Færsluflokkur: Bloggar

Drög að matarboði

Meðan ég horfði á man.utd vinna roma 2-0 á útivelli sem gladdi mig og grunnskólakennarann vin minn, fékk ég sms:  ég skal koma í mat ef þú rakar af þér þetta bjánalega yfirvaraskegg!

Ég hringdi og svaraði að það væri góður díll.  Enda fékk skeggið að fjúka í morgunn þegar ég leit mig í spegli og varð hugsað til 56 ára gamals yfirvarðstjóra í lögreglunni sem ég var með í námi í gamladaga.  Mig langar ekki að líta út eins og miðaldra boðberi firðar og réttlætis.  Því að ég er í eðli mínu boðberi sundrungar og upplausnar.

Varaði reyndar stúlkuna við því að það væri umsátursástand í húsinu.  Hún bauðst til að bjóða mér í heimsókn ef ég mundi elda og koma með hráefnið.  Ég sagði að við ættum að láta á mína íbúð reyna.  En sammæltumst um að færa boðið fram á fimmtudag.  Hún sagðist vilja heyra partýlætin úr iðrum jarðar á meðan hún borðaði.   

Svo ég þarf að kaupa mikið af víni á fimmtudaginn og velja það með tilliti til þess sem ég ætla að elda.  Ég hallast að því að ég velji fisk og mikið af grænmeti.  Og svo getum við setið við gamla borðstofu borðið hans launga látna afa og burtsofnuðu ömmu og fundið gólfið titra undir fótum okkar á meðan við reynum að öskra í eyrað á hvort öðru eitthvað sem gæti verið brot af samræðum...   


Og mér var hótað

Kærasta annars pólverjans bankaði hérna uppá áðan (þessi með viðbjóðslegu röddina) og spurði hvort að ég hefði kvartað undan þeim?  Ég sagði svo vera.  Hún (leit út eins og ódýrasta gerð af götumellu saman ber þær sem ég sá í austur-Berlín á sínum tíma) spurði hvað það kæmi mér við hvað þau aðhefðust?  Ég skildi bara halda mér saman annars hefði ég verra af!  Ég spurði hana hvað hún ætti við?  Hún sagði að ég vissi það alveg!  Hún var í magabol, það voru slitför á maganum og tattú sem teygði sig (sennilega) frá nára og upp yfir buxnastrenginn og hringaðist í kringum naflan (ekki misskilja mig, hef ekkert á móti húðflúrum) og virtist vera af kínverskum dreka eða þúsundfætlu.  Alla veganna var það illa gert og myndi því óljós.  Ég þakkaði henni fyrir viðvörunina.  Og trumbuslátturinn úr iðrum jarðar, alla leiðina frá helvíti fordæmdra sála hófst.

Ég er farinn út að horfa á fótbolta.  Ég ætla að láta sem þetta lið sé ekki til.  Fyrr eða síðar verður einhver stunginn með hníf.  Ég veit það.  Hef það úr leikritum, alltaf þegar ógæfufólk djammar lengi þá verður einhver meiddur.  Svo er líka stundum eitthvað skrifað um það í blöðunum.  En það var gaman að  sjá hverskonar glamurgellur það eru sem nenna að láta dvergvaxna og snoðaða pólverja leggja sig flata.  Það væri velvilji af minni hálfu ef ég sagði að hún hefði bara verið sjoppuleg.  Ef ég væri kona og liti svona út og eflaust ekki mikið eldri en 25 (með svona dautt aflitað hár sem líktist helst flæktri einangrunar ull) þá mundi ég finna mér tré með sterkum greinum og reipisbút.  


Lúðrar Opinberunarbókarinnar

Var nýkominn heim eftir að hafa dáðst af öllum nýstrípuðu hnökkunum í þröngu stuttermabolunum á Laugaveginum á leið heim, (merkilegt að þeim skuli ekki vera kalt þótt að það sé vorsól á lofti) þegar lúðrahljómur hófst svo húsið nötraði!  Svo hávær og stöðugur var þessi hljómur að mér var strax hugsað til englanna í Opinberunarbókinni og spurði mig því: ertu reiðubúin til þess að mæta skapara þínum?  Og komst að þeirri niðurstöðu að ég með minn langa syndalista yrði aldrei tilbúinn til þess að mæta fyrir dóma á hinum efsta degi og því væri dagurinn í dag ekkert verri en hver annar.  Og ég beið en lúðrahljómurinn færðist bara í aukana og óx svo mikið að bækur dönsuðu í þéttsetnum hillum.  Ekkert gerðist.  Himin og jörð fórust ekki þótt að enn megi heyra horn þeytt eins og heimsendi sé í nánd.  Svo mundi ég að þetta var forleikurinn að þeim mótmælum sem ég hafði ætlað að kíkja á.  Ég held að ég geri það ekki.  Til þess minna þessi ósköp mig of mikið á það að ég er bara dauðlegur maður.  Sandkorn á strönd.  Og fæ engu breitt um stóratburði allt í kringum mig!


Færsla full af klámi

Það hefur enginn látið mig hlaupa apríl í dag.  Sem er leitt því að ég hef endalaust gaman af því þegar ég er hafður að háði og spotti.  Vona að þessi skemmtilegi siður sé ekki að leggjast af manna á milli og verða bara eitthvað aumt grín í fjölmiðlum?

Annars ætla ég að horfa á mótmælin á Austurvelli á eftir.  Passar vel í vinnulokin að sjá reiðan múg standa með steytta hnefa fyrir framan Alþingishúsið.  Ég á ekki vona að ég endist lengi.  Er svo áhugalaus um samtíð mína að það hálfa væri nóg.

Í kvöld er ég að hugsa um að líta á leik í meistaradeildinni með félaga mínum, man.utd-Roma.  Alltaf góð ástæða að hittast undir þeim formerkjum að við megum ekki missa af einhverju tuðrusparki.  En það á samt alveg eftir að vera staðfest.  Eitthvað væl í þessum kennara að mega ekki fara seint að sofa vegna vinnu.  Hver var að tala um að fara seint að sofa, leikurinn er búinn hálf tíu.  Vonandi finnst honum það ekki vera seint?  Það er vont ef félagar mínir eru orðnir meiri gamalmenni en ég.

Brátt fer ég að slútta þessu hérna og kalla vel og mikið unnið í dag.  Þótt að ég sé sjaldnast dómbær á eigin verk.   Fyrr en svo löngu síðan.  Ætli það eigi ekki við um fleiri?

Mér finnst yfirskriftin á þessari færslu mjög viðeigandi.  Hún var ekki um neitt.  Bara stöfum raðað saman svo þau mynda orð sem svo mynduðu innihaldsrýrar setningar.  Kannski örlitlar upplýsingar um það hvað þetta er hversdagslegur dagur og ég andlaus.  Og óþolandi lítið klámfenginn. 


Aprílgabb mbl.is

Aprílgabbið er frekar slappt og auðsjáanlegt því að ekki er hægt að blogga um fréttina þótt að saklaus sé.  Hefði haldið að útsmognari húmoristar væru við störf á þessum miðli?  En þegar maður hugsar um liðin aprílgöbb fjölmiðlana þá hafa þau oftar en ekki verið stórundarleg.  Hver man ekki eftir Ómari Ragnarsyni að segja frárússneskum kafbáti sem var svo sýndur, gerður af miklum vanefnum úr pappa.  Það gabb var eiginlega bara fyndið vegna þess hversu vandræðalegt það var.  Svona eins og lélegur Spaugstofuskets.

 


1. apríl

Það er kominn 1. apríl.  Sú var tíðin að ég lét eldri konur eins og ömmu mína og móðir hlaupa apríl á þessum degi.  Gerði það einu sinni að heimsækja ömmu mína og tilkynna henni það grafalvarlegur að ég væri kominn úr skápnum og farinn að búa með 30 árum eldri manni.  Man að amma missti bolla í gólfið og hann brotnaði.  Ég hef endalaust logið að konum á þessum ágæta degi en nú er nóg komið.  Ég ætla mér að vera alvarlegur og prúður í dag.  Ekki atast í einum né neinum.  Leyfa deginum að líða án hrekkja.  Ég hlít að vera að þroskast eða - þessar konur hafa þurft að þola það mikið af minni hálfu í gegnum tíðina að það er best að hætta ekki á að eitthvað merkilegra en bolli brotni.  Til dæmis hjarta.


Taugaveiklun

Það var svo mikil þögn hérna að ég forðaðist að kveikja á útvarpinu þegar ég kom heim.  Hvað þá að voga mér að spila tónlist.  En eftir tvo tíma var þögnin orðin svo þrúgandi að ég laumaðist til þess að kveikja á RÚV. Passaði mig að hafa tækið mjög lágt stillt.  Datt allt í einu í hug að svona væri það að vera draugur.  Þögn, enginn á ferli nema maður sjálfur í tómri íbúð.  Fannst þetta með það að ég væri draugur eitthvað svo rétt því að ég hafði enga matarlist.  Langaði ekki í neitt úr ísskápnum eða öðrum skápum.  Og alls ekki í skyndimat.  Fékk mér ískalt vatn og hrökkbrauð frekar en ekki neitt.  Leið eins og ég væri í ströngum megrunarkúr.  Fletti upp á sjónvarpsdagsskránni í blaðinu.  Ég horfi aldrei á sjónvarp.  Stundum dvd en sjónvar... Ofboðslega sjaldan.  En ég fylgist með því hvað er í boði svona til að vita hvað aðrir eru að bardúsa á kvöldin.  Hlustaði á Spegilinn án þess að heyra hvað ver sagt.  Var alltaf að bíða eftir því að trumburnar hæfust á ný.  Svona eins og boðberi þess að frumstæður ættbálkur væri farinn að undirbúa fórnarhátíð og ætti bara eftir að finna fórnina - sem væri ég!  Ég held að ég ætti að draga úr neyslu á kaffi og áfengi.  Ég held að það geri mig taugaveiklaðan.   


Mjög jákvæð frétt

Ég get ekki séð neitt að því þótt að farsímar auki líkur á krabbameini, nema verst hvað maður á mörg innihaldsrýr samtöl.  Vont að deyja vegna blaðurs um ekki neitt.  Það væru betra ef maður ætti alltaf mjög gáfulegar og eftirminnilegar samræður í þessi tól.  En Þeir sem vita hvernig fólksfjöldaspár eru í Evrópu og víðar í hinum vestræna heimi, ættu að gleðjast yfir þessari frétt.  Farsímakrabbi mun sjá til þess að við þurfum ekki að kúldrast eins og síld í tunnu á yfirfullum elliheimilum þar sem tuttugu skjólstæðingar verða á hvern starfskraft, þar sem öldungar verða orðnir fleiri en þeir sem eru úti á vinnumarkaðinum.  Maður hefur heyrt sögur um það að vegna manneklu sé bara hægt að hjálpa vistmönnum á sumum elliheimilum í bað einu sinni í vikur, eftir 40 ár verður þetta bað, rétt fyrir jól eða á afmælisdag viðkomandi.  En reykingar og farsímar geta náttúrulega stemmt stigu við þessari óheilvænlegu þróun og þegar þeir sem sjaldan tala í gemsa og hafa ekki reykt og bara borðað sellerí og gulrætur og speltbrauð og spriklað reglulega í leikfimi, komast á elliheimili, munu gangarnir þar bergmála fólki rúnir og hver og einn vistmaður fær fjögur herbergi til umráða. 


mbl.is Farsímar hættulegri en reykingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleginn með skítugri borðtusku

Kannski var það vegna mikil svefnleysis og ég þess vegna dottinn út takti við sjálfan mig að ég hringdi í stúlku í gær og spurði hvort hún vildi koma í mat til mín á miðvikudaginn.  Nei, svaraði hún, það vil ég ekki gera.  Nú, spurði ég, átti ekki vona á þessu svari.  Þú ert svo mikið fífl, svaraði hún, og erfitt að átta sig á því hvað þú ert að hugsa.  Ég þagði.  Vissi ekki hvað ég ætti að segja.  Ekki nema þrír dagar síðan hún hafði boðið sér sjálf í heimsókn hingað.  Og nú þegar henni var boðið vildi hún ekki koma.  Ég hélt áfram að þegja.  Gjörsamlega sleginn út af laginu og líka svo svefnvana að ég átti erfitt með að grafa upp viðeigandi orð.  Jæja, sagði ég og ætlaði að fara að kveðja.  Ertu sár spurði hún?  Nei, sagði ég og reyndi að bera mig mannalega, hissa, bætti ég við.  Ég hef nú oft orðið hissa í samskiptum við þig, svaraði hún, en ég ætla að melta það hvort ég vilji borða með þér, læt þig vita á morgunn.  Svo kvöddumst við.

Og ég stóð mig að því að vera fullur af höfnunartilfinningu vegna þessarar stúlku.  Stúlku sem ég hafði þó nokkuð oft reynt að koma mér undan að hitta þegar hún vildi það.  Ég held að ég hafði átt þetta skilið, svona eins og ef maður er dónalegur á veitingarhúsi og afgreiðslustúlkan mundi slá mann utan undir með blautri og skítugri borðtusku!

 


Ártúnsbrekku orrustan 2008

Er svo illa innrættur að þessi frétt kætir mig.  Reiður vöruflutningabílstjórar grípa til hnefaréttsinns þegar lögreglan reynir að koma skikk á aðstæður.  Næstum eins og frétt frá útlöndum.  Og í jafn tíðindalitlu þjóðfélagi og Íslandi kemst þessi atburður í annála sem Ártúnsbrekku orrustan.  Önnur eins tíðindi hafa ekki verið í hérlendri verkalýðsbaráttu síðan Gúttóslagurinn var 1932.  Heilt kjaftshögg og maður handtekinn.  Næst munu bílstjórar koma fram og tala um ofsóknir á hendur sér.  Tíbetbúar munu mótmæla og sýna okkur samhug.  Búddamunkur mun kveikja í sér með rándýru Íslensku bensíni.  Þá fyrst mun heimsbyggðin öll mæna hingað á ofbeldi hafta og tolla sem eru að gera heila þjóð að ofbeldismönnum.  En ég á ekki vona að þessar aðgerðir skili nokkru.  Ekki hérna.  Það eina sem þær koma til leiða er að gera fullt af morgunpirruðum bílstjórum enn reiðari og að sjá nokkrum bloggurum fyrir efni til þess að þrasa um.  Fínt þegar maður hefur sofið yfir sig og er andlaus. 


mbl.is Handalögmál í Ártúnsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband