Færsluflokkur: Bloggar

Stjörnurnar bakvið snjóinn

Ný orðinn sautján ára í janúar fyrir svo ótrúlega mörgum árum að keyra í kúkabrúna Altoinum mínum sem komst í 60 niður brekkur og það snjóar á rúðuna þegar þetta laga heyrist í útvarpinu.  Og ég stoppaði bílinn og hækkaði í botn.  Útvarpið var það eina sem virkaði.  Miðstöðin gerði það eitt að auðvelda snjónum inngöngu í bílinn.  Og ég sat og hlustaði á þetta lag og reykti og hugsaði um það í unggæðingsskap mínum að lífið væri ömurlegt og enginn skildi mig og engum þætti vænt um mig og allt það sem unglingar með óuppfylltar kynferðislanganir hugsa.  Og það snjóaði og rúðan á bílnum varð hvít af þykkum nýföllnum snjó og mig langaði ekki heim og steig út úr bílnum, lagið ennþá í bakgrunni og í gegnum blauta drífuna gat ég séð að himininn var dökkgrár því að handan við það svarta, blikaði á stjörnur.


Um meyjarhöft

Nú ert allt tilbúið fyrir máltíðina nema ég sem einhverja hluta vegna er að fara á taugum.  Það er ekki eins og ég sé í fyrsta skipti að fá stúlku í mat.  Ætti að vera fyrir löngu kominn yfir stefnumótaskjálfta.  Ég er eins og smápíka sem staulast heim undir morgunn og hefur glatað því sem bara einu sinni verður glatað.  Og er því full af eftirsjá.  Ég er fullur af eftirsjá.  En ég veit ekki hverju?  Kannski á maður ekki að vera að hlusta á lög sem heita The Death of love?  Kannski er ég fullur af eftirsjá af því að meyjarhaft bernsku minnar var rofið með ótímabærum dauða?  Og ég náði aldrei að segja neitt eða kveðja?  En geta 18 ára gamlar minningar haft áhrif á stefnumót?  Eða er það bara það að ég ber alltaf fólk saman við aðra og sá samanburður verður alltaf óhagstæður því að þeir sem hafa komið og farið, fegrast og miklast í minningunni?  Mig langar mest til þess að stinga af.  Láta mig hverfa.  Fela mig á bókasafni eða bar.  Ég hef einn og hálfan tíma til þess.  En ég veit að ég mun ekki gera það.  Heldur sýna karlmennsku (ef ég á hana til) og þrauka þetta kvöld.  Og svo nótt með minningum um hversu allt var fallegt og gott þegar ég var táningur og helstu áhyggjurnar voru það að ná blessuðu stúdentsprófinu.


Um vináttu og myndlist

Rétt áður en ég ætlaði að stinga af úr vinnunni hringdi móðir mín í mig.  Bara til þess að tilkynna mér að faðir minn hefði tekið þá ákvörðun að taka Serbneska vin minn upp á sína arma og sjá um útboð og útreikninga fyrir litla fyrirtækið hans (bara pólverjar sem vinna hjá honum) og annað s em hann gæti aðstoðað hann við.  Fyrir tíu árum hefðu foreldrar mínir ekki gengið yfir götu fyrir þennan mann ef hann hefði legið þar í blóði sínu deyjandi, svo mikinn beyg höfðu þau þá á honum.  Og fannst slæmt að við bræðurnir værum í slagtogi við mann sem vann ekki neitt og drakk alla daga vikunnar.  En sumt fólk breytist.  Og nær að rétta úr kútnum.  Og uppsker jafnvel virðingu samborgara sína í leið.  Það eru ekki mörg ár síðan við feðgar skrifuðum sitthvort bréfið fyrir Serbann sem fékk diplómu um að vera íslendingur í staðinn.   Og nú er hann víst orðinn nær daglegur gestur á heimili foreldra minna og fær kaffi og aðstoð og ræðir um myndlist við föður minn þegar þeir hafa lokið störfum sínum.  Sem minnir mig á það að einu sinni gaf ég pabba tvær númeraðar grafíkmyndir, frekar stórar, eftir þennan sama Serba.  Þær voru báðar með sama þema.  Tvær konur að híða hvor aðra í mismunandi stellingum.  Held að þær séu úti í bílskúr hjá pabba ásamt eflaust svona tvöhundruð myndum öðrum (flestar eftir hann og bróðir minn) sem enginn hefur pláss fyrir og enginn veit hvað á að gera við. 


Ég var grimmur

Sumt fólk þolir illa sannleikann.  Ég er engin undantekning.  Ég þoli oft ekki að heyra um galla mína og bresti nema þá frá allra nánustu.  Finnst eins og þeir sem þekkja mig lítið hafi ekki skotleyfi á fatlanir mínar.  Samt finnst mér alltaf sjálfsagt að ég segi fólki hvernig það er? 

Var óvenju pirraður í gærkvöldi og ekki hrifin af því að vinkona sem ég hef aldrei litið á sem vinkonu en hengdi sig einhvern veginn á mig, dró mig á barinn.  Hún fór að spyrja af hverju ég virkaði fúll.  Ég sagðist ekki nenna að hanga á bar mikið frekar vilja vera heima að lesa.  Þá spurði hún hvort að mér þætti hún leiðinleg.  Ég sagði að ég hefði stundum takmarkaða ánægju af samskiptum okkar.  Að mér þætti hún alltaf vera í einhverjum mömmuleik gagnvart mér og ekkert gera nema að passa upp á mig.  Og að þessum orðum sögðum var ég búinn að drepa vingjarnlega ,,að fá sér tvo drykki saman" stemninguna.  Mér var eiginlega slétt sama.  Stundum er ég eigingjarnt svín og sýni ekki aðgæslu í nærveru sála og allt það.

Nú er þessum vinnudegi næstum lokið.  Ætla að fara og versla í matinn fyrir matarboðið í kvöld (sem ég var kominn á fremsta hlunn með að fresta) og fara og fá mér eitt glas á einhverjum bar til þess að slá á mesta kvíðann.  Ég er ekki með sjálfum mér þessa dagana og nenni fáu nema að liggja undir sæng með bók eða tölvuna og dunda mér við iðju sem krefst ekki heilabrota.  Kannski veturinn sé ekki alveg farinn úr höfðinu á mér?


Kona á bekk

Þegar ég hljóp út í gær um tíuleitið gekk ég fram á konu sem sat á bekk í horninu við Iðuhúsið.  Þetta var eldri kona um sjötugt.  Tekin og klædd í síða kápu.  Hún hafði sveipað um sig teppi og við hlið hennar voru skjóður og pokar með drasli í.  Það var hvasst og kalt.  Þegar ég gekk þarna aftur hjá rúmum klukkutíma síðar sat hún þarna enn.  Nú veit ég ekkert um þessa konu eða sögu hennar en það leit allt útfyrir að hún ætlaði að láta fyrirberast þarna um nóttina.  Dapurlegt hvað örlögin geta skolað okkur upp á grýttar strendur.  Og ótrúlegt að hugsa til þess að það sé ekki pláss einhverstaðar fyrir svona gamalt hró nema á þessum bekk í kulda og smá slyddu. 


Um sjódauða (úr óbirtu handriti bernsku minnar)

Þetta var eitt af þessum kvöldum þar sem snjórinn kom fjúkandi utan frá hafinu og lagðist í litla skafla við aðalgötuna. Og það var búið að slökkva á götuljósunum og einu ljósin sem sáust í bænum voru ljósin í eldhúsgluggum þeirra sem aldrei fóru að sofa því að þá gætu þau misst af því sem gerðist á götum bæjarins. En þar gerðist aldrei neitt. Ég man að ég sat á skrifstofunni minni og var nýbúinn að spenna tvær músagildrur og sat fyrir aftan tölvuskjáinn og horfði á pósthúsið. Vissi að rútan var tveimur klukkutímum of sein og hefði jafnvel verið snúið við vegna veðurs og þá kæmi hún ekki þessa helgi. Og vindinn var að herða og það brakaði í tréhúsinu og ef ég leit útundan mér inn rökkvaðan ganginn gat ég séð svipi drukknaðra sjómanna ráfa þar um í fornlegum skinnstökkum með sjóvettlingana dinglandi í böndum og tóftirnar gapandi í fölum andlitunum. En þeir hræddu mig ekki lengur.

Þeir höfðu verið mér félagsskapur mörg síðkvöldin þennan vetur þegar ég beið þess að eitthvað mundi gerast, beið þess að tími væri kominn til þess að halda út í mannlaust þorpið og ganga þessa fáu metra heim. Framhjá láreistum og skökkum timburhúsum, framhjá rækjuvinnslunni, framhjá klaustrinu á hæðinni sem í nóttinni hafði útlínur miðaldarkastala þegar flest ljósin höfðu verið slökkt.

Og þegar maður gekk aðalgötuna á leiðinni heim í nóttinni gat maður greint frá eyjunum hljóð sem einna helst líktust veini í drukknuðum skipshöfnum sem grétu af kvölum í hinu kalda og dökka víti sem vot gröfin hlýtur að vera með allar sínar svöngu rækjur og orma sem boruðu sig í gegnum húðina. Og það setti stundum að mér ugg og ég hræddist sjódauða þessar nætur þegar vindur og ýlfur barst af hafi.

... Djúpir, hvíslandi hafstraumar tíndu hold af beinum. Hann reis og hneig og endurlifði æsku og fullorðins ár á leið inn í svelginn...

Og ég sat heima í skini kerta og las ljóð og hugsaði um það hvað í andskotanum ég væri að gera í þessum bæ, þessu þorpi svo langt frá öllum ljósum og umferð þúsunda bíla.  Í þessu þorpi þar sem ég hafði ekki hugmynd um það hvort að ég byggi þar eða væri bara á leiðinni hjá?

Loks var hún kominn, snoðuð undir lopahúfunni í þykkri úlpu með tösku og beið þess að ég skytist yfir götuna. Tæki af henni töskuna og hvíslaði: hröðum okkur, ég kyssi þig á eftir. Og við gengum þessar dauðamerktu götur að húsinu sem ég bjó í. Og þegar við höfðum barið af okkur snjóinn og afklæðst yfirhöfnunum settumst við hlið við hlið í sófann og tónlistin sveif lágt yfir höfðum okkar og ég kveikti á kertum á meðan hún opnaði vín og í nokkurra metra fjarlægð brotnaði brimið og svarf kletta. Nálgaðist stofugluggann með hverjum deginum og er við höfðum sest niður, sátum við þegjandi og horfðum á veturinn og hafið. Og hún spurði: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði engu, tók sopa af víninu, starandi út í sortann og velti því fyrir mér hvort að mér þætti í alvöru vænt um þessa stúlku og heyrði varla þegar hún spyrði aftur: hvað ertu að hugsa? Og ég svaraði loksins: sjódauða.

Og mundi að margar daga, margar nætur hafði ég hírst á skrifstofunni í félagskap þeirra dauðu.  Og gengið með þeim götuna sem lá heim eftir að slökkt hafði verið á ljósstaurunum.  Og horft á opnar grafir þeirra í kirkjugarðinum og efast um geðheilsu mína yfir því að þetta væri raunveruleiki um leið og maður yfirgæfi neonlýsta Höfuðborgina.  Því þá væri maður umkringdur öllum þeim sem eitt sinn höfðu verið og mundu alltaf vera. Og líka öllum hinum sem eru og lifa lífinu á stöðum sem fólk eins og ég mun aldrei skilja.  Þar sem fólk hugsar bara um eitt: að lifa og að deyja.

Og vindinn herti og sjórinn frussaðist á gluggann og húsið lék á reiðiskjálfi og logar kertanna flöktu á hvítum veggjunum, á bókahillunum og ég stóð á fætur og gekk að bókaskáp og valdi mér bók og hún hjúfraði sig í sófanum og breiddi teppi yfir fæturna og sagði: þú segir nú aldrei margt.

Ég snéri mér við, brosandi og svaraði henni: Það á ekki við að tala hérna, ekki í þessu þorpi, þar sem þeir dauðu eru á ferð en íbúarnir sofa.

Og hún hryllti sig og tók sopa og andvarpaði: ég skil ekki hversvegna ég kem hingað!

 


Ég gerist erótískur höfundur

Í kommentakerfi úti í bæ er verið að mana mig til þess að hefja feril sem erótískur bloggari eftir að eina þannig blogginu (sem ég las mér til skemmtunar) var lokað og læst af yfirvöldum í gær.  Ég veit ekki alveg hvort að ég eigi að gangast við áskorunni?  Ég á nógu erfitt með að taka mér í munn dónaleg orð eins og typpi, píka og endaþarmur, svo að það bætist nú ekki ofan á ofurviðkvæma blygðun mína, það hlustskipti, að fara að halda úti síðu sem inniheldur jafnvel myndrænar lýsingar sem innihalda eitthvað af þessum orðum!  Ég held að mér sé erótík einfaldlega ekki í blóðborin auk þess sem ég ætti erfitt með að lýsa nöktum líkömum oft án þess að endurtaka mig og hjakka í sama farinu (gatinu?  Sko er farinn að hugsa dónalega!) aftur og aftur.  Man líka eftir bók sem kom út einhvern tíman í kringum svona 1995 og innihélt erótískar smásögur eftir íslenska rithöfunda.  Það var vond bók og minnir mig á það að það er ekki oft sem maður rekst á samfaralýsingar í innlendum bókum.  Kannski að skammdeigið og kuldinn hérna komi í veg fyrir að íslendingar geti skrifað um samlíf elskenda án þess að það verði annað hvort neyðarlegt eða mjög gróteskt?  Þess vegna ætla ég að gefa þetta frá mér.  Það að ég hafi velt hugmyndinni fyrir mér og bloggað um hana, er nóg til þess að gera mig að tótalbjána!


Árið sem ég var i stöðugri hættu!

Ég kenndi einu sinni, meðal annars, 9 ára börnum heimspeki.  Og það er fyrst núna sem ég sé að ég kann að hafa verið í bráðri hættu á meðan ég var við þá iðju mína?   Ég gat orðið svo ákafur í fræða börn um það hvað hugsun okkar er stórkostleg og hvað maðurinn hefur getað þvælt sér á milli ólíkra kenninga að ég átti það til að gleyma að hleypa þeim út í frímínútur á réttum tíma.  Og níu ára börn taka því alvarlega.  ég get alveg ímyndað mér þau bakvið skúr á skólavellinum plotta um það að ráðast á mig þegar ég héldi heim á leið og kaffæra mér í snjónum eða eitthvað?  Og jafnvel hugsanlega ræna mér.  Enda er kennsla vanþakklátt og frekar leiðinlegt starf.  OG þótt að mér hafi þótt gaman að kenna unglingum þá hætti ég þessu eftir einn vetur.  Jú, eitthvað hafði það með launin að gera og þá vitneskju að þau mundu seint hækka og ég aldrei verða fyrirvinna á mínu heimili.  Eða jafnvel matvinnungur ef út í það er farið.


mbl.is Ætluðu að ræna kennaranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja ekki fólk

Á leiðinni heim keypti ég mér metnaðarlausan hamborgar á þeim trendy stað Nonnabitum.  Á meðan ég sat þar og lét sósuna renna ofan í DV skottaðist ung stúlka inn og brosti til mín og sagði hæ.  Ég slefaði sósu og sagði hæ.  Og hugsaði: hver í andskotanum er þetta?  Ertu að koma úr vinnunni spurði hún og áður en ég gat svarað bætti hún við: þú ert þreytulegur!  Ég umlaði eitthvað og gerði kúlu úr bréfinu utan um hamborgarann og hún fór að segja mér að hún væri komin til þess að borga skuld, hafði ekki átt innistæðu á kortinu síðast þegar hún hafði verið þunn.  En gat ég ekki komið þessari stúlku fyrir mig og átti erfitt með að stynja upp: hvert í andskotanum ert þú?  Hún borgaði og við urðum samferða út.  Héldum áfram smá innihaldsrýru spjalli áður en hún kvaddi með þeim orðum að hún vonaðist til þess að sjá mig sem fyrst aftur.  Og ég horfði á eftir henni og klóraði mér í þreyttum hausnum og hafði enn ekki hugmynd um hvernig ég ætti að þekkja hana?  Hallaðist þó að því að ég hlyti að kannast við hana í gegnum systur mína að einhverjar aðrar stúlkur?  Það er virkilega óþægilegt þegar svona hendir mig. 


Hata að vera fullorðinn

Átti einn af þessum dögum sem fær mig til þess að þola það ekki að vera fullorðinn.  Það var allt fullorðins eftir hádegi.  Og dramað eftir því...

Ljósi punkturinn var sá að ein mín elsta og besta vinkona leit til mín í kaffi í hádeginu.  Ég var með heimildir handa henni í b.a-ritgerðina hennar í sálfræði, merkilegt nokk að eitthvað nothæft leynist hjá mér, og svo vildi hún yfirheyra mig um kvennamál.  það hefur löngum verið hennar helsta skemmtun í lífinu að fylgjast með þeirri sápu.  Reyndar gaf hún mér skynsöm ráð sem ég er að hugsa um að fylgja, ef ég mun ekki gleyma þeim í þeirri ótrúlegu gleði sem fylgir því að vera allt í einu kominn heim í frið og ró.

Samt er ég aðeins hugsi yfir þessum degi?  Hvers vegna leiðist mér svona mikið að vera fullorðinn og axla ábyrgð?  Þetta býður flestra?  Þegar ég var mikið yngri dreymdi mig um mikla ábyrgði, bæði í einkalífi og á vinnumarkaðinum.  Og svo þegar allt þannig var í höfn, þá leiðist mér það svo mikið og það getur dregið mig svo niður að tilsýndar líkist ég mest Órangútu sem er að skoppa á eftir rotnuðum ávöxtum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband