótt að það kosti pásur frá skemmtunum á meðan verstu fráhvörfin eru að ganga yfir. Og fyrst ég er að hugsa um að taka mér pásu frá tóbaki, þá ætti ég jafnvel líka að prófa að minka kaffiþambið? Áa alltaf nokkra pakka af tei þótt að ég sé latur við að drekka það. En best að byrja á einu í einu. Skokk á morgunn eftir vinnu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.4.2008 | 21:51
Vetrarnætur, sumarnætur (úr óbirtu handriti bernsku minnar)
Og um nóttina fórum við í úlpurnar okkar og leiddumst út í storminn. Gengum meðfram hafinu með snjóinn í fangið, þegjandi, bara fingur okkar krækta saman. Engin skip sigldu inn fjörðinn þá nótt.
Um leið og vindinn fór að lægja og snjókornin urðu færri og færri, strjál eins og lauf á hausttré, komum við að gamla vitanum og staðnæmdumst þar. Stóðum hönd í hönd og horfðum á brimið í fjarska. Og hún sagði: við ættum að gera þetta oftar. Fara og njóta þess að vera bara tvö ein með hafinu. Og ég leit á hana og brosti yfir þessari tilgerðarlegu athugasemd en sagði ekki neitt, þótt að mig langaði að segja eitthvað um æsku hennar. Svo héldum við til baka, haldandi um bak hvors annars og vindurinn ýtti hettunum á úlpunum niður á höfuðin.
Þegar við komum inn kveikti hún á kertum og ég sá að klukkan var að verða 3. Hún fór úr blautum gallabuxunum og stóð fyrir framan mig á nærbuxum og alltof stórri lopapeysu og sagði: hitaðu kaffi, opnaðu vín, fyndu sígarettur. Og ég skottaðist inn í eldhúsið í gallabuxum klesstum við fótleggi mína og setti ketilinn á hellu: instant kaffi og vín sagði ég!
Og ég man að við settumst á stofugólfið í skini kerta og settum teppi yfir kaldar lappir okkar, sátum þarna og supum á drykkjunum og tónlistarmaður sem síðar átti eftir að drepa sig þó ekki með byssu, söng angurvær lög og við skiptumst á að tala: um bækur og um tónlist og um okkur og þennan vetur og hvað sumarið mundi bera í skauti sér og öðru hvoru teygði ég út hönd og strauk yfir snoðað höfuð hennar og hún brosti þá alltaf svo undurfurðulega, eins og ekkert skemmti henni meira en þetta tilgangslausa klór mitt. Og hún sagði um leið og hún fór úr peysunni og lagði hana á gólfið svo ég sá að hún var í alltof þröngum stuttermabol, bláum eins og mín eigin augu: við skulum vaka í alla nótt og tala, það er svo langt síðan við höfum gert það! Og við lögðumst á bakið með glösin og bollana við hlið okkar og hún lagði höfuðið á bringu mína svo ég gat klórað í snoðuðum kolli hennar og við hvísluðumst á þangað til síðasta kertið slokknaði.
Og þegar rökkvaði og trén fyrir utan sumarhúsið urðu að einhverjum dansandi skuggum sem minntu helst á óvætti í hringadróttinssögu og síðasta kertið vara að deyja út, breiddi hún teppi á gólfið fyrir framan kamínuna og sagði: við skulum sitja hérna. Og ég færði mig til hennar með bók og glas og settist eins og indíáni með fæturna undir mig og rýndi í letrið og hún bað: lestu! Og ég leit á hana og horfði á hana strjúka með fingrunum eftir brún glassins með muninn hálf opinn svo að tennurnar skinu í bjarmanum frá eldinum í kamínunni og byrjaði að lesa. Með þessari mónótónísku sálfræðirödd sem ég hafði fyrir löngu tamið mér í upplestri og viðtölum við skjólstæðinga. Og hún lagðist með hönd undir kinn og lygndi augunum og umlaði: það er byrjað að snjóa, vonandi verðum við bara veðurteppt hérna. Og ég sagði: vonandi í tvö ár. Og hún hló og spurði: yrðir þú ekkert leiður á því? ,,Ekki á þér, en kannski þessari bók!"
Hún lá á bakinu og hjólaði út í loftið með löppunum og ég horfði á þessar æfingar hennar og hlustaði á gnauðið í vindinum sem yfirgnæfði lágværa tónlistina. Loks hætti hún að hjóla en lét lappirnar bara vísa til himins og leit á mig þessum fallegu brúnu augum og spurði: hversvegna ertu svona upptekinn af samskiptum konu og manns? Og ég gretti mig og teygði mig í sígarettu og stakk henni ótendraðri á milli varanna og umlaði loks: það er eitthvað svo fallegt við konu og mann sem deila öllu því sem þau hugsa og gera saman. Jafnvel þótt að á endanum þurfi þau að kveðjast. Og hún byrjaði aftur að hjóla og lyfti rassinum frá dýnunni og spurði hugsi: heldurðu að það hendi okkur? Að kveðjast? Ég snéri mér á magann og kveikti í sígarettunni, fann öskubakka á gólfinu og lagði sígarettuna þar og sagði um leið og ég blés frá mér reyknum: vonandi ekki, þetta er svo ágætt! Og hún beygði sig yfir mig og ég fann fyrir líkama hennar á baki mínu, teygði sig í sígarettuna og reykti. Sagði svo: ef við ætlum ekki að kveðjast, þá verðum við að hætta að reykja. Og ég bætti við hlæjandi: nú er komin ástæða fyrir því að þetta nær ekki lengra. Hún sló mig létt með flatri hönd á kollinn og sagði: rugludallur, það ert ekki þú sem ákveður hvenær þetta samband endar, heldur ég!
Fyrir tilviljun lentum við í sætum hlið við hlið á bar með fullt af sameiginlegum vinum. Sama bar og við höfðum kynnst á ári fyrr. Og hún brosti til mín, feimnisleg og sagði: hæ ....! Og ég sagði: hæ. Og hún leit af mér og tók sopa af bjórnum sínum og mér leið svo furðulega innra með mér. Fannst um leið að allt væri sem áður og við værum brátt að fara að leiðast heim til hennar í gegnum myrka borgina í hlýju hauströkkrinu. En ég snéri mér við og fór að tala við bróður minn um eitthvað sem engu máli skipti. Tónlist eða myndlist eða gamla bók með hlandlykt af sem hafði að geyma fornan sannleik. Þangað til ég fann hönd hennar á armi mínum og snéri mér að henni og sá að hún brosti til mín og augu hennar voru dekkri en mig minnti að þau hefði nokkurn tíman verið og hún spurði: manstu þegar við gengum út að vitanum í vetur? Og ég brosti og sagði: hvernig gæti ég gleymt! Og hún bætti við: alltaf þegar ég er döpur hugsa ég um þá ferð og nótt. Og líka þegar við kvöddumst og þú hélst utan um mig og ég man hvað mér þótti vænt um þig þá. Og ég sagði áður en ég saup á bjórnum mínum: ég hugsa stundum um þessa ferð líka. Og hún tæmdi bjórinn sinn og stóð á fætur, klæddi sig í stuttan leðurjakka og gekk að dyrunum. Staðnæmdist þar og snéri sér við og við horfðumst í augu. Uns bróðir minn hallaði sér að mér og hvíslaði: nei, nei! Þá leit ég undan og ruglaði hárinu á bróðir mínum og þannig leið nóttin.
Og nóttin hafði liðið og ég stóð í skini sólar sem var nýkominn upp yfir haffletinum og hvarvetna var ennþá fólk inni á skemmtistöðum þótt að morgun væri og frá lækjartorgi bárust hlátrarsköll og brothljóð og því laust niður í huga mínum að aðeins með henni fengi ég frið. Og ég tók á rás, hljóp niður laugaveginn eins og að fellibylur væri á hælum mér sem væri skip að leita vars í einu öruggu höfninni sem væri faðmur hennar. Og ég staðnæmdist ekki fyrr en fyrir utan húsið sem hún bjó í. Lagðist á bjölluna en ekkert gerðist og í örvæntingu minni byrjaði ég að klífa brunastigann sem lá upp á þak, vissi að þakglugginn á klósettinu væri alltaf opinn. Og ég kleif, hratt þrátt fyrir að vera ofurölvi. Og á sleipu og bröttu bárujárnsþakinu rann ég tvisvar og bara heppni hins drukkna manns bjargaði mér frá 12 metra falli. Og inn um gluggann tróð ég mér með höfuðið á undan. Það var ekki fyrr en ég stóð á baðherbergisgólfinu hennar og sá allar snyrtivörurnar í hillum undir speglinum og mig rauðeygðan fyrir aftan þær að það hvarflaði að mér að kannski væri einhver hjá henni? Eða að hún væri hjá einhverjum? Og ég hugsaði: nú fer ég sömu leið og ég kom. Þá opnaðist hurðin á salerninu og hún stóð í gættinni á nærbuxunum einum fata með hendur krosslagðar yfir nöktum brjóstunum og sagði: Þú ert eini maðurinn sem ert nógu geggjaður til að gera svona! Ég leit á skó mína og svaraði lágt: ég veit, ég er ekki í lagi, fyrirgefðu, fyrirgefðu mér allt. Og svo tók hún utan um mig og ég fann ilminn af hári hennar...
Bloggar | Breytt 8.4.2008 kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 17:43
Að skipta um starf
Mig klæjar í fingurna um að skipta um starf og helst starfsvettvang. Eftir næstum 16 ára starf með fólki og hin síðari ár, yfirleitt mjög erfiðu fólki, er ég orðinn frekar leiður á þessu. Og sé ekki að ég muni breyta heiminum eða lífi fólks neitt, sama þótt að ég ólmist eins og naut í flagi. Það eina sem veldur því að ég er ekki að sækja um störf, vilt og galið, er að ég kann bara það sem ég er að gera. Og ég get ekki séð að það sé mikið verið að leita eftir fólki með mína menntun eða starfsreynslu? Nema ég vilji fara að skúra? En lifir maður á því? Æji ætli ég sé ekki dæmdur til þess að eyða þessu 31 ári sem er eftir áður en ég fer á eftirlaun í sama pex og alla daga? Það er ekki beint uppörvandi tilhugsun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)