Færsluflokkur: Bloggar

Óvæntur fundur

Á leiðinni heim rakst ég á son minn á Laugarveginum.  Nú var ég heppinn sagði hann, ég ætlaði einmitt að fara að kaupa mér tölvuleik og nú er ég meira að segja búinn að finna einhvern til þess að borga hann.  Ég hló og samþykkti að borga leikinn ef hann yrði ekki allan daginn að velja hann.  Nei, hann vissi hvað hann var að fara að kaupa.  Við fórum í skífuna.  Ég stillti mig um að kaupa mér diska en borgaði þess í stað fyrir drenginn.  Urðum þess í stað samferða áleiðis.  Hann talaði út í eitt.  Ég nennti ekki að svara nema með jái eða neii, hafði of gaman af því hvað drengurinn var í góðu skapi.  Held að margir séu eflaust að missa sig yfir því að snjórinn er farinn.  Nema að það skipti ekki máli hvaða dagur er þegar maður er að verða fjórtán ára að springa úr hormónum og alveg að fara að fermast?   


Mánudagur

Hver hefði trúað því að mánudagar væru svona skemmtilegir?  Ekki ég?  En þetta stefnir allt í það að verða prýðilegur dagur.  Ætli það sé ekki vorkoman sem spilar þar inn í?  Núna er þessi hundleiðinlegi og langi vetur loksins búinn.  Ætla að fagna því með bókakaupum eftir vinnu.


Nokkrar myndir frá rigningasumri (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Og ég er lítill drengur og það er sumar en samt rok og helli rigning úti og svo mikill vindur að trén í garðinum hjá afa og ömmu sveigjast og snerta næstum jörðina.  Og það er eins og eitthvað fari yfir, hratt í þessum þungbúnu regnskýjum.  Eitthvað stór og mikið sem minnir má á hugmyndir um tilvist reiðs guðs.  Ég fer ekki út, ligg á maganum á stofugólfinu og fletti hundgömlum Vikum.  Les teiknimyndasögurnar og einstaka frásagnir af sjávarháska og mannáti.

Pabbi minn er stór.  Hann getur stokkið yfir grindverkið sem skilur að bílastæðið hans afa og stóra túnið hinum megin.  Hann þarf ekki að klifra yfir það með hjálp steins eða spýtu eins og ég.  Hann er í brúnum leðurjakka og með klút um hálsinn.  Mér finnst hann vera svo stór og fullorðinn en hann er samt bara 25 ára og leiðir mig yfir götuna til þess að kaupa djúpsteiktar franskar kartöflur til þess að hafa með matnum.  Bara tveir staðir í Reykjavík selja svona hnossgæti í gegnum lúgu og það myndast alltaf löng biðröð fyrir framan þær þessi sumarkvöld.  Síðar á ég eftir að sjá svona langa biðröð fyrir utan tónleikahallir og Knattspyrnuvelli.

Pabbi minn fer á sjóinn á sumrin þegar hann er ekki að kenna.  Og einhvern morgun bíðum við mamma í græna fólksvagninum sem hefur ekki neitt breyst í útliti síðan Hitler hreyfst af honum.  Og sólin er að koma upp og á bryggjunni er framandi lykt og ég horfi út um bílrúðuna, geispandi, á ryðgaðan bát og mann sem situr á bryggjupollanum og reykir.  Hann brosir til mín og veifar.  Það vantar í hann nokkrar tennur það set að mér beygir við að sjá þennan mann með sígarettuna og sinn úfna og gráa haus.  Og það hvarflar að mér að hann sé kannski sjóræningi eða einn af þessum skipbrotsmönnum sem eftir vatns og matarleysi á opnum bát, draga strá um það hver eigi að fórna sér svo hinir megi lifa.

Sit í saghrúgu á verkstæðinu hans afa.  Er að tálga mér hníf.  Stóra hurðin er opin og það rignir ofan í mölina.  Það er risa pollur fyrir utan hurðina og þar ætla ég að sigla skipum þegar það styttir upp en núna er ég upptekinn af því að tálga og gefa karlinum sem sagaði af sér puttann auga.  Það vantar á hann þrjá fingur og ég veit að það hafði liðið yfir hann inni á kaffistofu þegar afi kom að honum og hann var næstum hættur að anda og afi keyrði hann í snarhasti á spítala og kom svo aftur til þess að sópa verkstæðið og leita að fingrunum.  Þess vegna passa ég mig vel með hnífinn því að mig langar ekki að missa framan af putta.  Mig langar ekki til þess að missa neitt.

Og þegar það styttir upp um kvöldið förum við út í fótbolta.  Við erum báðir í eins stuttermabolum, ljósbláum með áletrun á útlensku.  Og gerum mörk ur peysunum okkar og ég reyni að skjóta eins fast og ég get með þeim afleiðingum að ég missi af mér skóinn.  Pabbi hlær að mér og mér sárnar það því að ég ætlaði að sýna honum hvað ég get skotið fast og fyrir mér er þessi kvöldstund ónýt og mér fer fljótlega að leiðast fótboltinn svo pabbi tekur hann undir höndina og leiðir mig niður í móann þar sem rústir af gömlum húsum og grunnum standa og þar setjumst við niður í beði af fíflum og hann segir mér frá því hverjir bjuggu í kofunum þegar hann var strákur og að einn karlinn sem bjó í einu húsinu drakk mikið og hann og vinir hans voru oft að atast í honum og fá hann til þess að elta sig.  Þá kom hann hlaupandi út, rauður í framan í bol og með axlabönd, berfættur í klossum og einu sinni steyptist hann á hausinn ofan í rabbbarabeði, eitt sumarkvöldið og stóð ekki á fætur aftur og þegar pabbi og vinir hans fóru að athuga með hann hafði hann sofnað.

Ég stend með lítinn bala fyrir aftan ömmu og hún týnir ribsber af trjánum og setur í balann og ég er alltaf að líta í kringum mig eftir lúsum, kóngulóm eða öðrum hræðilegum ófreskjum sem leynast í öllum gróðri og bíða þess eins að sleppa í hárið á manni eða niður um hálfsmálið á peysunni.  Og þegar ömmu finnst hún vera komið með nóg segir hún að nú förum við inn og hún ætli að gera sultu og saft.  Síðar, löng síðar, á ég eftir að brugga vín úr berjum af þessum sama runna og koma til ömmu minnar með nokkrar flöskur.  Þá var líka sumar og við sátum úti í gróðurhúsi og dreyptum á víninu og amma fann á sér eftir hálft glas því að hún er óvön drykkju og fór að segja mér frá bandaríska hermanninum sem hún var skotinn í áður en hún hitti afa.  Og svo lygndi hún aftur augum, dreypti á víninu og hvíslaði:  Svo hitti ég hann afa þinn og nafna og hann var svo myndarlegur og brosmildur að það komst ekkert annað að en að giftast honum.

Og á laugardögum förum við stundum feðgarnir, oft í bíó, til að gefa mömmu smá frið en því miður oft á listsýningar.  Sali þar sem málverk af einhverju sem lítur út eins og fólk eða hús eða langslag, hangir á veggjum en er samt ekki myndir af neinu finnst mér.  Og pabbi setur hendur fyrir aftan bak og gengur á milli myndanna og horfir á hverja einustu þeirra lengi.  Og svo spjallar hann við fólk á sýningunni.  Oftast einhverja gamla karla sem hann segir mér síðar að séu miklir meistarar.  Og ég man eftir einni sýningu þá lítur hann að mér og hvíslar um leið og hann bendir varlega á gamlan karl með skrítna húfu sem heldur á vindli og hlær:  þetta er nú Laxness!  Og yfir nafninu hvílir dulúð, því að þótt að mamma beri ættarnafn þá er það erlent og minnir ekki á skip.

Ég sit fyrir framan sjónvarpið og er að borða popp og horfa á John Wayne í svarthvítu eltast við indíána í ofboðslega þröngum riddaraliðsbúning.  Og fjöll eyðimerkurinnar eru gróðurlaus.  Það eru ennþá krakkar úti á túni að spila fótbolta eða að hlaupa í skarðið.  Vinur pabba og mömmu er í heimsókn.  Konan hans er ekki með honum.  Þau koma oft með dóttur sína sem er jafngömul mér.  Við leikum okkur þá saman.  En núna er hann einn og þau eru að drekka rauðadrykki úr dökkum flöskum og tala saman í hálfum hljóðum.  Stundum lítur mamma mín til mín eins og hún óttist að ég sé að hlusta.  Og rétt áður en myndin er búinn er hringt á bjöllunni og skömmu síðar kemur inn dökkur maður segir eitthvað á útlensku og brosir svo bara.  Og þegar vinur pabba og mömmu sér hann stendur hann á fætur og faðmar hann og kyssir á báðar kinnar.  Mér finnst það svolítið skrítið en ég er svo mörgu vanur frá þessum manni.  Hann fer til dæmis alltaf úr sokkunum þegar hann kemur í heimsókn.  Honum þykir teppið víst svo mjúkt.  Og þegar hann og útlendingurinn er farinn og ég lagstur upp í rúm og er alveg að fara að sofa, heyri ég í foreldrum mínum vera að vaska upp og tala um að það sé synd að hann hafi farið frá konunni sinni vegna útlendings.  Og það slær mig slíkur ótti að pabbi kunni að taka upp á því líka, að yfirgefa okkur mömmu, fyrir útlending, að í stað þess að dreyma John Wayne og indíáni, dreymir mig dökkan mann með gullkeðju og hvítt glott.

Herbergið mitt er gult og rúmið mitt er blátt.  Og ég er búinn að fara í bað og það er hreint á rúminu og ég er með bækur til þess að skoða og reyna að stauta í og það er rigning eins og alltaf fyrir utan gluggann minn og ég heyri dropana smella á stéttinni og allt í einu sitja þau bæði á rúmstokknum hjá mér, foreldrar mínir og pabbi heldur utan um mömmu og hún strýkur mér niður kinnina og segir að bráðum breytist allt, ég verði ekki alltaf einn, ég muni brátt eignast bróður eða systur.  Og ég veit ekki hvað ég á að segja, reyni bara að þykjast lesa og stauta upphátt einhverja vitleysu.  Og mamma kyssir mig og þau fara og halla hurðinni.  Ég heyri að þau eru að tala saman inni í stofu.  Ég legg frá mér bókina og finnst eins og ég sé með kökk í hálsinum.  Brátt verður allt breytt.


Annarra bömmer

Á laugaveginum áðan slagaði næstum í fangið á mér kona sem ég er búinn að kannast við lengi.  Hún var með glóðarauga og svo drukkinn að hún stóð varla í lappirnar.  Þekkti mig ekki strax og þegar hún þekkti mig þá kallaði hún mig nafni bróður míns.  ég gat ekkert fyrir hana gert nema að gefa henni sígarettu og brosa eins hlýlega og maður eins og ég er fær um.  Svo horfði ég á eftir henni, skakklappast með dót í tveimur brúnum bréfpokum.  Að hitta þessa að ég held jafnöldru mína sló mig aðeins út af laginu.  Þegar ég sé fólk sem ég kannast við og hefur ekki gætt sín og orðið undir á einhvern hátt, verð ég alltaf pínu leiður.  Sérstaklega þegar það er fólk sem hafði alla burði til þess að verða hvað sem er!


Og nokkur orð um stutta barferð

Fór út í gær að hitta vin minn en þar sem ég svaf aðeins yfir mig var hann kominn með kvennmann upp á arminn eþgar ég loksins mætti upp úr miðnætti og þessi kvennmaður þar að auki búin að hella yfir hann úr könnu af vatni.  Hann stóð á miðju gólfinu blautur eins og hann væri að koma úr sturtu.  Mér fannst mér ofaukið en sem betur fer rakst ég á bvinkonu mína sem er eiginlega sameiginlegur vinur minn og fyrrverandi konu minnar.  Og bjargaði hún mér því frá einsemd minni og vatnsblautum gaur í furðulegu tilhugalífi.  Ég fór eitthvað að rekja raunir mínar í mínum uppfokkuðu kvennamálum.  Hún sagði að ég ætti ekki að hugsa of mikið, ég ætti að fara og hringja í þessa stelpu og hætta að hafa alltaf áhyggjur af einhverju sem kannski aldrei yrði.  Ég fór reyndar ekki og hringdi, heldur keypti mér pizzu og settist fyrir framan sjónvarpið.  En ég held að hún hafi haft rétt fyrir sér.  Ég er alltaf með of miklar áhyggjur fyrirfram.  


Svartur koddi

Fékk það á tilfinninguna í gærkvöldi að ef ég færi út á svalir og léti mig falla fram af þeim þá væri myrkrið bara stór og mjúkur svartur koddi.  Sem betur fer lét ég ekki á það reyna því að heimurinn er oft ekki eins ævintýralegur og ég held og ég væri í bestafalli fótbrotinn núna.


Um brýr og dauða (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Man það var brú yfir á og brúnni miðri hékk jesús á krossinum og starði út í iðandi flauminn og í rökkrinu voru fáir á ferli á þessari brú. Einungis elskendur sem héldu utan um hvort annað og við sem gengum á milli styttnanna á handriðinu, reykjandi þögul og stefndum að ljósunum handan árinnar. Og er við gengum framhjá frelsaranum leit ég upp á hann til þess að athuga hvort að það blæddi undan þyrnunum. Og ég tók eftir því að hún staðnæmdist, beygði sig niður og athugaði skó sinn og ég leit á hana og sá útundan mér að á dökkri ánni kviknuðu ljós á nokkrum bátum og þeir runnu í þögn að brúnni og ég snéri mér við um leið og þeir sigldu undir hana og kleif upp á brúarhandriðið og hélt mér í kross guðssonarins og skyggðist yfir í svart vatnið og sá þá koma undan brúnni, þéttsetna dökkklæddum mannverum og um leið og fyrsti báturinn kom í ljós kviknaði á kyndlum sem festir höfðu verið við hann og fólkið í bátnum tók fram hljóðfæri og renndi bogum yfir strengi og dapurlegir tónar bárust í kvöldþögninni. Og ég og jesús horfðum á eftir þeim fljóta niður ánna þangað til að hún blandaði rödd sinni tónum næturinnar, tónum árinnar og hvíslaði: getum við haldið áfram?

Við höfðum verið á tónleikum á eyju í miðri ánni. Bakkarnir umhverfis eyjuna voru fullir af upplýstum höllum í barrokkstíl, minjar löngu gengis heimsveldis. Og þegar tónleikarnir náðu hámarki með því að radiohead kom fram var hún orðinn svo drukkinn að hún hafði ælt yfir skónna sína og vildi komast heim á hótel. Og þegar við gengum yfir brúnna frá eyjunni í átt að flóðlýstri höll, þá leit hún á mig og spurði þvoglumælt: Heldurðu að þú elskir mig líka árið 1998? Og ég sleppti hönd hennar og leit við og sá upplýst sviðið og iðandi þvöguna og heyrði thom york syngja: Kil me sarah, kil me again, whit love, its gonnabe a glorius day... Og svaraði án þess að taka augun af mannþvögunni sem sveiflaði kveikjurum og hoppaði upp og niður: Það er langt þangað til.

Um leið og dimmdi birtust þær, ein og ein undir brúnni, vændiskonurnar, líkt og þegar ein og ein stjarna kviknar á svörtum himni. Og þær stóðu fáklæddar við veginn og yfir þeim æddu bílar og framhjá þeim æddu bílar og þær voru með hárgreiðslur sem ég hafði ekki séð síðan ég var þrettán ára og signir rassarnir voru ekki huldir neinu nema g-streng og belti og ég fann að hún herti takið um hönd mína er við gengum undir brúnna þar sem þær gerðu sig út og hún spurði: finnst þér þær fallegar? Og ég leit á hana og horfði í dökk augun sem voru óvenju stór í nóttinni og svaraði: fegurri en nokkur stjarna!
Og við stöðvuðum bílinn á miðri brúnni og ég steig út og horfði ofan í flauminn, hvernig vatnið gróf sig niður í gegnum klettanna og frussaðist af miklum krafti ljósblátt og hvítt í gegnum þennann flöskuháls sem gilið var. Og hún gekk að mér og hallaði sér með mér yfir handriðið sem brakaði í við þunga okkar beggja og tók hönd um mitti mitt og leit á mig og í brúnum augum hennar var einhver spurning sem ég vissi að hún gæti aldrei borið upp en samt sagði hún: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði: Um jökulinn sem æðir undir okkur og hún tísti og og brosti og sagði: það er sama hvað ég spyr að, aldrei fæ ég svar. Og ég tók utan um hana og við hölluðum okkur og horfðum á vatnið frussast áfram á ferð sinni til sjávar og ég sagði: Þú berð aldrei upp réttu spurninguna!

Og handan brúarinnar reis ein af þessum kirkjum sem bera nafnið; vor frúar kirkja, og við leiddumst yfir brúnna í heitu kvöldinu og hún spurði: hversvegna elskuðumst við ekki í dag? Og ég svaraði: það er of heitt til þess að elskast. Og hún sagði: veistu að þeir hafa múrað hauskúpur allra í söfnuðinum inn í veggi kirkjunnar? Já, svaraði ég, ég las líka bæklinginn. Og við stóðum fyrir framan rökkvaða gotneskabygginguna og horfðum til himins, engar stjörnur í nóttinni, bara ufsagrýlur rekandi út úr sér tunguna með sálir dauðlegar manna í klónum sem störðu niður á okkur og ég fann að hún svitnaði í lófanum er hún spurði: ertu hættur að elska mig? Þú hefur ekki sofið hjá mér lengi! Og ég svaraði: hugsaðu þér alla vinnuna sem liggur í þessari kirkju!

Á brúnni sleit hún drukkin handartak okkar og datt þannig að kjóllinn flettist upp um hana og þeir sem gengu hjá gátu séð að hún var í sokkum en ekki sokkabuxum og svo litlum nærbuxum að þær huldu varla neitt og þarna lá hún, hávaxinn og svo grönn og dökkt hárið breiddist út eins og vatnslitur á blaði sem drekkur hann í sig. Og ég teygði mig eftir hönd hennar og hún umlaði: ég hata þig, þú ert svo kaldur! Og ég sagði: nei, ástin mín, við erum bara á vitlausum stað. Og hún tók í hönd mína og horfði á mig, grimmilegum svip og ég sá að það var komið gat í annan sokkinn hennar og hún sagði: ég þoli ekki þessa brú, þessa helvítis borg. Og ég sagði, við förum heim og þá verðu allt gott. Og hún faðmaði mig og ég strauk bak hennar og hvíslaði: þessi brú og við...

Ég vissi ekki hvar hún var en grunaði að hún hefði farið aftur á hótleið. Ég hafði ráfað um og reynt að muna hversvegna okkur hafði lent saman. Ég var ekki viss? Það var að morgna og með morgninum barst þoka frá upp með ánni og helgimyndirnar á brúnni tók á sig óræðarmyndir og ég gekk hægt um á milli þeirra og leit í líflaus augu postulann eins og ég biði þess að lesa úr þeim eitthvert svar. Sá að á móti mér kom hópur kuflklæddra manna, munkar og þeir söngluðu: Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann, Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann, Drottinn gef mér tár, sundurkremdu hold mitt, láttu mig alltaf hugsa um dauðann...

Og þarna á brúnni með himininn fljótandi yfir mér og undir mér, snéri ég mér við og hljóp. Hljóp í gegnum þröngar fornar götur og yfir breið torg, framhjá grafreitnum þar sem Kafka lá, fram hjá fornum klukku sem sýndi stjörnur og tungl, þangað til ég kom að hótelinu og sá að hún stóð á svölunum, hallaði sér fram á handriðið og rýndi út í morguninn, reykjandi. Og ég vissi að við hefðum þetta af.


Svona gengur það!

Ég er ekki dauður.  Ég veit ekki hvort það eru góðar fréttir eða slæmar.  En fréttir eru það.  Kveikti á símanum sem ég slökkti á í gærkvöldi og gleymdi að hringja.  Mamma og ritstjórinn minn og ein vinkona höfðu hringt.  Oft.  Gott að vita að einhverjir hafa áhyggjur af mér ef ég svara ekki í þetta tól?  Kom heim og fékk mér tvö glös af rauðvíni með matnum og sofnaði yfir imbanum.  Vei.  Ekki mikið skapandi að gerast hérna.  Laug að ritstjóranum mínum að ég væri hörkuduglegur að skrifa.  Ég er það.  Bara ekki það sem ég á að vera að skrifa.  En svona gengur það!


Og svo.... ?

Og eftir matarboðið fórum við á barinn.  Fyrst hittum við stúlku sem þurfti a segja okkur hvað fyrrverandi eiginkona mín væri sexy og flott stúlka!   Gaman af því.  Fórum á annan bar og þar hittum við stúlku sem ég hafði kennt fyrir 20 árum eða eitthvað og nuddaði sér upp við mig og fannst allt sem ég hafði sagt og gert frábært.  Þá var komið að því að kveðjast fyrir fullt og allt!


Hef róið í sama hlandpollinum

Einu sinni fékk ég áminningu þegar ég var við háskólanám.  Þá hafði ég falsað heimildir, ekki bara einu sinni, heldur oft í sama áfanganum.  Og notaði nöfn fyrrum leikmanna man.utd sem höfunda margra lærðra ritgerða um það efni sem ég var að fjalla um.  Þetta var í hundleiðinlegum stjórnunaráfanga sem ég sem ég hafði valið mér til þess að undirbúa mig betur undir lífið.  Hannes svo sem falsaði ekki heimildir, hann bara gleymdi að geta þeirra.  Ég man ekki betur en að þegar ég tók einhvern áfanga (fyrir svo ótrúlega löngu síðan) sem átti að undirbúa mig undir Akademísk vinnubrögð, þá hafði verið hamrað á því hversu mikilvægt það væri að geta heimilda alltaf rétt.  Og að það skildi gert eftir öllum kúnstarinnar reglum.  Og til þess að fólk flaskaði ekki á því, var bent á kver sem maður ætti að styðjast við þegar farið væri með heimildir.  Hvort sem þær væru teknar upp úr bókum, munnlegar eða af netinu.  Þetta kver er eina bókin sem ég nota ennþá frá því að ég var háskólanemi.  Því að ég á það til í skýrsluskrifum og fleira, jafnvel emailum sem varða starf mitt, að geta samviskusamlega þeirra heimilda sem ég vitna í.  Núna sé ég reyndar mikið eftir því að hafa ekki farið í stjórnmálafræði.  Ég hefði eflaust komist vel frá henni.  Getað bara skrifaða eins og á þessi bloggi, það sem mér býr í brjósti án þess að geta hvaðan ég hefði skoðanir mínar og Hannes hefði ekkert getað gert.  Búinn að róa í sama hlandpolli fúskunnar og ég.


mbl.is Átelur vinnubrögð Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband